miðvikudagur, mars 09, 2011

day 23 - a song that you want to play at your wedding

Þögul nóttin

Þögul nóttin þreytir aldrei þá sem unnast,
þá er á svo margt að minnast,
mest er sælan þó að finnast.

Eilíf sæla er mér hver þinn andardráttur
og ýmist þungur, ýmist léttur
ástarkoss á varir réttur.

Hvítum, mjúkum, heitum, fögrum handleggjunum
vil ég heldur vafin þínum 
vera en hjá guði mínum.

Guð að sök mér gefur ei sem góðum manni
unan þó ég fremsta finni 
í faðminum á dóttir sinni.

Páll Ólafsson


Hér krefst ástarskáldið mikla þess auðvitað að fá orðið og nær að fljóta áreynslulaust frá hinu holdlega til hins guðlega í stuttu kvæði, sennilega vegna þess að fyrir honum var þetta eitt og hið sama. Við þetta er engu að bæta, nema bara að minna á að í öllum góðum geisladiskahillum er að finna Söng Riddarans, alúðarverk Ragnhildar Ólafsdóttur og Þórarins Hjartarsonar, þar sem þau syngja bæði alþekkt lög við ljóð skáldsins, sem og lög sem þau hafa kallað eftir frá fjölbreyttum hópi lagasmiða, og rímnalög og druslusálma að auki. Ég myndi ekki þekkja Pál af neinu viti ef ekki kæmi til þetta framtak þeirra. Þetta er yndislegur diskur og lag Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar við þetta fallega ljóð er eitt af mörgum sem hafa á einhverjum tímapunkti verið í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég fann það því miður ekki á Youtube, en einhver hafði sett þetta inn. Það er gott líka.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim