þriðjudagur, mars 15, 2011

day 29 - a song from your childhood

Súptu maður súpuna
súpan hressir lúinn
Að þú súpir súpuna
súpan er til þess búin.

Gamli Anonymus

Móðir mín fór stundum með þetta og þessi lítilfjörlega vísa er það best ég man sú fyrsta sem ég lærði, allavega það elsta sem ég hef ekki séð ástæðu til að gleyma. Það er gaman að læra ferskeytlur og enn meira gaman hvað margir geta búið þær til. Reyndar er stundum pirrandi þegar fólk heldur að það geti sett svoleiðis saman og gerir sér enga grein fyrir reglunum. Það er hinsvegar ekkert nýtt vandamál sem hægt er að kenna kanasjónvarpinu eða evrópusambandinu um. Nógu mikið er til af gömlum vondum kveðskap sem vitnar um fornar rætur bragheyrnarleysisins. En vísan um súpuna er næstum fullkomin. Ef sama rímorðið væri ekki notað í 1. og 3. vísuorði væri hún það. En auðvitað væri hún þá sem því næmi verri. Það er vandlifað í vísnaheimi.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

2 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Minnir mig á. Ég var að syngja eitthvað bull fyrir börnin mín í gær. (Talsvert þynnra og grynnra en Súpan.) Og spurði þau svo hvort ég ætti ekki að senda þetta lag í júróvísjón.

Gyða sagði: Nei. Við skulum bara leyfa einhverjum Hálfvita að eiga það!

2:02 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Fyrir júróvisjónþátttöku hálfvitanna eru nokkrar forsendur:

a) Samkomulag innan sveitarinnar náist um að þetta sé nógu kúl, eða nógu ókúl

b) Samkomulag náist um hverjir fá að vera hellaðir í græna herberginu og þurfi ekki að stíga á svið (fjöldatakmarkanir hindra að allir fái að vera á palli)

c) Að keppnin sé haldin á nógu svölum/exótískum stað. Chisinau, Baku og Jerevan eru nánast einu kostirnir. Og kanski Minsk.

2:37 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim