þriðjudagur, september 25, 2007

Frjálst Tíbet - sjálfstætt Taivan!

Þessi fyrirsögn mun því miður ekki hafa tilætluð áhrif. Samkvæmt þessum vef er Varríus bannaður í Kína. það sama gildir reyndar um vef Ljótu hálfvitanna og Sinfó. Allir vefir sem ég sýsla við eru taldir óhollir kínverskum netverjum.

Sennilega bara maklegt. Það er mín sannfæring að Kína sé stjórnað af drullusokkum. Og hafi verið lengi.

Það er í gangi einhver fáfengileg diskúsjón um hvort bók Jung Chang um Maó sé sanngjörn eða ósanngjörn. Ég las dóm um hana þegar hún kom út og það var augljós að hún var ónákvæmt hatursrit. En að halda að það sé ástæða til að hata ekki Maó er rökvilla. Samskonar rökvilla og afneitarar helfararinnar beita í krafti þess að einhver vitni um hana hafa fært í stílinn.

Ég nenni ekki að linka á diskúsjónina. Kíkið a Eyjuna og Silfur Egils þar. Þar eru linkar.

Jú annars. Ég varð bara að athuga hvort bloggsíða þessaMaóvinar væri á bannlistanum.

Og að sjálfsögðu var hún það! En Maó er dauður og kapítalfasistar ráða Kína. Sennilega er úthýsing Arnþórs enn ein sönnun þess að Maó var misskilinn mannvinur.

Verri rökvillur hafa verið gerðar í umræðunni.

mánudagur, september 17, 2007

Tímamót

Í verkefnauppþyrli síðustu mánaða og vikna hlaut að verða eitthvað fórnarlamb. Og nú er það komið á daginn.

Ég er hættur sem leiklistargagnrýnandi hjá Mogganum. Sagði upp í morgun.

Ég hóf gagnrýnendaferilinn í janúar árið 2000 með því að skrifa um sýningu Leikfélags Hafnarfjarðar á Hvenær kemurðu aftur Rauðhærði riddari. Síðasta dóminn fyrir moggann skrifaði ég núna í ágúst, um Light Nights. Nákvæmur fjöldi dóma liggur ekki fyrir.

Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Búinn að sjá alveg mökk af leiksýningum, og það er mjög hollt að þurfa að setja sig í þær stellingar að gera grein fyrir áhrifunum sem þær hafa á mann. En nú var þetta orðið gott í bili.

Ég geri frekar ráð fyrir að þetta verði til þess að Varríus skrifi kannski aðeins ítarlegri pósta um þær sýningar sem hann sér. Allavega þær sem hann langar að tjá sig um. Og svo verður tímamótanna minnst næstu daga eða vikur með birtingu vel valinna dóma frá "ferlinum".

Þakka lesendum áhugann og listamönnunum umburðarlyndið.

sunnudagur, september 16, 2007

Hinn enski Þursaflokkur

Fórum á Jethro Tull á föstudagskvöldið. Ansi hreint hressir gömlu mennirnir. Anderson fór hamförum á flautuna þó röddin væri að einhverju leyti fjarverandi þetta kvöld. Bandið íðilvel spilandi og gömlu standardarnir streymdu fram. Í ljósi raddtjónsins voru instrúmentallögin einna flottust, svo og instrúmentalkaflar annarra laga. Troðfullt Háskólabíó skemmti sér dáindisvel.

Tull voru aldrei mínir menn í denn, kom því eiginlega aldrei í verk að kynna mér gamla stöffið. Nú eru þeir að smásíast inn, ekki síst þjóðlegasti parturinn af þeim. Stórfínir tónleikar, spilagleði og stuð.

miðvikudagur, september 12, 2007

Prinsinn

Hamlet er mesta leikrit allra tíma. Kannski mikilvægasta listaverk allra tíma. Svei mér þá.

Þegar ég var að byrja á sjeikspírstúdíum mínum á unglinxárum fannst mér Lér konungur merkilegra verk. Það er rangt. Hamlet rúlar.

Hér er skemmtileg myndasería af merkum Hamlettum úr bresku leikhúsi. Margir þeirra eru til á filmu. Varríus hefur séð megnið af því stöffi. Laurence Olivier-myndin er verst. Adrian Lester er bestur. Það sárvantar Derek Jacobi, sem fylgir fast á hæla honum í BBC-myndinni.

þriðjudagur, september 11, 2007

Tilgangurinn skemmir meðalið

Mér finnst símaauglýsingin ekkert fyndin. Mér finnst hún vera slappur brandari, stirðlega sagður. Svolítið eins og Spaugstofan á vondum degi. En það er auðvitað lykilatriði í málinu að þetta er ekki Spaugstofan. Ekki heldur skopmyndateiknarar hjá Jótlandspóstinum. Ekki Salman Rushdie.

Þetta er fyrirtæki að selja vöru.

Auðvitað mega þeir nota þessa sögu, sem mörgum í markhóp þeirra er giska heilög, til að vekja athygli á vörunni sinni. Smekk- og kúltúrleysi má ekki banna. En munurinn á þeim sem gagnrýna trúarbrögð með háði eða öðrum aðferðum vegna þess að það er margt gagnrýnivert við þau, og hinum sem teika þá umræðu til þess að selja síma ætti að vera öllum ljós og ætti að halda á lofti.

Af því tilefni birtir Trúarbragðasvið Varríusar hér ljóð eitt sem fjallar um sömu atburði og símaauglýsingin, en víkur eins og hún í veigamiklu atriði frá helgisögunni.

Og umhugsunarefnið er: Af hverju er auglýsingin drasl en ljóðið ekki?

Júdas frá Ískaríot

Ég þjónaði honum ungur, en þroskameiri eg skildi,
að það var aðeins sundrung og bylting, sem hann vildi,
og ég, sem virti lýðræði og lög, er voru í gildi,
gegn landráðunum snerist, af eðli' og skyldu' í senn.

Um svikráð fyrir mútur þó sögur af mér fara,
- að silfrið færi í gólfið og laun mín yrðu snara.
Sá kristilegi rógburður krefst ei langra svara:
Ég kastaði aldrei peningunum frá mér, góðir menn.

Ég hlaut að launum glaðning frá valdstjórninni að vonum,
ég vaxtaði hann með ráðdeild og blessun fylgdi honum.
Ég dó í hárri elli frá auði, sæmd og sonum.
Mér sárnar mest, að þeir skuli trúa á róginn enn.

Nils Collet Vogt
Þýðing: Magnús Ásgeirsson

föstudagur, september 07, 2007

Búmm! Krass!

Nasabað 2007 var almagnað. Troðfullur salur á Nasa og miklar undirtektir. Við í góðu stuði. Og nú erum við komnir i svona eins og mánaðar spilahlé.

En það verður samt að segjast að fyrir mig var tónlistarupplifun kvöldsins ekki á NASA heldur í Háskólabíói. Hinn nýbakaði kynningarfulltrúi Sinfó lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á upphafstónleikana og þeir voru hreinræktuð snilld.

Þegar Atli Heimir er skemmtilegur er hann skemmtilegastur. Og Alla turca o.s.frv var hryllilega skemmtilegt. Ari Þór skilaði fiðlukonsertinum fagurlega. og svo kom Vorblótið.

Mikið ógurlega er það magnað. Áheyrilegt og ógnvekjandi í senn, þetta er bara eitthvað það flottasta sem ég hef heyrt. Sem betur fer verður það aftur á dagskrá í nóvember. Þar verð ég.

Og svo er opið hús í Háskólabíói á morgun. Allskonar tónlist og besti trúður í heimi, hún Barbara. Mætið ef þið þorið.

mánudagur, september 03, 2007

Nasabað

Nasabað 2007

Fyrstu tónleikar Hálfvitanna í höfuðstaðnum síðan snemma í sumar. Verður almagnað!