mánudagur, júlí 31, 2006

Rómverjar eru klikk XVII

"Don't ask, Don't tell" kalla amríkanar Salómonsdóm hersins um samkynhneigða. Þeir vilja ekki svoleiðis fólk í herinn, en láta sig hafa það ef enginn veit hvort viðkomandi er "einn af þeim". Herinn má ekki spyrja og samkynhneigðir mega ekki kjafta.

En auðvitað kemst stundum upp um strákinn Tuma og þá fá menn sparkið.

Nýlegt dæmi er sargentinn Bleu Copas, sem herinn hefur nú rekið úr sínum röðum fyrir hommsku. Copas gekk í herinn eftir 11. september og ákvað herinn að þálfa hann í arabísku, en svoleiðis fólk ku vera af skornum skammti í röðum hans. 55 arabískumælandi hermenn hafa verið reknir úr hernum fyrir þessar sömu "sakir".

En hinn sjálfhverfi Varríus hnaut þó fyrst og fremst um eftirfarandi klausu í fréttinni:
On Dec. 2, investigators formally interviewed Copas and asked if he understood the military's policy on homosexuals, if he had any close acquaintances who were gay, and if he was involved in community theater. He answered affirmatively.
Leturbreyting Varríusar


Já Félagsheimilunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Rós án þyrna

Sigur Rós er náttúrulega nokkuð magnað fyrirbæri, algerlega sannir og sannfærandi í sinni seigfljótandi sérvisku, með fullkomið vald á sínum þrönga hljóðheimi og merkilega litríkir og fjölbreyttir innan marka hans.

En þetta er ekki mín mússík.

Og þó það væri sérlega magnað að sjá Klambratúnið fullt af fólki í kvöldblíðunni þá voru tvö lög nóg fyrir mig, og of freistandi hvað var stutt heim.

En kvöldið er fagurt - ætli það sé ekki best að tylla sér út á svalir með kvöldbjórinn og góða bók og láta sér að öðru leyti nægja breimið í Jónsa í fjarskanum í bland við vélarslátt þyrlunnar sem sveimar yfir, mögulega til að vinna gegn hópdáleiðslunni.

laugardagur, júlí 29, 2006

Svona viljum við hafa það

Þegar við komum heim í gær lágu tveir miðar við útidyrnar frá Orkuveitunni. Annar þeirra tjáði okkur að kalda vatnið yrði tekið af 22. júlí, sem okkur þóttu nú heldur seint fram komnar upplýsingar. Á hinum voru sömu upplýsingar fyrir utan að einhver hafði krotað yfir dagsetninguna og skrifað 29. júlí í staðinn, og gerðum við þvi frekar ráð fyrir að það gilti.

Okkur þótti nú hálffúlt að það þyrfti endilega að gera þetta á laugardegi, þar sem þurrkurinn átti að standa allan daginn frá morgni til kvölds. Fylltum því hraðsuðuketilinn af vatni, svo og nokkur önnur ílát til að eiga drykkjarvatn og mögulega lögg til matreiðslu.

Nú er klukkan hádegi og kalda vatnið streymir úr krönum vorum sem aldrei fyrr.

Eins og Jerry Springer myndi orða það:

I'm confused.

föstudagur, júlí 28, 2006

Rokknornin snýr aftur

Patti Smith er víst á leiðinni til lansins aftur, hvað gleður alla góða menn. Að þessu sinni verður hún lágstemmd og rafmagnslaus, Þó vonandi dragi hún ekki af sér við að hrækja á gólfið eins og síðast.

Af þessu tilefni er hér myndband vikunnar:



Áðan sá ég tvo búddamúnkaklædda menn stíga út úr bíl merktum Arsenal. Veit vonandi á gott karma í vetur.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Skiptir höfuð máli?

Og nú standa þeir hlið við hlið á sinni stafrænu hillu, bónaðir og bæsaðir:

Tréhausarnir 05-06!

Get ekki annað en verið harla stoltur af uppskeru Hugleiks að þessu sinni. Sýning ársins, leikskáld ársins, leikgerð ársins, tónlist ársins, leikkona/konur ársins og svo sérstakur heiðurstréhaus fyrir allan dugnaðinn. Við rokkum!

föstudagur, júlí 21, 2006

Helgarhlaðborð

Um daginn voru fréttir sagðar af örlögum bókalagersins hennar Siggu Helga í Ellingsenhúsinu sem reyndist af einhverjum ástæðum heita Alliance-húsið. Þetta var allt frekar skrítið og sorglegt eins og bókabrennur eru einatt. En skrítnast var samt að sjá þá dunda sér í bókunum þá félaga, Megas og hinn ástsæla guðsmann Sr. Björn, sem fermdi okkur Ármann og kenndi okkur auk þess þýsku með afleitum árangri hvorttveggja. Óvæntir bólfélagar hvað?

Ef Varríus væri fyrir undarlega tilviljun staddur í Bath á Englandi núna myndi hann ekki láta þetta fram hjá mér fara. Þó ekki væri nema til að sjá nafna sínum bregða fyrir.

Hef lengi ætlað að skrifa langan og leiðinlegan hund um stóra Zidane-málið. Nenni því allsekki, enda ameríska vefritið The Slate búið að svara spurningunni sem hefur brunnið á allra vörum. Rómverjar eru kannski klikk, en þeir vita svo sannarlega hvað skiptir máli.

Og talandi um klikk: það eru fleiri þannig en Rómverjar. Hvað á að kalla þessa gaura? Etrúra?

Ég er sennilega vefseinfatti. Er nýbúinn að uppgötva töfraheima Youtube. Þar kennir nú margra grasa, og hafa þau hvert sína náttúru til góðs og ills. Í tilefni yfirvofandi helgar mun ég hlífa ykkur við krækjum á Kiss-vídeóin sem ég er búinn að vera að horfa á i uppbótarskyni fyrir að hafa misst af þeim í bernsku. Hins vegar er öllum hollt að horfa og hlýða á þennan sálm:



Góða helgi.

föstudagur, júlí 14, 2006

"Dagurinn var eins og hver annar dagur ...

... nema hvað þetta var miðvkudagur, og því í rauninni bara eins og 1/7 annarra daga"

Úrslit hafa verið kunngjörð í hinni árlegu Bulver-Lytton keppni um verstu mögulega upphafssetningu skáldsögu.

Alger snilld, og skoðið líka yfirlitið yfir vinningshafa síðustu ára (Lyttony of Grand Price Winners).

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Music be the food of love

Í fyrndinni, þegar enn var gefið út Leiklistarblað á Íslandi, settum við að mig minnir saman topp-tíu lista yfir verstu hugmyndir að efni í söngleik. Ég man sosum ekkert hvað var á honum, kannski formannskjör í Framsóknarflokknum, hvað veit ég.

Það er ekkert útilokað að Vorið vaknar eftir Frank Wedekind verið þar, enda árekstur vaknandi kynhvatar og ofbeldis- og hræsnisfulls foreldraveldis í Þýskalandi nítjándu aldar með tilheyrandi rúnki, ríðingum, geðveiki og sjálfsmorðum aldeilis kjörið efni í góðan söngleik.

Og viti menn: Það er búið að semja hann!

Hvaða íslensk leikrit eru verst til þess fallin að verða færð í söngleikjabúning? Straumrof? Dagur vonar? Jóðlíf?

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Syd

Áhrifamesti einfari rokksögunnar, Syd Barrett, er dáinn. Þó svo að öll lífvænlegasta tónlist Pink Floyd hafi orðið til eftir að hann dró sig í hlé er hann lykilmaðurinn að sköpun hennar. Hann gaf tóninn, opnaði gáttirnar að gigginu mikla á himnum sem félagar hans síðan miðluðu áfram.

Halldór Laxness lét einhversstaðar svo um mælt í framhjáhlaupi að rokkstjörnum (menn sem lært hafa nokkur grip á gítar, minnir mig að hann hafi orðað það) væri best lýst sem helgum mönnum, gúrúum, frekar en að kenna afrakstur þeirra við list. Löngu seinna sagði Megas að Bubbi Morthens væri helgur maður frá Austurlöndum, og var áreiðanlega að vísa í skilgreiningu Halldórs. Hún á auðvitað sérstaklega vel við um Syd Barrett.

Hér er fréttin og krækjur á hafsjó fróðleiks um þennan dularfulla meistara.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Kræklingar

Bætti við þremur bloggtenglum.

Einn á "gamlan" vinnufélaga, Guðjón að nafni, sem er sestur að í Sviss ásamt Hörpu konu sinni og halda þau úti fréttum af dvöl sinni í þessu gósenlandi áhugamanna um fjólubláar kýr og markalaus jafntefli.

Og svo á tvær fyrrum samferðakonur úr heimspekinámi, þær Önnu og Eyju.

Jafnframt setti ég Berlínarbjörninn Þorleif út af sakramentinu, en hann hefur ekki bloggað síðan Mikael Torfason var ritstjóri á DV. Vænti þess að hann geri vart við sig ef hann byrjar aftur að færa okkur fréttir úr undralandi leikstjóraleikhússins. Vígþór fær líka að víkja.

Og Hjalti, þú ert á skilorði.

Post mortem

Þrjú skemmtileg yfirlit yfir há- og lágpunkta HM.

Hér

Hér

Og

Hér

mánudagur, júlí 10, 2006

Tragískur endir og uggvænleg framtíð

það verður varla undan því vikist að segja eitthvað um lokin á HM. Held að þetta sé í fyrsta, og vonandi síðasta sinn sem ég sé fótboltaleik sem hægt er að kalla tragískan, þar sem áður óþekkt veila í skapgerð hinnar flekklausu hetju verður henni og félögum hennar að falli. Eitt atvik, þegar tíu mínútur eru eftir af löngum ferli verður nú alltaf rifjað upp þegar afrek Zidanes eru tíunduð. Andstyggilegt, og það er rétt með herkjum að það sé hægt að minnast þess að fyrir utan þetta var leikurinn óvenju skemmtilegur af úrslitaleik að vera.

Og þá að allt öðru.

Fyrir nokkrum árum var maður nokkur áberandi á fundum samtaka sem Varríus er þátttakandi í. Af alkunnri tillitssemi ætla ég ekki að segja nein deili á manninum, köllum hann bara Jón.

Jón var tiltölulega nýr í starfi samtaka þessara, en bjó að öðru leyti að langri og áreiðanlega gagnlegri og merkilegri reynslu af ýmsum störfum sem tengdust starfsemi samtakanna á ýmsan hátt. Og ef Jón hefði kosið að sitja þögull og setja sig þannig inn í umræðuna, málefnin og verkefnin sem samtökin glímdu við hefði þetta verið allt í lagi.

En nei.

Jón var málglaður mjög og kvaddi sér hljóðs um flest mál. Hann var líka afar langorður, sem var þeim mun óheppilegra sem hann misskildi oftar en ekki hvar umræðan var stödd og beindi því orðum sínum einatt út í hött. Enn verra var þó að allur málflutningur Jóns var gegnsýrður af yfirlæti og vissu hans um að við hin, sem höfðum árum saman tekið þátt í starfi samtaka þessara, værum kjánar sem þyrftum nauðsynlega á leiðsögn hans að halda.

Þetta var auðvitað alveg hrollvekjandi leiðinlegt, og kannski líka fyndið á einhvern öfugsnúinn hátt.

Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér í gær þegar NFS sýndi okkur hálftímalangt viðtal Helga Seljan jr. við Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og krónprins Halldórs Ásgrímssonar.

Þarna var Jón lifandi kominn. Yfirlætið. Langhundageðið. Tregðan til að ræða þau mál sem eru til umræðu í samfélaginu nema útfrá sínum sérviskulegu einkasjónarhóli þannig að hugtök skipta um merkingu og sjónarmiðin þar með ósetjanleg í samhengi við nokkuð annað.

Og undir niðri ruddaskapur þess sem er ekki vanur að standa einum né neinum reikningsskap og kann því illa að einhver annar spyrji spurninga sem honum eru ekki endilega að skapi.

Fæ ekki betur séð en hér sé kominn fínn framtíðarleiðtogi Flokksins.

föstudagur, júlí 07, 2006

Endatafl

Jæja, undanúrslitin fóru svona og svona. Hélt með Þjóðverjum gegn Ítölum, en get svo sem ekkert vælt yfir úrslitunum. Sanngjarnt, og Ítalirnir flott lið þó þeir skæli óþarflega mikið. Klose var ósýnilegur, en það sama er því miður ekki hægt að segja um Ballack, sem er greinilega búinn að tileinka sér siðareglur Cheskí og er orðinn óhemju hvimleiður röflari sem stendur ekki undir hæpinu.

Portúgalir hefðu auðvitað getað unnið Frakkana, en gerðu það ekki. Leikaraskapurinn óþolandi með öllu. Zidane er kóngurinn og Henry er fremstur riddaranna.

Þjóðverjar rasskella vælukjóana frá Íberíuskaganum á morgun. Vona ég

Italirnir verða heimsmeistarar á sunnudaginn í 1-0 hnoðleik. Vona samt ekki.

Aðallega vona ég að þetta verði skemmtilegir leikir.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Drama

Fótboltinn var aldeilis magnaður um helgina. Hörkuleikur Þjóðverja og Argentínumanna endaði í vítaspyrnukeppni þar sem minn maður Lehmann var hetjan. Skúrkurinn er þá sennilega þjálfari Argentínu sem gerði héralegar skiptingar þegar hann hélt að 1-0 forysta væri eitthvað til að reyna að halda. Gott á þá.

Sá ekki Ítalíu - Úkraínu, en skilst að það hafi verið sanngjarnt.

Vonandi kjöldraga þjóðverjarnir Ítalina á eftir.

England - Portúgal var auðvitað afleitur fótboltaleikur, en þeim mun meiri leiksýning. Englendingar kannski örlítið minna ömurlegir en venjulega, sérstaklega eftir að þeir voru lausir við Looney. Á móti kom að Deco-lausir Portúgalir voru aldeilis ekki eins og þeir gætu eða vildu vinna þennan leik. Allra verstir voru þó aularnir í stúdíói Sýnar, sem voru eins og þeir þyrftu áfallahjálp eftir að hetjurnar þeirra voru búnir að klúðra vítakeppninni.

Frakkar tóku sig svo til og hristu endanlega af sér slenið, sem slettist yfir mótherjana og loddi við þá út leikinn. Algerlega máttlausir brassar. En það skyldi þó ekkert skyggja á hvað fransmennirnir voru stórkostlegir.

Ef allt fer að óskum senda þeir Portúgalina í bronsleikinn og mæta sjálfir Þjóðverjum í úrslitunum. Don't mention the war.

Fyrirsögn í Fréttablaðinu í gær:

Tori Spelling reið móður sinni