Varríus brá sér í leikhúsferð til London í lok janúar með Huldu og Silju. Það var að vonum skemmtilegt og margt forvitnilegt bar fyrir augu. Ekki nenni ég að gera grein fyrir ferðasögunni sem slíkri. Enda er fókusinn alfarið á leikhúsinu í þessum ferðum okkar. Matur er bara til að nærast, hótel eingöngu til að hvíla sig og ef einhverjar túrista-attraxjónir ber fyrir augu þá er þeim síðarnefndu umsvifalaust lokað svo ekkert glepji nú og rugli markmiðið.
Það er dálítið í tísku að finnast enskt leikhús lítið merkilegt, og að sumu leyti er það skiljanlegt. Það sem er mest áberandi þar er ekki sérlega framsækið eða nýstárlegt, og af sögulegum ástæðum hefur leikhúsið þar bæði verið alþýðlegra og aðgengilegra en víðast hvar annarsstaðar í Evrópu.
Annað sérkenni ensks leikhúss er hin sterka staða leikskáldsins, en þar er ennþá nokkuð viðtekið það viðhorf að merking sýninga eigi upptök sín í leikritum og það sé síðan hlutverk sviðslistamannanna að túlka þá merkingu og miðla til áhorfenda. Það er kannski fyrst og fremst þetta sem gefur gamaldagsstimpilinn.
Það vekur síðan athygli að engin leikskáld eru í meiri metum hjá framsæknum leikhúsum meginlandsins en einmitt þau sem spretta úr jarðvegi hinna "gamaldags" leikhúsa Stórabretlands.
En auðvitað er þessi staðalmynd af ensku leikhúsi of einföld til að gefa rétta mynd af þessu mjög svo fjölskrúðuga leikhúslífi sem þar þrífst. Það er jú eðli staðalmynda.
Við sáum sex sýningar. Þrjár sem kalla mætti hefðbundnar og þrjár sem hver á sinn hátt sýnir nýstárleg tök á klassískum efnivið.
Svo vildi til að hinar þrjár hefðbundnu voru sýningar í West End á verkum þriggja af virtustu leikskáldum Breta af kynslóðinni næst á eftir hinum reiðu ungu mönnum sem hófu feril sinn um miðjan sjötta áratuginn. Tveir þeirra eru meira að segja orðnir "Sir", og þeim þriðja var boðið forskeytið en hafnaði því, enda mikill og góður sérvitringur þar á ferð. Allir eiga þeir sameiginlegt að hafa ekki hlotið mikið brautargengi á Íslandi.
Skemmtileg tilviljun hagaði því líka þannig að leikstjórar þessara þriggja sýninga eru tveir fyrrverandi þjóðleikhússtjórar, en sá þriðji núverandi. Þannig að hér voru stóru kanónurnar, hlaðnar og gljáfægðar.
Rock and RollNýjasta leikrit
Sir Toms Stoppard fjallar um vorið í Prag og áhrif þess á líf nokkurra manna, breskra og tékkneskra, og hvernig rokktónlist endurspeglar það saklausa frelsi sem alræðisvald reynir einatt að brjóta niður. Rokkið nefnilega ógnar alvaldinu, sérstaklega þegar það er ekki að reyna annað en að vera það sem það er. Saga tveggja tónlistargoðsagna kemur við sögu, droppátsins
Syds Barrett og tékknesku neðanjarðarsveitarinnar með kúla nafnið,
Plastic People of the UniverseBýsna glúrið leikrit og eins og Stoppards er von og vísa er það efnisríkt og margflata með afbrigðum.
Sýningin var hinsvegar alveg afleit. Fáránlega illa leikin og klunnalega sviðssett af
Trevor Nunn, sem vekur furðu, þetta er jú maðurinn á bak við Cats, Nickolas Nickelby og einhverja rómuðustu Macbeth-uppfærslu síðustu aldar, þar sem Ian McKellen og Judy Dench hræddu líftóruna úr öllum viðstöddum.
Kannski er hann bara búinn að missaðað. Allavega hefði þessi sýning staðfest alla fordóma þeirra sem finnst enskt leikhús vera staðnað og einkennast af tilgerðarlegum "stjörnuleik" og skorti á hugmyndaflugi.
Eftir stendur í minningunni athyglisvert leikrit sem á betra skilið. Reyndar á Stoppard almennt og yfirleitt meiri athygli skylda en t.d. íslenskt atvinnuleikhús hefur sýnt honum. Hvar er meistaraverkið
Arcadia? Og hið stórkostlega
Travesties?The History BoysAlan Bennett er eitthvert merkasta breskt leikskáld sem aldrei hefur verið leikinn hér á landi, fyrir utan að eintal eftir hann var einu sinni notað sem einstaklingsverkefni í leiklistarskólanum, og þá eftir ábendingu frá Varríusi, sem er búinn að vera aðdáandi lengi. Nokkur verka hans eru á draumaverkefnalistanum.
Þetta hér nýjasta verk hans hefur verið lofað og rómað frá frumsýningardegi í þjóðleikhúsinu, sló í gegn á Broadway og hefur þegar verið kvikmyndað. Það fjallar um hóp af unglingum sem ætla að þreyta inntökupróf í háskóla í Oxford og Cambridge og metnaðarfullur skólastjóri fær nýjan kennara til að búa þá undir prófin. Verkið hverfist síðan um ólíka nálgun hins yfirborðskennda og pragmatíska nýliða og gamalgróins kennara sem lítur á menntun sem eitthvað sem hefur gildi í sjálfu sér.
Samúð Bennetts er greinilega hjá þeim gamla, svo mjög að þó svo örlagavaldur í verkinu sé sá ávani kallsins að bjóða nemendunum far á mótorhjólinu sínu og káfa þar á þeim þá er hann okkar maður í gegn um verkið. Tragískur auðvitað, en líka fyndinn og heillandi.
Þetta er fantagott leikrit og sýningin mjög fín hjá núverandi Þjóðleikhússtjóra,
Nicholas Hytner. Reyndar var kominn nýr leikari í aðalhlutverkið í stað
Richards Griffiths sem þótti stórkostlegur, en það var líka allt í lagi með nýja leikarann, og fyndið hvað hann var gerður líkur höfundinum. Flott sýning og gott leikrit. Sjáiði myndina.
Amy's ViewSir David Hare skrifaði þetta leikrit með Judy Dench í huga. Það fjallar um leikkonuna Esme og dóttur hennar Amy. Ákaflega gamaldags í formi, fjögurra þátta stofudrama um samskipti, tilfinningar og örlög. Spannar nokkur ár í lífi þessa fólks.
Og algerlega brilljant sem slíkt.
Gamla formið nýtist Hare fullkomlega til að segja merkilega hluti um þetta fólk, um fólk, tíðaranda og hjól tímans sem kremur þá sem kjósa að láta eins og það sé ekki þarna. Og um leikhúsið.
Leikstjóri hér var sá merki maður
Sir Peter Hall, sem sennilega er sá núlifandi einstaklingur sem hefur mótað enskt leikhúslíf hvað mest. Hann er hugmyndasmiðurinn að baki Konunglega Shakespeareleikhúsinu, fyrsti leikhússtjóri þess, og það kom seinna í hans hlut sem þjóðleikhússtjóra að fytja það kompaní inn í steinsteypukumbaldann á suðurbakka Thames og móta það starf allt. Hann stýrði frumuppfærslunni í London á Beðið eftir Godot og var lengst af sjálfkjörinn í að stýra frumuppfærslum verka vinar síns Harolds Pinters.
Hall er þekktastur fyrir einstakt textanæmi og nánast talibanska ástríðu fyrir rytma, merkingu og meðferð hins talaða orðs. Skýrir sennilega velgengni hans í meðferð á Beckett, Pinter og aðallega Shakespeare, en nýtist hér líka. Sýningin hefur tempó og sjaldgæfan skýrleika sem gerir innihald hennar aðgengilegt - og áhugavert.
Flottur leikur, og stjörnuframmistaða í aðalhlutverkinu hjá
Felicity KendallSemsagt: Þrjár "hefðbundnar" West-End-sýningar. Misgóðar, en þegar best lét af því kaliberi að kvart yfir því að þær séu gamaldags verður alveg ótrúlega hjáróma og missir algerlega sjónar á því hvað skiptir máli.
Þetta er nógu langur hundur í bili. Pistlar um hinar þrjár sýningarnar birtist innan tíðar.
Efnisorð: leiklist