miðvikudagur, mars 02, 2011

day 16 - a song that you used to love but now hate

Haust í borginni

Ég sé það á öllu að sumarið er á förum –
eg sé það á fótataki og andlitum mannanna.
Það er eins og öllum sé kalt
og allir séu að flýja
eitthvað sem er alltaf komið á undan þeim.
Og þeir hraða sér gegnum myrkrið,
og segja við sjálfa sig þegar inn kemur:

Það var þó gott að ég komst undan

….

Æ ég nenni ekki að slá inn meira af þessu langa ljóði
sem eins gæti verið
dálítið tilgerðarleg
stemmingsgrein í dagblaði
og þó maður elski og virði skáldið Tómas
þá er eitthvað pirrandi
við að svona formsnjall maður
sem gat ort glæsta sonnettu
um ástir fiskanna
og látið japönsku tálknin titra
skuli ekki nenna að yrkja
"almennilega"
um sitt eftirlætis yrkisefni
en skrifi þess í stað
þokkalegan prósa
og raði honum næsta tilviljanakennt upp
og kalli ljóð.

Auðvitað skín hinn hlýi og fallegi andi skáldsins alltaf í gegn.
En þó ég hafi á menntaskólaárum metið þetta ljóð mikils,
og jafnvel lesið það upphátt fyrir umburðarlynda vini
þá finnst mér núna að skáldið hefði getað vakað lengur

og gert betur.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim