mánudagur, febrúar 28, 2011

day 14 - a song that no one would expect you to love




Eins og blasir við af ljóðavalinu hingaðtil er ég alger sökker fyrir hrynjandi. En þessi snilldar(hug)mynd hans Gyrðis hefur alltaf kætt mig. Ég hefði aldrei rekist á þetta ljóð ef ekki kæmi til hin frábæra bók Gegnum ljóðmúrinn sem mér var sett fyrir í Menntaskóla og þykir jafnvænt um og Skólaljóðin umdeildu. Það er miklu meira í henni af ljóðum og minna af myndum (þetta er ein af örfáum) og fyrir vikið meira af drasli. En hún hefur leitt mig á vit nokkurra minna uppáhaldsskálda. Gyrðir er svo sem ekki eitt af þeim, en þetta gladdi mig - og gleður enn.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

sunnudagur, febrúar 27, 2011

day 13 - a song that is a guilty pleasure

Litla kvæðið um litlu hjónin

Við lítinn vog, í litlum bæ
er lítið hús.
Í leyni inní lágum vegg
er lítil mús.
Um litlar stofur læðast hæg
og lítil hjón,
því lágvaxin er litla Gunna
og litli Jón.

Þau eiga lágt og lítið borð
og lítinn disk
og litla skeið og lítinn hníf
og lítinn fisk
og lítið kaffi, lítið brauð
og lítil grjón.
því lítið borða litla Gunna
og litli Jón,

Þau eiga bæði létt og lítil
leyndarmál
og lífið gaf þeim lítinn heila
og litla sál.
Þau miða allt sitt litla líf
við lítinn bæ
og lágan himin, litla jörð
og lygnan sæ.

Þau höfðu lengi litla von
um lítil börn
sem léku sér með lítil skip
við litla tjörn,
en loksins sveik sú litla von
þau litlu flón,
og lítið elskar litla Gunna
hann litla Jón.

Það var opinberun þegar ég hafði vit á því að slökkva á laginu í kollinum á mér og lesa bara ljóðið. Lagið er reyndar frábært fyrir sinn hatt, en boy, oh, boy, hvað það vinnur gegn stemmingunni í ljóðinu. Fínofin tragedía Davíðs (sem var nú yfirleitt ekkert góður í svoleiðis) fer algerlega út um gluggann í glaðhlakkalegum rytmafígúrum Páls (og engin "túlkun" söngvara bætir þar úr). Lesið og grátið (og hugsið kannski um staðgöngumæðrun). Og í beinu framhaldi: Lesið "Fyrir átta árum" eftir Tómas Guðmundsson. Þar er annað lag sem hefur breytt smágerðum listilega ortum harmleik í "Sál og hníf".




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

laugardagur, febrúar 26, 2011

day 12 - a song from a band you hate

Lennon

1

En þú sem varðs aldrei
sextíuogfjögurra ára,
aldrei nema fjörutíu ára drengur
nei, fjögurra ára drengur,
lítið barn í fullorðnum manni,
nú um aldur fram
langt um aldur fram
horfirðu inn í byssuhlaupið
og höggormstönnin spýtti eitri
í óvarið hjarta þitt
langt um aldur fram: hann miðaði
á fullorðinn mann, geymdan
í víggirtu hjarta lítils drengs
sem beið föður síns heima, nú
tekur hann aldrei framar í hönd föður síns
áður en þið gangið yfir Central Park West
því að þú ert farinn í óvænta heimsókn
til guðanna, óvænt fórst þú
á fund guðanna á himnum
og sólbros gyðjunnar hætti að skína
í andliti hennar.

í andlit ykkar …

Þið sem sunguð um ástina friðinn
og drenginn í draumi ykkar, hann
sem breytti heimi leitandi augna
í paradísarheimt
og átti ekki að vera hræddur við
að gráta: kannski verður hann
sextíuogfjögurra ára einn byssulausan
dag verður hann sextíuogfjögurra ára
í söng þessa fullorðna barns
og eilífu æði bítilsins og þá verður
þú, Lennon, í fögnuði guðanna
umfafinn aðventubrosi gyðjunnar
sem hellti hassgeislum yfir ást ykkar
þegar Yoko hélt það væri jafn saklaust
að syngja: Hard times are over
og ykkur McCartney þótti sjálfsagt að sá dægur kæmi
when I'm sixty-four, en hann kom ekki
enginn nýr dagur kemur úr gusandi
byssuhlaupi, samt munum við heyra púðurreykinn
af þessum framandi orðum: all we are saying
is give peace a chance, orð orð
máttvana minning, þegar sólgos gyðjunnar
breytist í svart hrynjandi myrkur.

Matthías Johannessen


Hún pirrar mig ógurlega þessi vísun í byrjuninni í lag sem allir eiga að vita að er ekki eftir Lennon. Fyrsti tónninn sem er sleginn er falskur. Þó pirrar mig enn meir að moggaritstjórinn, með öllu sem því fylgir, skuli ekki skammast sín meira en svo að eftir heilan feril af að hafa af heilum hug varið allt sem Bandaríkjastjórn datt í hug að gera skyldi setja saman svona flatneskjulega mærð um mann sem var lengi vel ofsóttur af þessum sömu yfirvöldum fyrir að vekja athygli á málstað (málstöðum) sem ekki voru þeim að skapi, og leggja jafnframt út frá því að hann hafi verið "barn". Þegiðu og skammastu þín og nuddaðu þér upp við þitt fólk, en láttu mitt í friði.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

föstudagur, febrúar 25, 2011

day 11 - a song from your favorite band

Land og fólk

Landið má viljugt þola vetur;
fólk klæðir af sér frost
en á hvergi skjól fyrir skrumi.

Þegar dagur rís í austri
hlæja hlíð og skriða
ljósið bræðir þela úr lýngmó og skóf
og fólk hristir af sér hrím blekkínganna.

þó býr landið yfir leyndum harmi
og einstaka maður við örkuml.

Þorsteinn frá Hamri


Ég elska mörg skáld en Þorsteinn er mitt skáld. Hann er sá eini sem ég safna, sá eini sem ég sökkvi mér ofaní þegar ég skil ekki strax, sannfærður um að það sé ekkert feik, engir stælar í gangi og djúpköfunin muni borga sig. Ég vil lesa allt sem hann skrifar, ég vil hlusta á Eyrbyggjasögu af því að það er hann sem les hana, ég vil komast inn í hugarheiminn. Þetta ljóð, úr Fiðrið úr sæng daladrottningar, er ekkert endilega uppáhaldsljóðið mitt. En þetta var fyrsta bókin hans sem ég las spjaldanna á milli og sannfærði mig um að Þorsteinn er mitt skáld.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

fimmtudagur, febrúar 24, 2011

day 10 - a song that makes you fall asleep

Dvel ég í draumahöll
og dagana lofa.
Litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa.

Svífur ró á djúp og dal,
dýr til hvílu ganga.
Einnig sofna skolli skal
með skottið undir vanga.

Torbjörn Egner/Kristján frá Djúpalæk


Vel gert auðvitað, en aðallega skulum við hugleiða þá ótrúlegu staðreynd að til er sérstök grein bókmennta (og að einhverju leyti tónlistar) sem er helguð því að svæfa þá sem hennar njóta. Á ég að syngja meira, refur?



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

miðvikudagur, febrúar 23, 2011

day 09 - a song that you can dance to

Ormurin Langi

1. Vilja tær hoyra kvæði mítt,
vilja tær orðum trúgv,
um hann Ólav Trúgvason,
higar skal ríman snúgva.

Niðurlag: Glymur dansur í høll,
dans sláði í ring!
Glaðir ríða noregis menn
til hildarting.

2. Kongurin letur snekju smíða
har á sløttumsandi;
Ormurin Langi støstur var,
Sum gjørdur á Noregis landi.

3. Knørrur var gjørdur á Noregis landi,
gott var í honum evni:
átjan alil og fjøruti
var kjølurin millum stevni

4. Forgyltir vóru báðir stavnar,
borðini vóru blá,
forgyltan skjøldá toppi hevði,
sum søgur ganga frá.

[…]

82. Eirikur var á øðrum sinni
aftur á bunkan rikin,
tá sá hann, at stavnurin
á Orminum var tikin.

83. Jallurin mannar seg triðju ferð:
"Nú skal ikki dvína!"
Tá fall Úlvur og Herningur
við øllum dreingjum sínum.

84. Kongurin rópar í liftingi:
"Nú er tap í hendi;
leypið í havið, mínir menn,
her verður ei góður endi!"

85. Kongurin leyp í havi út,
garpar eftir fylgdu,
kongsins bróðir síðstur var,
teir gjørdu, sum kongur vildi.

86. Eirikur fekk tá Ormin Langa,
einkin annar kundi,
tók hann sjálvur róður í hond
og stýrdi honum frá sundi.

Niðurlag: Glymur dansur í høll,
dans sláði í ring!
Glaðir ríða noregis menn
til hildarting.


Að taka þátt í færeyskum dansi í fyrsta sinn er lífsreynsla. Það er svo margt sem maður kemst í snertingu við. Færeyskur dans er ekki einstaklingsbundin tjáning og ekki heldur performans - sem allt það sem maður hefur áður kallað "dans" er. Hann er sameiginleg upprifjun á fortíðinni. Hann getur komið þér í transkennt ástand. Og hann er ennþá almenningseign í Færeyjum. Sem minnir okkur Íslendinga á hverju við glötuðum, og reyndar allir Norður-Evrópumenn, þegar þessar dans-samkomur voru bannaðar af, eða undir áhrifum frá, kirkjunni (og mikil er skömm hennar). Takk Færeyingar fyrir að passa þennan arf fyrir okkur, og leyfa okkur að vera með þó við klúðrum viðlögunum svona sirka fram í 50. erindi, og getum aldrei stigið hið einfalda spor af neinu öryggi.


Fyrir þá sem langar að lesa allt kvæðið og nokkur önnur að auki: Hér.




Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

day 08 - a song that you know all the words to

Gunnarshólmi

Skein yfir landi sól á sumarvegi,
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtærri lind.
Beljandi foss við hamrabúann hjalar
á hengiflugi undir jökulrótum,
þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
En hinum megin föstum standa fótum,
blásvörtum feldi búin, Tindafjöll
og grænu belti gyrð á dalamótum.
Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
horfa þau yfir heiðarvötnin bláu,
sem falla niður fagran Rangárvöll,
þar sem að una byggðarbýlin smáu,
dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
Við norður rísa Heklu tindar háu.
Svell er á gnípu, eldur geisar undir.
Í ógna djúpi, hörðum vafin dróma,
skelfing og dauði dvelja langar stundir.
En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
Þaðan má líta sælan sveitablóma,
því Markarfljót í fögrum skógardal
dunar á eyrum. Breiða þekur bakka
fullgróinn akur, fagurst engjaval
þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka
glitaða blæju, gróna blómum smám.
Klógulir ernir yfir veiði hlakka,
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í lofti birkiþrasta sveimur,
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
Þá er til ferðar fákum snúið tveimur,
úr rausnargarði háum undir Hlíð,
þangað sem heyrist öldufalla eimur,
því atgang þann ei hefta veður blíð,
sem voldug reisir Rán á Eyjasandi,
þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
Um trausta strengi liggur fyrir landi
borðfögur skeið, með bundin segl við rá,
skínandi trjóna gín mót sjávar grandi.
Þar eiga tignir tveir að flytjast á,
bræður, af fögrum fósturjarðar ströndum
og langa stund ei litið aftur fá,
fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
útlagar verða, vinar augum fjær.
Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.
Nú er á brautu borinn vigur skær
frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður
atgeirnum beitta búinn. Honum nær
dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður
og bláu saxi gyrður, yfir grund.
Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
Svo fara báðir bræður enn um stund.
Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti.
Kolskeggur starir út á Eyjasund,
en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti.
Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti.
"Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga
alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!" - Svo er Gunnars saga.

