laugardagur, desember 31, 2005

2005 - topp 100

Að setja upp fjölskyldusplatterinn Enginn með Steindóri eftir Nínu

Allra kvikinda líki hjá Leikfélagi Kópavogs

Allt nýja fólkið sem gekk til liðs við Hugleik á árinu

Atli Rafn í Halldór í Hollywood

Bjóða mig fram til formanns Bandalags Íslenskra leikfélaga

Borða saltfisk hjá Ylfu

Brotthvarf Patrick Viera

Chagall-safnið í Nice með öllum biblíumyndunum

Comedy Store Players – Harlem Globetrotters leikhússportsins

Dæmisögur Fontaines í uppfærslu Roberts Wilson í Comedie-Francais

Dauði Arthurs Miller

Davíð Oddsson - Súperstar! hjá Leikklúbbnum Sögu

Dynjandi

Eignast Cajon

Fá aftur rjúpur (verða í matinn í kvöld)

Fá loxins orgelharmóníumið mitt suður

Fara einn að kaupa jólatré í fyrsta sinn

Fara ekki í skólann

Fara út í hléi á leiksýningu – þetta var orðið gott

Ferðast milli landa með fullar nærbuxur af grjóti (ekki spyrja)

Finna hvað margir fylgjast með biblíublogginu - og það jafnvel vandalausir!

Foi Gras í París – sem undirbúningur fyrir Steindór

Fráfall lærimeistarans Þorsteins Gylfasonar

Galdrakarlinn Bobby McFerrin í Háskólabíói

Hætta í skólanefnd

Helíumsala Hugleiks í blíðunni á 17. júní

Heyra í Ampop á tónleikum

Hilmir Snær í Ég er mín eigin kona

Hlusta á Nooruskórinn frá Eistlandi í Mývatnssveit

Hugleikur í Þjóðleikhúskjallaranum

Hugmyndirnar sem fæddust eða endurlífguðust um næstu verkefni

Japanska sýningin í Mónakó :)

Jarðböðin við Mývatn (með bók í hönd að sjálfsögðu – ég er lestrarfíkill)

Kaupa nýjan bíl - og geta ekki selt þann gamla

Koma sér æ betur fyrir í Skipholtinu

Koma til Nice (very nice)

Konsert Anne Sofie Von Otter

Kynnast Bernd Ogrodnik og göldrum hans

Kynnast tónlist Joni Mitchell

Læra að elda uppáhaldsmatinn minn alveg sjálfur

Langa í kött þrátt fyrir ofnæmið

Leikdómasafnið mitt á netinu

Leikhúsferð til London með Huldu og Silju um hvítasunnuna

Lesa Biblíuna og skrifa um hana hugleiðingar

Lion King í leikhúsi

Með Country Matters á IATA-hátíðina í Mónakó

Mónakóska sýningin í Mónakó :)

Nigel Watson að flytja sögur úr Mabinogion

Níkaragúska sýningin í Mónakó :(

Nóbelsverðlaun til Harold Pinter

Nýuppgötvuð hagmælska Huldu

Nýyrðin Kremfress og Smákrá

Parísarferðin með Huldu og Silju

Patataz!

Patti Smith á NASA – tónleikar ársins

Pink Floyd á Live8

Ritdeila mín við biskupinn og fleiri um málefni Helga Hóseassonar

Ritun Jólaævintýrisins með Bibba, Sigrúnu og Sigguláru

Rússneska sýningin í Mónakó :)

Rússneski gestaleikurinn með Kirsuberjagarðinn

Sambýlingar á Húsavík

Semja Jólaóratóríu

Sjá Peter Brook í eigin persónu

Sjá uppfærslu á What the Butler saw sem virkar fullkomlega

Skemmta við tendrun jólatrésins á Austurvelli

Skemmtiatriði heimamanna á galakvöldi í Mónakó :(

Skreppitúr til Ítalíu

Sleppa leiklistarhátíðinni á Akureyri

Slóvakíska sýningin í Mónakó :)

Smakka ostrur í fyrsta (og vonandi síðasta) sinn

Starfsmannaferð til London með Huldu og Hvíta húsinu

Stofna kór

Subfrau í Borgarleikhúsinu

Suður-Afríska sýningin í Mónakó :(

Surprise-tónleikar með Alice Cooper

Synda í Miðjarðarhafinu

Syngja Svarfaðardalur með kirkjukór Dalvíkur á hátíðardinner í Mývatnssveit

Syngja Messías í Mývatnssveit hjá Góla

Sýning í The Globe

Taka á móti Grímunni fyrir barnasýningu ársins

Tónleikar með Hraun!

Tónleikarnir með Bryn Terfel

Tristan og Iseult hjá Kneehigh

Troða upp með Barbie Girl á hátíðardinner í Mývatnssveit við stigvaxandi gleði

Týna tveggja ára skammti af bloggi sakir kunnáttuleysis í kóreönsku

Uppgötva að Mónakó-hátíðin stendur ekki undir hæpinu sem rjóminn af áhugaleikhúsi heimsins

Uppgötva The Jam

Upptökudagurinn á tónlistinni úr Jólaævintýrinu

Velgengni Jólaævintýrisins

Vera vitni að klaufalegustu vítaspyrnu ársins hjá Henry og Pires

Vestfjarðarúnturinn með Huldu

Viðburðaríkur aðalfundur Leikskáldafélagsins

Vinnan með leikhóp og öðrum listamönnum við uppfærslu Jólaævintýrisins

Vinnan með Sævari og Jóa Haux í Vinnan Göfgar eftir Júlíu.

Vinnan við Klaufa og Kóngsdætur

Þríleikur Peters Brook í Bouffes du Nord

Þrjár bækur eftir Stephen Fry

Önnur heimsókn á Highbury

fimmtudagur, desember 29, 2005

Hrós daxins

fær kollega Varríusar, María Kristjánsdóttir, fyrir að tilgreina þriðja höfund Túskildinxóperunnar í dómi sínum um jólasýningu Þjóðleikhússins. Það var sumsé ástkona Brechts, Elisabeth Hauptmann sem þýddi fyrir hann Betlaraóperu Johns Gay og vann í handritinu með honum. Aldrei fékk hún samt kredit fyrir þátt sinn, hvað þá hlutdeild í hinum mikla gróða sem verkið malaði höfundum sínum. En kommúnistinn Brecht trúði nú heldur ekki á kapítalið.

Sjálfur fer Varríus á Eldhús eftir máli í kveld í gagnrýnendakápu sinni.

Annars er þetta helst í fréttum:

Það er ekki oft sem mann langar að geta fylgst með rússnesku sjónvarpi, en þetta væri ég til í að sjá.

Og þó Hraun! hafi jólað skemmtilega á Rósenberg þá hefði ég verið til í að skipta á því jólagiggi og þessu – No offense strákar.

Og áramótagetraunin. Hver sagði þetta:
We began as a group not being able to play that well but having great ideas, and a badly played song with great ideas is better than a well played song with no ideas. That's punk rock.
Svarið er í þessari stórfínu grein.

Og fyrir þá sem fóru í ljóðaköttinn þessi jólin: hér fáiði fylli ykkar og vel það.

Áramótayfirlit er í smíðum - verður birt á morgun.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Jólmenningarneysla

Að halda jól er góð skemmtun. Þá innbyrðir maður góðan slatta af mat og annari neysluvöru. Sumt er af andlega taginu. Hér á eftir fara umsagnir um það sem Varríus lét inn fyrir sinn heilabörk um hátíðarnar og í kringum þær.

Innvortis
Minningartónleikar um Bjarna Móhíkana á Nelly's 22. desember.

Í annað sinn sem ég heyri í Innvortis live. Þeir eru stórskemmtileg hljómsveit. Drifkrafturinn er ekki eyðileggjandi reiði og vanmáttartilfinning eins og í hinu upprunalega pönki, heldur ást á tónlistinni sjálfri. Fyrir vikið er henni rétt lýst með nafninu
gleðipönk, sem er skemmtilega mótsagnarkennt. Það er lýsandi fyrir tónlist Innvortis að öðru hverju skella þeir sér í þungarokksparódíur, og nálgast þannig erkióvin pönksins með húmorinn að vopni og gengur fyrir vikið enn betur að afbyggja það mikla tónlistarrúnk en proper-pönkinu tóxt með kunnáttuleysinum. Bjarni hefði orðið glaður.

Hraun
Jólatónleikar á Rósenberg 22. desember.

Miklir prýðispiltar, Hraun. Og alveg á heimavelli á jólunum, hvort sem tóntegundin er einlægni, grín eða stuð. Loftur stal senunni með fléttunum og konan hans með loftkökunum.

Ingibjörg Þorbergs
Í sólgulu húsi

Diskur þessi datt í skóinn á heimili Varríusar og er búinn að snúast nokkra hringi nú þegar, enda alveg frábær. Frú Þorbergs syngur fallega sem aldrei fyrr og lögin hreinlega ilma af lífsgleði og bjartsýni. Minnti mig pínulítið á Andersen/Dissing upp á sitt besta. Gull af diski.

Kristjana Arngríms
Í húminu

Þessi tók líka nokkrar umferðir í tækinu. Kristjana er einhver raddfegursta söngkona landsins og hefur að þessu sinni týnt til nokkur sjaldheyrð dönsk lög til viðbótar við þekktari íslenskar perlur, sálma og fleira. Ljúfmeti.

Hugleikur Dagsson
Bjargið okkur/Forðist okkur

Eiginlega hálfgert óverdós að rúlla í gegnum gervallt höfundarverk Hugleiks á einum jóladagsmorgni, en Varríus gerði það nú samt. Helvítis viðbjóður auðvitað, en tónninn er einstakur og húmorinn hárbeittur. Skilur eftir sig hrúðurkarl á sálinni og skítaglott á samviskunni.

Baggalútur
Pabbi þarf að vinna

Yndisleg plata þar sem allar köntríklisjurnar eru teknar til kostana, í lagasmíðum, útsetningum, söngstíl og alíslenskum yrkisefnum. Ekkert endilega fyndnari en Lónlí Blú Bojs eða Johnny King, ... jú annars, margfalt fyndnari. Persónulegt uppáhald af persónulegum ástæðum: Toggi og hulduhóllinn.

Stuðmenn
Í takt við tímann

Horfði á hana með engar væntingar en varð samt fyrir vonbrigðum. Sem er einhverskonar met, er það ekki? Sorgleg mynd.

Girl with a Pearl Earring

Þessi fór hinsvegar bæði fram úr væntingum og umtalsverðu hæpinu sem hafði slegið á væntingarnar. Lúkkið náttúrulega stórkostlegt, Vermeer lifandi kominn. En Varríusi er skítsama um lúkk. Bara innihaldið fyrir mig takk! Og hér var það svo sannarlega. Yfirborðseinföld en djúpflókin sagan nær miklum sprengikrafti undir þrýstingi samfélagsþrúgunar og freðinna samskiptahátta. Frábær leikur á öllum póstum.

Troy

Gullslegin saurfata í líki bíómyndar. Klisjuleg með afbrigðum. Skelfileg samtöl flutt af leikurum á sjálfstýringu, kjánaleg hliðarspor frá Hómer gamla (Agamemnon drepinn í Tróju?!!) og þrátt fyrir allar milljónirnar sem þessi fíflagangur kostaði tókst samt að koma fyrir einu æpandi klikki: enginn ferjutollur í augum Hektors þegar hann deyr. Einungis fyrir fólk með þörf fyrir að horfa á Brad Pitt í pínupilsi og án þess.

The Return of the King

Hringadróttinssaga er ofmetið bókmenntaverk en þessi síðasti partur er mögnuð bíómynd. Leikararnir meira og minna góðir og Peter Jackson setur sig aldrei úr færi að setja persónurnar í öndvegi á kostnað sjónarspilsins ótrúlega.

föstudagur, desember 23, 2005

Songuðsól

Í menntaskóla var ég í bekk og vinfengi við stúlku sem varð alveg steinhissa þegar einhver benti henni á möguleikann á að jólasveinninn í Ég sá mömmu kyssa... hafi í raun verið pabbinn í dulargerfi. Hún hafði alltaf talið að þarna væri stórfellt framhjáhald í fullum gangi.

Jólalög hafa að sjálfsögðu ekki farið varhlutann af því að börn skilji textana ekki alveg rétt og læri þá fyrir vikið vitlaust. Heims um ból á vafalaust metið í þessu, en þó má vafalaust færa rök fyrir því að flestar villurnar séu til bóta á því hnoði. Eins komst ég að því eitt sumar sem ég safnaði sögum af misheyrðum textum að línan "Þyrnigerðið hóf sig hátt" í jólatrésskemmtunarsöngnum góðkunna var til í svo mörgum versjónum að nægt hefði í heilt jólaball.

Önnur hlið á söngtextamálum jólanna eru svo hinar svívirðilegu tilraunir til að dauðhreinsa ljóð sem særa einhvern. Hið unaðslega og dularfulla kvæði um hina þrammandi og stafveifandi innipúka, húðstrýkjandi móður þeirra og könnuna á stólnum ætti að friða og helst setja á heimsminjaskrá svo fólk hætti að reyna að "laga" það.

Og svo heyrði ég einhverntíman að á vorum femínísku tímum væri ekki lengur hægt að syngja:
Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna
heldur væri búið að jafna í pökkunum með:
hann fékk bók og hún fékk ekkert minna
Fyrir nú utan vanmetakenndina sem skín úr "bragarbótinni" þá er þetta eitthvað svo... æ ég veit það ekki.

Þegar kvæðamannafélag Varríusar heyrði af þessu þá stakk það strax upp á annarri lausn:
Hann fékk bók en hún fékk bók um Tinna
sem er bæði skemmtilegt, gengur gegn staðalímyndunum á mun róttækari hátt og er auk þess til hagsbóta fyrir fjölskyldufyrirtæki eins af uppáhaldsmönnum Varríusar.

En svo lengist lærið sem lífið og rétt í þessu komst ég að því að ég hef skilið eitt af uppáhaldsjólalögunum mínum kolröngum skilningi frá upphafi. Og allt út af einni kommu.

Hið góðkunna enska jólalag

God Rest You Merry Gentlemen

sem ég hef alltaf talið að gæti útlaxt

Guð hafi hemil á ykkur kátu herramenn

heitir sumsé

God Rest You Merry, Gentlemen

Sem sem best gæti útlaxt sem:

Verið óhræddir, góðu herrar

enda talar hér einmitt engillinn sem birtist hirðunum og boðaði þeim fögnuðinn. Og skyndilega er gott lag orðið betra.

Sjálfur orti Varríus einn jólasálm á árinu. Hann er sunginn í Jólaævintýrinu og það eru einmitt fjárhirðarnir sem hafa orðið. Til að fyrirbyggja að hann skolist til í stopulu kvæðaminni landsmanna birtist hann hér:
Í davíðs borg er drengur nýr
reifaður en vænn og hýr
Var í jötu lagður lágt
og liggur þar og á svo bágt

Hann færir okkur frelsi gott
fæðu og drykk, já þurrt og vott.
Blóm í haga, betri tíð
birtu í myrkri, skjól í hríð

Við höldum saman heim til hans
einkasonar skaparans
Beina leið til Betlehem
til barnsins litla nú ég kem
Á þeim nótum óskar Varríus lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Meira pönk - meira hraun!

Bibbi leggur línurnar um hið fullkomna aðventutónleikakvöld. Ekki er talið útilokað að Bryn Terfel taki þátt í minningartónleikum Móhíkanans en þá verða gestir af lægri stigum að sjálfsögðu sendir út á meðan. (Já Sváfnir ég er enn pínulítið sár)

Jólin jólin allsstaðar?

Í Amríku geisa víst illdeilur um hvort frjálslyndir (sem er ameríska og þýðir vinstrimenn) séu að reyna að ganga af jólunum dauðum, m.a. með því að banna fólki að óska ókunnugu fólki gleðilegra jóla af ótta við að særa trúarvitund þeirra sem ekki deila kristninni með viðkomandi.

Einar Karl Haraldsson gerði þau reginmistök að reyna að flytja þessa kjánalegu deilu hingað, en lenti þá í klónum á sér vitrari mönnum sem bentu honum á að jólin séu heiðin hátíð sem hinir kristnu hrifsuðu af þeim fyrir margt löngu.

Og svo er þetta nú ekkert einhlítt með þá sannkristnu heldur. hér er skemmtilegur fróðleikur um fyrstu tilraunir til að koma jólunum af dagatalinu í guðseiginlandi.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Daníel Smaníel

Hin hugljúfa Rutarbók er tilvalin jólalesning á Biblíublogginu.

Og talandi um að líkjast - hinn drátthagi og fingrafimi markaðsstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur teiknað skopmynd af Varríusi, þá hina fyrstu síðan hin drátthagi og fingrafimi organisti Dagný dró Carminumynd hans fyrir seytján árum. Og sjá!

mánudagur, desember 19, 2005

Ég hef séð hann spila á spil

DV er stundum óheflað bæði í efnisvali og (að manni skilst) í vinnubrögðum. En þeir mega eiga það að sögurnar sem þeir segja eru oft þær sem aðrir þegja um, og iðulega eru þær frásagnarinnar virði. Stundum finnst manni eins og heimurinn hafi verið óttalega grár og tíðindalaus áður en þeir Torfajökulsbræður tóku við blaðinu sem þá var um hríð búið að vera algerlega grímulaust áróðursrit fyrir Sjálfstæðisflokkinn og leiðinlegt eftir því.

Forsíðan í dag er gott dæmi. Aðalfréttin er eitthvað sem engum öðrum myndi finnast vera frétt. Samt segir þar frá því þegar heimsmynd hóps af fólki er umturnað í einni andrá. Heimurinn breyttist að sönnu 11. september 2001 en sennilega hafa yfirlýsingar hins fornfræga harðlínuklerks sr. Flóka Kristinssonar um tilvist jólasveinsins stærri afleiðingar fyrir unga skjólstæðinga hans.

Svo DV slær upp "Jólasveinninn er ekki til".

Prestur í barnastarfi er spurður af nemendum sínum hvort jólasveinninn sé til. Hann svarar nei. Auðvitað er það frétt - og alvörumál.

Það er svolítið gaman að því hvenær guðsmönnum þykja hlutir vera einfaldir og hvenær flóknir. Hvenær stutt og laggóð svör eru viðeigandi og hvenær þarf að þæfa og hártoga. En Varríus er heimspekimenntaður og getur þegar sá gállinn er á honum orðhenglast við hvern sem vera skal. Lítum á þetta:

1 - frumspekileg nálgun

Jólasveinninn er ekki til.

Hvaða merkingu hefur nú þessi setning? "Jólasveinninn" er nefnilega álíka loðið hugtak og skeggið sem þeir sem bregða sér í gerfi þeirra einatt hafa.

Ætli sr. Flóki (gott nafn bæðevei) hafi meint að aldrei hafi verið á dögum maður að nafni Nikulás frá Mýru? Það er ólíklegt, enda heimildir um tilvist hans að minnsta kosti jafn traustar og t.d. vissan fyrir því að til hafi verið maður að nafni Jesús frá Nazaret, svo við nefnum nafn af handahófi sem við vitum að sr. Flóki efast ekki um.

Það er líka almennt viðurkennt að dýrlíngur þessi sé sá sem nafnið "Santa Claus" vísar til, en það er áreiðanlega sama fyrirbærið og við tölum um sem "Jólasveininn" í eintölu.

Og þó svo að hinn tyrkneski biskup sé ekki lengur á meðal vor þá dugar það ekki til að réttlæta afneitun á tilvist hans. Einföld Wittgensteinsk tilraun sker úr um það. Prófið að taka ykkur eftirfarandi setningar í munn:

Alexander mikli er ekki til

William Shakespeare er ekki til

Bjarni Móhíkani er ekki til

Bragðast einkennilega, ekki satt?

Það er nefnilega aldrei tekið þannig til orða um framliðið fólk að það sé "ekki til". Kannski vegna þess að kirkja sr. Flóka boðar að fólk lifi þótt það deyi. Þessvegna er í raun fráleitt að halda því fram að "Jólasveinninn sé ekki til" þar sem maðurinn, sem nafnið sannanlega vísar til, var sannanlega til.

QED.

Eða hvað? Var Flóki kannski að tala um Stekkjastaur, Stúf og þá bræður, þó svo tilvitnanir í ummælin séu í eintölu (DV er vissulega ekki frægt fyrir nákvæmni á þessu sviði)? Í hvaða skilningi eru þeir ekki til? Sennilega í sama skilningi og t.d. Njáll Þorgeirsson á Bergþórshvoli, Bakkabræður og aðrar þjóðsögulegar persónur. Það er vaninn, held ég, að gera ráð fyrir sannleikskorni í þjóðsögum, þannig að bak við þær sé einhver raunveruleiki. Við skulum ekki útiloka það að í Dölum vestur hafi fyrr á öldum verið óaldaflokkur í útilegu: matþjófar, nauðgarar og gluggagægjar. Sumir jafnvel bæklaðir eða dvergvaxnir. Og á þann skrykkjótta hátt sem þjóðsögur gera þá vísi nöfn jólasveinanna í kvæði Jóhannesar úr Kötlum í þennan flokk. Um þetta veit ég ekki neitt - og ekki sr. Flóki heldur.

Sem víkur sögunni að:

2 - þekkingarfræðilegri nálgun

Ég veit að Jólasveinninn er ekki til.

Klassísk skilgreining þekkingar er að þar fari "Sönn, rökstudd skoðun" og sú skilgreining nægir okkur hér.

Staðhæfing sr. Flóka um tilvist jólasveinsins byggir á því að hann telur sig vita að jólasveinninn sé ekki til. Hann telur sig væntanlega hafa allskyns rök fyrir þeirri skoðun. Hann veit um fullt af fólki sem bregður sér í gervi jólasveina, þekkir kannski af eigin raun að foreldrar eru ábyrgir fyrir því sem lendir í skónum úti í glugga. Hann hefur orð landkönnuða fyrir því að engin ummerki eru um jólasveinabyggðir í íslenskum fjöllum, auk þess sem meint langlífi þeirra samrýmist ekki því sem við vitum um lífslíkur Homo Sapiens. Hann veit að lögmál náttúruvísindanna útiloka að einn maður á hreindýrasleða geti flogið um heimsbyggðina og útdeilt jólagjöfum á einni nóttu. Hann hefur sumsé ágætis ástæður til að efast um tilvist jólasveinsins.

En veit hann að jólasveinninn er ekki til?

Alveg áreiðanlega ekki með fullri vissu. Bæði er nú ekki útilokað að "Jólasveinninn" sé til þó allskonar fólk sé alltaf að leika "hann". Davíð Oddsson er t.d. til, þó svo líkur séu á að þegar hann sést þá sé þar á ferðinni Örn Árnason (sem ég hef hitt og veit að er til). Og svo eru lygasögur um fólk ekki vísbendingar um að það eigi sér ekki tilvist. Annars væri Hemmi Gunn líklega í vondum málum. sr. Flóki er jafnmikið til þó að mér tækist að sannfæra fullt af börnum í ameríku að hann fljúgi um á sleða sem dreginn er af átján einstæðum mæðrum eða, hverju Guð forði, Kór Langholtskirkju með Jón Stefánsson í fararbroddi með rauðan nebba.

Það getur sumsé vel huxast að megnið af því sem blessuð börnin halda um jólasveininn sé rugl, en hann sé samt sem áður til.

Kannski finnst Flóka sönnunarbyrðin vera á þeim sem vilja halda fram tilvist jólasveinsins. Það finnst mér sanngjörn krafa, enda yrði þröngt á þingi ef við ættum að trúa á tilvist alls þess sem allskyns rugludallar hafa diktað upp. En einhvernvegin grunar mig að sr. Flóki vilji ekki arka þá braut ýkja langt að snúa sönnunarbyrðinni á þann veginn, enda er ýmislegt sem maður í hans stöðu hefur (vonandi) fyrir satt sem þvældist fyrir honum að sanna fyrir hinum vantrúuðu.

Held að allir ættu að geta verið sáttir við að vera agnostískir um tilvist jólasveinsins. Við vitum ekki til þess að hann sé til . Hverju við kjósum að trúa er síðan annað mál, og snýst um:

3 - Siðfræðilega nálgun

Nú vill svo vel til að sr. Flóki gerir grein fyrir því í blaðinu hvaða siðareglu hann lagði til grundvallar þegar hann "upplýsti" börnin um tilvistarskort jólasveinsins:

"Ég gat ekki hugsað mér að ljúga að börnunum"

Svo sannarlega dýrmæt siðaregla, kannski sú djúpstæðasta. Að segja satt. En vissulega ekki sú eina. "Oft má satt kyrrt liggja" er önnur, "Aðgát skal höfð í nærveru sálar" sú þriðja. Eitt af tíu bestu leikritum sem skrifað hefur verið heitir Villiöndin og lýsir því stórslysi sem verður þegar boðberi sannleikans gerir sig heimakominn í einni barnssál.

Samband kirkjunnar og sannleikans er enda dálítið flókið mál. "Ég er sannleikurinn" sagði Kristur og opnaði þar með leiðina fyrir allskyns hundakúnstir með hugtakið sem samrýmast enganvegin hversdagslegum skilningi á því. Og þegar orð eru losuð úr sínu hversdagslega umhverfi fara þau að hegða sér einkennilega, ekki ósvipað því þegar dýr eru lokuð inni í búrum. Þau verða óútreiknanleg, og vís með að fara að ganga í hringi. Svoleiðis orð þarf að umgangast af varúð, og þar hafa málsvarar kristninnar náð aðdáunarverðum árangri, t.d. með því að víkja sér undan óþægilegum spurningum frekar en að svara þeim afdráttarlaust með fullyrðingum sem annaðhvort eru sannar eða ósannar á gegnsæjan hátt.

Hefði sr. Flóki treyst sér í svoleiðis nálgun á Jólasveininn hefði hann t.d. getað sagt, þegar hann var spurður hvort jólasveinninn sé til:

"´Ég trúi ekki á hann"

Best af öllu hefði þó verið að hann hefði sagt sannleikann og ekkert nema sannleikan, svo hjálpi honum Guð:

"Ég veit það ekki"

Börnunum liði klárlega betur, heimurinn þeirra væri fyllri af undrum og stórmerkjum en nú er - og DV hefði getað stillt sig um að gera okkur öll að lærisveinum sr. Flóka með flennifyrirsögninni í dag.

Að lokum skulum við öll sameinast í kvæðinu sem Loudon Wainwright III orti af álíka tilefni:

Conspiracies

We don't believe in You-Know-Who
but we don't let the kids know it.
We're parents, we're grownups
there's a line, we have to tow it.

But we're part of a conspiracy
about this bearded big fat guy.
Who is'nt real, who never lived
Who's old, but doesn't die

We went to the department store,
we climbed down on that limb.
Told the kids that it was You-Know-Who,
we said that bum was him

Then we placed them on his knee
- to me the knee seemed rather bony
Happily they sat there though,
chatting with that phony.

Told the kids we could provide the proof
- the deceit! how I hate it!
We put out the milk and cookies
yes I admit I drank and ate it.

Then that fib about the North Pole
As if any elves could live there.
We helped to write and send that letter
knowing full well it went nowhere.

You-Know-Who comes down the chimney
How could such a fat man fit?
The whole thing is preposterous
Yet we get kids to buy it.

We have no shame, the lies pile up.
You'd think at least we would balk
when we sing of red-nosed reindeer
and snowmen who dance and talk.

Well it's just a harmless story
Some farytale, some christmas fun.
Not unlike that other theory
The one about God's son.

Where angels talk to shepheards,
Wise men troop after a star,
and a virgin has a baby -
boy, that's fetched pretty far.

But we adults buy that conspiracy
We tow and swallow that old line
Disappearing milk and cookies -
What about that bread and wine?

It's enough to make you hesitate
It's enough to give you pause.
Perhaps it's just as crucial
kids believe in You-Know-Who

föstudagur, desember 16, 2005

Þykist öðrum Þröstum meiri

Sinfóníu-Þröstur kvakaði einhverja ámátlega málsvörn fyrir hina skammarlegu elítutónleika hljómsveitarinnar í mogganum í dag. Sagði það vera árvissan viðburð að halda veglega hátíðartónleika fyrir velunnara og maka hljóðfæraleikaranna. Einmitt það já? Og er fullkomlega eðlilegt að spandera velvilja stuðningsaðilanna í að flytja inn rándýran söngvara til að raula fyrir eiginkonur kontrabassaleikaranna? Á fimmtudagskvöldi, sem er hefbundin tími almennra tónleika. Og er það allt í lagi af því öllum gafst kostur á að hlusta á hann í útvarpinu? Það fást geisladiskar í Skífunni með öllum sinfóníum Sjostakóvitsj - þýðir það að það sé óþarfi að halda úti hljómsveit sem spilar þær læf?

Væri ekki nær fyrir framkvæmdastjóra sinfó að biðjast afsökunar en að reyna að smyrja yfir hrukkurnar með þvættingi eins og að alls óvíst hefði verið að húsfyllir hefði orðið ef KB-banki hefði ekki snarast til og keypt miðana.

Og af hverju var fjallað á opinberum vettvangi um tónleikana eins og um opinberan viðburð væri að ræða? Af hverju sendi Mogginn gagnrýnanda? Reyndar skrifaði Jónas Sen helvíti fínann pistil, en má ég sumsé gera ráð fyrir að vera sendur á árshátíð KB-Banka ef Örn Árnason er þar með skemmtiatriði?

Æ ég nenni þessu rövli ekki. Hefði sennilega ekki einusinni orðið almennilega fúll ef ég hefði ekki heyrt sagt frá tónleikunum í útvarpinu á miðvikudegi og hringt í Huldu í ofboði til að fá hana til að kaupa miða. Og hún fékk síðan að heyra að þetta væri prívatkonsert. Hvað var þá verið að segja frá þeim í útvarpinu þið þarna höfðingjasleikjur?!

Ókei 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10....

Hugljúf helgi framundan. Ekkert á daxkrá í kvöld, svo tvær sýningar, Arsenal tekur Chel$ea í kennslustund og allt rúllar sinn vanagang í átt að jólum.

Bibblíubloggið lifnaði sprellandi við um leið og ég hundskaðist til að skrifa pistil, og einn gestur gaukaði inn link á þessa dásamlegu myndabibblíu.

Ef fólki þykja sögurnar þar ekki nógu fallegar fyrir síðustu aðventuhelgina er um að gera að heimsækja þennan brottflutta húsvíking og lesa hans fallegu lýsingu á leikjum bernsku sinnar. Færslan heitir "allt þegar þrennt er", en annars er Röðull Reyr alltaf lestursins virði.

Sama gildir um einn af hinum gáfuðu uppeldissonum Þórhalls, Bjössa og Siggu á Halldórsstöðum í Kinn, Mörð Árnason. Kætist t.d. yfir þessum viturlegu orðum um vinsælt þrasmál þar sem þeir sem hann beinir orðum sínum að ganga óvenju langt í að misskilja málflutning andstæðinga sinna, en til þess að halda því fram að svart sé hvítt virðist guðfræðimenntun vera sérlega góður undirbúningur.

Njótiði helgarinnar - hún er öllum opin.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Lífið er leikur

og þá er auðvitað betra að það sé léttur, fallega teiknaður og ljúfur leikur eins og þessir hér.

Lífið er líka Hugleikur. Núna erum við á leiðinni niðrí Tjarnarbíó að leika eins og eitt atriði fyrir Kastljósið.

miðvikudagur, desember 14, 2005

"Pabbi er að tala við manninn...

... vilt þú sinna nýju gestunum elskan?"

Biblíuskýrandinn ógurlegi snýr aftur. Dómarabókin gjöriði svo vel!

Fíd mí!

Björn Margeir snýr aftur í tölu hinna bloggandi, m.a. til að skrifa þennan snotra og snöfurmannlega dóm um Jólaævintýrið. Já og svo skrifar hann skemmtilega um bjánamenninguna. Fylgist með frá nýrri byrjun.

Lánið leikur...

... við hljóðfærin mín. Þau forframast hvert á fætur öðru. Fyrsti maður til að spila á Cajóninn minn nýja opinberlega reyndist vera sjálfur meistari Sigtryggur Baldursson, en kassinn hans sat fastur í gámi úti í heimi og Jónsgeirs var upptekinn í Jólaævintýrinu.

Og á mánudaxkvöldið var í fyrsta sinn leikið á mitt glæsilega Orgelharmóníum eftir að það flutti hingað suður. Ætluðum reyndar að nota það í sýningunni, en það reyndist örlítið of lágt í pitchi og því lætur það sér nægja að prýða sviðið sjónrænt meðan leikið er á gamla ferðaorgelið hans Hugleix.

Tónhæðin truflaði hinsvegar ekki gjörningafólkið sem fékk að spila á minn fýsibelg í listsköpun sinni. Vona að Bibbi forláti þessi helgispjöll, en mig grunar að framferði listaspíranna hafi ekki verið honum allskostar að skapi.

Litlu munaði svo fyrir ári síðan að Víagraóbóið fengi að spila með sinfóníuhljómsveit áhugamanna, en Sverrir "Tríóla" átti einmitt að blása í slíkt hljóðfæri þar og fékk mitt léð til æfinga um tíma.

Þetta er nú allt skemmtilegt, þó ekkert af þessu hafi ég heyrt.

Var byrjaður á glefsnum langhundi um uppskrúfaðan aulaskap Sinfóníunnar í kringum KB-bankakonsertinn en svo eru of margir búnir að skrifa um málið til að ég nenni því. Er bara fúll í einrúmi. Skamm krakkar!

Nenni heldur ekki að hafa afdráttarlausa skoðun á fegurðarsamkeppnum*, umfram það sjálfsagða réttlætismál að úr því að "við" höfum nú unnið misswörld þrisvar þá fáum "við" titilinn til eignar.

KB-banki gæti síðan úthlutað honum árlega til þeirra sem hann hefur velþóknun á.

Dýrð og friður!

*Öppdeit: Ástæðan fyrir því að ég hafði ekki skoðun var að Ármann Jakobsson var með hana.

mánudagur, desember 12, 2005

Leiklist er eins og gítarsóló...

... fídbakk er ómissandi.

Enn eru að berast viðbrögð við Jólaævintýrinu.

Hér rignir gullhömrum frá Silju Aðalsteins og svo er víst von á umsögn Jónasar Sen um tónlistina í Mogganum. Þá hvíslaði lítill fugl því að Þorgerður í Víðsjá myndi segja kost og löst á okkur á sínum stað upp úr fimm.

Og svo eru það bloggin. Hildigunnur Rúnarsdóttir segir þetta og eftir frumsýningu hafði Eva þessi orð. Eitthvað fórum við svo í velsæmið á þessum gesti.

En gaman að þessari athygli allrisaman.

Fjórar sýningar eftir. Komaso....

Öppdeit: Hér vitnar hrifinn gestur, hér talar tilvonandi liðsauki og svo er það Víðsjá

Og enn öppdeit: hér erum við í Stundinni okkar.

Og aftur: Ekki má svo gleyma hinum þingeyska Skarpi sem ræsti út stórleikarann, dönskukennarann og öðlinginn Ingimund Jónsson sem skrifaði síðan þennan líka stórfína dóm.

föstudagur, desember 09, 2005

Já hamingjan...

Fór í gær á Hina endanlegu hamingju. Sór hún sig í ætt við fyrri heimabrenndar sýningar Hafnfirðinga, leikur með form og rými, daður við áhorfendur og viðfangsefnið eilífðarmálin.

Það gladdi mig mjög hvað áreiti við áhorfendur var lítið, kom mér reyndar á óvart. Eins fannst mér leikskáldið Lárus hafa skemmtilega þroskuð tök á óhefðbundnu og ólínulegu forminu sem hann velur sér. Held meira að segja að hann hefði að ósekju átt að treysta okkur betur og sleppa nokkrum ofskýringarreplikkum í fyrri hlutanum, sem virtust eiga að hjálpa okkur að skilja hvernig flassbökkin virkuðu. En prik fyrir tvistin í lokin, vel útfærð og virka. Eins er sviðssetningin snurðulaus og umgjörðin jafn nosturslega rétt og maður er farinn að gera ráð fyrir hjá Hafnfirðingum þegar þessi gállinn er á þeim.

Leikritunin er sumsé lipur hjá Lalla, en fyrir vikið saknar maður aðeins meira kets í pottinum. Úr því verið er að leiða okkur inn í launhelgar sértrúarsafnaðar þá hefði verið gaman að trúarsetningar hans væru áhugaverðari/skrítnari/pervertískari, en ekki bara svolítið eins og fúndamentalísk kristni í frímúraraumbúðum. Og eins hefði, úr því verið var að rekja æfi Freysteins, mátt láta feril hans vera aðeins skrykkjóttari, láta hann efast solítið, láta hann missa statusinn oftar. Hinar litlu upreisnir sem við sjáum eru óþarflega smávægilegar og auðbældar. Þar spila líka inní kostir og gallar aðalleikarans.

Halldóri er nefnilega enginn greiði gerður með að fá að leika status 10 heila sýningu út í gegn. Það er honum of eiginlegt og leikurum af þessu kalíbieri verður að ögra. Ég held mér hafi tekist það í Jónsmessunæturdraumi og Gunnari Birni tókst það svo sannarlega í hinum frábæra Kontrabassa. Ég er líka viss um að Lárus hefði náð fram fleiri blæbrigðum hjá Tolla ef handritið hefði boðið upp á það. En fyrir vikið fer aðalleikarinn eiginlega of létt með hlutverkið, svo undarlega sem það nú hljómar.

Leikhópurinn er annars giska köflóttur að reynslu og getu, enda varð félagið fyrir myndarlegri blóðtöku eftir síðasta leikár og eins og nú tíðkast er fólk svolítið að "leika framhjá". Formið er reyndar mjög hliðhollt óvönum leikurum þar sem eiginlegur raunsæis-samleikur er í lágmarki, en allir fá sína "aríu" sem er tæknilega auðveldara að skila vel heldur en að sýna persónu í gegnum samskipti hennar við aðra.

Hin endanlega Hamingja er í rökréttu samhengi við Sölku og Þið eruð hérna en líkist samt eiginlega hvorugri þeirra. Mun þroskaðra höfundarverk, en jafnframt ekki með eins sterk nýjabrumseinkenni sem fleyttu hinum sýningunum svo djúpt inn í leikhúsminnið og raun varð á. Engu að síður eftirtektarvert og heilt yfir ánægjulegt. Takk fyrir mig.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Nú skal ég segja þér

- varnarræða leikgerðarmanns

Ég hef að ég held skrifað þennan pistil áður, eða eitthvað honum svipað. En þar sem ég hef af klókindum mínum komið öllum fyrri bloggskrifum í fóarn óminnishegrans get ég fylgt hinni göfugu reglu. sjaldan er góð ýsa of oft freðin, og sagt þetta allt saman aftur. Enda get ég ekki frekar en aðrir endurtekið annað en það sem ég hef þegar sagt.

Ég hef sumsé löngum andæft þeirri útbreiddu og svolítið sjálfvirku skoðun að leikgerðir á skáldsögum séu annarsflokks leikbókmenntir, og þeirri óígrunduðu tuggu að slík viðfangsefni séu eitthvað séríslenskt sagnaþjóðarfyrirbrigði. Ég hef gjarnan bent á að margar eftirminnilegustu leiksýningar síðari ára séu einmitt leikgerðir, og það sé einmitt í slíkum verkum sem leikhúsið sé í essinu sínu við að prófa nýja hluti, kitla ímyndunarafl áhorfandans, skapa eitthvað frá grunni:

Birtingur • Sannar sögur af sálarlífi systra • Ormstunga • Sjálfstætt fólk • Ísbjörg • Ljós heimsins • Street of Crocodiles • Grandavegur 7 • Grimms

QED

Og hver sem sá og man eftir sjónvarpsupptökum af maraþonleikgerð Royal Shakespeare Company á Nicholas Nickelby getur gleymt því hvað þar var spennandi, lífræn og leikhúsleg stemming?

Stundum hef ég líka bent á að helstu verk Shakespeares séu leikgerðir, ýmist á tilteknum sögum eftir nafngreinda samtímahöfunda, oftast ítalska, eða þá unnin upp úr fornritum (Hamlet og Lér) eða nýlegum sagnfræðiritum (Söguleikritin).

Og nú vil ég af gefnu tilefni bæta nýrri röksemd í varnarræðu leikgerðanna:

Það er svo gaman að leikgera!

Síðustu tvö verk sem ég hef tekið þátt í að sjóða saman eru sumsé leikgerðir. Klaufar og kóngsdætur og Jólaævintýri Hugleix. Bæði hafa verið bráðskemmtileg að vinna, og þó kannski sérstaklega ævintýrið, þar sem þar gáfum við okkur mikið frelsi og svigrúm til að leika okkur með efniviðinn á handritsstigi út frá ákveðinni grunnhugmynd. Og frá eigingjörnu leikskáldasjónarmiði var það líka nær því að vera "venjuleg" leikritun þar sem handritið var ekki í meiri þróun úti á gólfi en allajafnan tíðkast með ný leikrit hjá Hugleik hvorteðer. Enginn spuni, en allar hugmyndir skoðaðar, prófaðar og innbyrtar ef þær stóðust prófið. Sjálfsögð og eðlileg vinnubrögð alltaf hreint.

Eitt af því sem ég held að valdi þessari leikgerðargleði í mér er að við þessa iðju getur maður einbeitt sér að því að vera leikritahöfundur og þarf minna að hafa áhyggjur af því að vera leikritahöfundur. Viðfangsefnin eru fyrst og fremst mál leikhússins og hvernig efninu verður best komið til skila á því. Efnið sjálft er til reiðu. Ég elska leikhús meira en skáldskap og er því frekar kátur að einhver annar sjái um skáldunina fyrir mig. Svo finnst mér líka svo gaman að vinna leikritun í hóp og leikgerðir eru alveg kjörnar í þannig vinnubrögð.

Kveikjan að því að ég fór út í að endurtaka þessa tuggu alla með síðari viðbótum er umhuxunaverður leikdómur um nýja leikgerð RSC á enn einu Dickensverkinu, Great Expectations. Þar skrifar krítíker sem hefur ígrundaðar og áhugaverðar efasemdir um leikgerðir skáldsagna, og koma þær fram í umsögn hans. Hann veifaði reyndar þessum sömu efasemdum fyrir aldarfjórðungi þegar Nicholas Nickelby var frumsýnd.

Billington er í grundvallaratriðum efins um að leikgerðir geti miðlað því sem geri merkilegar skáldsögur merkilegar. Það séu einmitt stíll, andrúmsloft, og allskyns smáatriði sem einatt fari forgörðum á leið upp á svið. Fyrir utan að það "sögulegasta" við sögu,: nefnilega milliliðalaust samtal höfundar og lesanda, hverfur úr leiknum þegar upp á svið er komið.

Jújú, allt er þetta nú gott og gilt. En líklega á þetta mismikið við um ólíkar sögur. Og það hlýtur alltaf að vera markmið leikgerara að láta verk sitt lifna á eigin forsendum og leikhússins, láta efniviðinn njóta sín með þeim kostum og göllum sem sá miðill býður uppá. Og auðvitað eru sögur misvel til leikgerðar fallnar. Þó ekki væri. Öxin og jörðin einhver?

Og hvað varðar samtalið: stundum er talað um að leikgerðir séu einmitt svo mikið "leikhús" og er þá átt við að þær séu ekki stofuleikrit, heldur furðuheimur þar sem allt getur gerst og táknmál leikhússins er nýtt til að vekja hughrif frekar en að mata áhorfandann. En það getur líka þýtt annað: Leikgerðir á sögum færa okkur nær sameiginlegum sameiginlegum rótum leiks og sagnalistar en nokkuð annað listform.

Leikgerðir segja sögu. Þær eru nær því en "hefðbundið leikhús" með sínum fjórða vegg og afskiftaleysi við áhorfendur. Og þær eru nær því en prentuð skáldsaga þar sem rithöfundurinn, sagnamaðurinn, hefur fyrir löngu vikið af sviðinu.

Í góðri leikgerð hefur leikhúsið allt brugðið sér í gerfi sögumanns. Allt gott leikhús er samsæri áhorfenda og flytjenda og hvergi er það eins meðvitað og í verkum þar sem vaðið er um tíma og rúm án þess að skeytt sé um raunsæisleg smáatriði. Hvergi er galdur leikhússins eins nakinn, eins djarflega iðkaður og í góðri leikgerð.

Það er svo gaman að leikgera - og það er svo gaman að sitja úti í sal og taka þátt í sköpuninni.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Rómverjar eru klikk...

... en keisarinn þeirra er viðurstyggð.

Fastur liður á aðventunni

eru verðlaunin sem tímaritið Literary Review veitir fyrir tilgangslausustu og klaufalegustu kynlífslýsingar í bókum ársins. hér má lesa um verðlaunaafhendinguna, og þar er líka að finna linka yfir á þá sem tilnefndir voru og viðkomandi lýsingar.

Og ef einhvern langar til að spreyta sig er kommentakerfið opið...

Aðeins fyrir Tinnófíla

þriðjudagur, desember 06, 2005

Orðsifj

Byrjaði loxins aftur á biblíulestrinum í gærkveldi. Fyrsti pistill eftir hlé verður birtur bráðlega en sumt þolir enga bið. Í Fyrri Samúelsbók stendur skrifað:
Þá tók Samúel stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana og kallaði hann Ebeneser og sagði: "Hingað til hefir Drottinn hjálpað oss."
Neðanmáls er síðan sú skýring að "Ebeneser" þýði "hjálparhella"

Svo þá vitum við það.

mánudagur, desember 05, 2005

Kyrrt um hríð

... skemmtilegt millibilsástand hjá Varríusi þessa dagana. Jólaævintýrið mallar vandræðalaust, ekki búið að fitja upp á neinum verkefnum öðrum og allt bendir til að jólin komi án þess að það þurfi neitt stórátak til.

