fimmtudagur, mars 03, 2011

day 17 - a song that you hear often on the radio

ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

Jónas Hallgrímsson


Aftur ljóð sem er vel þess virði að kynnast sem ljóði en ekki sem söngtexta. Því það er svo glæsilegt. Þessar tvær bænir; að biðja öldurnar og vindinn að heilsa landinu og fólkinu svona almennt, og þegar kemur að "kinnum fríðum" man skáldið skyndilega að hann á líka persónulegt erindi, og þá duga auðvitað ekki golan og brælan, heldur er smjaðrað fyrir þrestinum, hann skjallaður í bak og fyrir og sendur af stað með lýsingu á viðtakanda. Engin ofnotkun, ekkert tenórrúnk, ekkert kórjarm getur til lengdar falið það fyrir okkur að þetta er snilldarverk.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim