fimmtudagur, desember 01, 2005

Grípum Geirinn í hönd

Einu sinni fór ég í messu hjá sr. Geir Waage. Það var alveg ágætt, og gaman hvað kallinn var forn, tónaði t.d. allt sem tóna má samkvæmt ritúalinu, sem er talsvert meira en maður á að venjast. Það var tilbreyting að þessu.

En mikið lifandi skelfing er erfitt að umbera tiktúrur hans. Stafsetningarstælana (ég veit að það kemur úr hörðustu átt) og sjálfsánægðar, áreynslukenndar tilraunir hans til að standa gegn tímanum.

Reyndar er ég að sumu leyti sammála kjarnanum í grein hans í mogganum. Ríkið á ekkert að vera að þröngva kirkjunni til að gera eitt eða neitt. Kirkjan á að finna út úr því sjálf, en hún á ekki að taka áratugi í það, eins og skilja mátti á Geir að væri æskilegt af því að þannig gerðust kaupin á eyrinni í Nikeu um árið.

Og svo kom auðvitað í ljós að hann var ekki bara óhress með að ríkið þröngvaði einhverju upp á kirkjuna, heldur í hjarta sínu viss um að aldrei kæmi til greina að gefa saman karl og karl, konu og konu. Þannig að formpælingarnar voru bara fyrirsláttur. Svoleiðis óheilindi fara illa mönnum sem ævinlega tala eins og handhafar sannleikans.

Þangað til frumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram núna um daginn voru hjúskaparréttindamál samkynhneigðra í pattstöðu. Kirkja og ríki vísuðu hvort á annað af yfirlætisfullri tækifærismennsku. Nú er ríkið búið að stíga skref. Kirkjan stendur berskjölduð og verður að ákveða hvað hún gerir. Látið hana endilega ákveða það sjálfa.

En voðalega er skrítið að heyra sprenglærða guðfræðinga ræða ritninguna. Geir og Bjarni í Kastljósinu í gær virtust ekki einu sinni geta komið sér saman um merkingu og þýðingu grundvallarsetningar úr guðspjöllunum, og hvort hana bæri að skilja sem afdráttarlausa afstöðu Krists um hvurs kyns fólk í hjónabandi ætti að vera, eða sem áminningu til karlmanna um að skilja ekki við konur sínar að nauðsynjalausu.

Kannski er þetta bara lesblinda sem veldur því að sr. Geir skrifar svona sérviskulega...

Því meira sem ég heyri og les af ritskýringum um Biblíuna, því verr finnst mér hún komin í höndum guðfræðinga. Verð að fara að koma mér að verki aftur.

2 Ummæli:

Blogger Gummi Erlings sagði...

Ég skyldi nú ekki bofs af því sem Bjarni var að reyna koma út úr sér. Geir hélt sig þó aðeins nær kjarna málsins. Þáttarstjórnendur stóðu sig líka illa í að sauma að þeim.

7:18 e.h.  
Blogger Ásta sagði...

Alveg er ég fullkomlega sammála því að sleppa ekki guðfræðingum í Biblíuna. Sjálfri finnst mér hún best geymd í höndum bókmenntafræðinga enda mikilfenglegt skáldverk.

1:57 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim