föstudagur, janúar 22, 2010

Bland í bloggpoka

I

Mér er ljúft og skylt að halda á lofti minningu Roberts B. Parker, enda aðdáandi. Hann dó núna á mánudaginn, frekar óvænt skilst mér af fjölmiðlum. Þessum tröllvaxna ameríska sakamálasögumeistara er nú hampað fyrir að hafa með sínu helsta sköpunarverki, einkaspæjaranum Spenser, endurnýjað lífdaga hinnar harðsoðnu glæpasagnahefðar Chandlers og Hammetts fyrir nútímann. Bækurnar eru leiftrandi skemmtilegar, persónurnar eru hver annarri flottari og gneistar af samtölunum.

Ég hef lesið þær flestar, margar oft, og mæli með þeim.

Guðmundur Andri Thorsson þýddi fyrir mörgum árum tvær bóka Parkers, Guð forði barninu og Leitin að Rachel Wallace og mér hefur löngum þótt Mín káta angist eiga stíl Parkers skuld að gjalda, þó ráðvilltur og ástsjúkur íslenskunemi sé þar kominn í stað ofurtöffarans með rómantísku sálina.

Lengi lifi minning meistara Parkers.

Heimasíða
Wiki
New York Times

II
Munaðarlaus er aldeilis makalaust mergjað leikrit sem skilur mann eftir með hnút í maganum, skít á sálinni og hugsanir í kvörnunum. Sýning samnefnds leikhóps í Norræna húsinu er firnavel unnin, þýdd, hönnuð og leikin. Hér segir Silja A. sitt álit, og hér talar Lyn Gardner um uppfærsluna frá Edinborg sem setti verkið á kortið.

Sýningum er að ljúka - ekki missa af.


III
Rúv sker niður. Búið að segja upp allskyns frammáfólki í Kastljósi og fréttum. Mínar tillögur:

Þulurnar - hvað eru þær að gera?
Íþróttafréttir - íþróttir eru frábært sjónvarpsefni (fyrir utan formúluna, náttúrulega). En hví í dauðanum þarf heila deild til að segja okkur fréttir af úrslitum sem allir sem hafa áhuga á eru búnir að verða sér út um á netinu jafn óðum?

föstudagur, janúar 15, 2010

Lögin unnu

Mér skilst að fólki þyki rosalega fyndið eð netskopast að 16 ára stelpu sem klikkaði dálítið í flutningi á undankeppnislagi í Júróvisjón. Ég horfði á myndskeiðið og er eiginlega viss um að 30+ mónitormixermaður hafi skitið á sig.

En hvað um það - er ekki rétt að átta sig á því að þetta er alveg nógu skítt fyrir stúlkuna þó allskonar grínistar séu ekki að fíflast með myndskeiðið og það undarlega fólk sem tekur Júróvisjón hátíðlega sé ekki brjálað á barnalandi og feisbúkk?

Sumsé: Sjottðefokkopp!

Í staðin gætum við tildæmis velt fyrir okkur hvort að snillingarnir á kynningardeild RÚV séu alveg textablindir. Þið vitið, þessir sem Varríus hæddist að fyrir að þykja ófullnægjuklámvísa Lily Allen rétta tónlistin til að kynna bíómyndaúrvalið í Sjónvarpinu.

Núna er það hið frábæra Clash-stuðlag I fought the law. Þið vitið, þetta með taparaviðlaginu: I fought the law and the law won.

Sem þeir nota til að hita okkur upp fyrir EM í handbolta.

Frábært.

fimmtudagur, janúar 07, 2010

ICESAVEaddict

Guð gefi mér æðruleysi, en ég held ég sé orðinn háður Icesaveumræðunni. Kveikti á hádegisfréttunum sem byrjuðu á mannskaðaeldsvoða við Hverfisgötu og ég hugsaði bara: "jájá, en hvað er að GERAST?"

Það er gott ef eitthvað gott hlýst af ákvörðun forsetans, sem við fyrstu sýn var bæði sjálfselsk, byggð á vafasömum rökum og skilað til ríkisstjórnarinnar á ótrúlega hrokafullan hátt.

Líklegasta atburðarrásin: Þjóðin hafnar ICEsave 2 (sérstaklega í ljósi samúðar í erlendum fjölmiðlum) - þverpólitísk samninganefnd verður send á vettvang og nær (vonandi) álíka góðum samningum og við höfnuðum - þingið samþykkir ICEsave 3 - forsetinn skrifar undir.

Allir glaðir.

Raddir um að forsetinn segi af sér ef atkvæðagreiðslan segir Já eru ótrúlega heimskulegar. Næstum jafn heimskulegar eru raddir um að ríkisstjórnin sé sjálfkrafa fallin ef niðurstaðan verður Nei.

Og þeir sem segja að við eigum ekki neitt að borga eru enn að gjamma. Það er enn verið að grugga vatnið.

Sem mér sýnist Steingrímur J. vera að standa sig frábærlega við að hreinsa. Djöfulsins orkubúnt er maðurinn!

Það er smá birta fyrir umræðunni núna. Kannski á að horfa framhjá sjálfselskuhlið forsetaákvörðunarinnar, aldeilis furðulegum vendingum stjórnarandstöðunnar og þóttagremjunni í fyrstu viðbrögðum stjórnarinnar. Og vonast eftir einhverskonar sameiginlegum fronti.

Vona bara að allir átti sig á að hagsmunirnir sem eru í húfi eru mikilvægari en einhver stig sem hægt er að skora í fjórflokkapólitíkinni.

Hver sem verður staðinn að svoleiðis tapar.

mánudagur, janúar 04, 2010

Sport

Íþróttaljósmyndari The Guardian velur úr safni sínu 33 toppa frá áratugnum (og ekkert rugl um hvenær áratugnum lýkur takk). Bara skoða.

Þrjár Arsenalmyndir. Nr. 6, 10 og 16. Margar hinna eru flottar líka.