föstudagur, september 29, 2006

Menningarlegur dagur

í gær. Í vinnunni hlustaði ég eins og undanfarna daga á demóútgáfu af disk sem einn minna eftirlætistónskálda hyxt gefa út innan skamms. Þar er frábært stöff á ferðinni og flutningur til fyrirmyndar. Hlakkið til.

Stakk svo af kl. 17 og fór upp í sjónvarp að horfa á forsýningu tveggja fyrstu þáttanna af Stundinni okkar. Fannst hafa tekist aldeilis fantavel upp með að skila bullinu úr okkur félögunum á skjáinn. Nú er bara að bíða eftir því hvað markhópurinn og aðrir landsmenn segja. Frumsýning á sunnudag (gúlp).

Síðan beint á Sinfótónleika. Fer alltof sjaldan því að hlýða á Melabandið er góð skemmtun. Þessir voru engin undantekning. Hvatinn til að drullast loxins var að sjálfsögðu HÚAS-syndrómið*. Hr. Pendrecki olli engum vonbrigðum. Lítur út eins og jólasveinn og stjórnar betur en svo að ég hafi vit til að finna að. Sjakkonnan hans var fögur, fjórða sinfónía Beethovens er nægilega sjaldheyrð til að hljóma bæði fersk og flott og píanókonsertinn var massíf nútímatónlist af bestu gerð: ekki alger óskapnaður heldur skipuleg og skiljanleg þar sem brá bæði fyrir lagrænu stöffi, brjálaðri kakófóníu og óvæntum hljóðeffektum þegar saman hljómuðu sjaldhreyrðar kombinasjónir úr risastórri hljómsveitinni. Svo er náttúrulega visjúellt gaman að sjá mann með gríðarstóra túbu og mjút á stærð við góða skólpfötu.

Píanistinn, Florian Uhlig, var firnaflinkur, og verður því fyrirgefið að vera fulllíkur Roman Abrahamovitsj fyrir fágaðan smekk. Hann slúttaði konsertinum með undurfallegri Chopin-prelúdíu, konfektmoli eftir þungmelta og krefjandi villibráðarsteikina sem hann hafði tekið þátt í að framreiða á undan.

Eitt finnst mér fyndið á sinfótónleikum (ókei margt, en m.a. þetta). Það að á undan tónleikunum og í hléi situr góður slatti af spilurunum og æfir sig. Starir á nóturnar að verkunum sem það er að fara að flytja og spilar glefsur úr erfiðu köflunum aftur og aftur.

Eins og sinfótónleikar eru nú stífar og formlegar samkomur með öllum sínum kjólfötum og taka-í hendina-á-konsertmeistaranum-hefðum þá er þetta alveg dásamlega kasjúal viðhorf til áheyrenda.

Og svo er alltaf klappað miklu meira en í leikhúsi. Fer ekki nógu oft til að fullyrða það en er næstum viss um að það sé alltaf staðið upp. Það fer svolítið púðrið úr því við að verða eitthvað sem er gert á hverju fimmtudaxkvöldi er það ekki? Og hvernig ætli konsertmeistaranum yrði við ef einhver karlkyns stjórnandinn tæki sig til og gæfi henni ekki blómvöndinn sinn?

Og svo var hlaupið út í upplýst kvöldið og beint á málverkasýningaropnun hjá vini vorum Magnúsi Pétri Þorgrímssyni, sem betur er þekktur sem leirkeri. En hann er líka flinkur með pensilinn og svo fór að Varríus og frú festu kaup á einu verki sem talaði til okkar, eða kannski söng öllu heldur.

Misstum reyndar af myrkvuninni, en skilst að hún hafi verið heldur mislukkuð frá miðbænum séð. Misstum líka af framhaldsaðalfundi Hugleiks en sáum ársreikningana og fengum ilmandi ný plöstuð félaxskírteini með nýja lógóinu sem sjá má á heimasíðunni og er hannað af meistara Aðalbjörgu Þórðardóttur út frá hugmynd Ármanns að forsíðu söngbókar Hugleiks sem hann síðan fékk Unni Sveins til að teikna. Vel ættað merki og vel lukkað eftir því.

Allt í allt frekar skemmtilegt. Annað en hægt er að segja um fúkyrðagrein Sigurjóns tannlæknis í mogganum í dag sem fær mann til að skammast sín fyrir heimabæinn og undrast að menn sem telja sig hafa rökvísina og réttlætið sín megin geti ekki verið málefnalegri en þetta.

Farinn á Selfoss að funda. Fer svo á pólskan mímíker í kvöld. Systur á sunnudag.

Ekki allt búið enn.

*HFÚAS: Heimsfrægir Útlendingar Að Sunnan

fimmtudagur, september 28, 2006

Á öðru menningarstigi

Jón Sigurðsson formaður er svo sannarlega á öðru stigi en annað fólk.

Þegar virtur fréttamaður sem hefur áratugum saman sérhæft sig í málefnum náttúrunnar gefur út yfirgripsmikið plagg með hugmyndum um sáttagjörð í erfiðu deilumáli finnst honum hæfa að reyna að kæfa málið þannig að fréttamaðurinn sé klárlega að grínast, og reynir þannig að nota vinsældir hans sem skemmtikrafts sem vopn gegn honum.

Þegar á annan tug þúsunda manna safnast saman til að mótmæla stefnu hans (sem hann hefur reyndar afneitað með röksemdum sem hefðu sómt sér vel hjá trúarheimspekingum miðalda) segir hann að auðvitað komi ekki til greina að gera neitt, enda hafi "ekkert nýtt komið fram".

Ekkert nýtt? Eru svona fjöldamótmæli kannski daglegt brauð?

Á hvaða menningarstigi er stjórnmálamaður í lýðræðisríki sem lítur ekki á viljayfirlýsingu mannfjölda af þessari stærðargráðu sem ástæðu til að leggja við hlustir? Hafa aðeins verkfræðingar atkvæðisrétt á Íslandi? Mun hann e.t.v. ekki taka mark á kosningaúrslitum ef hann telur þær ekki byggja á nýjum staðreyndum eða röksemdum?

Í hönd fer ákaflega menningarlegt síðdegi og kvöld hjá Varríusi. Forsýning á Stundinni Okkar, Penderecki hjá Sinfó, myrkvuð borg og svo málverkasýning meistara Magnúsar.

Hlýtur að duga til að gleyma tilvist Framsóknarflokksins um stund.

miðvikudagur, september 27, 2006

Hrópandinn, spámaðurinn, eldklerkurinn og samúræjinn

Gangan niður Laugaveginn og fundurinn á Austurvelli í gær var talsvert mögnuð stund. Fjöldinn sennilega áhrifaríkasta elementið, og ekki skildi vanmeta áhrifamátt veðurblíðunnar. En augu og eyru og orka allra nærstaddra beindist eðlilega að þeim sem töluðu.

Þegar Guðmundur Páll Ólafsson talar um náttúruna þá er hlustað. Og rifjað upp þegar hann þótti bísna sérvitur kall. Hrópandinn sem talaði máli eyðimerkurinnar fyrir næsta daufum eyrum lengi vel. En núna er hlustað.

Það var Andri Snær Magnason sem opnaði eyru okkar. Okkar sem kusum of lengi að treysta, vildum trúa að á málinu væru tvær jafngildar hliðar. Mögnuð mælska hans, myndríkt málið sem litar staðreyndaflauminn í Draumalandinu, líkingarnar sem gera flókið mál einfalt. Andri Snær er spámaðurinn sem beðið var eftir.

Ég veit ekki hvort Hildur Eir Bolladóttir megnar að stöðva stífluflauminn með predikun sinni eins og Jón kollegi hennar hraunið um árið. En eldræða er það og slær tón sem undarlega lítið hefur heyrst í gagnrýni á aðfarirnar: græðgi. Getur verið að græðgisvæðing samfélagsins sé orðin slík að við séum öll orðin samdauna? Þá á Hildur sem því nemur meiri heiður skilinn.

En þetta var samt auðvitað stund Ómars. Hann var segullinn, sáttahugmyndir hans ljós í myrkrinu. Af hverju? Vegna þess að þær virkja þau okkar sem hafa veigrað sér við að berjast gegn einhverju en erum fús að leggja baráttunni fyrir einhverju lið. Auðvitað er þetta orðhengilsháttur, en samt. Áætlun Ómars er ekki varnarbarátta heldur sóknarstrategía. Og eins og sannur Samúræji hefst Ómar ekki handa fyrr en stund stríðsins er runnin upp.

Ég veit ekki hvað gerist næst. Kannski ekki neitt. Í gær virtust allar leiðir færar. Í dag eru allir í vinnunni. Við treystum á bardagamanninn. Og munum hlýða kalli hans ef og þegar það kemur.

þriðjudagur, september 26, 2006

Það fástekkámignógugóðir...

Ég er í skókrísu. Skórnir sem ég hef gengið í samfleytt í ca 6 ár eru að detta í sundur og halda ekki vatni. Ég er að reyna að venja mig á að nota einhverja aðra skó hvunndags, en það gengur bara alls ekki. Sem betur fer hangir hann þurr.

Ég aðhyllist kenningar Snúðs í múmínálfabókunum um föt. Þau eiga að vera eins og ég í laginu. Sérstaklega skór.

Systur endurfrumsýndar á sunnudaginn var. Það var svo sannarlega þægileg innivinna að "leikstýra" þessari upprifjun. Leikkonurnar algerlega með hlutverkin á valdi sínu og gátu þess vegna breytt og bætt smáatriðin endalaust í fullkomnu öryggi þess sem veit hvað hann er að gera. Allir að mæta á Systur, líka þeir sem sáu þær í denn.

Stundin okkar frumsýnd um næstu helgi. Fiðrildi í maganum.

En Ómar Ragnarsson rúlar!

Og Hilmar Örn Agnarsson líka!

föstudagur, september 15, 2006

Rugl

Af hverju hélt ég að það væri heldur að minnka hjá mér annirnar?

Það er rugl. Allt á útopnu á öllum póstum.

Fer á Nick Cave annað kvöld og Pinu Bausch á sunnudaginn. Þess á milli verður eigin sköpun í öndvegi.

Myndband vikunnar er tileinkað Sigga Bjarklind.

Góða helgi.

miðvikudagur, september 13, 2006

Gott kvöld

Fór áðan á Börn þeirra Vesturportsfólx, sem virðast vera allsendis ófær um að misstíga sig allar götur síðan þau settu upp Títus Andróníkus (voru það ekki annars þau?).

Börn eru alveg mögulega besta íslenska mynd sem ég hef séð. Óaðfinnanlegur leikur á öllum póstum og rúmlega það á aðalpóstunum sem er á köflum innblásinn, lipur (og blessunarlega orðfá) samtöl eftir smá stirðleika fyrsta korterið og mergjuð saga sem heldur sig á sjaldförnu og vandrötuðu einstigi milli hversdagsleiðindaskandinavíuraunsæis og melódrama. Örfá mínusstig fyrir tilgerðarleg smáatriði gera ekki annað en auka gleðina. Magnaður andskoti. Ekki missa af.

Keypti af rælni bók í morgun og er að lesa hana meðan ég bíð*. Er hálfnaður og ef allt fer sem horfir er þetta besta bók sem ég hef lesið í mörg ár (og ég les miiiiikið af bókum). Meira um hana síðar.

Svo er ég að setja mig inn í barnatónlistarkúltúrinn. Hlustaði á Abbababb í dag og er í þessum skrifuðum orðum að endurnýja kynnin við Algjöran svepp. Og leiðist ekki. Mórallinn: Það má vel bjóða börnum gaddavírslegar lagasmíðar og orðmarga og klikkaða texta. Hjúkkitt.

*Já, bíð. Aðallega eftir að Hamborg-Arsenal byrji í endursýningu á Sýn. Og svo auðvitað smá eftir Supernova. Véfrétt Varríusar spáir Magna botnsætinu af fjórmenningunum, neitar að tjá sig um sigurvegarann en finnst Dilana flottust.

Véfréttin er ekki ýkja bjartsýn um gengi sinna manna í boltanum, en frábiður sér uppljóstranir um úrslitin (leikurinn fór allstvo fram fyrr í kvöld).

Sama sagan?

X er eitt mest umrædda og umdeilda fyrirbæri í heiminum.

X er af mörgum talið mesta mein mannkynsins, illvættur sem gleypir sálir fólks og sviftir það skynsemi, ráði og rænu. X er haldið að börnum á viðkvæmu þroskaskeiði og allt kapp lagt á að fá þau til að ganga X á hönd strax á unglingsárum. Afleiðingarnar eru skelfilegar að mati andstæðinga X, sem geta auðveldlega bent á hin hroðalegustu illvirki sem unnin eru af fólki undir áhrifum X, morð, nauðganir, pyntingar, jafnvel heilu styrjaldirnar. Það eru varla til þær manngerðu hörmungar sem ekki má rekja til X, segja heitustu andstæðingar.

En málsvarar X eru líka heitir og öflugir og lofsyngja hin ágætu áhrif sem X getur haft og bregðast af hörku við hverri tilraun til að benda á skuggahliðarnar.

Postular X benda meðal annars á að óæskilegir fylgifiskar X séu í raun hliðaráhrif og stafi af ýmist af misnotkun eða þjóðfélagsaðstæðum sem X eru óviðkomandi. Þeir fullyrða að einstaklingarnir sem valda böli sem rakið er til X séu veikir eða illir og það hafi ekkert með X að gera.

Málsvarar X benda einatt á hinar björtu hliðar sem fá milljónir manna til að gera X að lífsförunaut sínum. Þeir tala um vellíðunina sem fylgir X, hið upphafna ástand sem X getur skapað og linar vanlíðan hversdagsins, og geti jafnvel opnað vitund fólks og vísað þeim inn í aðra heima. Þeir tiltaka líka jákvæð áhrif X á mannkynssöguna, svo sem að mikið af því sem hæst ber í listum er beinlínis skapað undir áhrifum X.

Gott og vel, segja andstæðingarnir, en bölið sem stafar af X trompar þetta allt. Það verður að uppræta X úr mannlífinu. þó svo það komi illa við hófsemdarfólk þá þarf að vernda þá sem veikir eru fyrir, taka frá þeim freistinguna sem felst í X enda beinist ofbeldi það sem misnotkunarfólk X veldur einatt að saklausum. Þegar allt er talið sé heimurinn einfaldlega betur kominn án X. Minna ofbeldi, minni öfgar og meiri möguleikar á að horfa rökvísum og raunsæjum augum á veruleikann.

Þessi deila er vitaskuld óútkljáð.

Jæja, þetta var nú skemmtileg lesning, er það ekki? En það er ekki allt búið enn. Lesið aftur og setjið orðið "fíkniefni" í staðinn fyrir X. Endurtakið síðan, en nú með orðinu "Trúarbrögð" í stað breytunnar.

laugardagur, september 09, 2006

Vandinn við þig, Sigmund ...

... er að þú skilur ekki fólk.

Sagði frænka Sigmunds Freud við hann einu sinni.

Fyndið.

En því miður virðist þetta vera satt. Sálfræðingar skilja ekki fólk. Og samt eru sálfræðingar beðnir um að segja álit sitt þar sem það er grundvallaratriði að skilja fólk.

Enginn sem sá viðtalið við Natöschu Kampusch gat annað en hrifist. Heillast af einurð þessarar 18 ára stúlku, heiðarleika hennar og skýrleika í að miðla einstakri reynslu og martraðarkenndu lífi sínu til umheimsins. Það var vonlaust annað en að heillast af hinni skýru mynd sem stúlkan hafði af eigin reynslu, hversu mótuð lífssýn hennar var þrátt fyrir að hafa nánast alið sjálfa sig upp og samlíðan hennar með sjúkum fangaverði sínum og sjálfskipuðum lífsförunaut bar vott um ótrúlega sterka persónu.

Þetta sáu allir. Nema sérfræðingurinn í fólki.

Í tíufréttum sama kvöld lýsti Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur vonbrigðum með viðtalið, á hliðstæðan hátt og leiklistargagnrýnandi kvartar yfir lélegri frammistöðu.

Hann sagði augljóst að frk. Kampusch væri "óörugg með tilfinningar sínar ... vissi ekki hvernig hún ætti að vera í viðtalinu" hefði reynt að " hafa stjórn á tilfinningum sínum" hefði virkað "mjög óörugg."

No shit Sherlock.

Tíu ára gömul stúlka er numin á brott og haldið fanginni í átta ár. Þá tekst henni að flýja og maðurinn sem hefur verið eina mannlega samneyti hennar allan þann tíma drepur sig í framhaldinu. Nokkrum vikum síðar mætir hún í sjónvarpsstúdíó og lýsir reynslu sinni og einhver gaur með háskólagráðu í mannlegu eðli kvartar yfir að hún hafi komið illa fyrir og finnur að því að hún hafi reynt að hafa stjórn á tilfinningum sínum!

Það er greinilega ekki ennþá partur af pensúminu að skilja fólk.

Eða íslensku. Það að lýsa einhverjum sem tilfinningalega flötum er gildishlaðið. það er ekki tækniorð eða sjúkdómsgreining. Í hversdagslegum skilningi þýðir það einfaldlega að viðkomandi er vond manneskja. Og hversdagslegur skilningur trompar alltaf tæknimerkingu. Að heyra Boga Ágústsson lýsa því með alvöruþunga að skv. mati sálfræðingsins hafi frk. Kampusch "sýnt merki tilfinngalegrar flatneskju" í upphafi fréttatímans var ekkert minna en ógeðslegt.

Og svo ég hætti mér nú út á örlítið hálli ís fræðilega séð - eru fjölmiðlungar og viðmælendur þeirra til í að hætta að bulla um Stokkhólmsheilkennið? Það að Natascha Kampusch "taki upp hanskann" fyrir mannræningjann og segi að hann "hafi ekki verið alslæmur" hefur augljóslega ekkert með neitt heilkenni að gera.

Stokkhólmsheilkenni snýst um að réttlæta gerðir mannræningjans. Reyndi frk. Kampusch að gera það? Auðvitað ekki. Það að skilja hann og hafa samúð með honum er annar handleggur sem býr ekki í Stokkhólmi.

Stúlkan bjó með þessum manni í átta ár. Hann ól hana upp. Enginn þekkti hann betur en hún. Verðskuldar frk. Kampusch ekki þá lágmarksvirðingu að vitsmunir hennar og aðdáunarverð tilfinningagreind sem öllum sæmilega vel innrættum sjónvarpsáhorfendum ættu að vera dagljós sé ekki sjúkdómsgerð af allrahanda tilfinningaklámhundum í kjaftastétt?

Lærimeistari minn, Þorsteinn heitinn Gylfason, skrifaði einu sinni ritgerð með því grallaralega nafni, ætti sálfræði að vera til? Góð spurning, og í ljósi ofangreinds mætti svara: Ekki veit ég það, en allavega væri gott að sálfræðingar reyndu að hugsa eins og fólk, en þegja ella.

fimmtudagur, september 07, 2006

Örrýni

Þetta var klukkutími sem ég hefði heldur viljað nota til að telja í mér rifbeinin
Þannig mæltist Ármanni Guðmundssyni að aflokinni leiðinlegri sýningu í Mónakó um árið. Þetta er gott dæmi um það sem á heimatilbúnu fræðimáli Varríusar heitir örrýni, og felst í því að lýsa upplifun sinni af leiksýningu í einni meitlaðri setningu. Á leiklistarhátíð NAR í Tönder buðu Borgundarhólmarar upp á einhverja mestu leikhúsþolraun sem sögur fara af þegar þeir sýndu tíðindalaust og ógurlega langt sannsögulegt verk um afdrif hóps gyðinga sem faldi sig í danskri kirkju meðan þeir biðu eftir bátsferð yfir sundið til Svíþjóðar. Nema hvað þjóðverjarnir voru á undan og það vissum við áður en sýningin hófst. Þegar henni loksins lauk varð Varríusi á orði:
Sjaldan hefur Gestapo verið beðið af annarri eins óþreyju.
Og nú hefur örrýnum aldeilis bæst liðsauki. Hinn málheppni göngugarpur, fyrrum hugleikari og nýráðinn kynningarstjóri Þjóðleikhússins, Páll Ásgeir Ásgeirsson, heldur úti stórskemmtilegri bloggsíðu. Þar hefur hann þetta að segja um Double Nora, japönsku Noh-sýninguna sem Varríus skrifaði langhund um i moggann í gær:
Mér leið eins og Gísla á Uppsölum leið þegar Ómar Ragnarsson gaf honum banana.
Svona á að gera þetta.