mánudagur, október 31, 2005

Forðum okkur háska frá

Fór loxins á Forðist okkur í gær. Fínt að fara í leikhús klukkan fimm, og enn betra þegar ekki er hlé. Það hefði verið mjög einkennilegt að sleppa fólki út úr martraðarheimi Hugleiks Dagssonar í korter til að spjalla og sötra og smala liðinu svo inn aftur.

Þetta er erfið sýning að horfa á. Leikið er allt í kringum áhorfendur sem hrúgast í miðju rýminu í skrifborðsstólum. Teórían er sennilega sú að þeir eigi að snúa sér þangað sem leikið er hverju sinni, en þrengslin gerðu það heldur torvelt. Eins eru nokkrar senur uppi á svölum, svo gamli hálsrígurinn frá því á Kabarett tók sig upp. En ólíkt henni þá ávann þessi sýning sér rétt til að láta fara illa um mann.

Mér finnst hafa tekist snilldarlega að umbreyta poloroid-röntgenmyndum Hugleiks af sálarlífi íslendinga í næstum-því-leikrit, nokkurskonar revíu í gömlu íslensku merkingunni, þar sem atriðin hanga saman á persónum og lausbeislaðri atburðarás, en gegna að öðru leyti hvert sínu hlutverki. Þau virka ekki alveg öll, og sum eru langdregnari en önnur, en sýningin í heild þrælvirkar.

þetta er ljót og grimm sýning um ljótan og grimman heim sem er því miður óþægilega kunnuglegur. Öll framsetningin er í þeim anda, þetta er hreinræktuð In-Your-Face sýning með hávaða, subbuskap ýkjum og klikkun.

Páll B. og María skrifa um Vojtsek í dag. María er hrifin af því hvað sýningin hefur tekið miklum framförum, en finnst enn vanta upp á að hún tali sama mál og Büchner. Páll er öllu harðorðari, eins og við var að búast og er lítt hrifinn, finnst hugkvæmnin vera utanáliggjandi, loftfimleikarnir óþarfir og eiginlega úreltir og sýningin öll bera með sér að eiga ekki rætur í brennandi löngun aðstandenda hennar til að segja þessa sögu.

Svo komst Varríus að því að Silja Aðalsteinsdóttir skrifar víst stundum leiklistargagnrýni í Viðskiptablaðið. Góðu heilli rata þeir pistlar síðan á vef TMM sem sparar manni flettingar í gegnum bleika blaðið. Gaman að pistlum hennar um Tökin hert og Halldór í Hollywood og svo Sölku Völku.

föstudagur, október 28, 2005

Ég játa mig sigraðan

Varríus hefur mætt ofjarli sínum í biblíuskýringum. Sjálfur Hannes Hólmsteinn leiðir okkur í allan sannleika um merkingu dæmisögunnar um miskunnsama Samverjann. Veit ekki hvort það er viðeigandi, en ég segi það samt:

priceless!

Spunahúsið 20 ára

Ef þú ert í London og það er sunnudagssíðdegi og þú veist ekkert hvað þú átt af þér að gera, enda nýbúin(n) að uppgötva að sunnudagar eru frídagar í leikhúsunum, þá er margt vitlausara en að heimsækja The Comedy Store. Þetta er eins og nafnið bendir til Stand-up klúbbur, og er til húsa í kjallara rétt hjá Piccadilly Circus.

Sunnudagskvöld eru sérstök í Grínbúðinni. Þá troða nefnilega upp The Comedy Store Players og sýna teatersport á heimsmælikvarða. Kom þarna um hvítasunnuna og hló eins og frík.

Og nú eru þau tuttugu ára. Afmælisgrein hér.

fimmtudagur, október 27, 2005

Leiðinleg vitleysa

Óskaplega leiðst mér málflutningur þeirra sem vilja halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni. Aðallega vegna þess að röksemdirnar (sem margar hverjar eru mikilvægar) snúast allsekki um af hverju er svona mikilvægt að það sé flugvöllur í Vatnsmýrinni, heldur hversvegna það er óásættanlegt að innanlandsflugið fari til Keflavíkur.

Sem er ekki sami hluturinn.

Villan er svo að gera andstæðingum Vatnsmýrarvallarins upp þá skoðun að völlurinn eigi fyrir alla muni að hverfa suður á nes.

Og svo er þessu stillt upp sem enn einu dæminu um yfirgang höfuðborgarbúa og skeytingarleysi um bræður sínar og systur í sveitinni.

Sjálfur fæ ég ekki séð að innanlandsflug um Keflavík gangi upp. Alltof mikill tími bætist við ferðalagið, fyrir utan umstang, sjúkraflugsmál og önnur gild rök gegn því.

En þau rök eru ekki sjálfkrafa rök fyrir óbreyttu ástandi. Ef finnst önnur góð staðsetning sem rök Vatnsmýrarflugvallarvina af landsbyggðinni hrína ekki á, fæ ég ekki séð að það komi þeim neitt við hvort völlurinn verði fluttur þangað.

Á sama hátt er það einkamál Akureyringa hvort flugvöllurinn þar sé á Leirunum eða einhversstaðar utar í firðinum í sambærilegri fjarlægð frá Bautanum. En það væri óásættanlegt að fytja Akureyrarflugið til Húsavíkur. (á sama hátt reyndar og það var óþolandi þegar Húsavíkurflugið var flutt til Akureyrar, en það er önnur saga).

miðvikudagur, október 26, 2005

Ýmis orð í belg

Bloggvinir Varríusar eru margir á kvenfrelsisnótum þessa dagana, sem vonlegt er. Þetta er hvert öðru ritfærara og djúphugulla þannig að í stað þess að leggja eigin orð í þann belg fer ég að fordæmi hennar Helgu í þjóðsögunni og safna leifum þeirra í belg einn mikinn. Ólíkt henni legg ég hins vegar að fólki að gægjast í hann, enda er þetta "allt óskemmt".

Sigríður Grindhveli kemur víða við í pistli um kvenfyrirlitningu og simpsonvæðingu karlkynsins.

Á vef Ylfu gefur hinsvegar að lesa eldheita varnarræðu heimavinnandi húsmóður.

Samhugur í verki fær nýja vídd hjá strandagaldrakarlinum, gott ef hann minnir ekki ofurlítið á Svövu heitna Jakobsdóttur í pistli þessum.

Og svo get ég ekki stillt mig um að vísa fólki á þessa miklu snilld, en læt þess jafnframt getið að það var dr. Gunni sem leiddi mig þangað, og hafi hann þökk.

Vítið enn

Það er mikið búið að grínast með hið vítaverða víti Henry og Pires - og til að kæta Huldu má geta þess að þetta var hugmynd Henrys. En þetta er sko alls ekki einsdæmi. Fordæmið sem þeir félagar nefndu er þegar Johan Cruyff og Jesper Olsen léku þessa list fyrir Ajax 1982. En sagan er ekki öll.

Á fótboltavef The Guardian er vikulegur pistill sem heitir The Knowledge. Þar svara sparkspekingar blaðsins spurningum um fótbolta sem á köflum eru svo nördalegar að furðu sætir. Að sjálfsögðu vildi einhver vita hvort Cruyff og Olsen ættu einu fyrirmyndina að uppátækjum Róberts og Týra. Svo reyndist ekki vera. Nokkur dæmi voru nefnd, en eftirfarandi vekur auðvitað sérstaka athygli:
Yet the nearest variation to the 'two-touch' penalty can be tracked back even further; all the way to June 5, 1957 in fact, when Belgium entertained Iceland in a World Cup qualifying tie. Already leading 6-1, Belgium were awarded a 44th-minute penalty. Up stepped Rik Coppens to take it, but instead of firing towards Björgvin Hermannsson in the Iceland goal, Coppens nonchalantly passed to team-mate André Piters, who returned the favour, enabling the former to score past a stunned Hermannsson. The match ended 8-3 and Coppens went on to be voted 73rd on a list of all-time great Belgians.
Annað sem vekur athygli er að enn hef ég ekki rekist á neinn íslenskan fjölmiðil rifja þetta upp. Ekki einu sinni sjálfur yfirfótboltanördinn.

mánudagur, október 24, 2005

Tveir farsar og kassi

Ágætis Londonferð afstaðin. Munar þar mestu að enn tókst að auka við hljóðfærakost heimilisins, en allt síðan ég sá og heyrði í Cajon fyrir skemmstu hef ég ekki getað á heilum mér tekið. Nú hefur slíkur gripur bæst í safnið, og það er auðvitað allt annað líf.

Eina leiksýningu tókst mér að sjá, ansi lipra uppfærslu á móður allra farsa, What the butler saw eftir séníið skammlífa Joe Orton. Svínvirkaði þrátt fyrir hreint afleita frú Prentice. Dr. Rance var stórkostlegur og allt var þetta í hárréttri tóntegund, nokkuð sem hefur löngum vafist fyrir þeim sem sviðsetja verk Ortons.

Það var líka skrípó í boði á Highbury þar sem mínir menn tóku á móti Manchester City. Leiksins verður vafalaust minnst fyrir fáránlegt uppátæki Henrys og Pires, þar sem sá síðarnefndi hugðist spila úr vítaspyrnu og senda á markakónginn mikla. Nógu hálfvitaleg hugmynd svosem, sem Róbert beit svo höfuðið af skömminni með því að klúðra geðveikt illa. Eins gott að við vorum yfir, og unnum. Að öðrum kosti hefðu stuðningsmennirnir vafalaust farið eins með sökudólginn og hann með skömmina.

En voða gaman að fá að hylla gömlu hetjuna Ian Wright sem kom inná fyrir leik til að hylla Henry sem sló markamet þess fyrnefnda í Prag í vikunni sem leið. Og syngja við raust - með sínu lagi:

Ian Wright-Wright-Wright!

Og björtu hliðarnar: Öryggi í liðinu, hafði aldrei á tilfinningunni að sigurinn væri í hættu. Og þar sem ég er loksins að lesa Fever Pitch,ástarjátningu Nicks Hornby til Arsenal, þá er ég alveg sáttur við dálítið andleysi og "One-Nil to the Arsenal" sem líka var gaman að kyrja í leikslok.

Nú er bara að ná brilljansinum síðan í fyrra og hittifyrra og þá er þetta komið.

miðvikudagur, október 19, 2005

Af dómum

Valgeir Sk. var svona líka hrifinn af Halldóri í Hollywood í Fréttablaðinu í gær.

Ármann Jakobsson kveður sér hljóðs á kistunni og var ekki par hrifinn af Sölku Völku. Vel útfærður dómur eins og við var að búast.

Og Þorleifur A. fer hamförum um leikhús Berlínarborgar á bloggi sínu.

Sjálfur er ég búinn að skila af mér langhundi í tímaritið Börn og menning þar sem ég ræði það sérkennilega mál að börn sjást nánast aldrei í sýningum fyrir fullorðna nema til standi að láta þau deyja.

Og þar með er ég á förum til Lundúna. Meira um það síðar.

þriðjudagur, október 18, 2005

Klukk 2

Nú er víst búið að endurklukka mig. Gamla klukkið er reyndar til, en það er alveg ómögulegt að fara að endurbirta það. Að þessu sinni verða allar staðreyndirnar tónlistartengdar.

Það var lítil sem engin tónlist á mínu heimili. Enginn söng, hvað þá spilaði á hljóðfæri. Það var til gamall grammafónn en við Hjördís rústuðum plötusafninu í vitleysisgangi eitt sinn og kom slíkt tæki ekki inn á heimilið aftur fyrr en daginn sem ég fermdist. Einhverju síðar ákvað ég að læra á gítar, og festi kaup á einum slíkum hjá Stjána Páls sem hafði umboð fyrir svoleiðis græjur í bílskúr neðar í götunni. Gítarinn var skaðræðisgripur, en kom mér á bragðið. Fargaði honum fyrir rúmu ári í flutningum og sakna hans ekki.

Ég veit að það gleður Gunnar Ben að heyra að ég er ekki alæta á tónlist. Stafar það nú kannski fyrst og fremst af tímaskorti, en heilu stefnurnar á ég með öllu ókannaðar. Um langt skeið hlustaði ég nánast eingöngu á klassíska tónlist, og er því á köflum úti að aka í poppinu. Nokkur dæmi um tónlist sem ég hef annaðhvort ekki kynnt mér og ætla ekki, eða mislíkar í grundvallaratriðum:

Vínarvalsar
Hiphop
Elton John
Dauðarokk og skyld þungarokksafbrigði
Ave Maria eftir Kaldalóns
Djass með óhóflegum spunasólóum
R&B og annað poppdívupopp
Wham og Duran Duran
Generísk "Þjóðlagatónlist"

Mér finnst verk tónskálda mikilvægara en verk flytjenda. Ég held ég hafi t.d. aldrei keypt mér klassískan disk vegna þess hverjir spila eða syngja á honum, en á hinsvegar góðan slatta af tónlist þeirra manna sem eru í mestum metum hjá mér. Í allskyns flutningi. Fyrir vikið tek ég stundum tuðköst yfir Idolinu, þar sem hið stórlega ofmetna framlag söngvara til áhrifa tónlistarinnar er lofsungið. Og ekkert pirrar mig meira en þegar lögin sem þar eru flutt eru kennd við þann sem söng það síðast. Kæru vinir: Proud Mary er eftir John Fogerty úr Creedance Clearwater Revival. Að kenna það við Tinu Turner er eins og að kenna Dvel ég í draumahöll við Árna Tryggvason.

Ég safna hljóðfærum. Samt er ég ekki safnari, þannig séð. Ég vil geta spilað á öll mín hljóðfæri, og ræð sæmilega við þau flest. Er ennþá svekktur yfir því að Heckelfónn gekk mér úr greipum fyrir um tveimur árum síðan.

Mér finnst kikk að syngja í kór, og fáránlega skemmtilegt að semja og raddsetja tónlist. Myndi vilja læra meira í því á formlegan hátt en mun aldrei gefa mér tíma til þess.

föstudagur, október 14, 2005

Nýr Mahir?

Margir muna eftir Mahir, hinum geðþekka en þurfandi hundtyrkja, sem falbauð sig á netinu fyrir nokkrum árum. Ýmislegt bendir til að veraldarvefurinn hafi eignast nýtt kyntákn. Herrar mínir og frúr - góða ferð inn í helgina með...

String-Emil!

Heilt yfir - helvíti gott!

Slatti af dómum um Vojtsek. Allir jákvæðir, þó sumir kvarti (eins og við mátti búast) yfir að verk Büchners og andi þess sé ofurliði borið í skrautsýningunni. María er svolítið á þeim nótunum í Mogganum, en finnst þetta kannski koma meira að sök en flestum.

Hér er yfirlit:

Guardian

Times

Evening Standard

Independent

Telegraph Krefst ókeypis skráingar.

fimmtudagur, október 13, 2005

Tveggja mínútna þögn

Þannig stakk Alan Bennett upp á því að sextugsafmælis Haroldar Pinters væri minnst, og vísaði í að sá gamli er talinn einhver mesti meistari þagnarinnar í flokki leikskálda síðustu aldar.

Núna er aftur tími til að þegja. Pinter 75 ára um þessar mundir og var rétt í þessu að fá Nóbelinn. Við leikskáld fögnum.

Pinter er klárlega eitt af stóru nöfnunum. Hann var svo óheppinn að vera spyrtur við sér alls óskylda höfunda undir trúðshatti Martins Esslin - Leikhús fáránleikans, en það höfuðfat fór honum heldur illa. Reyndar á það við um alla höfundana sem þar eru skilgreindir, nema kannski hálfvitann Ionesco.

Pinter hefur aldrei verið allskostar minn maður. Ég sé hvað hann er flottur, en hann hrífur mig ekki. Mig hefur t.d. aldrei langað að skrifa eins og hann. Sem betur fer, því hann er einn þeirra höfunda sem auðvelt er að apa eftir á yfirborðinu og útkoman er næstum örugglega dauð, geld og leiðinleg. Það er auðvelt að skrifa "þögn", en menn fá Nóbelinn fyrir að setja þær á rétta staði.

Ég hef lesið slatta af kallinum, en ekki séð að ég muni nema þrjár sýningar á sviði. Húsvörðinn í óperunni með Arnari, Hjalta og Róbert var flott en ekki magnað fyrir minn smekk. Á NEATA-hátíð í Trakai árið 2000 voru norðmenn með tvo einþáttunga eftir hann. Behöver jeg at si mer? Og Leikfélag Kópavogs gerði smarta hluti við einn þessara sömu einþáttunga á einþáttungahátíð á Húsabakka.

