föstudagur, febrúar 18, 2011

day 06 - a song that reminds you of somewhere

Álag

Það er talsvert á mann lagt
þegar maður er bara sjö ára
að vera í sveit í Fljótshlíðinni
hafa Dímon fyrir augunum
og Þórólfsfell steinsnar frá
heimsækja Hlíðarenda á hverjum sunnudegi
hlusta á Njálu sagða
af sterkum körlum og stórum strákum

og vera svona lítill.

Þórður Helgason

Í minningunni var ég kynntur fyrir ljóðabókinni Þar var ég eftir Þórð Helgason í risíbúð á Bárugötunni. Það gæti reyndar verið rangt, en minnið staðhæfir það. Og þó ljóðin fjalli öll um Fljótshlíðina þá hugsa ég alltaf fyrst um Bárugötuna og Sigrúnu Óskars, Hugleiksforkólf sem þar bjó, það er þaðan sem ég legg upp með Þórði í sveitina. Bókin lýsir sumri í sveit og er hreint undur. Leitið hana uppi í bókabúðum og söfnum og lesið fyrir hvort annað, og náttúrulega börnin ykkar. Hún fór aldrei hátt, en allir sem ég þekki og þekkja hana meta hana flestum ljóðabókum meir.

Um feisbúkk gengur leikurinn "30 Day Song Challenge", þar sem þú átt að segja frá eða setja inn, lag eftir ákveðinni forskrift daglega. Mér fannst þetta skemmtilegt, en langaði að hugsa frekar um ljóð. Og þau rúmast ekki í feisbúkkstatusum svo ég ákvað að hafa þau hér og krækja í færslurnar úr feisbúkkinu mínu. PS: ljóð eru skemmtileg. Líka þegar þau eru leiðinleg.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim