þriðjudagur, nóvember 25, 2008

"Vegna þess að það er ekki hægt"

Það var magnað að horfa á borgarafundinn. Ekki endilega af því að þar hafi svo margt komið fram, heldur hitt að svona fundur skuli vera haldinn. Síðustu fundir hafa vafalaust kennt Gunnari og félögum margt, og enn má slípa og ydda.

En ef ég væri pólitíkus myndi ég tala hástöfum um gildi og gagnsemi fundarins, hrósa skipuleggjendum og þátttakendum í bak og fyrir og tilkynna að ég myndi beita mér fyrir því að slíkir fundir yrðu að árlegum, formlegum viðburði. Eða allténd styðja við bakið á grasrótarhreyfingu Gunnars og co. til að koma slíku skipulagi á.

Auðvitað skilar svona fundur ekki miklu öðru en yfirborðskenndu ágripi. Hann gefur ekki kost á "Follow-up" spurningum, sem gefur pólitíkusunum ætíð nokkuð auðvelda undankomuleið. Gott dæmi var vandlætingarræða forsætisráðherra um "Norska hernaðarsérfræðinginn".

Gefum Geir orðið:
"Aðeins út af þessum svokallaða norska hernaðarsérfæðingi. Þá er nú enginn slíkur í vinnu hjá mér. Ég er með norskan mann á mínum snærum til að hjálpa mér að glíma við erlenda blaðamenn. Það má vel vera að hann hafi einhverntíman verið í norska hernum eins og flestir norðmenn, ég bara þekki það ekki. En þetta tal um þennan ágæta mann er fjarstæðukennt rugl, fyrirgefiði."

Nú finn ég ekkert á netinu um tengsl Bjorns Richard Johansen við herinn, en man eftir fréttum um að hann hefði unnið verkefni fyrir hann. Þannig að ef til vill er orðið "hernaðarsérfræðingur" fullmikið sagt. Man það bara ekki. En Geir væri nær að gera grein fyrir hver tengsl Bjorns og hersins eru nákvæmlega frekar en gefa í skyn að þau felist í því einu að hann hafi gegnt herskyldu eins og aðrir norskir karlmenn.

Og hvernig samræmist viðtalið þar sem Bjorn Richard talar um hve traust símkerfið er og viðbúnaðaráætlun NATO, því að maðurinn hjálpi við að "glíma við erlenda blaðamenn". Hér er Geir klárlega að stilla honum upp í "okkar lið" og spila á þjóðrembinginn.

Fyrir nú utan orðhengilsháttinn "enginn slíkur í vinnu hjá mér ... Ég er með norskan mann á mínum snærum." Eins og ekki sé ljóst við hvaða mann sé átt. Ef hann er ekki hernaðarsérfræðingur, hvernig væri þá bara að segja það? Jafnvel útskýra á hverju sá "misskilningur" byggist.

Eftirfylgnispurningar hefðu t.d. tekið á þessu, svo og komið inn á störf mannsins í áróðursdeild Glitnis, og náin samvinnutengsl við Bjarna Ármannson og Birnu Einarsdóttur.

En formið leyfir þetta ekki. Reyndar eru svona follow-up oft í hálfgerðu skötulíki í venjulegum viðtölum líka, hefur manni fundist. Smá vísvitandi misskilningur og svör út í sumartungl eru of oft látin sleppa.

Svona fundir eiga hinsvegar vel að geta orðið hugmyndakveikja. Einhver kastar einhverju fram, mögulega ómótuðu, jafnvel óframkvæmanlegu í upprunalegri mynd. En næsti maður grípur leirinn, hnoðar hann og kastar til baka. Þangað til er orðið eitthvað gagnlegt og fallegt. Eða þá að hún er slegin út af borðinu með ástæðum. Skýrum, óhrekjanlegurm rökum fyrir að hugmyndin sé óframkvæmanleg, óúrvinnanleg, skaðleg jafnvel.

