Forðum okkur háska frá
Þetta er erfið sýning að horfa á. Leikið er allt í kringum áhorfendur sem hrúgast í miðju rýminu í skrifborðsstólum. Teórían er sennilega sú að þeir eigi að snúa sér þangað sem leikið er hverju sinni, en þrengslin gerðu það heldur torvelt. Eins eru nokkrar senur uppi á svölum, svo gamli hálsrígurinn frá því á Kabarett tók sig upp. En ólíkt henni þá ávann þessi sýning sér rétt til að láta fara illa um mann.
Mér finnst hafa tekist snilldarlega að umbreyta poloroid-röntgenmyndum Hugleiks af sálarlífi íslendinga í næstum-því-leikrit, nokkurskonar revíu í gömlu íslensku merkingunni, þar sem atriðin hanga saman á persónum og lausbeislaðri atburðarás, en gegna að öðru leyti hvert sínu hlutverki. Þau virka ekki alveg öll, og sum eru langdregnari en önnur, en sýningin í heild þrælvirkar.
þetta er ljót og grimm sýning um ljótan og grimman heim sem er því miður óþægilega kunnuglegur. Öll framsetningin er í þeim anda, þetta er hreinræktuð In-Your-Face sýning með hávaða, subbuskap ýkjum og klikkun.
Páll B. og María skrifa um Vojtsek í dag. María er hrifin af því hvað sýningin hefur tekið miklum framförum, en finnst enn vanta upp á að hún tali sama mál og Büchner. Páll er öllu harðorðari, eins og við var að búast og er lítt hrifinn, finnst hugkvæmnin vera utanáliggjandi, loftfimleikarnir óþarfir og eiginlega úreltir og sýningin öll bera með sér að eiga ekki rætur í brennandi löngun aðstandenda hennar til að segja þessa sögu.
Svo komst Varríus að því að Silja Aðalsteinsdóttir skrifar víst stundum leiklistargagnrýni í Viðskiptablaðið. Góðu heilli rata þeir pistlar síðan á vef TMM sem sparar manni flettingar í gegnum bleika blaðið. Gaman að pistlum hennar um Tökin hert og Halldór í Hollywood og svo Sölku Völku.