laugardagur, apríl 24, 2010

Rokk

Frumsýndum Rokk, nýjan og nýstárlegan gamanleik með söngvum í gærkvöldi. Það var mikil stemming og mikið hlegið. Þessu vill enginn missa af, enda engin ástæða til. Nánari upplýsingar og miðasala hér.

þriðjudagur, apríl 20, 2010

Kevin

Hér fer meistari Jon Stewart yfir umfjöllunina um gosið og þá auðvitað mál málanna - hvernig í ósköpunum á að bera þetta helvíti fram.

mánudagur, apríl 19, 2010

Hvað eru mörg err í því?

Vefritið Slate fjallar um nokkrar hliðar eldgossins og áhrif þess. Og svarar hinni áleitnu spurningu um hvernig bera skuli fram Eyjafjallajökull. Með upptöku af skýrmæltri kvenrödd úr íslenska sendiráðinu. Skrunið neðst í greinina, spilið og njótið.

miðvikudagur, apríl 14, 2010

Þriðjuplötur – II

Þessi plata var lengi vel sú eina sem ég átti með þessum afkasta- og áhrifamikla listamanni. Ég hlustaði á hana dag og nótt eitt sumar. Hef ekkert borið þess bætur og kæri mig ekki um.

Ég vissi það ekki þá, en það kveður við nýjan og dekkri tón á The Times They Are A-Changin', þriðju plötu Bob Dylan, sem kom út árið 1964. Myrkari textar, húmorinn gallsúr þá sjaldan sem hann lét á sér kræla. Reiði og biturð er í forgrunni, sem og spámannlegur tónn sem birtist hvað best í hinu stórbrotna titillagi. Mér finnst það líka svo viðeigandi núna, þegar við göngum í gegnum hrunuppgjörið.

Önnur snilldarleg eru t.d. hin brechtísku The lonesome death of Hattie Carroll og When the ship comes in, en það síðara er klárlega stælt eftir söng Jennýar úr Túskildingsóperunni, en er víst samið í reiðikasti eftir að Bob og Joan Baez var úthúst af hóteli einu.

Ein af mínum uppáhaldsplötum klárlega. Og náttúrulega einn af mínum eftirlætismönnum. Klikkjum út með þremur snillingum að herma ástúðlega eftir hr. Zimmerman.

Hér er John Lennon.

Loudon Wainwright sendir Róberti svona afmæliskveðju

Og hver gæti átt þessa snilldartakta annar en Weird Al Yankovic.

Allavega. Góð þriðjaplata hjá Bob.

þriðjudagur, apríl 06, 2010

Þriðjuplötur - I

Í tilefni af því að senn halda Hálfvitar í stúdíó til að búa til sína þriðju plötu verða næstu þriðjudagar helgaðir þriðju plötum nokkurra tónlistarmanna sem ég hef dálæti á.

Og svona til að byrja með trukki þá skulum við fyrst staldra við í London árið 1982. Eftir tvær öflugar plötur og vaxandi fylgi ákváðu Steve Harris og félagar í Iron Maiden að skipta aðeins um kúrs. Hinn pönkaði söngvari Paul DiAnno var ekki alveg samferða hinum í þróuninni, auk þess sem hann hafði varla úthald í stöðugt meira krefjandi tónleikaferðir bandsins. Úr varð að hann vék fyrir hinum snaggaralega skylminga- og flugkappa Bruce Dickinson. Fyrsti afrakstur nýrrar liðsskipanar var The number of the beast, einhver nafntogaðasta þungarokksplata allra tíma.

Hlustaði á hana mér til óbóta á metalárunum og þykir margt á henni enn flott. Ekkert þó flottara en lokalagið Hallowed be thy name, hér í skemmtilegri læfútgáfu úr Abbey Road stúdíóinu. Svo er Run to the hills skemmtilegt, bæði lag og myndband.

Maiden-drengir eru líka eitthvað svo indælir. Hér er heimildamynd um gerð plötunnar, þar sem þeir eru hver öðrum krúttlegri. Og svo er Bruce hér í viðtali við Jeremy Clarkson með góðar rokksögur.

föstudagur, apríl 02, 2010

Farinn norður

Varríus heldur í norðurátt í morgunsárið í góðum félagskap. Ferðinni er heitið í Mývatnssveit þar sem Hálfvitar halda sína árlegu föstudagslangatónleika. Á laugardaginn verður svo talið í í Félagsheimili Húsavíkur. Ef marka má fyrri reynslu verður þetta skemmtilegt.