Gunnar fundarstjóri kastaði einni slíkri hugmynd upp: Að þjóðin kysi sér fulltrúa til að sitja sem áheyrnarfulltrúar á ríkisstjórnarfundum og öllum þeim nefndum sem skipaðar verða til að fjalla um ástandið, orsakir þess og afleiðingar.

Hér hefði draumastjórnmálamaðurinn sagt: "Þetta er mjög athyglisvert. það eru [svo og svo] mkilir annmarkar á að við getum gert þetta. Sumt er trúnaðarmál sem rætt er á svona fundum og blabla og bleble. En hugsum þetta lengra.

Eða: Þetta er því miður óframkvæmanlegt í nokkurri mynd. Það er vegna þess að (hér kæmu svo skotheld rök).

En hvað gerðist á fundinum:

Hvorki Geir né Ingibjörg minntust á tillöguna.

Þegar þau höfðu lokið sínum svörum, og röðin komin að Þorgerði Katrínu sagði Gunnar:

"Þið hafið hvorugt svarað spurningunni um það hvort þið vilji leyfa okkur að vera áheyrnarfulltrúar hjá ykkur."

Þorgerður:
"Gunnar, þú spurðir um tvo áheyrnarfulltrúa á ríkisstjórnarfundum. Ég nenni ekki að vera að tala í kringum þetta. Það bara erekki hægt.

(kurr í salnum)

Nei.


Það er hinsvegar ljóst eftir að hafa hlustað á ykkur tala og ýmsa aðra á liðnum vikum að það þarf að tala skýrar, það þarf að upplýsa betur og ég held að það sé fyrst og fremst það sem við þurfum núna að fara að gera, við þurfum að tala betur við ykkur, við þurfum að upplýsa fólk hvað við höfum verið að gera og hvað við ætlum að gera. Við þurfum að tala skýrar, það hafa verið okkar mistök núna á nýliðnum dögum."


Berið feitletruðu ummælin saman við hina ágætu auglýsingu Leturprents þar sem fjölritunareinyrki Jóns Gnarr svarar viðskiptavini í síma. Nánast orðrétt eins. Og svo bætir hann við: "Það er svolítið mismunandi hvað viðskiptavinir eru frekir"

En áfram hélt Gunnar.

Gunnar:
Ókei, takk fyrir þetta. Ég ætla bara eldsnöggt að spyrja hérna, af því að ég er svolítill tossi. Hvað með nefndirnar? Af hverju megum við ekki hafa áheyrnarfulltrúa í þeim, sem á að fara að setja á stofn, t.d. sem á að fara að rannsaka bankana og allt þetta."

Þorgerður:
"Það er bara ... þingið kemur og tekur til þess og við ræðum þetta núna vonandi í vikunni, eins og ég sagði áðan, ég vil ekki að við dveljum lengi við þetta, og þingið kemur til með að taka afstöðu til þess, og ég vonast til þess og tek undir eins og Þorvaldur [væntanlega Gylfason, innskot Varríusar] sagði áðan, ég vonast til að fá líka erlenda sérfræðinga að því borði."

Stíllinn minnir svolítið (og óþægilega) á ónefndan ríkisstjóra í Alaska sem við höfum öll verið að hlæja að síðustu mánuði, ekki satt?

[...]

Össur talaði næstur, og kom inn á tillöguna, þannig:

Össur:
"Aðeins um nefndina, aðeins um ríkisstjórnina og fulltrúa þar. Ég hef alltaf verið talsmaður beins lýðræðis. Ég hef lagt fram á alþingi tillögur um það og ... búum við ekki í nútímalegu samfélagi þar sem eru fjarskipti ..."

Gunnar:
"... Ertu að segja að nefndin gæti komið til ..."

Össur:
"... Ég er að segja það að ég hef lagt fram tillögur um það eiga að vera þjóðaratkvæðagreiðslur um Netið um stór mál og smá. Það er að láta fólkið ráða."

