fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Heim í vatnsglasið

Maður bregður sér út fyrir landsteinana og fréttir svo í fríhöfninni við heimkomuna að það logi allt í deilum um ástandið í leikhúsum landsins.

Það reynist síðan vera hin hefðbundna hystería sem grípur um sig þegar nokkar sýningar helstu leikhúsa reynast, með stuttu millibili, ekki vera gargandi snilld. Móðursýklarnir hafa það sér til málsbóta að vegna örsmæðar leikhúsheimsins hér þá geta þrjár vafasamar sýningar í Þjóðleikhúsinu í röð virkað eins og meiriháttar krísa.

Alveg þangað til menn anda með nefinu og horfa á samhengið.

Og svo var þetta auðvitað strax farið að snúast um gagnrýnendur. Hvort þeir væru nógu faglegir. Hvort þeir kynnu að fara með vald sitt.

Ef einhver veit hvaða gagn orðið "faglegur" gerir í þessu samhengi þá má viðkomandi láta vita.

Og þetta með valdið lyktar alltaf af þeirri tilhneygingu leikhússins að líta á skrif gagnrýnenda sem hluta af kynningarstarfsemi sinni. Sem órólegu deildina á auglýsingastofunni.

Kom heim með leikdómasafn Kenneth Tynan. Hollt lesefni öllum sem skrifa um leikhús. Líka þeim sem skrifað er um.

Var hann "faglegur"? Hafði hann alltaf vald sitt í huga þegar hann skrifaði?

Hefur nokkur dagblaðsrýnir nokkurntíman gert leikhúsinu meira gagn?

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim