föstudagur, mars 31, 2006

Farinn í sveitaferð

er á norðausturleið í gagnrýnendaerindum. Verð á Hárinu hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum í kveld, bruna svo á Tvo tvöfalda á Húsavík á laugardag og svo beint inn á Akureyri þar sem framhaldsskólarnir sýna Súperstar á laugardaxkvöld.

Fullur skammtur af afþreyingarleikhúsi um helgina semsagt.

Og svo verður nýjasta afurð lárviðarskálds Varríusar frumsýnt í kvöld. Mikinn skít á Þjóðleikhúströppurnar takk.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Hagfræðimeistarinn

Til eru þeir sem halda því fram að hagfræði sé vísindagrein. Hún minnir mig reyndar meira á aðfarir læknanna í Ástríkur í Heilvitalandi sem hópast að veika skattheimtumanninum og þrasa um hvað geti huxanlega verið að honum, hver með sína fjarstæðukenndu greiningu og læknisráð. Hagfræðingar flestir minna líka á læknana að því leyti að viðhorf þeirra til skattheimtumanna eru ekki sérlega heilsusamleg.

Í morgunútvarpinu var viðtal við norskan hagspeking sem skrifaði grein um íslenska efnahagsundrið og er á því að hér sé allt í himnalagi. Vitaskuld var hann spurður hvernig stæði á hann væri á öndverðum meiði við svartagallsrausarana í Danmörku og víðar. Hann sagði að það helgaðist af ólíku mati sínu og kolleganna á orsökum og afleiðingum viðskiptahalla.

Ætli eðlisfræðinga greini á sambærilegan hátt á um hlutverk þyngdaraflsins í hreyfiferlum epla sem detta af trjánum?

Hagfræðingar eru sagnfræðingar. Áreiðanlega geta þeir gert ágæta grein fyrir því af hverju eitthvað gerðist. En það er engin tilviljun að sagnfræðingar eru aldrei spurðir álits á því hvað gerist næst.

Og af hverju allt þetta þvaður um hagfræði? Aðallega vegna þess að maður daxins er sá hagfræðingur sem ég held mest uppá í heiminum.

Mastersgráða frá háskólanum í Strasbourg 1974.

Hann kann að sjá fram í tímann.

Efast um að hann hafi lært það í skólanum.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Komasostrákar!

"Í stórmannlegum stellingum
ég stel frá gömlum kellingum"

Sjaldan hafa þessar ljóðlínur Hjörleifs Hjartarsonar átt eins vel við og í dag. Gamla frúin frá Tórínó í heimsókn og fær vonandi að finna til tevatnsins. Hér segir gamall skiptinemi sögu sína.

mánudagur, mars 27, 2006

Til hamingju með daginn!

Í dag er alþjóðlegi leikhúsdagurinn. Hið íslenska ávarp Stígs Steinþórssonar er víða hægt að sjá. Minna fer fyrir hinu alþjóðlega ávarpi sem Alþjóðlega leikhússtofnunin lætur gera árlega. Það er að þessu sinni eftir mann sem heitir því tilkomumikla nafni Víctor Hugo Rascón-Banda, en ekki kann Varríus frekari deili á honum. Grunar þó að hann sé mexíkóskur. Allavega, hér er ávarpið hans.

sunnudagur, mars 26, 2006

Kannski er það mývetningurinn í mér...

... en stundum er ég harla montinn af leikfélaginu mínu.

Nei, líklega er það ekki úlfaldablóðið úr Skútustaðaættinni sem skýrir þetta mont. Því ég er því montnari sem ég hef minna með það að gera sem montið stafar af. Sem er allsendis ómývetnskt.

En hitt er víst að er ég gríðarlega hreykinn af nýjustu þettamánaðarlegadagskránni okkar. Mér finnst hún merkileg. Gott ef ég er ekki dálítið sammála honum.

Er einhversstaðar annarsstaðar á Íslandi verið að gera það sem við erum að gera, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár?

Hélt ekki.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Rósa frænka

er mætt í Þjóðleikhúskjallaran, regluleg eins og klukka gamla konan.

Þetta mánaðarlega í kvöld og sunnudagskvöld kl. 21. Sex einþáttungar, flestir flunkunýir. Varríus kemur lítillega við sögu. Annars harla gott.

Mætið endilega, 1.000 kall inn, miðapantanir í síma 551 2525.

Heill og hamingja!

þriðjudagur, mars 21, 2006

Lágmenningarrant

Horfði á American Idol í gær. Mikið væri þeim tíma vel varið sem færi í að kenna þýðanda þáttanna merkingu orðanna "flat" og "sharp" þegar verið er að tala um tónlist.

Mér finnst sniðugt að fram sé komin dulbúin glysrokksveit, og Drifskaft er flott nafn. Tvö pirr samt:

Hvaða Blönduóshúmor er þetta?

Var virkilega ekki hægt að finna önnur gerfi en gömlu Kiss-gerfin, og úr því það var ekki hægt, af hverju er ekki haft orð á því?

laugardagur, mars 18, 2006

Illur hugur

Nýjasta jórturleðrið sem spunagúrúarnir hafa dreift til andskota baugsveldisins er sú speki að það hafi verið fáránlegt af Héraðsdómi að vefengja öðlingin hr. Sullenberger vegna þess að hann hafi borið "illan hug" til veldisins.

Auðvitað bar hann illan hug til þeirra, segir spuninn. Annars hefði hann varla kært þá. Þeir sem brotið er á bera illan hug til þeirra sem á þeim brjóta og kæra þess vegna. Þannig að það gengur ekki að draga orð þeirra í efa þess vegna.

Allt satt og rétt, eins og góður spuni. En þegar þessi meginregla er borin við málavöxtu þá byrjar nú spuninn að trosna.

Correct me ef I'm wrong, en snúast ákærurnar átta um eitthvað sem gert var á hluta hr. Sullenbergers? Voru þetta ekki brot gegn íslenska ríkinu, tollsvik og svoleiðis svínarí?

Ef einhver lúsablesi, köllum hann Bjössa í Saltvík eða eitthvað, kýlir mig tilefnislaust á dansleik þá ber ég illan hug til hans í framhaldinu. Lái mér hver sem vill. Ef ég kæri hann fyrir kýlinguna þá dugir það honum væntanlega ekki til varnar að ekkert sé að marka kæruna af því að ég hafi verið fúll út í hann síðan hann ... kýldi mig.

En ef ég síðan kæri gaurinn fyrir að hafa keyrt fullur, þá er minn illi hugur augljóslega orðin ástæða til að draga orð mín í efa.

Og þannig er því farið með Jón Gerald. Hann telur sig hafa verið hlunnfarinn í viðskiptum við Baugsfeðga og kærir þá. Fyrir bílainnflutning, ólögleg lán og sitthvað fleira. Ekki hlunnfarirnar sem eru uppspretta hins illa hugar.

Nýjan og betri spuna takk.

föstudagur, mars 17, 2006

Harkan

Eftirfarandi sagði íslenskur stjórnmálamaður í útvarpinu í dag:

Bush-stjórnin er hörð og mér finnst að viðhorf Bandaríkjanna hafi breyst með henni. Ég er þeirrar skoðunar að Demókratastjórn hefði ekki unnið svona og kannski engin stjórn...
Undir þetta geta líklega flestir tekið. Bush stjórnin er svo hörð að hún hikar ekki við að ljúga að samverkamönnum sínum til að fá þá með í illvirki sín. Hún er svo hörð að hún heldur úti pyntingarbúðum víða um heim. Hún er svo hörð að henni þykir ekki ómaksins vert að bregðast við fréttum af yfirvofandi náttúruhamförum í eigin landi fyrr en eftir að skaðinn er skeður.

Þannig að hér var ekki verið að halda fram stuðandi skoðunum.

En samhengi skiptir öllu. Hver talar og af hvaða tilefni. Þessi hversdagslegu ívitnuðu orð afhjúpuðu mælandann.

Þetta var nefnilega Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, að tala um svívirðilega framkomu Bush-stjórnarinnar gagnvart okkur.

Samhengið skiptir öllu.

Guðni þessi var sumsé aðili að þeirri ákvörðun að við værum viljugir meðreiðarsveinar hinnar hörðu Bush-stjórnar í Írak. Guðni gerði okkur samsek í árásarstríði sem naut ekki stuðnings sameinuðu þjóðanna og margir telja ólöglegt. Stríði sem var rökstutt með lygum og fölsunum og hefur verið háð af fádæma grimmd, vanþekkingu og stjórnleysi. Með því að spyrða okkur þannig saman við hina hörðu Bush-stjórn hefur Guðni lagt blessun sína yfir hörkuna.

En nú er honum nóg boðið. Látum vera loftárásir á íbúðahverfi, lítum framhjá handtökum án dóms og laga og áralangri innilokum. Eitt eru pyntingar með vatni, kulda, hita, hundum og kynferðislegu ofbeldi.

En engin stjórn önnur en hin harða Bush-stjórn hefði sýnt þá fádæma mannvonsku að hringja og segja að hún hyggðist fjarlægja eigur sínar eftir hálft ár. Núna er Guðna misboðið. Núna sér hann hörkuna.

Engin önnur Bandaríkjastjórn er svona grimm.

Guðni fær venjulega að vera nokkuð stikkfrí í pólitíkinni. Hann er svo skrítinn og skemmtilegur, engin leið að taka hann alvarlega.

En hvað ef við tökum þessi ummæli - og samhengið - alvarlega. Hvað segir það okkur um manninn?

Góða helgi.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Réttur Daxins: Humble Pie

Mikið er heppilegt hvað það fer Geir H. Haarde vel að vera lúpulegur. Hann var alveg óborganlegur þar sem hann stóð við hlið forsætisráðherrans.

En hvað það er skemmtilegt þegar ráðamenn fá að fara með rökleysur í friði í viðtölum. Í gær sagði Halldór Ásgrímsson að það hafi í sjálfu sér mátt búast við að svona færi fyrir þotunum "okkar", en hefði verið betra ef það hefði verið ákveðið með samningum. Athyglisverður skilningur á samningshugtakinu sem þarna birtist.

Mikið var gaman að sjá að þingmenn úr báðum liðum tengja viðburðina við The Ides of March, Shakespeare og Sesar. Mörður fróðlegur, Björn fáorður.

Þú líka, bróðir minn Brútus!

Er búið að leita eftir viðbrögðum Hjálmars Árnasonar við brotthvarfi hersins í ljósi fyrri yfirlýsinga hans um þakkarskuld Bandaríkjanna fyrir "staðfestu" okkar?

Og í því ljósinu: Fyrst kanarnir geta einhliða með einu símtali frá undirtyllu í utanríkisráðuneytinu dregið herinn sinn heim, getum við ekki með jafn einföldum hætti afturkallað stuðning okkar við hryllinginn í Írak?

Þráinn æskuvinur minn hringdi í mig áðan til að athuga hvort ég ætlaði á Roger Waters. Ég heyrði mig segja nei.

Hvað er þetta með mig og rokktónleika? Það virðist vera sama hvaða æskugoð rekur hér á fjörur, aldrei nenni ég. Pink Floyd var númer eitt hjá mér árum saman og enn hátt skrifuð. Samt nenni ég ekki að drullast á tónleikana. Sama gildir um Robert Plant og Iron Maiden. Var að lesa að Motorhead kæmu í sumar. Læt ekki sjá mig.

Er þetta bara vaninn? Er undirmeðvitundin þeirrar skoðunar að þessi goð séu í raun ekki til, heldur bara andlit á plötuumslögum? Eða bara leti?

Ég veit það ekki. En er frekar kátur með að eyða ekki peningunum.

Mun samt hrista af mér þessa slyðru þegar og ef AC/DC mætir.

Og Tom Waits.

And that's It!

miðvikudagur, mars 15, 2006

Sexhleypa

Íslendingar urðu að vonum svekktir þegar Síðasti bærinn fékk ekki óskarinn sem besta stuttmyndin. Þó svo að óséð sé myndin einhver sú minnst lokkandi sem ég hef lengi heyrt um (hljómar eins og samfelld klisja, frá nafni og niðrúr).

En hva, áfram Ísland!

Og svo voru ekki síður vonbrigði að Six Shooter, myndin sem vann, hljómaði í lýsingum íslenskra óskarsspekinga vægast sagt ótrúlega óspennandi líka. Einhver írsk þunglyndispilla um hörmungar hversdagsfólks.

Víkur nú sögunni til New York. Þar skrifar um leikhús betur en aðrir menn John nokkur Heilpern. Í nýjasta pistli sínum fjallar hann um löngu tímabæra frumsýningu á The Lieutenant of Inishmore eftir Martin "Koddamann" McDonagh þar í borg, en verkið fjallar á ótrúlega fyndinn og subbulegan hátt um hryðjuverkamenn almennt og IRA sérstaklega, og þar sem það var á Londonfjölunum á haustdögum 2001 þá þótti það ekki passa fyrir fíngerðar taugar amríkana svona meðan rykið úr World Trade Center var að setjast (eða flytjast til Íraks, en það er önnur saga).

En nú er sumsé komið að því. Grein Heilperns er bráðskemmtileg og hann bendir réttilega á að Lieutenantinn er klárlega næstbesta leikrit McDonaghs, á eftir Koddamanninum, og þeir sem það verk þekkja vita að fá leikrit eiga erindi í annað sætið á eftir því. Heilpern finnst reyndar að Halti Billi sé betra leikrit en Fegurðardrottningin frá Línakri, en það er jú líka til fólk sem finnst gaman að horfa á Formúluna, svo það þýðir ekkert að væla yfir því.

En allavega...

Í framhjáhlaupi í greininni kemur fram að nýjasta afrek McDonaghs er að vinna Óskarsverðlaun. Eða réttara sagt, skrifa handrit að óskarsverðlaunamynd. Nefnilega fyrrnefndri Six Shooter!

Og skyndilega er orðið alveg bráðnauðsynlegt að sjá hana. Og aðeins minna svekkjandi að Síðasti bærinn skyldi tapa. Það er engin skömm af að lúta í lægra haldi fyrir snjallasta sögumanni samtímans.

Vona bara, og tek þar undir með John Heilpern kollega mínum, að þetta verði ekki til þess að hin illa kvikmyndamaskína gleypi gaurinn.

Skitið í hreiðrið

Einu sinni var ég í sumarbústað með kátu fólki á fylleríi. Einn gesturinn hegðaði sér heimskulega og meiddi sig. Svo vel vildi til að annar gestur var læknir. Hann skoðaði hin slasaða og úrskurðaði svo:

"Þú skalt endilega láta lækni líta á þetta"

Þessi kjánalega saga rifjaðist upp fyrir mér yfir kvöldfréttunum þegar fréttamenn annarrarhvorrar sjónvarpsstöðvarinnar fóru út í bæ með míkrófón til að sanna að íslenskur almenningur væri allsendis óupplýstur um vatnalagafrumvarpið.

Fyrir þá sem ekki sjá samhengið er rétt að minna á að fréttamenn eru fólk sem hefur það verkefni að upplýsa fólk. Og tekur sjálft sig stundum all-hátíðlega í krafti þessarar heilögu skyldu.

Gaman þegar svona sjálfumglöð stétt tekur að sér að benda á sönnunargögnin þar sem hún hefur skitið í eigið hreiður.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa þetta pólutíska kjaftæði og vilja leikhúsumræðu þá er um auðugan garð að gresja hjá Margeirnum

þriðjudagur, mars 14, 2006

Óheppinn

Gunnar Haraldsson, hagfræðingur, útskýrði fyrir okkur dásemdir einkaeignar á vatni í Kastljósi sjónvarpsins í gær. Eða gerði það ekki, svo sjálfsögð sannindi þykja svoleiðis menntuðu fólki einkaeign á öllum sköpuðum hlutum.

Af hverju hagfræðimenntun er heppilegur bakgrunnur fyrir upplýst viðhorf til svoleiðis mála er áreiðanlega merkileg stúdía, svolítið eins og að biðja múslímskan Imam að vera álitsgjafi um trúfrelsi. Út kemur einörð skoðun, en undirbyggingin ekki endilega traust, enda svarið gefið fyrirfram.

Það er allavega ljóst að rökvísi er ekki aðalmálið þegar kemur að því að sannfæra menn um jafn sjálfsagða hluti og að einkaeign sé góð. Gefum Gunnari orðið:
Annað sem ætti að nefna er að eignaréttur er alltaf varinn með lögum, og það er í raun löggjafans að ákvarða mörk þessa eignaréttar og vernd hans og svo framvegis.

þannig ég held að fólk þurfi ekki að óttast, hvorki hér á landi né annarsstaðar að þetta sé eitt af því sem safnist bara á fárra hendur og svo verði bara skrúfað fyrir kranann hjá sumum þegar einhver hefur ekki efni á að kaupa vatn.
Glöggir lesendur átta sig vonandi á að þrátt fyrir orsakatenginguna "þannig að" þá leiðir fyrri málsgreinina ekki af þeirri fyrri. Þó svo stjórnvöld eigi að ákvarða mörk eignaréttar þá er ekki þar með sagt að þau setji þau mörk á þann stað sem Gunnar nefnir, nefnilega að þeir sem ekki geta borgað fái ekkert vatn.

Hverskonar eignaréttur væri það líka - að þurfa að gefa þeim eign sína sem ekki geta borgað?

Er ekki lokað fyrir símann hjá fólki sem ekki borgað? Og var það ekki gert líka í gamladaga þegar síminn var ekki í "einkaeign"?

Skemmtilegt samt að sjá hvað hagfræðingurinn hefur mikla trú á velvilja ríkisvaldsins. Eða í það minnsta gagnsemi þess til að þagga niður í fólki sem vill ekki að olíufélög eða alþjóðlegar Group-ur eignist allt drykkjarvatn á landinu.

"Hafið ekki áhyggjur - ríkið mun ekki leyfa vondu kapítalistunum að neita aumingjum um vatn. En það er samt betra að vondu kapítalistarnir fái að eiga vatnið. Ríkið getur þá borgað þeim fyrir vatnið sem aumingjar sem ekki geta borgað sjálfir
fá. Aumingjarnir eiga samt auðvitað að fara aftast í röðina.

Af hverju? Engar bjánaspurningar hér. Af hverju er himininn blár?"

föstudagur, mars 10, 2006

Að þekkja sitt heimafólk

Sumir eru víðsýnir og líta svo á að til þess að öðlast nauðsynlega yfirsýn yfir hina flóknu Post-911 veröld þurfi maður að sökkva sér ofan í áreiðanlegar og hlutlausar heimildir um hina framandi veröld þar sem óróinn býr.

Við þá segir Varríus: Get a life!

Það er föstudagur og þá er ekki úr vegi að bregða sér í skoðunarferð um hinn víðfeðma arabíuskaga með verðlaunabloggara úr röðum heimamanna.

Góða helgi.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Rómverjar eru klikk XVI

Maður með
skýra stefnu
er í prófkjöri Demókrata (já, demókrata!) til Öldungaráðsins.

Það var þetta með öxulveldi hins illa...

mánudagur, mars 06, 2006

Skildingurinn

Í annað sinn sem ég sé Túskildingsóperuna á sviði og aftur gerðist það sama ca. 15 mínútum fyrir hlé. Ég huxaði: Nú þau ætla ekki að hafa hlé - en gaman.

Svo kom hlé og ég huxaði: Hvað í ósköpunum gerist eftir hlé, annað en Makki verður (ekki) hengdur?

Það kom líka á daginn, aftur, að lopateygjur Brechts reyna ansi mikið á þolrif manns í seinni hlutanum.

Sýningin kom mér á óvart. Hún var skemmtilegri en ég þorði að vona, tilþrifaríkur leikur og attitjúd í öllu saman. Tónlistarflutningur afbragð, söngur að mestu flottur þó einstaka númer liði fyrir lopakennda textameðferð. Sennilega væri það góð fjárfesting fyrir Þjóðleikhúsið að fá samhljóðaþrælapískarann dr. Tótu í heimsókn eins og einu sinni fyrir hvern söngleik. Sessunautur minn í leikhúsinu vildi meina að nýja fína hljóðkerfinu og óstjórn þess væri um að kenna, enda meiri sándnjörður en ég. Mín reynsla er hinsvegar sú að leikarar eru aldrei skammaðir nógsamlega fyrir textaframburð i söngtextum, og held mig við þá skýringu.

þetta leikár er óðum að verða hátíð þýðendanna. Karl Ágúst fer á kostum í Pétri Gaut og Davíð Þór á frábæra spretti í Túskildingnum fyrir utan að eiga allt það áheyrilegasta í Virkjuninni. Varríus gerir svo ráð fyrir, og ætlast til, að lárviðarskáld síðunnar, sjálfur Sævar Sigurgeirsson skáki þeim báðum í Átta konum

Já, þetta var bara nokkuð skemmtilegt. Kannski voru mellurnar aðeins of klisjulegar og kátar með hlutskipti sitt, og vel má vera að status Makka hnífs hefði grætt á að undirmenn hans bæru smá virðingu fyrir honum. En fokkit, þetta er nú bara skemmtiverk.

Ay, there's the rub.

Af hverju kóa allir með Brecht? Af hverju taka menn mark á því að hann þykist hafa eitthvað merkilegt þjóðfélagslegt erindi? Ef eitthvað slíkt er að finna í Túskildingnum þá er það:

a)löngu úrelt
b) illa formúlerað
c) rangt.

Þessvegna hefði átt að hlæja að "kostunarskiltahugmyndinni" á einum hugmyndafundi og henda henni svo. Hún er bara asnaleg, og er orðin þreytt vel fyrir hlé.