- - -

Því Gunnar vildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðar ströndum.
Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél,
fjötruðu góðan dreng í heljar böndum.
Hugljúfa samt ég sögu Gunnars tel,
þar sem ég undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógnabylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
Þar sem að áður akrar huldu völl,
ólgandi Þverá veltur yfir sanda.
Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda.
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda.
En lágum hlífir hulinn verndarkraftur,
hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.

Jónas Hallgrímsson


Það er reyndar ekki rétt. Ég kann ekki Gunnarshólma og hef aldrei kunnað. En hin ógnvænlega lengd ljóðsins í Skólaljóðunum gömlu varð til þess að þegar talað er um utanbókarlærdóm ljóða kemur það ávallt fyrst upp í hugann. Ég held að ég hafi ekki einu sinni lagt í að lesa það í barnaskóla, svo yfirþyrmandi var þessi orðaflaumur. Því miður, því þetta er auðvitað ekkert eðlilega flott. Aftur: Muna að lesa upphátt, eða þá að hlusta á Hund í óskilum. Og fagna því að nú er víst búið að endurútgefa þessa fallegu bók.



Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

mánudagur, febrúar 21, 2011

day 07 - a song that reminds you of a certain event

Funeral Blues
 
Stop all the clocks, cut off the telephone,
Prevent the dog from barking with a juicy bone,
Silence the pianos and with muffled drum
Bring out the coffin, let the mourners come.

Let aeroplanes circle moaning overhead
Scribbling on the sky the message He is Dead.
Put crepe bows round the white necks of the public doves,
Let the traffic policemen wear black cotton gloves.

He was my North, my South, my East and West,
My working week and my Sunday rest,
My noon, my midnight, my talk, my song;
I thought that love would last forever: I was wrong.

The stars are not wanted now; put out every one,
Pack up the moon and dismantle the sun,
Pour away the ocean and sweep up the woods;
For nothing now can ever come to any good.

W.H. Auden


Þetta er fallegt ljóð, og Auden er almennt séð skáld sem gaman er að kynnast. En það er ekki síst hvernig maður kynntist honum sem er skemmtilegt og óvenjulegt. Það er ekki á hverjum degi sem ljóðalestri er skotið inn í rómantískar gamanmyndir, og það í fúlustu alvöru. En vitaskuld kom það Auden á kortið manns. Seinna komst ég svo að því að Benjamin Britten gerði lag við ljóðið, og mögulega var það fyrst og fremst hugsað sem söngtexti. Ekkert að því. Auden er skemmtilegt og fjölhæft skáld, sem mun ætíð minna mann á þessa prýðilegu bíómynd. Ekkert að því heldur.


Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

laugardagur, febrúar 19, 2011

Fagurt er á fjöllum núna

Ég hef vissulega ekki séð hverja einustu sýningu í Íslensku leikhúsi undanfarin áratug eða svo, en nógu margar til að fullyrða að sýningin í Norðurpólnum á Fjalla-Eyvindi sé nokkuð einstök. Aðallega vegna þess að þarna er farin róttæk endursköpunarleið að klassísku leikriti (sem er ekki alveg óþekkt) og heppnast fullkomlega (sem er öllu sjaldgæfara).

Að leikritið sé íslenskt er síðan það sem gerir þetta einstakt - eða svona næstum því.

Höfuðverk Jóhanns Sigurjónssonar, Eyvindur og Loftur, eru alveg sér á parti í leiklistarsögunni okkar. Við erum stundum að rembast við að tala um verk á borð við Skugga-Svein og Gullna Hliðið, jafnvel leikgerðir á Jóni Thoroddsen og Laxness, sem klassík. En það stenst enga skoðun, svo langt framar hinum standa meistarastykki Laxamýrardrengsins.

Og þegar búið er að vefja vaðmálið utan af Eyvindi, rífa skarsúðina, sprengja klettabeltin, veita fossinum í vask og kasta burtu öllu sem hefur með þjóðlífslýsingu að gera þá stendur eftir þessi líka magnaða baráttusaga fólks við náttúruöflin innan í sér - og utan. Listrænt miskunnarleysi Jóhanns er algert og lái honum hver sem vill að hafa síðar breytt endi verksins og látið strokuhest hneggja fyrir utan hreysi Eyvindar og Höllu þeim til bjargar.

Fórnarkostnaðurinn við svona róttækan niðurskurð og eimingu á aðalatriðunum er vitaskuld nokkur, og þá ekki síst þrívídd aukapersónanna (þeirra tveggja sem fá þó að vera með). Engu að síður voru Valdimar Örn Flygenring og Bjartur Guðmundsson mjög sannfærandi og áttu hvor um sig mergjaða senu móti konunni sem allt hverfist um í þessu verki.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir eru stórkostleg. Það er gaman að sjá Guðmund aftur, sá hann síðast vinna alltof lítið rómaðan leiksigur í Glæp gegn diskóinu og Eddu hefur maður verið helst til of gjarn á að setja í hólf týpugamanleikkvenna (tilraun til að þýða "character actress", sorrí). Ja, hún er allavega ekki þar lengur.

Sviðsetningin öll er ákaflega snjöll. Þó hún sé full af trixum og uppáfyndingum þá er hún á einhvern undraverðan hátt alveg laus við stæla. Vegna þess að allt þjónar sögunni og sambandi okkar við hana. Nýting á því fáa sem er til staðar er alltaf hárnákvæm og nytsöm til að byggja upp spennu, skapa andrúmsloft, segja söguna.

Mér varð stundum starsýnt á furðudýrið sem Arnes teiknar á gólfið utan um sig og minnti á myndir í gömlum bókum um skrímsli og furðuskepnur. Samt var hann að teikna sjálfan sig, svona eins og lína er dregin utan um lík í glæpamyndum. Og hugmyndin um að nota gamla útvarpsuppfærslu er innblásin.

Og svo hverfa öll trixin í hríðina í lokaþættinum sem er með því magnaðra sem ég hef séð í leikhúsi. Eftir sitja tvær persónur í óleysanlegum vanda, höfundurinn horfir á þær og lýsir því sem hann sér og heyrir af vísindalegu tillitsleysi og leikararnir sökkva sér ofan í það af listrænu örlæti. Þetta getur ekki klikkað. Eða jú, þetta getur svo auðveldlega klikkað, en bara gerir það ekki.

Takk Bjartur, Edda, Guðmundur, Marta og Valdimar, og þið öll hin á bakvið tjöldin. Svona á að gera þetta.

Þorgeir Tryggvason

föstudagur, febrúar 18, 2011

day 06 - a song that reminds you of somewhere

Álag

Það er talsvert á mann lagt
þegar maður er bara sjö ára
að vera í sveit í Fljótshlíðinni
hafa Dímon fyrir augunum
og Þórólfsfell steinsnar frá
heimsækja Hlíðarenda á hverjum sunnudegi
hlusta á Njálu sagða
af sterkum körlum og stórum strákum

og vera svona lítill.

Þórður Helgason

Í minningunni var ég kynntur fyrir ljóðabókinni Þar var ég eftir Þórð Helgason í risíbúð á Bárugötunni. Það gæti reyndar verið rangt, en minnið staðhæfir það. Og þó ljóðin fjalli öll um Fljótshlíðina þá hugsa ég alltaf fyrst um Bárugötuna og Sigrúnu Óskars, Hugleiksforkólf sem þar bjó, það er þaðan sem ég legg upp með Þórði í sveitina. Bókin lýsir sumri í sveit og er hreint undur. Leitið hana uppi í bókabúðum og söfnum og lesið fyrir hvort annað, og náttúrulega börnin ykkar. Hún fór aldrei hátt, en allir sem ég þekki og þekkja hana meta hana flestum ljóðabókum meir.

Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

fimmtudagur, febrúar 17, 2011

day 05 - a song that reminds you of someone

This Be The Verse

They fuck you up, your mum and dad.
They may not mean to, but they do.
They fill you with the faults they had
And add some extra, just for you.

But they were fucked up in their turn
By fools in old-style hats and coats,
Who half the time were soppy-stern
And half at one another's throats.

Man hands on misery to man.
It deepens like a coastal shelf.
Get out as early as you can,
And don't have any kids yourself.

Philip Larkin

Við sátum eitt sinn í stofunni hjá Þorsteini Gylfasyni, nokkrir nemendur hans og hann las fyrir okkur þetta ljóð við mikinn fögnuð viðstaddra. Og bað okkur að hjálpa sér við að þýða upphafsorðin fjögur. Ég er nokkuð viss um að það var góðvinur minn Þórgnýr Dýrfjörð sem stakk upp á sögninni "að klúðra", sem ég held að hafi verið góð hugmynd. Þorsteinn þýddi seinna ljóðið, breytti bragarhættinum og útkoman byrjaði "Þú ert eyðilagður í æsku/af eintómri foreldragæsku". Alls ekki hans besta ljóðaþýðing, en þökk sé Þorsteini fyrir að kynna mig fyrir Larkin, stórbrotnu skáldi og gallagrip.

Blessuð sé minning Þorsteins Gylfasonar.


Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

miðvikudagur, febrúar 16, 2011

day 04 - a song that makes you sad

Mid-Term Break

I sat all morning in the college sick bay
Counting bells knelling classes to a close.
At two o'clock our neighbors drove me home.

In the porch I met my father crying--
He had always taken funerals in his stride--
And Big Jim Evans saying it was a hard blow.

The baby cooed and laughed and rocked the pram
When I came in, and I was embarrassed
By old men standing up to shake my hand

And tell me they were "sorry for my trouble,"
Whispers informed strangers I was the eldest,
Away at school, as my mother held my hand

In hers and coughed out angry tearless sighs.
At ten o'clock the ambulance arrived
With the corpse, stanched and bandaged by the nurses.

Next morning I went up into the room. Snowdrops
And candles soothed the bedside; I saw him
For the first time in six weeks. Paler now,

Wearing a poppy bruise on his left temple,
He lay in the four foot box as in his cot.
No gaudy scars, the bumper knocked him clear.

A four foot box, a foot for every year.

Seamus Heaney

Aftur, dáið barn, en að þessu sinni tekst að halda tilfinningaseminni frá. Og græða þannig helling af áhrifamætti. Nískuleg notkun á rími er snilldarleg. Heaney er frábær og heppinn með íslenskan þýðanda í Karli Guðmyndssyni. Held hann hafi samt ekki þýtt þetta ljóð. Lesið þá báða í drasl.


Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

þriðjudagur, febrúar 15, 2011

day 03 - a song that makes you happy

Bráðum kemur betri tíð

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga
sæta lánga sumardaga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta um eingi,
einkum fyrir unga dreingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Halldór Laxness

Hvað er hægt annað en gleðjast yfir þessu litla ljóði og þeim myndum og lykt sem það vekur? Er eitthvað við þetta að bæta? Bara muna að lesa það upphátt fyrir sjálfan sig, valfrjálst hvort maður hermir eftir Nóbelsskáldinu á meðan, en spillir að sjálfsögðu ekki fyrir.


Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

mánudagur, febrúar 14, 2011

day 02 - your least favorite song

Systkinin

Ég veit um systkin svo sæl og góð,
Og syngja vil um þau lítinn óð
En ekkert þekkjast þau þó
Um húsið hún leikur sér út og inn
Hann einnig leikur um himin inn
Drengurinn litli sem dó.

Hún veit hann var barn svo blessað og
gott, hann bróðir hennar sem hrifinn var brott
Hún þráir hann ekkert þó.
Sú barnunga mær tekur missirinn létt
En mamma hennar hugsar jafnt og þétt
Um litla drenginn sem dó.

Hún þráir sinn litla ljóshærða son,
Sitt ljós og sitt gull, og sinn engil og von
Hún man hve hann hjúfraði og hló
Hve blítt hann klappaði um brjóst hennar og kinn
Hve brosið var indælt og svipurinn
Á litla drengnum sem dó.

Stúlkan flýgur í faðm hennar inn
Þá felur hún líka þar drenginn sinn
Með sorgblíðri saknaðarró    
Í hjarta hennar dafnar vel dóttirin
Þó dafnar þar enn betur sonurinn
Drengurinn hennar sem dó.

Einar H. Kvaran

Kannski ljótt að kasta skít í frænda sinn, sem þrátt fyrir allt leit ekkert á sig sem ljóðskáld, og var þar að auki snillingur í smásagnagerð. En þetta er bara svo óþolandi ódýrt og flatneskjulegt tilfinningaklám. Og verður enn verra þegar minn uppáhaldssöngvari íslenskur, og tengdafrændi syngur það. Vel gert, en væri betur ógert. Lesiði frekar, Marjas, Vistaskipti og Vonir. Og hlustið á Mannakorn.


Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

sunnudagur, febrúar 13, 2011

day 01 - your favorite song

Blóðhófnir

Minningar

snjór sem ég þjappa
í greip
hnoða í kúlu
og kasta

það hendir aðeins
í huga mér

Hér festir ekki snjó

Brúin spennist
úr iðandi grasi
í gráan mökk

Þar er landið mitt
vafið náttkyrri værð
steypt í stálkaldan ís

[…]

Gerður Kristný


Vel má vera að einhverntíman verði nógu miklu eða of miklu lofi hlaðið á þetta ljóð Gerðar, en það er þrátt fyrir allt ekki komið að þeim degi. Þetta er stórbrotið kvæði sem ég get ekki hætt að lesa, og get ekki hætt að gráta þegar ég les það. Formfast og agað, slípað og beitt og undir logar reiðibál. Ég leitaði lengi að þessu "uppáhaldsljóði" og varð hissa þegar ég komst að því að það var svona nýlegt. Vel má vera að ég eignist annað uppáhaldsljóð síðar - en það má þá vera helvíti gott.

Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

laugardagur, febrúar 12, 2011

Póstmódern Lögga

Það gengur um Facebook listi af fyrirmælum um að setja á netið krækjur á lög sem hafa tiltekna þýðingu fyrir mann. Ég rakst á lag og flutningurinn þar hefur þýðingu fyrir mig í skilningi listans:

Lag sem gerir þig alveg brjálaðan.

Þetta var semsagt Jónas Sigurðsson og Lögreglukórinn að flytja lagið Verkamaður eftir Bergþóru Árnadóttur við ljóð Steins Steinarr í Laugarneskirkju (hvers vegna veit ég ekki).

Já, Lögreglukórinn.

Flutningurinn er hátíðlegur og forsöngvarinn fer næstum offari í að túlka hina hjartnæmu sögu sem ljóðið segir. Kórinn gerir sitt besta við að ljá þessu öllu dýpt og vigt.

Ljá dýpt og vigt sögunni af verkamanninum sem var drepinn í mótmælaaðgerðum þar sem hann ásamt félögum sínum krafist brauðs "handa sveltandi verkalýð".

Með Lögreglukórnum.

Hverjir skyldu nú hafa fengið það hlutverk að berja hann til dauðs? Svona sagnfræðilega séð?

Þessi ógeðslegi performans minnti mig á annað álíka. Eða verra eiginlega. Það er túlkun Lögreglukórsins á Lög og regla eftir Bubba Morthens, lag og texti. Þar segir sumsé frá manni sem lögreglan drepur við handtöku og hylmir svo yfir með þeirri fjarvistarsönnun að hinn seki hafi verið "að æfa lögreglukórinn".

Já, þetta sungu hinir knáu laganna verðir með bros á vör. Væntanlega með þeim undirtexta að þarna væri augljóslega grín á ferð. Skáldaleyfi. Auðvitað dytti engum í hug að þeir gætu gert sig í alvörunni seka um annað eins. Eins og sjá má þá erum við meira að segja til í að syngja um þetta sjálfir …

Lögreglumenn að syngja um lögregluofbeldi. Lögreglumenn að klæmast á einlæglega meintum tjáningum skálda á glímu fólks við valdið sem þeir verja.

Þetta væri auðvitað fínt ef eitthvað benti til að löggan væri hætt að standa með valdsmönnum gegnum þykkt og þunnt, og lögregluofbeldi heyrði sögunni til. Og flutningurinn væri til marks um það.

En við vitum að svo er ekki.

Ef það væri í boði í fyrrgreindum Facebook-lista að velja "lag sem þér finnst siðferðilega ógeðslegt". Þá væri ég í stökustu vandræðum með að velja milli þessara tveggja.