laugardagur, október 27, 2007

Tíu litlir pönkarar

Er orðið "negrastrákur" meiðandi? Ekki í minni máltilfinningu. Kannski eru hugrenningatenxl við samstofna enskt orð að flækjast fyrir fólki. Ekki væri það í fyrsta sinn sem það tungumál brenglar hugsun á Íslensku.

Ég fer (of) sjaldan i bíó og er t.d. ekki búinn að sjá nema eina af þeim myndum sem berjast um Edduna að þessu sinni. Þarafleiðandi er ég tæpast dómbær á hvort að útreið Astrópíu sé eðlileg. Hitt veit ég að ef aukaleikarar í hinum myndunum stóðu sig svo vel að ekki þurfi að hafa Höllu Vilhjálmsdóttur á blaði þá erum við þokkalega sett.

Crass þykir mér alltaf með merkilegri hjómsveitum. Það eru því gleðitíðindi að þar eru ríjúnionhræringar á ferðinni. Ekki eru allir hljómsveitarmeðlimir jafn kátir, enda kæti aldrei ein af höfuðdyggðum Crassverja.

Mikið skil ég vel að þeir sem nota hana í vinnunni vilji gera biblíuna brúklegri með þvi að breyta bræðrum i systkyni, þrælum í þjóna og kynvillingum i guðmávitahvað. Eins skil ég vel að bókstafstrúarmönnum þyki illa farið með grundvöll sinn. Og að trúleysingjar séu fúlir yfir að verið sé að kalka yfir sum sönnunargögn þeirra gegn notagildi bókarinnar sem leiðbeiningarits fyrir nútímafólk. Því miður hindrar þessi altumlykjandi skilningur mig í að hafa afdráttarlausa og krassandi skoðun á málinu.

Ljótu Hálfvitarnir spila á draugabarnum á Stokkseyri í kvöld kl. 22.30. Giggið er fjáröflun fyrir fótboltafélagið Ástrík. Það verður sennilega bara talsvert gaman.

miðvikudagur, október 24, 2007

Útvarpsauglýsing ársins

"Magni vill að vinirnir flytji til Hveragerðis"

24 stundir - blað sem kemur þér við

þriðjudagur, október 23, 2007

Borgin við ána

Fór til London um helgina og neytti menningar af miklum móð. Smá yfirlit og stöku sleggjudómar:

Macbeth
Uppfærsla Chichesterleikhússins og túlkun Patricks Stewarts á Glaumuþjáninum metnaðargjarna hefur verið rómuð í hástert af gagnrýnendum. Þeim mun meiri voru vonbrigðin með þessa vanhugsuðu, flatneskjulegu og illa leiknu sýningu.

Mary Poppins
Nánast gallalaus framleiðsla (fyrir utan pabbann sem gat allsekki leikið) og áhrifarík sem slík. En það er ekki heimtufrekja að biðja um meira en lýtalausa fagmennsku í leikhúsi. Það er nefnilega lágmarkskrafa að maður upplifi að verið sé að gefa manni eitthvað. Burtséð frá miðaverðinu.

Glengarry Glen Ross
David Mamet í bísna góðu formi að lýsa gangi mála í Homosapiens-búrinu í dýragarðinum. Leikhópurinn skilaði fuckjú-ljóðrænu Mamets feykivel, en aftur voru nokkrir á sviðinu sem ættu að vinna við eitthvað annað. Kannski fasteignasölu.

Arsenal-Bolton
Nýi völlurinn er ótrúlega flottur. Leikurinn var ekkert sérlega spennandi - Boltúnsmenn áttu aldrei séns. Ólíkt t.d. Adebayor sem átti talsverðan séns en tókst ekki að setja hann. Áreynslulaus sigur.

Louise Bourgeois
Slembilukka réði því að við hittum á yfirlitssýningu þessarar listakonu á fyrstu heimsókn okkar í nútímalistasafnið Tate Modern. Hafði aldrei heyrt hennar getið, enda lítill myndlistarmörður. Frábær sýning og mikill meistari þarna á ferð.

Patti Smith
HáPUNKturinn var svo að sjálfsögðu ómótstæðilega magnaðir tónleikar rokknornarinnar miklu. Frú Smith og drengirnir voru í banastuði. Ástríðan, útgeislunin, flippið, alvaran og rokkið blandast saman í banvænan kokteil þegar Patti stígur á svið.

miðvikudagur, október 03, 2007

Áfram Ísland

Árið er 1998. Heimsbyggðin stendur á öndinni, enda úrslitaleikurinn í HM í knattspyrnu á næsta leyti. Þar munu mætast tvö stórveldi, Ísland og Kongó...

Og nei, ég gleymdi ekki að taka pillurnar mínar í morgun, heldur kíkti ég á fótboltasíður Guardian og rakst þar áþennan forvitnilega fróðleiksmola. Fyrir þá sem ekki nenna að flækjast á aðrar síður þá er þarna sagt frá sögunni The Ice Warrior, og söguþráðurinn súmmeraður upp svona:
The Ice Warrior, from The Ice Warrior and Other Stories (published 1976) by Robin Chambers, tells how Zaire's star player is killed in a bizarre freezer-related accident. The all-conquering, efficient Iceland (a case of taking symbolism too literally) meet bare-footed and mercurial Zaire in the World Cup final - and the evil Iceland manager plots the downfall of Zaire's star player, Odiwule, who can, apparently, bend the ball 90 degrees. When Zaire are awarded a free-kick, Iceland's equivalent of Douglas Jardine swaps the ball with a special refrigerated one he had been keeping under the team bench (how he did this without anyone else seeing in unclear).

When the Zairean maestro strikes the ball his foot and leg shatter (it's those modern boots, you know) and he is killed instantly. The chilly northern cheats win the final. Fast forward 10 years and a vengeful ghost of the victim returns to haunt the Iceland manager, who has, rather unusually, become the county's prime minister.
Greinilega tímalaus snilld þarna á ferð.