Svo hef ég séð eitthvað í sjónvarpinu, þar á meðal John Travolta (í alvöru) leika í Matarlyftunni. Kannski hef ég séð eitthvað fleira, en man það ekki. Nokkuð viss um að hafa aldrei skrifað um Pintersýningu allavega.

Hefði viljað sjá tveggjaþáttasýningu Alþýðuleikhússins, Kveðjuskál og Einskonar Alaska. Einnig gæti ég hugsað mér að sjá góða uppfærslu á Heimkomunni sem er eitt undarlegasta leikrit sem ég hef lesið.

Allavega - til hamingju Harold.

Þess má svo í framhjáhlaupi geta að Vojtsek Vesturports fékk glimrandi dóma í The Guardian, til hamingju með það! Væntanlega tínast inn fleiri dómar á morgun og þá verður linkað. María K. var í London fyrir Moggann og hljómar hæfilega hrifin í smá "fordómi" á forsíðunni í dag.

miðvikudagur, október 12, 2005

Mahlsdorf noch einmal

Dómur um Ég er mín eigin kona frá Írlandi.

Sem minnir mig á að það fyrsta sem ég vissi um verkið var dómur eftir minn uppáhaldsmann, John Heilpern. Hann skilaði minnihlutaáliti eftir að verkið hafði hlotið Pulitzerverðlaunin og þótti sem afgreiðsla höfundar á siðferðisbrestum hetjunnar eyðileggja verkið. Dómurinn er ekki lengur aðgengilegur á netinu, en hér eru aðfinnslur Heilperns:
My emphasis is on Mr. Wright's starting point: the miracle of her survival. But he has only the mildest suspicions. "Now Charlotte," he says eventually in the measured tones of an admirer who's praying all turns out well. "I heard in the 70's the Stasi came to you, and offered to treat you very well if you offered to give the names and addresses of the people who frequented your museum. I heard they actually promised you a car. Is that right?"

Whereupon Charlotte cautiously confesses that she signed a document from the Ministry of State Security agreeing to work as a secret Stasi agent. "And you had to sign it?" says Doug, hoping against hope.

"Isignedit,"sheanswers ambiguously.

That ought to be enough for the dramatist to look at his heroine in a very different light. She's admitted to having been an informer for the most feared secret police since the Gestapo. "Sometimes you must howl with wolves," Charlotte explains-a feeble justification, which the dramatist makes no comment on.

Mr. Wright-or Doug, as he's referred to in the play-won't confront the truth about her. As the first act comes to a close, he learns the German press has got its hands on the Stasi file. The evidence against Charlotte couldn't be clearer: She was a "willing" and "enthusiastic" informer for four years. The museum was a drop-off point for the Stasi.

How does Mr. Wright take this latest, damning evidence? "Charlotte," Doug says at the start of Act II, "I'm afraid-for me-your Stasi file is an exercise in frustration." An exercise in what ? And by then-for me-the play was an exercise in avoidance. But look what happens next.

We learn about Charlotte's relationship with a black-market clock dealer, Alfred Kirschner. When Kirschner is caught by the authorities and jailed, Charlotte explains that he begged her to testify against him to save her own skin. And surely by now we can't be expected to buy it. But the apologetic Mr. Wright hopes otherwise.

"Charlotte," he says to her, mustering his courage, "I know this is difficult. And I know I'm an American from thousands of miles away … . " (Ah, that American-not the ugly one, the simple-minded one from the other side of the moon.) "I didn't even really know what the Cold War was until it ended," he continues. "So I've no right to sit in judgment. But about Alfred Kirschner …. "

Mr. Wright, a word in your ear: Do sit in judgment. It's time . If, by your mid-30's, you didn't know what the Cold War was until it ended, where had you been? That the line gets another cheap laugh from the audience is one thing. Couldn't you at least have troubled to read a book about the period before trotting off to see the sainted Charlotte in Germany?

And so I lost all confidence in the play and Mr. Wright's slack, self-serving muddle and hero worship. I didn't see Charlotte von Mahlsdorf as a uniquely fascinating, "quaint" survivor at all. At best, she's a tired, evasive footnote to history who happens to be a transvestite; at worst, she's a collaborator with blood on her hands.


Fyrir mér kemst sagan sem sögð er í verkinu til skila í allri sinni siðferðilegu óreiðu þrátt fyrir vandræði höfundarins, sem ég er í sjálfu sér sammála greiningu Heilperns á, að viðbættu orðinu Narcissism sem dómurinn í Guardian leggur í púkkið. Það hefði verið betra að hafa þennan heimska ameríkana utan verksins, en hann kemur ekki stórlega að sök. Að frádregnu innihaldinu er verkið skemmtileg þrautabraut fyrir flinkan leikara, og fyrst og fremst ætlað þeim sem hafa gaman af svoleiðis.

Sýningin í Iðnó er sýning Hilmis Snæs, ekki Dougs Wright.

þriðjudagur, október 11, 2005

Þeir þekkja sitt heimafólk bölvaðir

Magadansmærin Josi er farin úr húsinu á horni Nóatúns og Skipholts. Í staðin er mætt Tónabúðin. Þarmeð nálgast hljóðfæraverslanir bæjarins enn markhóp sinn.

Rín á horni Stórholts og Brautarholts.
Tónastöðin nokkrum húsum ofar við Skipholtið
Hljóðfærahúsið nokkrum skrefum neðar, í gamla sjónvarpshúsinu
og nú Tónabúðin.

Þetta kallar maður beina markaðssókn. Sá eini sem virðist vera alveg klúless er hr. Kröyer sem rekur sína búð upp á höfða. Einu sinni reyndi ég að fá hann til að selja Hugleik trommusett, en hann dró mig á asnaeyrunum vikum saman þar til ég gafst upp og keypti vort fagurrauða Adamssett í heimahúsi í Keflavík.

Ef maður þarf endilega að deyja...

... er ekki ónýtt að einhver skrifi svona minningargein eftir mann.

mánudagur, október 10, 2005

"Mamma, sjáðu hvað ég fann við tjaldið hans Jósúa!

- tortellini!"

Biblíuskýrandinn snýr aftur, blásandi á sönglúðra. Jósúabók gjöriðisvovel.

Biohazard

Ég sá ekkert á kvikmyndahátíð að þessu sinni. Fékk boðsmiða á Strings frá öðlingnum Bernd en þegar við Hulda mættum var uppselt og ekki hægt að fá aukamiða. Svo við fórum heim. Komst ekki á laugardagskvöld vegna tónsmíða sem komnar voru í eindaga. Afraksturinn var æfður í dag og ég er á því að þetta hafi verið góð býtti.

Ég er ekki með samviskubit yfir að fara ekki í í bíó. Reyndar fer ég næstum aldrei í bíó. Ég hef ekki áhuga á kvikmyndum. Gagnvart þeim er ég eins og "almennur leikhússgestur" í leikhúsinu. Það þarf eitthvað sérstakt til að drífa hann af stað, og þegar þangað er komið vill hann bara láta hafa ofan af fyrir sér. Hrífa sig. Honum gæti ekki verið meira sama um tækni, stíl, túlkun eða þvíumlíkt, hvað þá hégóma eins og prófgráður leikaranna. Hann situr bara þarna og hugsar: "Skemmtiði mér helvítin ykkar!"

Þannig huxa ég um bíó. Ég hef gaman af bíómyndum ef þær virka. Mér er skítsama hvernig. Ég hef engan áhuga á hvernig þær eru búnar til eða hvaða brellum er beitt í það og það skiptið til að hafa þau áhrif sem þær hafa.

Og fátt pirrar mig meira en fólk sem heldur að leikhús sé einhverskonar lotec kvikmyndir, og leikarar séu því betri sem þeir komast nær því að vera eins og Marlon Brando í On the Waterfront. Sennilega leynist einhversstaðar bíónörd sem er álíka innanbrjósts gagnvart fávitum eins og mér.

Og debet og kredit veraldarinnar stemmir þvísemnæst...

Fór á leiksýningu í kvöld í embættiserindum. Nigel Watson sagði gamlar welskar skröksögur í Norræna húsinu. Dómur birtist væntanlega á þriðjudag, en ef þetta prógramm verður endurtekið þá myndi ég mæla með að fólk drifi sig.

Og þá meina ég allir sem hafa áhuga á að láta hafa áhrif á sig.

Líka bíónirðir.

sunnudagur, október 09, 2005

Fjölmiðlagetraun Varríusar

Þær eru fjórar og búa allar heima hjá mömmu - nema Steinunn.

Um hverja er talað. Vísbendingu er að finna á forsíðu fjölmiðils í vikunni.

Aukaspurning:
Af hverju er alltaf verið að segja fréttir af einhverjum auðnuleysingja sem heitir Pete Doherty?

fimmtudagur, október 06, 2005

Vitur bloggari hefur sagt

Hvers vegna eru fimm hommar að pota í bumbuna á gagnkynhneigðum manni með derhúfu raunverulegri en selur sem veltir sér á grjótgarði í vogskornum firði í Noregi?


Menn sem skrifa svona setningar eru heimsóknarinnar virði. Allir á Sváfni.

Ekki það að ég nenni að pota honum aftur inn á linkasafnið. Ekki í þessari umferð allavega.

Tveir áfangastaðir

Viðburðadagatalið á Leiklist.is er alger snilld. Klikkið t.d. á 7. eða 8. október og þá fáið þið að vita að Hugleikur er í Þjóðleikhúskjallaranum með Þetta mánaðarlega einmitt þessi kvöld. Drífa sig!

Og svo er það hið nýbyrjaða en óvenju aktífa æfingablogg Jólaævintýrisins. Fylgist með frá byrjun.

mánudagur, október 03, 2005

Fordómar og ördómar

Er aftur orðinn atvinnuleiklistargagnrýnandi. Þ.e. aftur farinn að gagnrýna leiklist atvinnumanna eftir vanhæfnisveturinn í fyrra. Skrifaði mikið mál um Ég er mín eigin kona sem Mogginn setti svo á forsíðuna. Veit ekki hversu hrifinn ég varð af því. Hrifningin varð einhvernvegin yfirþyrmandi, og efasemdatónninn í dómnum hvarf alfarið í skuggann. Ojæja...

Fór svo á forsýningu á Vojtsek á laugardaginn (gaman að setningum með sömu forsetningunni þrítekinni). Finnst eiginlega að ég eigi að skrifa fordóm um það:

Fullt af flottum hugmyndum, mikið sjónarspil, flott tónlist... en ég verð hissa ef enginn breskur gagnrýnandi notar frasann A whole that is lesser than the sum of its parts. Vona samt ekki - ef allt smellur þá er þetta mikill sigur fyrir íslenska leikhúslandsliðið. Reyndar er prógrammið sem þau eru hluti af alveg svakalega spennandi eins og það leggur sig. Kíkið á það. Vek sérstaklega athygli á síðasta iteminu. Sérstaklega ef Sváfnir kíkir hingað. Og talandi um það, linkalistinn hér við hliðina á er gamall og úreltur, en verður ekki lagfærður fyrr en ég tími í það tíma sem ég hef ekki.

Og talandi um fordóma: Er eitthvað fyndið við þetta?

Annars er ég dálítið hrifinn af ördómum. Þ.e. leikdómum sem ná að súmmera upp viðbrögð manns í einni setningu. Má vera að fyrrnefndur tímaskortur eigi sinn þátt í hrifningunni.

Sjálfur skrifaði ég einu sinni ördóm um gríðarlega langa danska sýningu um hóp gyðinga sem biðu í danskri kirkju eftir báti til að komast undan nasistum. Dómurinn var svona: "Sjaldan hefur Gestapó verið beðið af jafnmikilli óþreyju".

Einn félagi minn toppaði þetta reyndar á ósmekklegheitaskalanum í Mónakó í sumar þar sem hann hreytti útúr sér um vonlausa Níkaragúska sýningu: "Hvar eru dauðasveitirnar þegar maður þarf á þeim að halda?"

Þetta rifjaðist upp þegar ég rakst hér aldeilis fullkomna afgreiðslu á Kallakaffi. Smekklegt, snaggaralegt og segir allt sem segja þarf.