Gott mál í sjálfu sér - og (fjar)skylt tillögunni. En ekki gerir hann grein fyrir hvað er að hugmyndum Gunnars, og hvað þurfi til að gera þær betri.

Þórunn Sveinbjarnar passaði. Og Kristján Möller tók við:

Kristján:
"Þú talaðir um það, Gunnar, áðan að þú vildir að fundurinn yrði kurteis og þetta yrði heiðarlegt og þetta yrði skemmtilegt og þetta yrði ærlegt. þetta er fínt, þetta er gott, gott markmið. Ég held líka að þetta þurfi að vera raunverulegt. Eins og hugmynd þín um tvo í ríkisstjórn, sem að þú myndir þá vera annar eða eitthvað svoleiðis eða einhver myndi kjósa. það er því miður ekki raunverulegt."

Gefum okkur nú að Kristján hafi átt við "raunsætt" þegar hann sagði "raunverulegt", svo við þurfum ekki að afskrifa hann sem algeran kjána. Hann hefði samt átt að drullast til að útskýra af hverju nákvæmlega tillagan var ekki raunsæ, án þess að eftir því væri gengið sérstaklega.

Og af hverju hann hélt að það væri verið að tala um tvo fulltrúa "í ríkisstjórn", og að Gunnar hyggðist vera annar þeirra ber annaðhvort vott um skort á eftirtekt eða óþverralegt trikk til að grugga vatnið. Ekki minntist hann á nefndirnar.

Gunnar svaraði:

Gunnar:
"Nei, bíðiði aðeins, fyrirgefiði það var heldur ekki raunverulegt sem gerðist hér fyrir sex vikum síðan hérna á Íslandi sko, eða fyrir átta vikum síðan. Það átt enginn hérna á þessum kanti hérna samkvæmt því sem ég best veit von á því. Þannig að það er ekkert hægt að segja svona þegar koma nýjar hugmyndir. Það á bara að reyna að taka þær og nota þær."

Hárrétt. Það er skiljanlegt að ekki sé hægt að dvelja endalaust við svona mál á fundi með margt á dagskrá. Það er líka skiljanlegt að þeir sem svara séu ekki með fullmótaðar gagnhugmyndir.

En ef menn segja afdráttarlaust "þetta er ekki hægt" hljóta menn að vita af hverju og ber að útskýra það.

Undanskot, útúrsnúningar og semingur eru nákvæmlega það sem trausti rúnir stjórnmálamenn hafa ekki efni á. Né heldur að ansa ekki hugmyndum sem settar eru fram í einlægri tilraun til að bæta andrúmsloftið og vinnubrögðin.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Afsakiði meðanaðég

Sumir hafa brugðið fyrir sig hinni mögnuðu lykilsetningu úrParadísarfuglinum þegar þeim hefur ofboðið undanfarið.

Áðan meðanað ég var að ryksuga með iPodinn á slembivali brast þetta magnaða prótópönklag á. Og í ljós kom að það er jafnvel enn betur til þess fallið að tjá reiði og hneykslan en þessi eina lína vitnar um:

En hann sem vissi allt var ómálga
afsakiði meðanað ég æli.

Svo mörg voru þau orð.


Vafalaust veit einhver t.d. svarið við spurningunni: Hverjar eru líkurnar á að einmitt sá einstakllingur af öllum þeim sem eiga ógreiddar sektir sem jafnframt flaggaði bónusgrísnum á alþingishúsinu var tekinn úr umferð daginn fyrir mótmæli viku síðar?

Og sennilega eru þeir til sem trúa því að þetta stafi af einhverskonar tæknilegum mistökum, og þau hafi óvart hitt fyrir þennan eina mann af okkur 300.000 sem hafði tekið þátt í þessum mótmælum.

Ef einhver tekur þá skýringu gilda og málið útrætt þá (setjið eigin móðgun um greind og/eða þjónkun viðkomandi inn hér) og hananú!

