föstudagur, mars 11, 2011

day 25 - a song that makes you laugh

Ljóðið sem hljóp

Skáldið efaðist um stöðu ljóðsins og fór á fund og þá var ljóðið á fundi og mörg ljóð saman og ljóðið var í setningum og spurningum og ljóðið reis upp frá dauðum án þess að hafa dáið eða á þetta að vera brandari huxaði ljóðið og var á hraðbergi í bjargsigi og skáldið tíndi egg úr bjarginu og inní eggjunum voru orð og skáldið saup hveljur úr eggjunum og ljóðið fór á sópi um skýin og fór á fundinn og ljóðið hafði tyllt sér niður til að hlæja í setningu að spurningu og svo var fundarhlé og ljóðin sveifluðu sér í ljósakrónunum og voru allsgáð og létu sig detta ofan í rauðvínsglösin og urðu að röfli um sig og ljóðið sötraði gegnum bleikt nástrá vínið og lét sig fljóta á klaka í hafinu og þið eruð öll vinstrisinnaðir hommar þusaði ljóðið spakt og mikið með sig og orðið fraus og menn þóttust ekkert hafa heyrt og ljóðið skrapp skælbrosandi í felur og ég er hafið yfir dægurþras sagði ljóðið og fór á bömmer ofan í stráinu sem varð eins og ljóð í laginu eða er ég kannski alþjóðlegur tjáningarmiðill heyrðist úr stráinu eða er ég skáldsaga eða pönktíska eða fugl sem flaug eða vídeógjörningur eða er ég málverk eða innrímuð hringhenda eða mótorhjól eða fundur eða sonnetta eða langt eða stutt eða áróður eða innblásinn andi er ég kvikmynd er ég kannski prósi er ég kannski rímaður prósi hvæsti ljóðið og öslaði á sjálflýsandi svörtum gúmmístígvélum gegnum skáldlega rigningu og komst í þunga þanka og skvetti ljóðslega úr drullupollunum og ljóðið vissi að það var engin spurning það varð að vera spurning eða á ég að finnast í skilgreiningu svo skáldin geti fundið sig þessir vesalingar og rigningin varð skáldlegri við enda götunnar og ljóðið sá eftir mjóum ketti sem hvarf inn í húsagarð og ég
er engin spurning hvíslaði ljóðið
og skimaði upp tírætt bjargið
ég er ljóðið er ljóð og tiplaði nakið inn í lokaorðin á fundinum á ballettskóm og ljóðið gekk berfætt af fundinum og bað ballettskóna að fylgja sér
eftir sátu skáldin
en ljóðið fór flissandi burt
hvítir ballettskór sáust hvatvísir klífa bjargið
við verðum að halda annan fund sögðu skáldin ljóðrænulaus
og athuga þetta með stöðu ljóðsins bættu bókmenntafræðingarnir hjálpfúsir við (en) ljóðið fór á ljóshraða nakið á gulum skóm með kafaragleraugu og gregoríanska tónlist í vasadiskóinu sínu og fallhlíf í hinum vasanum,
fór þangað sem því sýndist að gera það sem því sýndist
… það ætti að banna mig það ætti að banna mig söng ljóðið hástöfum.

Elísabet Jökulsdóttir

Eitt sem ég tók ástfóstri við úr Ljóðmúrnum. Vinsælt að lesa þetta upphátt á síðkvöldum yfir munkatei á herberginu mínu á Heimavist MA (og stundum reyndar viskíi, en ekki segja Meistara). Mér finnst þetta ennþá fyndið og satt. Þess má geta að lagið sem ég heyri ljóðið syngja lokalínurnar við, "… það ætti að banna mig, það ætti að banna mig …" er sama lag og var notað í óperunni "Örlagahárinu" eftir Flosa Ólafsson við línurnar "… það er að kvikna í, það er að kvikna í …".




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim