sunnudagur, febrúar 25, 2007

(Ó)fatlafól

Fór á frumsýningu á Batnandi manni, nýjustu afurð Ármanns og Halaleikhópsins. Drullugaman bara. Lipur flétta, skondin sýn á hlutskipti fatlaðra, traustur leikur í burðarrullum, og reyndar víðar. Góð sviðssetning. Og fyndið. Til hamingju með það. Allir í Halann.

Efnisorð:

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Fréttablaðið í gær

Í grein um aldarafmæli skáldjöfursins W. H. Auden segir frá samkomu honum til heiðurs:

Þar flytja frú Vigdís Finnbogadóttir og sendiherrann Alp Mehmet ávörp um skáldið og verða ljóð hans lesin bæði á frummálinu og á ensku

Fróðlegt ...

Auden er frábært skáld. Hér er sennilega það ljóða hans sem flestir kannast við, enda notað í vinsælli bíómynd fyrir nokkrum árum. Fann það ekki á frummálinu, en enska þýðingin er afbragð.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

London I

Varríus brá sér í leikhúsferð til London í lok janúar með Huldu og Silju. Það var að vonum skemmtilegt og margt forvitnilegt bar fyrir augu. Ekki nenni ég að gera grein fyrir ferðasögunni sem slíkri. Enda er fókusinn alfarið á leikhúsinu í þessum ferðum okkar. Matur er bara til að nærast, hótel eingöngu til að hvíla sig og ef einhverjar túrista-attraxjónir ber fyrir augu þá er þeim síðarnefndu umsvifalaust lokað svo ekkert glepji nú og rugli markmiðið.

Það er dálítið í tísku að finnast enskt leikhús lítið merkilegt, og að sumu leyti er það skiljanlegt. Það sem er mest áberandi þar er ekki sérlega framsækið eða nýstárlegt, og af sögulegum ástæðum hefur leikhúsið þar bæði verið alþýðlegra og aðgengilegra en víðast hvar annarsstaðar í Evrópu.

Annað sérkenni ensks leikhúss er hin sterka staða leikskáldsins, en þar er ennþá nokkuð viðtekið það viðhorf að merking sýninga eigi upptök sín í leikritum og það sé síðan hlutverk sviðslistamannanna að túlka þá merkingu og miðla til áhorfenda. Það er kannski fyrst og fremst þetta sem gefur gamaldagsstimpilinn.

Það vekur síðan athygli að engin leikskáld eru í meiri metum hjá framsæknum leikhúsum meginlandsins en einmitt þau sem spretta úr jarðvegi hinna "gamaldags" leikhúsa Stórabretlands.

En auðvitað er þessi staðalmynd af ensku leikhúsi of einföld til að gefa rétta mynd af þessu mjög svo fjölskrúðuga leikhúslífi sem þar þrífst. Það er jú eðli staðalmynda.

Við sáum sex sýningar. Þrjár sem kalla mætti hefðbundnar og þrjár sem hver á sinn hátt sýnir nýstárleg tök á klassískum efnivið.

Svo vildi til að hinar þrjár hefðbundnu voru sýningar í West End á verkum þriggja af virtustu leikskáldum Breta af kynslóðinni næst á eftir hinum reiðu ungu mönnum sem hófu feril sinn um miðjan sjötta áratuginn. Tveir þeirra eru meira að segja orðnir "Sir", og þeim þriðja var boðið forskeytið en hafnaði því, enda mikill og góður sérvitringur þar á ferð. Allir eiga þeir sameiginlegt að hafa ekki hlotið mikið brautargengi á Íslandi.

Skemmtileg tilviljun hagaði því líka þannig að leikstjórar þessara þriggja sýninga eru tveir fyrrverandi þjóðleikhússtjórar, en sá þriðji núverandi. Þannig að hér voru stóru kanónurnar, hlaðnar og gljáfægðar.

Rock and Roll
Nýjasta leikrit Sir Toms Stoppard fjallar um vorið í Prag og áhrif þess á líf nokkurra manna, breskra og tékkneskra, og hvernig rokktónlist endurspeglar það saklausa frelsi sem alræðisvald reynir einatt að brjóta niður. Rokkið nefnilega ógnar alvaldinu, sérstaklega þegar það er ekki að reyna annað en að vera það sem það er. Saga tveggja tónlistargoðsagna kemur við sögu, droppátsins Syds Barrett og tékknesku neðanjarðarsveitarinnar með kúla nafnið, Plastic People of the Universe

Býsna glúrið leikrit og eins og Stoppards er von og vísa er það efnisríkt og margflata með afbrigðum.

Sýningin var hinsvegar alveg afleit. Fáránlega illa leikin og klunnalega sviðssett af Trevor Nunn, sem vekur furðu, þetta er jú maðurinn á bak við Cats, Nickolas Nickelby og einhverja rómuðustu Macbeth-uppfærslu síðustu aldar, þar sem Ian McKellen og Judy Dench hræddu líftóruna úr öllum viðstöddum.

Kannski er hann bara búinn að missaðað. Allavega hefði þessi sýning staðfest alla fordóma þeirra sem finnst enskt leikhús vera staðnað og einkennast af tilgerðarlegum "stjörnuleik" og skorti á hugmyndaflugi.

Eftir stendur í minningunni athyglisvert leikrit sem á betra skilið. Reyndar á Stoppard almennt og yfirleitt meiri athygli skylda en t.d. íslenskt atvinnuleikhús hefur sýnt honum. Hvar er meistaraverkið Arcadia? Og hið stórkostlega Travesties?

The History Boys
Alan Bennett er eitthvert merkasta breskt leikskáld sem aldrei hefur verið leikinn hér á landi, fyrir utan að eintal eftir hann var einu sinni notað sem einstaklingsverkefni í leiklistarskólanum, og þá eftir ábendingu frá Varríusi, sem er búinn að vera aðdáandi lengi. Nokkur verka hans eru á draumaverkefnalistanum.

Þetta hér nýjasta verk hans hefur verið lofað og rómað frá frumsýningardegi í þjóðleikhúsinu, sló í gegn á Broadway og hefur þegar verið kvikmyndað. Það fjallar um hóp af unglingum sem ætla að þreyta inntökupróf í háskóla í Oxford og Cambridge og metnaðarfullur skólastjóri fær nýjan kennara til að búa þá undir prófin. Verkið hverfist síðan um ólíka nálgun hins yfirborðskennda og pragmatíska nýliða og gamalgróins kennara sem lítur á menntun sem eitthvað sem hefur gildi í sjálfu sér.

Samúð Bennetts er greinilega hjá þeim gamla, svo mjög að þó svo örlagavaldur í verkinu sé sá ávani kallsins að bjóða nemendunum far á mótorhjólinu sínu og káfa þar á þeim þá er hann okkar maður í gegn um verkið. Tragískur auðvitað, en líka fyndinn og heillandi.

Þetta er fantagott leikrit og sýningin mjög fín hjá núverandi Þjóðleikhússtjóra, Nicholas Hytner. Reyndar var kominn nýr leikari í aðalhlutverkið í stað Richards Griffiths sem þótti stórkostlegur, en það var líka allt í lagi með nýja leikarann, og fyndið hvað hann var gerður líkur höfundinum. Flott sýning og gott leikrit. Sjáiði myndina.

Amy's View
Sir David Hare skrifaði þetta leikrit með Judy Dench í huga. Það fjallar um leikkonuna Esme og dóttur hennar Amy. Ákaflega gamaldags í formi, fjögurra þátta stofudrama um samskipti, tilfinningar og örlög. Spannar nokkur ár í lífi þessa fólks.

Og algerlega brilljant sem slíkt.

Gamla formið nýtist Hare fullkomlega til að segja merkilega hluti um þetta fólk, um fólk, tíðaranda og hjól tímans sem kremur þá sem kjósa að láta eins og það sé ekki þarna. Og um leikhúsið.

Leikstjóri hér var sá merki maður Sir Peter Hall, sem sennilega er sá núlifandi einstaklingur sem hefur mótað enskt leikhúslíf hvað mest. Hann er hugmyndasmiðurinn að baki Konunglega Shakespeareleikhúsinu, fyrsti leikhússtjóri þess, og það kom seinna í hans hlut sem þjóðleikhússtjóra að fytja það kompaní inn í steinsteypukumbaldann á suðurbakka Thames og móta það starf allt. Hann stýrði frumuppfærslunni í London á Beðið eftir Godot og var lengst af sjálfkjörinn í að stýra frumuppfærslum verka vinar síns Harolds Pinters.

Hall er þekktastur fyrir einstakt textanæmi og nánast talibanska ástríðu fyrir rytma, merkingu og meðferð hins talaða orðs. Skýrir sennilega velgengni hans í meðferð á Beckett, Pinter og aðallega Shakespeare, en nýtist hér líka. Sýningin hefur tempó og sjaldgæfan skýrleika sem gerir innihald hennar aðgengilegt - og áhugavert.

Flottur leikur, og stjörnuframmistaða í aðalhlutverkinu hjá Felicity Kendall

Semsagt: Þrjár "hefðbundnar" West-End-sýningar. Misgóðar, en þegar best lét af því kaliberi að kvart yfir því að þær séu gamaldags verður alveg ótrúlega hjáróma og missir algerlega sjónar á því hvað skiptir máli.

Þetta er nógu langur hundur í bili. Pistlar um hinar þrjár sýningarnar birtist innan tíðar.

Efnisorð:

mánudagur, febrúar 19, 2007

Massívri hálfvitahelgi lokið

Það var drullugaman. Meira að segja líka á föstudagskvöldið þó við værum ekki að spila okkar besta mót þá. Troðfullur salur og fínar viðtökur þrátt fyrir allt.

Og svo sama sagan á laugardagskvöldið, nema þá vorum við algerlega upp á okkar besta. Og það er vissulega meira gaman þannig.

Hápunkturinn: Vangaveltur Guðmundar Svafarssonar um vandkvæði við að hafa einhyrninga um borð í Örkinni hans Nóa.

Já og svo auðvitað óvænt nærvera söguhetjunnar úr einu laganna. Og nei, það var ekki Bubbi Morthens.

Efnisorð:

föstudagur, febrúar 16, 2007

Nei annars

Tæknin að stríða Rúv og engir hálfvitar í útvarpinu fyrir vikið.

Hitt stendur: Kastljósið og tónleikarnir.

Verður geðveikt!

Efnisorð:

Stóri hálfvitadagurinn

Verðum á rás 2 milli 4 og 6 í dag. Spilum 3-4 lög skilst mér.

Og svo kemur eitt kvikindi í Kastljósinu.

Rósenberg kl. 22 - verður magnað.

Æfðum nýtt lag í gær. Það var fyndið.

Efnisorð:

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Þar sem átta hálfvitar koma saman...

Stórsveitin Ljótu hálfvitarnir spæla lögin sín á Rósenberg föstudax- og laugardaxkvöld. Byrjum kl. 22.00, fúsundkall inn. Við erum í banastuði og lofum góðu giggi.

Tókum upp eins og eitt lag fyrir Kastljósið í gær. Veit ekki nákvæmlega hvenær það verður sent út.

Já, og svo er komið spjallkerfi á hálfvitavefinn. Og Ástralíukind. Og lag á mæspeisið.

Jeij!

Efnisorð:

mánudagur, febrúar 12, 2007

Tónlistarrant og eilíf hamingja

Ég fór á Eilífa hamingju í gærkveldi. Það var svona líka ljómandi gott og skemmtilegt. Einhver albesta sýning leikársins og alveg örugglega besta nýja íslenska leikritið hvað af er leikárs.

