fimmtudagur, maí 29, 2008

Meistarinn gerir stykkin sín

Þó Dylankonsertinn hafi ekki verið sú snilld sem maður laumaðist til að vona innst inni þá setti hann mig í gírinn. Er búinn að vera að skoða soldið tímabilið milli mótorkrasss og messíasar (1967-1978). Hef lengi haldið mikið upp á Desire (1976), en verið minna snokinn fyrir hinni rómuðu Blood on the tracks (1975). Á fyrri hluta tímabilsins hef ég hinsvegar rekist á verk sem eru kominn ofarlega á Dylantopptíulistann minn.

Fyrsta platan eftir slysið er John Wesley Harding (1967). Hana þekkti ég ekki neitt, fyrir utan þessi tvö lög sem allir þekkja í ábreiðuversjónum, I'll be your baby tonight og All along the Watchtower.

Platann hitti mig í hjartastað. Einfaldleikinn (aðeins þrír meðleikarar), beinskeyttir textarnir og lagsmíðastíllinn. Minnti mig öðrum plötum fremur á fyrstu dylanplötuna sem ég hlustaði á, The Times they are a-changin' (1964). Yrkisefnin eru á köflum myrk og gamlatestamentisleg, og/en Það er eitthvað magnað þarna á ferðinni. Einhver góður maður er búinn að demba lögunum öllum á Youtube (engin vídeó, bara hljóð, sem betur fer). Dæmið sjálf:

John Wesley Harding - Þetta ættu nú Megasaraðdáendur að kannast við.

As I went out one morning

I dreamed I saw St. Augustine

All along the watchtower - Finnst einhverjum í alvörunni Hendrix bæta einhverju með súbstans við þetta? Mörg af mínum uppáhaldsdylanlögum eru í þessum myrka spámannsanda: The man in the long black coat, One more cup of coffee, changing of the guards...


Ballad of Frankie Lee and Judas Priest


Drifter's Escape

Dear Landlord

I am a Lonesome Hobo

I pity the poor Immigrant

The Wicked Messenger

Down along the Cove


I'll be your baby tonight


En ef naumhyggjan á John Wesley Harding heillar þá var þrillið þeim mun meira að uppgötva meistarastykki sem enginn minnist nokkurntíman á. Sem er óskiljanlegt. Planet Waves (1974) er ekkert minna en stórkostleg. Hápunkturinn á samstarfi Dylans við The Band með sínu afslappaða en áhrifaríka grúvi. Magnað bara. Engir hittarar, ekkert sem allir þekkja, bara snilld, jafnt og þétt.


On a Night like this

Going, going, gone

Tough Mama

Hazel

Something there is about you

Forever Young

Forever Young (continued)
Dylan fékk víst einhver komment á að fyrri útgáfan væri fullvæmin (hann samdi lagið fyrir krakkana sína) og Bandmenn þurftu að berjast fyrir að sú útgáfa færi á plötuna. Málamiðlunin var að þessi seinni versjón flyti með. Sjaldgæft dæmi um að Dylan taki mark á öðru fólki, og víti til varnaðar í því sambandi)

Dirge

You Angel You

Never say goodbye

wedding song

Meistarastykki - og enginn veit það.

þriðjudagur, maí 27, 2008

Verður HM á EM?

Það skýrist á laugardaginn hvort Evrópumeistarakeppnin í fótbolta verður líka heimsmeistarakeppni.

Hinn óopinberi heimsmeistaratitill er núna í höndum Ungverja, sem náðu honum af Grikkjum um daginn. Ungverjar eru ekki á EM og því algert lykilatriði að Króatar vinni Ungverja á laugardaginn. Það verður að vera einhver spenna í þessu.

Og svo endurtek ég þá skoðun mína að KSÍ eigi að fókusera á þennan titil og beina t.d. vináttulandsleikjum sínum að þeim þjóðum sem hampa þessum langsvalasta fótboltatitli sem um getur.

Mr. Dylan

Afstaða Dylans til aðdáenda sinna er (í besta falli) afstaða dýragarðspöndu til gestanna. Einhversstaðar á milli afskiptaleysis og fyrirlitningar.

Og hann má það.

Þó svo að rokktónlist sé 95% samspil þá lætur hann sér nægja að flytja lögin og skeytir engu um áhorfendur.

Og það er í lagi.

List Dylans liggur í óviðjafnanlegri ljóðlist hans, og samspili hennar við (öllu veikari) tónsmíðarnar. Engu að síður lætur hann sér í léttu rúmi liggja hvað skilst af muldrinu og sérviskulegum fraseringunum.

Og hvað með það?

Ég nennti þessu ekki til enda - sennilega ekki nógu mikill aðdáandi til að umbera umlið, klisjukennt og fagmennskudautt undirspilið og fyrirlitinguna sem meistarinn sýnir áhorfendum sínum.

Svo ég fór heim.

Og er jafnmikill aðdáandi og áður - sköpunarverk Dylans hafa nefnilega ekkert breyst. Og ég er ekkert fúll. Ég ákvað að borga mig inn og fékk nákvæmlega það sem ég gat vænst.

Það að ég eyddi ekki meiru af lífi mínu í að bíða eftir meiru en það sýnir að ég er ekki teymanlegri en raun ber vitni.

Sem mögulega er boðskapurinn. Don't follow leaders - watch the parking meters.

fimmtudagur, maí 22, 2008

Opið hús á hálfvitaverkstæðinu

Ljótu hálfvitarnir verða á Highlander á föstudagskvöldið og spila nýja stöffið sitt. Ókeypis inn, enda eiginlega ekki tónleikar, meira svona opin æfing. Ekki þessi venjulega stífa og formlega stemming sem einkennir tónleika hálfvitanna. Partý frekar.

Okkur langar voða mikið að sjá sem allraflest kunnugleg andlit - og ný. Lofum að það verður stuð, enda nýja stöffið stuðstöff. Yrkisefnin trúarleg, pólitísk, feminísk, síkólógísk og sósíalrealísk eins og fyrri daginn.

Byrjum um kl. 23. Hættum þegar við erum búnir.

Og fá sér!

föstudagur, maí 16, 2008

Básúna

Nú er ekkert sem heitir - allir á sinfótónleika næsta fimmtudag. Básúnuvirtúósinn Charlie Vernon leysir alla snókerana sem hinn básúnumeistarinn, Christian Lindberg, leggur fyrir hann. Hér er forsagan (varríus biðst afsökunar á tilgerðarlegum ljóðalestrinum í klippunni, en básúnan er sko ekkert tilgerðarleg og hún rúlar!)



Og svo hr. Lindberg sjálfur að monta sig:

fimmtudagur, maí 15, 2008

Útvistun

Varríus var að huxa um að skrifa einhverskonar súmmeringu á keppnistímabilinu hjá mínum mönnum þegar ég fyrir helbera tilviljun raxt á bloggsíðu snjallasta arsenalaðdáanda alheimsins, og hann var að sjálfsögðu með þetta.

Lesið annars allt heila bloggið - Hornby er frábær. Og gaman að sjá að hann er hrifnari af Dylan en hann var þegar hann skrifaði um hann í hinni stórkostlegu bók sinni 31 songs - sem engu að síður er það besta sem ég hef lesið um Bob eftir annan en hann sjálfan, að frátöldu kaflabroti í frábærri bók sem heitir Polysyllabic Spree og er eftir - Nick Hornby.

þriðjudagur, maí 13, 2008

Upp á bak

Ef það er rétt, sem Árni Snævarr gerir að umtalsefni hér, og forsetavefurinn virðist staðfesta hér, að forseti Íslands hafi sent samúðarkveðjur til forseta Kína vegna hamfaranna þar, en láti hörmungarnar í Burma sig engu varða, þá er það í besta falli óskiljanlegt og versta falli ógeðslegt.

Á þessu kunna auðvitað að vera einhverjar prótókollskýringar, en svei mér þá ef manni er ekki bara alveg sama um það. Á Burmaharðstjórum og Kínakúgurum er bitamunur en ekki fjár. Kínasleikjuskapur er tvímælalaust einn ljótasti ljóður á ráði hverrar silkihúfu.

Skamm!

mánudagur, maí 12, 2008

Brjálaður

Ég þoooli ekki þegar söngvarar, sérstaklega keppendur í ædolum og þessháttar, kenna lög við söngvara sem sungu þau, en ekki höfunda eða í það minnsta upphaflega flytjendur.

Núna sit ég í makindum, horfi á American Idol og skipulegg hálfvitasumarið og einhver stelpugopi tilkynnir að hún ætli að syngja "Proud Mary by Tina Turner". Og bítur svo höfuðið af skömminni með því að syngja helminginn af því í upphaflega Creedance bítinu.

Það er ekki eins og John Fogerty sé einhver obsjkúr lagasmiður sem flutti ekki sitt eigið stöff.

Ég er brjálaður. Geri ekkert af viti meira í kvöld.

föstudagur, maí 09, 2008

Meistarastykki

Fann þessa stórskemmtilegu heimildamynd um Night at the Opera, meistaraverk Queen. Ótrúlega gaman að heyra þá og tæknimanninn lýsa því hvernig þeir gerðu hlutina. T.d. í kafla tvö þar sem upplýst er hvernig þeir náðu gömluplötuhljómnum á röddina í Lazing on a sunday afternoon og í kafla fjögur þar sem Brian May leyfir okkur að heyra hvernig hann spilaði "lúðrasveitina" í Good Company á arinhillugítarinn sinn. Death on two legs er uppáhalds queenlagið mitt, og það fær sín skil líka.

Gleðilega hvítasunnu:




Hér eru svo partar tvö, þrjú, fjögur og fimm

fimmtudagur, maí 08, 2008

Hálfvitatíðindi

Hálfvitar eru að vanda önnum kafnir. Í kvöld spilum við fjögur lög á NASA á ógurlegum styrktartónleikum fyrir samtökin Blátt áfram. Á laugardaginn brunum við norður og skemmtum á afmælishátíð Gamlabaux, sem að sjálfsögðu heitir Galladinner.

Í gærkveldi vorum við í plögggírnum fyrir NASAgiggið í Ísland í dag og spiluðum Fyllibyttublús. Útsendingarmeistunum Stöðvar tvö tóxt reyndar að klúðra því smá, þannig að lagið byrjar tvisvar, en engu að síður nokkuð hresst. Hér má berja dýrðina augum.

Þar fyrir utan er frjósemin með eindæmum og heill bunki af nýjum lögum að taka á sig mynd á hálfvitaverkstæðinu. Og mikið skeggrætt um hvenær næsta plata verður tekin upp. Sá tími nálgast óðum. Eins og reyndar heimsendir.