PS: hver svo sem útkoman úr þessu öllu verður: Ef auðmenn dagsins í dag verða ekki öreigar eftir uppgjörið þá hefur það mistekist.

föstudagur, nóvember 21, 2008

Áhugamennskan rúlar!

Hvernig hefði þetta banka- og samfélagshrun verið án internetsins? "Öllu þægilegra fyrir vald- og auðhafa" er stutta svarið.

Það er ljóst að umræðan og úrvinnslan á því sem frá auð- og stjórnvöldum kemur fer fyrst og fremst fram í bloggheimum. Sumt af því er vitaskuld bara hávaði. En innanum er efni sem er klárlega skrefi á undan hefðbundnum fjölmiðlum, sem eru bundnir af forminu, útsendingar- og prenttímum, hefðum og venjum, þörf á að halda góðu sambandi við ráðamenn, á köflum af hagsmunum eigenda sinna og tengslum við stjórnmálaöfl, og þokukenndum hugmyndum um fagmennsku.

Fagmennska, smagmennska. Amatörinn rúlar! Frelsi hans og viðbragðsflýtir er það sem drífur umræðuna áfram.

Hvar er t.d. svar hefðbundinna fjölmiðla við þessu yfirliti Baldurs McQueen yfir álitamál og ósvaraðar spurningar undanfarinna vikna?

Og hefur nokkur fjölmiðill með allt sitt starfslið og tækni roð í Láru Hönnu?

Og nú að íþróttum:

Arsenalnöttarinn Robin Van Persie tryggði Hollendingum heimsmeistaratitilinn í í knattspyrnu á miðvikudaginn með tveimur mörkum í 3-1 sigri á Svíum. þar með er ljóst að baráttan um titilinn næstu misseri verður milli niðurlendinga og félaga þeirra í riðli níu: , Skota, Norðmanna, Makedóna og Íslendinga!

Við verðum bara að vona að Hollendingar haldi titlinum í næsta vináttuleik sínum, sem verður útileikur gegn Túnismönnum í febrúar. Möguleikar Íslands á heimsmeistaratitli hafa aldrei verið betri!

mánudagur, nóvember 17, 2008

Hvað er að gerast?!

Ég er frekar tilbúinn til að gefa stjórnvöldum svigrúm. Ástandið er erfitt, það er margt að gera og þeir sem vinna verkið þurfa svigrúm.

Auðvitað væri betra ef þau ómökuðu sig oftar til að tala við okkur, og enn betra ef þau væru ekki svona oft staðin að spuna, hálfsannleik og lygum.

En ég er ekki frá því að spássíukrotið á viljayfirlýsingu Davíðs og Árna M. til IMF sé kornið sem stíflar stólpípuna.

Textinn sem krotið vísar í er eftirfarandi:
Hluti af framkvæmdinni er einnig mat á því hvort stjórnendur og helstu hluthafar hafi gerst sekir um afglöp i rekstri eða misnotkun á bönkunum.
Og krotið er svona:




Gefum okkur að DV-menn hafi ekki krotað þetta sjálfir.

En stendur alltsvo ekki til að meta hvort stjórn Seðlabankans hafi gerst sek um afglöp? Krafan hefur reyndar verið að þeir fari frá nú þegar - niðurstaða slíks "mats" blasi við öllum sem geta lesið og/eða horft á sjónvarp og/eða hlustað á útvarp.

Minnir ískyggilega á atriðið í In the name of the father þegar verjandi íranna finnur möppu hvar á stendur "Not to be shown to the defence".

Hversu geðveikir eru menn?

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Heyrðu mig Halla, hvað ert þú að bralla?

Ekki veit ég hvort síðasti póstur hafi náð að skapa fjöldahreyfingu, en Varríus er þakklátur meistara Agli fyrir að krækja á áskorunina um að allir axli sína ábyrgð.

Það er fullt í gangi í umræðunni. Vikulega birtast snjallir hagfræðingar hjá Agli með tillögur um patentlausnir. Sigrún Elsa Smáradóttir kom með athyglisverð rök fyrir frystingu verðtryggingar.

Engin merki eru um að neitt sé gert með þessar hugmyndir til eða frá.

Áðan var í Silfrinu gamall lærifaðir Varríusar, Vilhjálmur Árnason og var hreint frábær, eins og hans er von og vísa. Ef einhvern langar að sannfærast í eitt skipti fyrir öll um óréttlæti kvótakerfisins þá ætti viðkomandi að skreppa á netið og hlusta á Vilhjálm salla þá tilhögun niður.

Og ef einhvern langar ekki til að sannfærast um óréttlæti kvótakerfisins þá ættu velunnarar að teipa viðkomandi niður í lazyboyinn og súperglúa heddfóna á hausinn á honum og svo hann geti hlustað á Vilhjálm salla þá tilhögun niður.

Og svo ættu allir að bregða sér á blogg Höllu Gunnarsdóttu og lesa stórbrotið ljóð hennar, Kæri Björgólfur.

Eins og Björn Bjarnason, svo ég nefni nafn af handahófi úr þjóðskránni, hefur gert. Og gerir vitaskuld að umtalsefni á bloggi sínu. Og mislíkar klárlega.

Örugglega í fyrsta sinn sem blaðamenn á mogganum gera sig gildandi í þjóðmálaumræðunni. Og leyfa sér að yrkja ljóð.

Vonandi verður ekki framhald á þessum óskunda!

Annars er Björn með afbrigðum skarpskyggn þjóðfélagsrýnir. Daginn áður en Halla stígur á hans ljóðrænu líkþorn kemst hann t.d. að rótum óánægjunnar með upplýsingaflæðið frá stjórnvöldum. Gefur Birni orðið:
Krafan um upplýsingamiðlun af hálfu stjórnvalda er hávær og mikil. Hún stafar meðal annars af því, að þjóðin treystir ekki einkareknum fjölmiðlum til að segja alla söguna - þeir eru allir í eignarhaldi, sem tengist bankahruninu á einn eða annan  hátt.
Leturbreytingar Varríusar
Og þar höfum við það. Einfeldningslegar skýringar á reiði almennings, eins og að yfirvöld tali hálfsannleik, snúi útúr og viti jafnvel ekki svörin, eru auðvitað húmbúkk við hliðina á hinni göfugu Baugsmiðlaskýringu.

Við erum greinilega í góðum höndum.

Og í tilefni af magnþrungnum sigri um helgina verður Halla Gunnars að deila sætinu sem Kona dagsins á Varríusi með puttakonunni ógurlegu:



Ef einhver vill samsama sig henni og sjá fyrir sér einhvern annan en Giggs til að senda fingurinn þá gerir viðkomandi það á eigin ábyrgð. Hvorki ég né Björn viljum neitt af því vita.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Öxlum ábyrgðina!

I could have known
I should have known
I didn't know


Svona hljóðaði málsvarnarmantra Alberts Speer, einkavinar Hitlers og stríðsmálaráðherra. Með þessum orðum firrti hann sig ábyrgð á helförinni. Um sannleiksgildi síðustu línunnar hafa margir efast, og engin spurning er að hann vissi um margt voðaverkið, sem sum hver voru klárlega á hans verksviði - og ábyrgð.

Það er mikið talað og spunnið um ábyrgð þessa dagana. Við viljum draga til ábyrgðar þá sem það eiga skilið.

ahhh!

Þetta var byrjunin á löngum og (mögulega) leiðinlegum pistli sem ég ætlaði að skrifa. Þar ætlaði ég m.a. að koma inná hið svívirðilega "spin" sumra valdamanna og -kvenna að það að vera að gera eitthvað í málunum væri "að axla ábyrgð" .

En ég nenni ekki að skrifa þennan pistil.

Þess í stað ætla ég að reyna að starta trendi. Vona að lesendur Varríusar fylgi í kjölfarið.

Ég ætla að axla mína ábyrgð.

Björgólfur vildi meina í moggaviðtalinu fræga að pupullinn hefði eytt og spennt og þessvegna værum við í klandrinu.

Ef við gerum öll grein fyrir okkar þennsluhvetjandi uppátækjum og öðru fjármálatengdu siðleysi má gera ráð fyrir að vegvilltir stjórnmála- og braskmenn fylgi góðu fordæmi, eða hvað?

Svo hér kemur það:

Við höfum hvorki kosið Sjálfstæðis- né framsóknarflokk. Ég hef kosið Samfylkingunna, konan mín ræður sjálf hvort hún ljóstrar upp um hvað hún kýs.

Við hjónin stækkuðum við okkur húsnæði, þó við strangt tekið kæmumst alveg fyrir í risíbúðinni góðu. Tókum einar 6 milljónir að láni til 20 ára. Þetta var hjá Íbúðarlánasjóði og rétt áður en húsnæði byrjaði að hækka fyrir alvöru. Greiðslubyrðin er alveg viðráðanleg.

Við höfum farið nokkrum sinnum til útlanda undanfarin ár. Stundum jafnvel bara til að skemmta okkur.

Ég hef keypt mér nokkur hljóðfæri. Sum dýr (fagottið mitt) sum tilgangslaus (helvítis sekkjapípan).

Fólksbíl einn notaðan keyptum við. Búin að borga hann fyrir nokkrum mánuðum.

Almennt séð höfum við auðvitað notið góðs af sérkennilegu gengi, mögulega borðað betri mat en við áttum skilið, keypt fleiri bækur, CD og DVD en var beinlínis í þjóðarhag og almennt nýtt kaupmátt okkar í samræmi við það sem efni virtust standa til.

Fyrir nokkrum árum þáði ég boð ríkisins um að kaupa hlutabréf gegn skattaafslætti. Þau bréf eru nú að engu orðin. Ég skæli ekki yfir því, en óneitanlega þykir mér mennirnir sem stjórnuðu viðkomandi fyrirtækjum hafa staðið sig illa.

Þetta er alltsvo mín ábyrgð - hver er þeirra?

Og hvar er þín?

Varríus hvetur lesendur sína til að axla sína ábyrgð og játa góðærissyndir sínar. Við getum ekki krafist þess af öðrum sem við treystum okkur ekki í sjálf

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Ameríka

Ég fylgist nú ekkert rosalega vel með amerískri pólitík. Les að staðaldri tvö blogg (hægri og vinstri) og svona eins og eitt vefrit (neutral).

Tekur svona tíu mínútur á dag.

En að hlusta á Andrés Magnússon þylja óáreittur klisjur úr Fox News eins og um staðreyndir væri að ræða um forsetaframbjóðendurna, baráttuaðferðirnar og fjölmiðlaafstöðuna í kastljósi áðan var súrrealískt.

"Enginn veit hver þessi Obama er". Já, allavega ekki þeir sem hafa lesið hvoruga sjálfsævisöguna.

"Palin er lögð í einelti út af kynferði". Fyrsta sinn sem Andrés hefur áhyggjur af svoleiðis. Og auðvitað höfum við allar upplýsingar um hana, hún er nefnilega búin að halda ... eh engan blaðamannafund.

"Obama er lengst til vinstri" Já, þess vegna eru svona margir íhaldskjósendur að flykkjast um hann.

"McCain rak hófstillta kosningabaráttu". Já, sérstaklega þegar hann og Palin líktu Obama við terrorista, marxista og ýttu undir þá sögusögn að hann væri múslimi.

Og í nafni hlutleysis (eða þekkingarskorts) hlustaði Sigmar á þetta allt saman jánkandi.