miðvikudagur, mars 16, 2011

day 30 - your favorite song at this time last year

What's He Building?

What's he building in there?
What the hell is he building In there?

He has subscriptions to those magazines
He never waves when he goes by
He's hiding something from the rest of us
He's all to himself I think I know why

He took down the tire swing from the peppertree
He has no children of his own you see

He has no dog
And he has no friends
And his lawn is dying
And what about all those packages he sends?

What's he building in there?
With that hook light on the stairs.
What's he building in there?

I'll tell you one thing
He's not building a playhouse for the children

What's he building in there?

Now what's that sound from under the door?
he's pounding nails into a hardwood floor
And I swear to god I heard someone moaning low
And I keep seeing the blue light of a T.V. show

He has a router and a table saw
and you won't believe what Mr. Sticha saw
There's poison underneath the sink of course
There's also enough formaldehyde to choke a horse

What's he building in there?
What the hell is he building in there?

I heard he Has an ex-wife in some place called Mayor's Income, Tennessee
And he used to have a consulting business in Indonesia

But what's he building in there?
What the hell is building in there?

He has no friends but he gets a lot of mail
I'll bet he spent a little time in jail
I heard he was up on the roof last night
Signaling with a flashlight

And what's that tune he's always whistling?

What's he building in there?
What's he building in there?

We have a right to know...

Tom Waits

Á þetta þarf að hlusta til að njóta til fulls.

Búin að því? Ókei, höldum áfram.

Er þetta skopkvæði um smáborgaralega paranoju gagnvart óvenjulegum einförum? Eða X-fælin hrollvekja um aðsteðjandi ógn? Veit það ekki, bæði sennilega. Fer svolítið eftir því hvað gaurinn er að smíða.

Það var fyrir rúmu ári sem ég fór að hlusta af einhverju viti á Mule Variations sem komst fljótlega til talsverðra metorða í Tom Waits hluta tónlistarsmekks míns. Ekki síst fyrir þetta rosalega lag/ljóð.

Gaman að enda á þessu, kallinn tekinn inn í Rock And Roll Hall Of Fame í gær og svona. Og já, við höfum rétt á að vita. Við höfum rétt á að vita það sem skáldin kjósa að segja, hvorki meira né minna.

Skáldin geta verið skýr eða óskýr, berorð eða dul, einlæg eða hæðin. Hvað þau eru að smíða á síðkvöldum í afluktum kytrum sínum fáum við aldrei að vita, okkur varðar ekkert um hvort það sé formalínlykt heima hjá þeim, kemur ekki við hversu margar rólur hanga í trjánum við húsið. Við eigum ekkert með að hnýsast í póstinn þeirra. Og þó það væri gaman að þekkja lagið sem þau eru að blístra við vinnu sína, þá er það einungis það sem þau að lokum sýna okkur sem við höfum rétt á að heyra og sjá.

Síðan er það okkar að skapa rest.

Ljóðrannsóknastofa Varríusar hefur lokið skýrslu sinni.

þriðjudagur, mars 15, 2011

day 29 - a song from your childhood

Súptu maður súpuna
súpan hressir lúinn
Að þú súpir súpuna
súpan er til þess búin.

Gamli Anonymus

Móðir mín fór stundum með þetta og þessi lítilfjörlega vísa er það best ég man sú fyrsta sem ég lærði, allavega það elsta sem ég hef ekki séð ástæðu til að gleyma. Það er gaman að læra ferskeytlur og enn meira gaman hvað margir geta búið þær til. Reyndar er stundum pirrandi þegar fólk heldur að það geti sett svoleiðis saman og gerir sér enga grein fyrir reglunum. Það er hinsvegar ekkert nýtt vandamál sem hægt er að kenna kanasjónvarpinu eða evrópusambandinu um. Nógu mikið er til af gömlum vondum kveðskap sem vitnar um fornar rætur bragheyrnarleysisins. En vísan um súpuna er næstum fullkomin. Ef sama rímorðið væri ekki notað í 1. og 3. vísuorði væri hún það. En auðvitað væri hún þá sem því næmi verri. Það er vandlifað í vísnaheimi.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

mánudagur, mars 14, 2011

day 28 - a song that makes you feel guilty

Legg þú á djúpið

Legg þú á djúpið eftir Drottins orði

og æðrast ei, því nægja mun þinn forði,

þótt ómaksför þú farir marga stund.

Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur,

er Drottinn lífs þíns ennþá nógu ríkur

og mild hans mund.

Legg þú á djúpið, þegar Kristur kallar,

og kveð án tafar holdsins girndir allar,

og feta beint í fótspor lausnarans,

og lát ei kross né kvalir ykkur skilja,

en keppstu við að stunda Guðs þíns vilja

með hlýðni hans.

Legg þú á djúpið, þú, sem enn ert ungur,

og æðrast ei, þótt straumur lífs sé þungur,

en set þér snemma háleitt mark og mið,

haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafn
i
og stýrðu síðan beint í Jesú nafni

á himins hlið.

Matthías Jochumsson

Og nei, það er ekki kristileg sektarkennd sem setur þennan sálm hér, heldur siðferðileg (þetta er nefnilega ekki það sama eins og sumir halda, og ekki heldur andstæður eins og aðrir halda fram.) Mig langaði bara að biðjast afsökunar á því að hafa haft rangt við í þeim hluta fermingarfræðslunnar hjá þeim góða klerki Sr. Birni sem fólst í að læra sálma, og hafa haft texann við höndina falinn í skólatösku uppi á borði svo ég þyrfti ekki að leggja á mig það lítilræði að læra kvæði á borð við þetta. Mér til afbötunar: Þetta er nú ekki með því betra sem sr. Matthías gerði, ha?






Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

sunnudagur, mars 13, 2011

day 27 - a song that you wish you could play

Haust/vorvísur

Kindur jarma, bóndans ból
búning tekur nýjan.
Vindur næðir, sjaldan sól
Sendir geisla hlýjan.

Sævar Sigurgeirsson

Sléttubönd eru einhver snúnasta og skemmtilegasta bragþraut sem við eigum. Ferskeytla sem lýtur öllum venjulegum lögmálum svoleiðis kveðskapar og að auki þarf hún að ganga upp í hvorri röðinni sem orðin eru lesin. Og þá fyrst eru sléttubönd góð þegar merkingin snýst við um leið og orðaröðin. Þessi gera það, og eru þar að auki ekkert knosuð eins og svona afreksíþróttakveðskapur verður oft. Það er vegna þess að Sævar er einn besti núlifandi hagyrðingur Íslendinga, og er búinn að vera það síðan í menntaskóla, þegar hann setti þetta saman að gamni sínu, sennilega þegar hann átti að vera að læra efnafræði. Ég var bísna slunginn í efnafræði, en treysti mér ekki í sléttubönd. Sævar segir sjálfur að boðskapurinn sé sá að kindur jarmi allt árið. Vel gert!




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

laugardagur, mars 12, 2011

day 26 - a song that you can play on an instrument

Komdu, feigð

Komdu, feigð, komdu feigð svöl
og fel mig þar sem síprus grær.
Svíf á braut, svíf á braut, kvöl
mig sveik í tryggð ein yngismær.
Á hjúpinn ljósa leggið þó
lyngið rauða
sú ást var djúp sem dapran bjó
mér dauða.

Engin rós, engin rós fær
að ilma við mitt svarta skrín.
Engin hönd, engin hönd kær
af ástúð signi beinin mín.
Mitt græna leiði á gleymdum stað
gróa látið.
Svo enginn geti gist við það
og grátið.

William Shakespeare/Helgi Hálfdanarson


Ég hef sett mér langtímamarkmið: Ég ætla að semja lög við öll söngljóð í verkum Shakespeares. Ég er búinn með nokkur og lagið sem ég samdi við þetta fallega ljóð úr Þrettándakvöldi er skásta lag sem ég hef samið. Kalt mat. Ég hef aldrei skrifað það niður, og mögulega hefur það breyst eitthvað smá gegnum árin, en það kemur alltaf í puttana þegar á reynir. Þá er það allavega ekki vont. Og Shakespeare er mesta skáld ever. Kalt mat.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

föstudagur, mars 11, 2011

day 25 - a song that makes you laugh

Ljóðið sem hljóp

Skáldið efaðist um stöðu ljóðsins og fór á fund og þá var ljóðið á fundi og mörg ljóð saman og ljóðið var í setningum og spurningum og ljóðið reis upp frá dauðum án þess að hafa dáið eða á þetta að vera brandari huxaði ljóðið og var á hraðbergi í bjargsigi og skáldið tíndi egg úr bjarginu og inní eggjunum voru orð og skáldið saup hveljur úr eggjunum og ljóðið fór á sópi um skýin og fór á fundinn og ljóðið hafði tyllt sér niður til að hlæja í setningu að spurningu og svo var fundarhlé og ljóðin sveifluðu sér í ljósakrónunum og voru allsgáð og létu sig detta ofan í rauðvínsglösin og urðu að röfli um sig og ljóðið sötraði gegnum bleikt nástrá vínið og lét sig fljóta á klaka í hafinu og þið eruð öll vinstrisinnaðir hommar þusaði ljóðið spakt og mikið með sig og orðið fraus og menn þóttust ekkert hafa heyrt og ljóðið skrapp skælbrosandi í felur og ég er hafið yfir dægurþras sagði ljóðið og fór á bömmer ofan í stráinu sem varð eins og ljóð í laginu eða er ég kannski alþjóðlegur tjáningarmiðill heyrðist úr stráinu eða er ég skáldsaga eða pönktíska eða fugl sem flaug eða vídeógjörningur eða er ég málverk eða innrímuð hringhenda eða mótorhjól eða fundur eða sonnetta eða langt eða stutt eða áróður eða innblásinn andi er ég kvikmynd er ég kannski prósi er ég kannski rímaður prósi hvæsti ljóðið og öslaði á sjálflýsandi svörtum gúmmístígvélum gegnum skáldlega rigningu og komst í þunga þanka og skvetti ljóðslega úr drullupollunum og ljóðið vissi að það var engin spurning það varð að vera spurning eða á ég að finnast í skilgreiningu svo skáldin geti fundið sig þessir vesalingar og rigningin varð skáldlegri við enda götunnar og ljóðið sá eftir mjóum ketti sem hvarf inn í húsagarð og ég
er engin spurning hvíslaði ljóðið
og skimaði upp tírætt bjargið
ég er ljóðið er ljóð og tiplaði nakið inn í lokaorðin á fundinum á ballettskóm og ljóðið gekk berfætt af fundinum og bað ballettskóna að fylgja sér
eftir sátu skáldin
en ljóðið fór flissandi burt
hvítir ballettskór sáust hvatvísir klífa bjargið
við verðum að halda annan fund sögðu skáldin ljóðrænulaus
og athuga þetta með stöðu ljóðsins bættu bókmenntafræðingarnir hjálpfúsir við (en) ljóðið fór á ljóshraða nakið á gulum skóm með kafaragleraugu og gregoríanska tónlist í vasadiskóinu sínu og fallhlíf í hinum vasanum,
fór þangað sem því sýndist að gera það sem því sýndist
… það ætti að banna mig það ætti að banna mig söng ljóðið hástöfum.

Elísabet Jökulsdóttir

Eitt sem ég tók ástfóstri við úr Ljóðmúrnum. Vinsælt að lesa þetta upphátt á síðkvöldum yfir munkatei á herberginu mínu á Heimavist MA (og stundum reyndar viskíi, en ekki segja Meistara). Mér finnst þetta ennþá fyndið og satt. Þess má geta að lagið sem ég heyri ljóðið syngja lokalínurnar við, "… það ætti að banna mig, það ætti að banna mig …" er sama lag og var notað í óperunni "Örlagahárinu" eftir Flosa Ólafsson við línurnar "… það er að kvikna í, það er að kvikna í …".




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

fimmtudagur, mars 10, 2011

day 24 - a song that you want to play at your funeral

Morgunljóð

Ég er úr
ljósi og lofti

yfir mér
svífandi sjófugl

undir mér
lína úr ljóði

Hafið er skínandi bjart

Linda Vilhjálmsdóttir


Mér finnst þetta falleg mynd af því hvernig maður rennur saman við heiminn - tilvalið til að syngja yfir moldum trúleysingja. Náttúran yfir, listin undir og þú sjálfur áleggið í hina eilífu samloku. Ég held að þetta sé fyrsta óbundna ljóðið (eða órímaða, því það er náttúrulega bít í gangi hérna) sem ég lærði utanað. Ef ekki hefur verið samið við það (gott) lag - og önnur úr kverinu góða, Valsar úr síðustu siglingu, þá er það brýnt verkefni. Ég verð ekkert eilífur, sko.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

miðvikudagur, mars 09, 2011

day 23 - a song that you want to play at your wedding

Þögul nóttin

Þögul nóttin þreytir aldrei þá sem unnast,
þá er á svo margt að minnast,
mest er sælan þó að finnast.

Eilíf sæla er mér hver þinn andardráttur
og ýmist þungur, ýmist léttur
ástarkoss á varir réttur.

Hvítum, mjúkum, heitum, fögrum handleggjunum
vil ég heldur vafin þínum 
vera en hjá guði mínum.

Guð að sök mér gefur ei sem góðum manni
unan þó ég fremsta finni 
í faðminum á dóttir sinni.

Páll Ólafsson


Hér krefst ástarskáldið mikla þess auðvitað að fá orðið og nær að fljóta áreynslulaust frá hinu holdlega til hins guðlega í stuttu kvæði, sennilega vegna þess að fyrir honum var þetta eitt og hið sama. Við þetta er engu að bæta, nema bara að minna á að í öllum góðum geisladiskahillum er að finna Söng Riddarans, alúðarverk Ragnhildar Ólafsdóttur og Þórarins Hjartarsonar, þar sem þau syngja bæði alþekkt lög við ljóð skáldsins, sem og lög sem þau hafa kallað eftir frá fjölbreyttum hópi lagasmiða, og rímnalög og druslusálma að auki. Ég myndi ekki þekkja Pál af neinu viti ef ekki kæmi til þetta framtak þeirra. Þetta er yndislegur diskur og lag Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar við þetta fallega ljóð er eitt af mörgum sem hafa á einhverjum tímapunkti verið í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég fann það því miður ekki á Youtube, en einhver hafði sett þetta inn. Það er gott líka.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

þriðjudagur, mars 08, 2011

day 22 - a song that you listen to when you’re sad

Sang til en flygnting


Jeg vågner

i min egen seng 

i mit eget hus 

i mit eget land

som om det var det mest naturlige i verden. 

Jeg vasker mig

klær mig på i mit eget tøj 

laver morgenmad til min kone og mig 

som om det var det mest naturlige i verden.

Jeg går i byen 

og køber ind 

for mine egne penge 

tjent ved eget arbejde 

som om det var det mest naturlige i verden. 

Jeg rejser nu og da 

til andre lande 

rejser tilbage til mit eget land

kommer gennem paskontrollen 

uden problemer 

kommer tilbage til mit eget hus 

som om det var det mest naturlige i verden

Som om det var det mest naturlige i denne verden

Benny Andersen



Lagið er svohér.

Auðvitað ætti maður að hlusta á eitthvað uppbyggilegt þegar maður er mæddur. En ég bara get ekki tekið þessari áskorun þannig. Hugsa bara um eitthvað sem gerir mann mæddan. En samt pínu hressari þegar maður skynjar reiðina sem kveikir hugsunina hjá skáldinu og setur broddinn í frábæra rödd Dissings. Og boðskapurinn er auðvitað hvað ástandið er heimskulegt og þarafleiðandi ætti að vera auðvelt að breyta því. Er það ekki? Víst er þetta uppbyggilegt. Ekki vera mæddur - vertu reiður!

Já og svo er ég bara svo hrifinn af því þegar tekst að gera áheyrileg lög við prósa, eða svona lausbeisluð ljóð. Uppáhaldsdæmið mitt eru þessar alþekktu línur úr bibíunni sem eru lesnar á hverjum jólum.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

mánudagur, mars 07, 2011

day 21 - a song that you listen to when you’re happy

Kitchen Villenelle

How rare it is when things go right
when days go by without a blip
And don't go wrong, as well they might.

The smallest triumphs cause delight –
The kithcen's clean, the taps don't drip,
How rare it is when things go right.

Your ice cream freezes overnight
Your jellies set, your pancakes flip
And don't go wrong, as well they might.

When life's against you, and you fight
To keep a stiffer upper lip.
How rare it is when things go right.

The oven works, the gas rings light,
Gravies thicken, potatoes chip
And don't go wrong, as well they might.

Such pleasures don't endure, so bite
The grapes of fortune to the pip.
How rare it is when things go right.
And don't go wrong, as well they might.

Stephen Fry

Stephen Fry á sér það tómstundagaman að yrkja og segist gera það eingöngu sjálfum sér til skemmtunar. Til að breiða út þessa tómstundaiðju skrifaði hann bráðskemmtilega (vitaskuld) kennslubók í bragfræði, The Ode Less Travelled. Þar notar hann kveðskap sinn stundum sem sýnishorn, eins og til dæmis þessa smellnu Villenellu. Þetta forn-ítalska form er lygilega lífseigt. Frægast vafalaust ljóð Dylan Thomas, Don't go gently into that good night. Fry myndi segja: ókei, núna eruð þið búin að átta ykkur á forminu, prófið sjálf. Ég tek undir það.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

sunnudagur, mars 06, 2011

day 20 - a song that you listen to when you’re angry

Masters of War

Come you masters of war
You that build the big guns
You that build the death planes
You that build all the bombs
You that hide behind walls
You that hide behind desks
I just want you to know
I can see through your masks.

You that never done nothin'
But build to destroy
You play with my world
Like it's your little toy
You put a gun in my hand
And you hide from my eyes
And you turn and run farther
When the fast bullets fly.

Like Judas of old
You lie and deceive
A world war can be won
You want me to believe
But I see through your eyes
And I see through your brain
Like I see through the water
That runs down my drain.

You fasten all the triggers
For the others to fire
Then you set back and watch
When the death count gets higher
You hide in your mansion'
As young people's blood
Flows out of their bodies
And is buried in the mud.

You've thrown the worst fear
That can ever be hurled
Fear to bring children
Into the world
For threatening my baby
Unborn and unnamed
You ain't worth the blood
That runs in your veins.

How much do I know
To talk out of turn
You might say that I'm young
You might say I'm unlearned
But there's one thing I know
Though I'm younger than you
That even Jesus would never
Forgive what you do.

Let me ask you one question
Is your money that good
Will it buy you forgiveness
Do you think that it could
I think you will find
When your death takes its toll
All the money you made
Will never buy back your soul.

And I hope that you die
And your death'll come soon
I will follow your casket
In the pale afternoon
And I'll watch while you're lowered
Down to your deathbed
And I'll stand over your grave
'Til I'm sure that you're dead.

Bob Dylan

Sjóðheit og spámannleg bræðin sem Dylan annaðhvort upplifði eða gerði sér upp fyrir markhópinn (maður veit aldrei alveg með það ólíkindatól) er mögnuð og réttmæt. Einshljómslagið (eða þvísemnæst) sem hann notar undir þuluna undirstrikar mikilvægi boðskaparins. Og lokaerindið er stórkostlegt, þar sem hann starir ofan í gröf hinna gráðugu og grimmu vopnasala og fullvissar sig um að þeir séu örugglega dauðir, og ég fæ á tilfinninguna að honum væri síst á móti skapi að þeir hafi verið kviksettir og það sé í alvörunni mikilvægt að standa vaktina þar til það sé útilokað að þeir krafsi sig upp aftur eins og brúðurin í Kill Bill og byrji sína guðlausu iðju á ný.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

laugardagur, mars 05, 2011

day 19 - a song from your favorite album

Bíll stansar

Hvar er Dímon
drengur minn
spurði andlit í glugganum

Ótrúlega heimskulegt.

Þórður Helgason

Ég var búinn að segja ykkur að Þar var ég eftir Þórð Helgason sé uppáhalds ljóðabókin mín. Þegar þarna er komið sögu er hann búinn að vera nokkuð lengi í Fljótshlíðinni á sinn barnslega mælikvarða. Og hversu gleðivekjandi er þessi mynd, sem með góðum vilja má kalla hæku?






Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

föstudagur, mars 04, 2011

day 18 - a song that you wish you heard on the radio

Atlot

Niður borubratta hlíðina
spriklar bunulækur

með silfurtær



skarpur steinninn glúpnar
við gælur þeirra

Unnur Guttormsdóttir


Við Unnur deilum afmælisdegi og leikfélagi. Við erum líka bæði dálítið hrifin af öngstrætum tungumálsins. Unnur hefur skrifað góðan slatta af leikritum með vinkonum sínum og vænan bunka af prýðilegum smáverkum fyrir leiksvið en ég held að rödd hennar hljómi skírust í ljóðunum sem hún er farin að setja saman hin síðari ár. Þar nær hjartahlýjan alltaf að skína í gegnum sniðuglegheitin og þegar nostalglýjan er alveg að keyra um þverbak má búast við dömulegu skítaglotti. Vonandi fáum við bók frá Unni bráðum. Það verður góð bók.






Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

fimmtudagur, mars 03, 2011

day 17 - a song that you hear often on the radio

ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

Jónas Hallgrímsson


Aftur ljóð sem er vel þess virði að kynnast sem ljóði en ekki sem söngtexta. Því það er svo glæsilegt. Þessar tvær bænir; að biðja öldurnar og vindinn að heilsa landinu og fólkinu svona almennt, og þegar kemur að "kinnum fríðum" man skáldið skyndilega að hann á líka persónulegt erindi, og þá duga auðvitað ekki golan og brælan, heldur er smjaðrað fyrir þrestinum, hann skjallaður í bak og fyrir og sendur af stað með lýsingu á viðtakanda. Engin ofnotkun, ekkert tenórrúnk, ekkert kórjarm getur til lengdar falið það fyrir okkur að þetta er snilldarverk.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

miðvikudagur, mars 02, 2011

day 16 - a song that you used to love but now hate

Haust í borginni

Ég sé það á öllu að sumarið er á förum –
eg sé það á fótataki og andlitum mannanna.
Það er eins og öllum sé kalt
og allir séu að flýja
eitthvað sem er alltaf komið á undan þeim.
Og þeir hraða sér gegnum myrkrið,
og segja við sjálfa sig þegar inn kemur:

Það var þó gott að ég komst undan

….

Æ ég nenni ekki að slá inn meira af þessu langa ljóði
sem eins gæti verið
dálítið tilgerðarleg
stemmingsgrein í dagblaði
og þó maður elski og virði skáldið Tómas
þá er eitthvað pirrandi
við að svona formsnjall maður
sem gat ort glæsta sonnettu
um ástir fiskanna
og látið japönsku tálknin titra
skuli ekki nenna að yrkja
"almennilega"
um sitt eftirlætis yrkisefni
en skrifi þess í stað
þokkalegan prósa
og raði honum næsta tilviljanakennt upp
og kalli ljóð.

Auðvitað skín hinn hlýi og fallegi andi skáldsins alltaf í gegn.
En þó ég hafi á menntaskólaárum metið þetta ljóð mikils,
og jafnvel lesið það upphátt fyrir umburðarlynda vini
þá finnst mér núna að skáldið hefði getað vakað lengur

og gert betur.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

þriðjudagur, mars 01, 2011

day 15 - a song that describes you

Einn fjölómenntaður maður

Einn fjölómenntaður maður
margt vissi um lítið
og undi sér aðallega
við allt sem var skrýtið.

Einn fjölómenntaður maður
mæddist í litlu-- en víða.
Fagnaði í fræðunum öllu
sem fátt virtist þýða.

Einn fjölómenntaður maður
varð margfáfróður
vissi ekkert um æðri plöntur
en allt um lággróður.

Einn fjölómenntaður maður
margs gekk því dulinn
voru sei sei já, svokölluð æðri
sannindi hulin.

Einn fjölómenntaður maður
mjúklega kyngdi þeim bita.
Hann sagði gjarnan sisvona:
Sælla er að gruna en vita.

Þórarinn Eldjárn.



Æjá, hér er ég lifandi kominn. Finnst mér stundum. En hvað veit ég.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.