miðvikudagur, maí 31, 2006

Kominn til að sjá og sigra

Gott að koma heim eftir hina ógurlegu svaðilbjarmalandsför. Fyrr eða síðar mun ég gera henni einhver skil hér, á eftir að finna upp formhjólið. Svo er náttúrulega hægt að fá impressjóníska mynd af henni af sms-unum sem birt voru á hugleiksvefnum.

Hér virðist allt vera eins, þó svo júróvisjón hafi tapast og nýir vendir sópi nú ganga Ráðhússins. Já og að uppáhaldslið margeirs hafi marið sigur yfir mínum mönnum meðan Lipetsk-hæglestin vaggaði mér í ró.

Það er nett óraunveruleikatilfinning yfir hversdagsleikanum í augnablikinu eftir að hafa verið fjarri honum svona lengi í landi hins kirillíska leturs og stranglega framfylgda skipulagsleysis, hinnar blóðugu sögu og dvergvöxnu þjónustulundar. Hinna speisuðu fjarlægða, útkúkuðu klósetta og hlýlegu vina,

Gaman samt að fara.

mánudagur, maí 15, 2006

Allskonar

Söngprógramm Hugleiks var nákvæmlega eins og ég vildi að það væri. Sem var eins gott, því núna er ég hættur að ráða þar nokkrum hlut, enda kominn nýr formaður, hinn fjölvísi og hæfileikaríki Siggi Páls!

Góður aðalfundur á föstudag þar sem staðfest var að leikárið sem er að klárast var einhver mesta snilldarár í sögu félaxins.

Svo fór ég á Átta konur og þótti það heldur miður.

Nú þyki ég frekar lélegur feministi en ef átti að láta kvennablóma Þjóðleikhússins njóta sín var þá virkilega ekki hægt að finna bitastæðara stöff en myglaðan franskan sakamálaskopleik, skrifaðan af karlmanni hvers viðhorf til kvenna verður best lýst á kurteisan hátt sem ... frönsku?

Allar hafa þær eina hlið. Þá sem skilgreinir þær út frá karlmanninum. Eiginkonan, systirin, viðhaldið, þjónustustúlkan, tengdó, dóttir...

Þær eiga sér ekkert annað líf. Þær girnast hann, hata hann, féfletta hann, myrða hann. Allt snýst um hann. Án hans eru þær ekki til.

Ofan á það bætist svo að "hann" er stjarna sýningarinnar. Kristján Ingimarsson hamast og heldur kvennaoktettinum á floti. Í hálfu kafi þó.

Og lárviðarskáldið yrkir hnittna söngtexta, þó það nú væri.

Hins vegar eru umsagnir gagnrýnendanna á Margt smátt komnar á leiklistarvefinn. Þeir Þorvaldur og Þorsteinn voru ansi snöfurmannlegir í dómum sínum. Samt greinilega svolítið hættulegt að dæma svona: Þannig er óheppilegt að kvarta yfir skorti á kómískum rythma í Bara innihaldið á grundvelli sýningar með jafn tíðum textaklikkum, sem flinkir leikararnir voru reyndar dugleg að breiða yfir.

Já og spaugilegt að hvetja höfund Friðardúfunnar að halda áfram að skrifa, eins og þar fari efnilegur byrjandi en ekki fjölmenntaður og þaulreyndur höfundur.

Geri ráð fyrir að ég hafi oftar en einu sinni gert mig sekan um samskonar gönguferðir í spínatinu.

En þarfyrirutan var þetta helvíti gott hjá strákunum.

Og þá er að skreppa til Rússlands. Vona að fjarvera mín setji ekki Arsenal úr stuði, og Silvíu Nótt og Lordi takist að setja mark sitt á Júró. Já og að kosningarnar fari skikkanlega.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Síðasta lag...

... aftur stóð ég í eldhúsi mínu í hádeginu, og steikti að þessu sinni beikon. Og enn brestur á fagur söngur kl. 12.17 eða eitthvað. Að þessu sinni kona og kór að syngja Elín Helena eftir eitthvað merkilegt ljóðskáld sem ég man ekki hver er. Ekkert spes lag reyndar, en flottur sópran.

Og nafnið: Þórunn Guðmundsdóttir!

Þeir sem misstu af þessu geta komið í kvöld í Þjóðleikhúskjallarann kl. 21 og hlýtt á Svanasöng að Sinni - þ.e. síðustu dagskrá Hugleiks þar þennan veturinn. Þar syngur m.a. Þórunn þessi.

Og margt fleira, þ.á.m. Varríus taka villt sóló á óbó.

Og áður en ælupokarnir eru sóttir þá gaf helsti óbóleikari Mývetninga mér leyfi til að gera þetta aftur í kvöld, þó svo hann ætli að taka sjálfur þátt í prógramminu að þessu sinni.

Sjáumstíkvöldöll!

PS: Dorrit rokkar!

mánudagur, maí 08, 2006

Víða er vöngum velt

Ásta Gísladóttir er kona óvitlaus. Hér veltir hún vöngum um áhugaleiksýningu ársins og samskipti áhuga- og atvinnuleikhúsfólks.

Á sama tíma ögn vestar situr önnur stórgáfuð stúlka og má vart vatni halda yfir Systrum.

Og á ótilgreindum stað situr enn ein kostakonan og tjær sig um sama efni.

Síðasta lag fyrir fréttir

Fór heim í hádeginu eins og ég geri oft þar sem ég vinn í næsta húsi við heimili mitt. Kveiki á útvarpinu og er að dunda við að smyrja rúgbrauðið þegar síðasta lag fyrir fréttir brestur á. "Þetta er alveg óvenju falleg rödd" hugsa ég. Eðlileg, björt og blessunarlega laus við Corteska tilgerð. Og svo skildi maður textann.

Hver skyldi þetta nú vera?

Það skal tekið fram að ég er ekki raddglöggur maður, og þessvegna varð ég þetta líka hissa (og þó ekki), stoltur og glaður þegar lagið var afkynnt.

Hver nema helvítis hundurinn!

Og á morgun er tónlistardagskrá Hugleiks í Þjollakjallaranum.

Tilviljun?

Jú tell mí.

sunnudagur, maí 07, 2006

St. Totteringham's day

er loxins runninn upp. Og síðasti dagur Arsenal á Highbury. Missti af leiknum, sem virðist hafa verið viðhæfi, drama og þrenna frá markakónginum Henry.

Var kjörinn í stjórn Bandalagsins.

Síðasta sýning á Systrum í kvöld - allavega fram á haust.

Ýmislegt í gangi semsagt.

Og Hugleikur búinn að fara í sína Keflavíkurgöngu.

Meira síðar um alla þessa viðburði.

föstudagur, maí 05, 2006

Lítið eitt

Það er ástæða til að minna á og hvetja til mætingar á Margt smátt, einþáttungahátíð Bandalagxins og Borgarleikhússins á litla sviði hins síðarnefnda núna í kvöld. Þarna verða einhver tólf stykki frá átta félögum að ég held.

Hugleikur verður með þrjú stykki, Kratavar og Hannyrðir eftir Sigurð "Guacamole" Pálsson og Í öruggum heimi eftir Júlíu "Jellobiafra" Hannam. Missið af þeim á eigin ábyrgð.

Varríus leikur lítið hlutverk í einu þeirra og veldur ekki tilfinnanlegu tjóni á áhrifamætti þess.

Að auki verða tvö önnur félög með Hugleiksk verk. Rangæingar sýna Bara innihaldið eftir Sævar "Maraþara" Sigurgeirsson og Sýnir sýna Friðardúfuna eftir Unni "Tiger" Gutt.

Og svo brestur á aðalfundur Bandalaxins. Og um kveldið verður svo tilkynnt um valið á Áhugaleiksýningu ársins hjá Þjóðleikhúsinu. Þar erum við með tvö stykki í baráttunni, Jólaævintýri Hugleix eftir Þorgeir "Kartöflu" Tryggvason, Snæbjörn "Kylfu" Ragnarsson, Sigríði "Brekku" Sigurjónsdóttur og Sigrúnu "Aruba" Óskarsdóttur og Systur eftir Þórunni "Fiðlu" Guðmundsdóttur.

Á sunnudaginn fer síðan sendinefnd frá félaginu til að reyna að gera sitt til að leysa vandamálið með varnir Íslands.

Áfram við!

fimmtudagur, maí 04, 2006

Klukk i borg

Ef það er ekki bara búið að klukka mann eina ferðina enn! Grrr... en hvað, það er nú mín góða og skemmtilega vinkona hún Ásta þannig að það verður ekki undan skorast. Svo er þetta líka óvenju skemmtilegt klukk.

Ég er nefnilega lestrarfíkill eins og kom fram í gömlu klukki. Og ástuklukk fjallar um bækur.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Hér kemur bara ein bók til greina. Ég man svosum ekki af hverju ég las Sölumaður deyr eftir Arthur Miller, man ekki einu sinni hvenær það var. Man bara að ég var gersamlega heillaður og taldi fullvíst að ef fólk almennt yrði skyldað til að lesa þessa bók þá myndi allt samfélag manna umbreytast til hins betra á svipstundu. Sennilega (vonandi) var ég talsvert ungur.

Fleiri áhrifaríkar:

Tilraun um manninn eftir Þorstein Gylfason sannfærði mig um að heimspeki væri málið. Svo ég fór að læra hana.

Rannsóknir í heimspeki eftir Wittgenstein sýndi mér fram á að heimspeki er ekki ætluð fyrir þá sem hafa bara áhuga á henni eða hæfileika til hennar. Hún er fyrir fólk sem sefur ekki á nóttunni af áhyggjum af undirstöðum orsakalögmálsins eða efasemdum um tilvist Synthetic a Priori sanninda. Svo ég hætti.

Tóma rýmið eftir Peter Brook kenndi mér hvar kjarninn í leikhúsinu er þegar allt er með felldu. Svo ég gefst aldrei upp.

Þrúgur reiðinnar eftir Steinbeck kenndi mér að hata óréttlæti og skilja af hverju það er óhjákvæmilegt í mannlegu samfélagi. Jafnvel mikilvægt.

Hundrað ára einsemd opinberaði galdur frásagnarinnar.

2. Hvaða tegund bóka lestu helst? Skáldsögur, krimma, ævisögur, ljóð eða eitthvað annað?

Ég les óhemjulega mikið af afþreyingarbókmenntum. Sumt er drasl, en sumt ekki. Stephen King er ekki drasl. Robert B. Parker er ekki drasl. Það er aldrei tímasóun að týna sér í að dást að meisturum að störfum.

Ég les mikið um leikhús. En helst ekki teóríu. það er meira að græða á ævisögum og dagbókum fólks sem ég hrífst af. Það vill nefnilega gleymast að allt tal um "dýpt" í umfjöllun er líkingamál. Frábærlega orðuð og hugsuð setning um hvernig tiltekinn leikari virkaði á gáfaðan höfund í tilteknu hlutverki getur verið meira virði til að læra af en tvöhundruð blaðsíður af teóretísku torfi.

Ég les líka slatta af leikritum, þó ekki eins mikið í seinni tíð og einu sinni var.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Telling Tales eftir Alan Bennett.


4. Hvurs kyns ert þú?

Drengur.

Og svo klukkast Bibbi
og Gummi klukkast svo
og svo klukkast Margeir
og Ylfa klukkast svo!
Með sínu lagi

þriðjudagur, maí 02, 2006

Mr. Bond

Eyddi dýrmætum laugardegi í Hafnarfjarðarleikhúsinu á fyrirlestri/leiksmiðju hjá heimsfrægum leikritahöfundi, Edward Bond. Ætli megi ekki segja að Bond hafi svipaða stöðu gagnvart hinu umtalaða In-Yer-Face-leikhúsi og Iggy Pop eða Patty Smith hafa gagnvart pönkinu. Forveri og áhrifavaldur þeirrar tísku að seilast til áhrifa í sálarlífi áhorfenda með sjokkerandi ofbeldi á sviðinu. Segja má að Bond hafi kastað fyrsta steininum í ofbeldisvæðingu nútímaleikhússins með leikritinum Saved (1965) þar sem barn er grýtt til bana í barnavagni.

Í máli hans kom enda fram að hann telur slíka leikritun þá einu sem einhverju máli skiptir, þá einu sem er réttnefnt drama.

Þetta var skrítinn viðburður. Hr. Bond er sennilega versti fyrirlesari sem ég hef hlýtt á, einhverskonar óheppileg blanda af Jakobi Oschlag og Mikael M. Karlssyni (og fækkar nú óðum þeim sem hafa forsendur til að skilja). Muldrar, gleymir stöðugt að hann heldur á míkrófón, langorður án þess að komast að kjarna málsins fyrr en eftir dúk og disk.

Og kjarninn? Þó svo Bond sé orðinn gamall nokkuð og ætti að vera vaxinn upp úr allsherjarskýringum hefur honum tekist að gleypa hráa einhverja leiðinlegustu tískubólu vitsmunaklámheimsins, nefnilega að skýra allt með vísunum í heilastarfsemi. Að sjálfsögðu án þess að bera fyrir sig hégóma eins og rannsóknir eða staðreyndir. Fyrir vikið er þessi heilabrautafrumspeki náttúrulega alveg þýðingarlaust skýringartæki af hliðstæðum ástæðum og vísanir í vilja guðs eru það.

Drama á rætur sínar í strúktúr mannsheilans. Hú fokking ra.

Það var vissulega forvitnilegt að fylgjast með Bond vinna senu með leikurum. Hvorki merkilegra né ómerkilegra en góð sessjón af Master-Class leikstjórnarnámskeiði á Húsabakka. Reyndar fór mestur tími hans í að fá þau til að virða svigainstrúksjónir, en Bond er klárlega góður í að skrifa svoleiðis. Og gengur út frá þvi að þær séu virtar nema skýrar og sterkar ástæður liggi fyrir frávikum. Ekki ósanngjörn krafa.

Heilt yfir var þetta nú ekki mikil uppljómun. Alltaf gaman samt að heyra menn úthúða Brecht. Ekki síst gamla kommúnista.

Þrisvar sinnum hringdu gsm-símar. Í fullum sal af leikhúsfólki. Í vinnu sem krafðist sterkrar einbeitingar.

Óheppni.