það er langt síðan svona tími hefur komið, einatt verið stokkið beint úr einu rit- eða leikstjórnarverkefninu í annað. Ekki það að það eru ýmsar hugmyndir í eternum og þess verður sennilega ekki langt að bíða að aftur verið stokkið af stað. En er á meðan er...

Og svo gerist það að þegar álagið minnkar þá dregur maður sig líka til baka á öðrum vettvangi. Hefði til dæmis átt að druslast í leikhús í gærkveldi. Missti af Frelsi og mun áreiðanlega missa af fleiri möstsíum næstu vikurnar.

Skíttmeðað. Les þá bara Biblíuna í staðin. Reyndar er það annað sem ég er búinn að trassa og tókst ekki að komast af stað með um helgina.

sunnudagur, desember 04, 2005

Okkar menn

Heyrði loxins í hljómsveitinni Hraun í gærkveldi. Það hefur lengi staðið til, enda meirihluti sveitarinnar farinn að sprella með Hugleik. Og í gærkvöldi stormaði bróðurpartur Jólaævintýrisfólx eftir sýningu á Rósenberg að hlýða á drengina.

Það var ljómandi skemmtilegt. Ekki þarf að koma á óvart að spilagleði sé höfuðeinkenni sveitar sem inniheldur Hjalta Jóngeir og Loft, en spilagleðin ein og sér dugir ekki svo þeir eru líka þéttir, góðir spilarar og ekki síður raddarar. Þeir byrjuðu á frumsömdu efni sem var flott, en tóku síðan til við pöbbastuðmússík sem þeir gera svo sannarlega að sinni, t.d. með brilljant útfærðri reggae-útsetningu á Child in Time. Önnur lög voru flutt "streit", og þá undantekningalaust drulluvel, og mikið gladdi mig að heyra þá spila eitt af uppáhaldslögum Varríusar, sem ég og Sváfnir, félagi minn í hljómsveitinni Free Country þýddum byrjuninna á viðlaginu svona:

Taktu lóðin af Fanneyju!

Fyrir mig var svo opinberun kvöldsins að heyra í söngvaranum Svavari, sem margir sem ég þekki þekkja, en ég hafði hvorki heyrt né séð fyrr en í gær. Frábær söngvari drengurinn, gríðarlega innlifaður og flinkur, og meinar alltaf það sem hann er að syngja. Idoldeild Varríusar vill sjá hann áfram.

Undir leik hljómsveitarinnar spunnust skemmtilegar umræður millum okkar leikhússrottna um þann sið (sumra) mússíkanta að spila og syngja með lokuð augun. Þetta er vitaskuld barið miskunnarlaust úr fólki um leið og það gerir sig líklegt til að leika á sviði, og verður dálítið spaugilegt að sjá fyrir fólk eins og mig sem fer nánast aldrei á tónleika en er alltaf í leikhúsi.

Á tímabili stóðu/sátu sumsé fimm fullfrískir kallar fyrir framan okkur á Rósenberg og rembdust við að miðla okkur lögum og ljóðum allir með harðlokuð augun! Helvíti fyndið, sem var áreiðanlega ekki ætlunin, öðru nær. Og að sjálfsögðu toppaði svo hinn óborganlegi bassameistariLoftur grínið með því að seilast í vasa sinn, sækja sígarettupakka, fiska upp eina og kveikja í, spilandi á bassann og með skjáina harðlokaða allan tímann!

Hraun: gott band.

föstudagur, desember 02, 2005

Helgarhlaðborð

Spennandi borgarstjórnarkosningar.

Gáfuleg orð um heimskulegt leikrit.

Ein exótísk leikferðarsaga.

Langhundur sem ruglar viðtekna heimsmynd.

Jólaævintýrisfólk sýnir tvær sýningar um helgina og treður upp við tendran jólatrésins á Austurvelli. Þar verða Hugleiksverk í fyrsta sinn svo vitað sé þýdd á táknmál.

Góða helgi.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Grípum Geirinn í hönd

Einu sinni fór ég í messu hjá sr. Geir Waage. Það var alveg ágætt, og gaman hvað kallinn var forn, tónaði t.d. allt sem tóna má samkvæmt ritúalinu, sem er talsvert meira en maður á að venjast. Það var tilbreyting að þessu.

En mikið lifandi skelfing er erfitt að umbera tiktúrur hans. Stafsetningarstælana (ég veit að það kemur úr hörðustu átt) og sjálfsánægðar, áreynslukenndar tilraunir hans til að standa gegn tímanum.

Reyndar er ég að sumu leyti sammála kjarnanum í grein hans í mogganum. Ríkið á ekkert að vera að þröngva kirkjunni til að gera eitt eða neitt. Kirkjan á að finna út úr því sjálf, en hún á ekki að taka áratugi í það, eins og skilja mátti á Geir að væri æskilegt af því að þannig gerðust kaupin á eyrinni í Nikeu um árið.

Og svo kom auðvitað í ljós að hann var ekki bara óhress með að ríkið þröngvaði einhverju upp á kirkjuna, heldur í hjarta sínu viss um að aldrei kæmi til greina að gefa saman karl og karl, konu og konu. Þannig að formpælingarnar voru bara fyrirsláttur. Svoleiðis óheilindi fara illa mönnum sem ævinlega tala eins og handhafar sannleikans.

Þangað til frumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram núna um daginn voru hjúskaparréttindamál samkynhneigðra í pattstöðu. Kirkja og ríki vísuðu hvort á annað af yfirlætisfullri tækifærismennsku. Nú er ríkið búið að stíga skref. Kirkjan stendur berskjölduð og verður að ákveða hvað hún gerir. Látið hana endilega ákveða það sjálfa.

En voðalega er skrítið að heyra sprenglærða guðfræðinga ræða ritninguna. Geir og Bjarni í Kastljósinu í gær virtust ekki einu sinni geta komið sér saman um merkingu og þýðingu grundvallarsetningar úr guðspjöllunum, og hvort hana bæri að skilja sem afdráttarlausa afstöðu Krists um hvurs kyns fólk í hjónabandi ætti að vera, eða sem áminningu til karlmanna um að skilja ekki við konur sínar að nauðsynjalausu.

Kannski er þetta bara lesblinda sem veldur því að sr. Geir skrifar svona sérviskulega...

Því meira sem ég heyri og les af ritskýringum um Biblíuna, því verr finnst mér hún komin í höndum guðfræðinga. Verð að fara að koma mér að verki aftur.