Sýningin lifir þetta að mestu af. Ólafur Egill er flottur, Egill og Ólafía Hrönn líka og mynd af Höllu Vilhjálmsdóttur ætti að setja í orðabækur við orðið "Show-Stopper".

Sem minnir mig á að fyrir nokkrum árum fór ég í leikhús, sá menntaskólasýningu og skrifaði eftirfarandi:
Halla Vilhjálmsdóttir fer frábærlega vel með þetta erfiða hlutverk [Sally Bowles], leikur, syngur og dansar geislandi af öryggi. Hún gerir hin þrjú stóru söngnúmer Sallyar algerlega að sínum og nær síðan að skila dramatísku lokaatriðinu þannig að gleymist ekki í bráð. Glæsileg frammistaða.

Heimild hér
Bara nokkuð gott semsagt, en ekki eins merkilegt og það þykist vera. Þess má svo geta í lokin að ef fólk langar að eiga þessa snilldarlegu tónlist á diski þá mælir Varríus með þessari útgáfu.

"Björk ætlaði að vera hér í kvöld...

... en hún var að máta kjólinn sinn og Dick Chaney skaut hana."

Óskarskynnirinn er frekar fyndinn í ár.

sunnudagur, mars 05, 2006

Hlandfötur!

Les á Bibbabloggi að það voru Túpílakatónleikar á Rósenberg í gær. Af hverju sagði mér enginn frá þessu? Hélt að eitt helsta pojntið með því að eiga vini væri að þeir upplýstu mann um svonanokkuð. En nei.

Fór á tvær leiksýningar í gaggrínendagallanum um helgina. Afar forvitnilegt að sjá svona tvær gerólíkar stórsýningar með rýnendagleraugunum kvöld eftir kvöld Dómar á morgun. Varir mínar eru síld.

Og svo ætla ég á Túskildingsóperuna í kvöld, í óopinberum erindgjörðum.

Mæli með að fólk verði sér út um Fjórða vegginn, tímarit Þjóðleikhússins. Sneisafullt af merkilegu efni. Mun áreiðanlega munnhöggvast við sumt af því hér á næstunni.

Smá forsmekkur: Í grein um Pétur Gaut segir að sýningin sem frumsýnd var í gær sé fimmta uppfærsla verksins á Íslandi. Þetta er endurtekið í leikskrá sýningarinnar. Þetta er rangt. Þjóðleikhúsinu hefur sést yfir hina stórmerkilegu uppfærslu Leikfélags Húsavíkur þar sem Gunnar Eyjólfsson lék gestaleik. Löngu seinna endurtók hann svo leikinn á Sauðárkróki minnir mig.

Skamm!

Arsenal flengdi Fulham 4-0 í gær. Gott til þess að vita. Real Madrid í heimsókn á miðvikudaginn. Við mössum þetta.

föstudagur, mars 03, 2006

Sá í gær smábút af Gettu betur. Í fyrsta sinn sem ég sé þáttinn í mörg ár. Og bar það til tíðinda í þessum þætti að MA lagði MR í bráðabana.

Kannski ætti ég að horfa oftar...

Ekki samt núna um helgina. Það verður lítil hvíld. Tvær sýningar að dæma, fullt af auglýsingum að gera og eitt leikrit að setja upp.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Miðvikudagur í helvíti

Vinur minn heldur því fram að helvíti sé útimarkaður á Ítalíu.

Það er í sjálfu sér rétt, en segir ekki alla söguna.

Helvíti er útimarkaður á Ítalíu sem er fullur af litlum börnum sem eru búin að borða of mikið sælgæti og eru öll í gervi (og hlutverki) Silvíu Nóttar.

Abandon hope, all ye who enter here.

DV fer yfir mitt strik

Varríus hefur lengi haldið uppi vörnum fyrir sóðasnepilinn DV en nú er honum líka ofboðið. Myndbirtingarstefna blaðsins hefur nú risið í nýjar hæðir þar sem hópi manna sem eiga um sárt að binda er núið upp úr hörmungum sínum á ósmekklegan hátt með myndum, fullum nöfnum, númerum og harðorðum umsögnum sem eiga ekkert skylt við sanngjarnan fréttaflutning.

Þessu verður að linna.

Hér á ég að sjálfsögðu við umfjöllun blaðsins um íslenska fótboltalandsliðið.

Þvílíkt mannhatur!