Gagnrýnin á ímyndar- og markaðshuxunarháttinn er að sönnu nokkuð grunnhyggin, en hvað með það, þetta er gamanleikur með breiðum pensilförum og þá er allt í lagi þó stundum sé farið út fyrir línurnar í litabókinni. Og breski leikhúskallinn kemur málinu ekkert við en það gerði heldur ekkert til því hann var svo morðfyndinn.

Já og svo þoooli ég ekki þegar Perfect day er notað sem áhrifstónlist. Álíka jaskað og upphafið á Carmina Burana.

Allir á hamingjuna.

Fór líka á Abbababb en Mogginn greiðir fyrir fyrstu fréttir af skoðunum mínum á því svo það verður ekki meira sagt um það hér.

Já og svo fór ég í Stykkishólm með hálfvitunum. Var það mikil frægðarför og gríðarleg stemming í fertuxafmælinu sem við vorum að skemmta. Það er gaman þegar er gaman.

Öllu minna gaman var svo að kíkja á X-factor í sjónvarpinu. það er einhvernvegin engin stemming í þessu. Hvort það er forminu eða stjórnendunum að kenna eða hvort þetta er bara eðlileg Idol-þreyta er ekki gott að segja.

En hvernig getur verið að þaulreyndur söngvari eins og Páll Óskar og útsmoginn poppmörður eins og Einar geti hlustað á jafn pitch-villtan söngvara og einn þátttakandinn er, án þess að hafa orð á því?

Og hvort er verra: a)Þeir heyrðu þetta hvorugur eða b)Þeir heyrðu það en finnst það ekki skipta máli.

Annars á ég ekki að vera að blogga um söngkeppnir. Þær eru óþolandi og ýta undir stöðlun og geldingu tónlistarlífsins. Fyrir utan hvað þær ýta undir þann vonda tendens að hampa söngvurum langt umfram mikilvægi þeirra í tónlistarsköpun.

Núna eru allir rasandi yfir því hvað Evróvisjónlögin eru upp til hópa léleg. Væri kannski meira af góðum lagahöfundum að leggja sig meira fram ef þeir nytu virðingar og viðurkenningar í samræmi við mikilvægi?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Heimsmeist

Ná Tyrkir að hrifsa heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu af georgísku krossförunum? Heimsbyggðin stendur á öndinni. Allt skýrist í kvöld.

Smá forskýringu er að finna hér.

Ítalía smítalía.

Öppdeit: Tyrkir náðu ekki að ræna neinu í þessari ferð. 1-0 fyrir Grúsíumenn. Næsti leikur þeirra verður á útivelli við sjálfa konunga heimsmeistarakeppninnar, Skota, sem hafa öðrum þjóðum oftar hampað þessum titli. En titillinn er óhultur í Tiblisi til 24. mars.

Mér finnst að Íslendingar eigi að setja sér það markmið að ná þessum titli. Stýra t.d. vináttuleikjum í átt að viðkomandi liðum. Það væri nú ekki leiðinlegt að vera heimsmeistari í fótbolta?

Efnisorð:

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Ynjurnar

Mér fannst gaman á Bakkynjum. Mér fannst sviðssetningin hugvitsamleg, tónlistin flott, meðferð kórljóðanna krassandi og leikmyndin snjöll. Mín vegna hefði þýðingin mátt vera háfleygari, enda er hér ekkert hversdagsskraf á ferðinni.

Hér er fjallað um öflin í mannlífinu, þau sem við eigum að geta stjórnað og hin sem við ráðum ekki við, sama hvað við rembumst. Og afleiðingarnar af því að rembast bara samt. Og í sönnum grískum anda er niðurstaðan auðvitað sú að hvortheldur sem er þá verðum við að þekkja þau og sýna þeim virðingu. Hvort sem við köllum þau Dýonísos, undirmeðvitundina, Karma eða DNA.

Þetta var sosum ekkert fullkomið. Tilraunamennskan í raddbeitingu er sjálfsagt þénug fyrir leikara sem eru fastir í skúffu, en ólíkt var nú alltaf meira gaman þegar maður fékk einfaldlega innihaldið beint í andlitið án viðkomu í effektaboxi leikstjórans. Þess vegna var þáttur Sigurðar Skúlasonar einn af hápunktum verksins, en hann hoppaði nýlega inn í sýninguna.

Og atlögur að fyndni á kostnað hátíðleikans voru ámátlegar og óeinlægar. Reyndar er ég kannski of góðu vanur í þessum efnum, er t.d. nýbúinn að sjá sýningu hjá Kneehigh sem eru ríkjandi heimsmeistarar í að skjóta aulafyndni inn í alvarlegustu sitúasjónir þannig að bæði blómstri. (þau hafa líka glímt við Ynjurnar) Og hógværðin ein hindrar mig í að rifja upp hverjir eru Íslandsmeistarar í þessari brellu.

Alvarlegasti bresturinn er samt að mínu mati að þeim félögum og samstarsfólki þeirra hefur mistekist að búa til trúverðugt ástand á hinar trylltu bakkynjur. Það er reynt að toga það í allar áttir í senn: sálfræðilegt raunsæi, nútímadans, klassíska stílfærslu, dýraspuna. Útkoman er að sönnu óskapnaður, en hann miðlar ekki tilfinningu fyrir ástandi þeirra til áhorfenda. Og sýningin er fyrir okkur, ekki þátttakendurna. Það erum við sem borgum miðann í Kaþarsis-geðhreinsistofuna (ekki ég reyndar, en það skiptir ekki máli).

En hvað - mér þótti sýningin lifa þessa alvarlegu vankanta af. Hún hélt mér rígföstum og hreyfði við mér. Það dugar.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Rýnarýni

Og úr því við erum að tala um gagnrýni þá er hér gagnlegt yfirlit um hvernig lesa má hina raunverulegu meiningu út úr dulkóðuðum texta rýnanna.

Blogger er búinn að uppfæra sig. Ein afleiðingin virðist vera íslenskustafafokk í tenglalistanum. Allavega á mökkum. PC-lesendur mega alveg láta mig vita hvort það sama gildi hjá þeim. Má ekki vera aððí að finna út úr því, né heldur að fara í löngu tímabæra endurnýjun á listanum.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Heim í vatnsglasið

Maður bregður sér út fyrir landsteinana og fréttir svo í fríhöfninni við heimkomuna að það logi allt í deilum um ástandið í leikhúsum landsins.

Það reynist síðan vera hin hefðbundna hystería sem grípur um sig þegar nokkar sýningar helstu leikhúsa reynast, með stuttu millibili, ekki vera gargandi snilld. Móðursýklarnir hafa það sér til málsbóta að vegna örsmæðar leikhúsheimsins hér þá geta þrjár vafasamar sýningar í Þjóðleikhúsinu í röð virkað eins og meiriháttar krísa.

Alveg þangað til menn anda með nefinu og horfa á samhengið.

Og svo var þetta auðvitað strax farið að snúast um gagnrýnendur. Hvort þeir væru nógu faglegir. Hvort þeir kynnu að fara með vald sitt.

Ef einhver veit hvaða gagn orðið "faglegur" gerir í þessu samhengi þá má viðkomandi láta vita.

Og þetta með valdið lyktar alltaf af þeirri tilhneygingu leikhússins að líta á skrif gagnrýnenda sem hluta af kynningarstarfsemi sinni. Sem órólegu deildina á auglýsingastofunni.

Kom heim með leikdómasafn Kenneth Tynan. Hollt lesefni öllum sem skrifa um leikhús. Líka þeim sem skrifað er um.

Var hann "faglegur"? Hafði hann alltaf vald sitt í huga þegar hann skrifaði?

Hefur nokkur dagblaðsrýnir nokkurntíman gert leikhúsinu meira gagn?