fimmtudagur, mars 29, 2007

Killer

Fór á Killer Joe í gærkveldi. Var búinn að lesa leikritið fyrir nokkru og átti því von á góðri skemmtun. Það brást heldur ekki. Mjög vel lukkuð sýning hjá óperustjóranum nýja og hans liði öllu. Ofurraunsæið nýtur sín vel í nálægðinni á litla sviðinu, þó ég reikni með að KFC kunni þeim litlar þakkir fyrir.

Varríus mælir með að menn sjái þessa sýningu tvisvar. Einu sinni til að njóta verksins og sögunnar og svo aftur og horfa þá bara á Þröst Leó.

En í kvöld eru það hálfvitatónleikar. Smá forsmekkur í þætti Jóns Ólafssonar þar sem við flytjum hið stórfenglega lag Son hafsins og svo er bara að mæta.

Já, eplin

Þau eru skemmtileg. Alltsvo Epli og eikur hjá Hugleik. Firnavel unnin sýning með flottri tónlist og sterkum leik. Tótuhúmorinn allsráðandi. Drífa sig. Miðasala hér.

Efnisorð:

miðvikudagur, mars 28, 2007

Ávarp

Í gær var Alþjóða leikhúsdagurinn. Þá er til siðs að flytja ávörp sem samin eru sérstaklega af þessu tilefni. Alþjóðaleikhússtofnunin ITI lætur búa til eitt alþjóðlegt og svo eru samin "þjóðleg" ávörp í hverju landi.

Alþjóðlega ávarpið er skrifað af ekki minni manni en sjálfum H.H. Sheikh Dr. Sultan bin Mohammed Al Qasimi, sem er fursti í Sharjah og meðlimur æðstaráðs Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna. Hann er mikill leikhússunnandi og stússaði í leikhúsi á námsárunum. Gott hjá honum.

Íslenska ávarpið er hinsvegar eftir sjálfan meistara Bernd Ogrodnik. Eins og lesendur Varríusar vita er ég mikill aðdáandi hans sem listamanns (galdrakarls, eiginlega) og svo er hann líka einhver besti gaur sem ég hef unnið með.

Hinsvegar hnaut ég óneitanlega um eftirfarandi klausu:
Í æsku sýndum við leikrænu starfi hollustu, í viðleitni okkar til að höndla lífið ... við kölluðum það leik. En svo gerðist eitthvað og við hættum þessum barnaskap, fyrir utan fá okkar sem gerðum hann að ævistarfi. Það sem gerðist var að hið vitræna tók yfir og strikaði yfir allar þversagnirnar...... og sjáið hvert það hefur leitt okkur.Leturbreyting Varríusar


Hmm.....

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 22, 2007

Eplin

Hugleikur frumsýnir á morgun nýjasta verkið. Epli og eikur heitir það og er gamanleikur með söngvum eftir dr. Tótu. Hálfvitafrontmaðurinn Oddur Bjarni leikstýrir. Valinn maður í hverju rúmi.

Þetta er náttúrulega uppskrift að mikilli skemmtan, svo menn ættu að drífa sig á sýningu hið fyrsta.

Allir á eplin!

Sjálfur verð ég fjarri frumsýningargamni, og þó ekki. Verð sumsé á annarri frumsýningu norður í landi á vegum Moggans, sýningu LA og Nemó á nýjasta verki Þorvaldar Þorsteinssonar. Fer reyndar líka í leikhús í græna jakkanum í kvöld, og þá í Þjóðleikhúsið að sjá franskan gestaleik upp úr Ímyndunarveiki Moliéres.

Og svo má ekki gleyma stórviðburði í heimi knattspyrnunnar á laugardaginn, en þá eiga Skotar möguleika á að endurheimta heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu. Georgíumenn stóðu af sér stórlið Tyrkja, en engir hafa unnið þennan titil oftar en Skotar.

Efnisorð:

mánudagur, mars 19, 2007

London II

Hér kemur svo sjálfstætt framhald fyrri pistils um leikhúsferð til London. Hér er það klassíkin sem er til umfjöllunar. Þrír frjálsir leikhópar, allir í samvinnu við virðuleg leikhús. Röðum þeim í tradisjónsröð og byrjum á þeirri hefðbundnustu.

Twelfth Night
Fyrsta heimsókn okkar í hið sögufræga Old Vic leikhús, sem á tímabili hýsti þjóðleikhúsið en er nú undir stjórn Hollywoodstjörnunnar Kevin Spacey. Leikhússtjóraferill hans hefur reyndar þótt ansi brokkgengur, og kannski skýrir það veru þessarar sýningar í húsinu, því hér var á ferðinni einn eftirtektarverðari frjálsi leikhópur Englands um þessar mundir.

Propeller heitir hann og er undir forystu Edwards Hall, sem reyndar er sonur fyrrnefnds Peters. Hópurinn sérhæfir sig í Shakespeare en það sem einkum greinir hann frá öðrum hópum er að hann er eingöngu skipaður karlmönnum. Þetta háttarlag setur vitaskuld mjög afgerandi svip á uppfærslur hópsins, og rifjar náttúrulega upp að sama fyrirkomulag tíðkaðist á dögum skáldsins sem þeir einbeita sér að.

Blessunarlega verður þetta samt ekki að neinu aðalatriði í sýningunni, sem var bara þó nokkuð "venjuleg" uppfærsla á þessu frábæra leikriti. Þó voru á henni mjög sterk "Devise-" og hópvinnueinkenni, þátttakendur meira og minna inn á allan tímann, hlustandi á hina, spilandi á hljóðfæri eða á annan hátt takandi þátt í að segja söguna. Þetta var smekklega gert og féll vel að stíl verksins.

Reyndar eru svona vinnubrögð mögulega að ryðja sér meira til rúms en áður í Shakespeare-uppfærslum í Bretlandi. Allavega voru sömu einkenni á uppfærslu Royal Shakespeare Company á A Comedy of Errors sem við sáum í fyrra.

En svo við ljúkum umfjöllun um Þrettándakvöld þá var hún ágætlega heppnuð, hvergi neinn sérstakur glansleikur, en engir skandalar heldur. Heilsteypt, falleg og hugmyndarík sýning sem virkaði.

Cymbeline
Tilefni ferðarinnar.

Sýning þessi var upphaflega unnin fyrir Royal Shakespeare Company, en þar á bæ er mikill uppgangur, búið að loka aðalleikhúsinu en þess í stað leikið í nýrri skemmu sem þykir mikil meistarasmíð. Á sama tíma er verið að setja upp hvert einasta verk hirðskáldsins, og koma þar allskyns hópar við sögu til viðbótar við kompaníið sjálft, og gamlar stjörnur snúa aftur. Núna er t.d. sjálfur Patrick Stewart að brillera sem Prosperó í frumlegri uppfærslu Ofviðrisins, og indversk uppfærsla á Jónsmessunæturdraumi þar sem töluð eru átta tungumál og gagnrýnendur telja þá mögnuðustu síðan Peter Brook setti verkið upp 1971.

Já, Cymbeline. Svo oft og mikið hef ég mært Kneehigh-hópinn frá Cornwall á þessum vettvangi og öðrum að í þann bakkafulla læk verður ekki borið að sinni.

Nema bara að segja frá þessari sýningu sem var alveg frábær. Cymbeline er ekki eitt af heldri verkum Shakespeares, en frægt að endemum fyrir gríðarflókið plott, sem myndi duga í nokkur síson af vondri sápuóperu. Kneehighmönnum þótti samt sagan merkilegri en skáldskapurinn og hentu megninu af textanum út um gluggann og skemmta sér konunglega við að skopast að flækjunum en ná samt alltaf að miðla tilfinningalegu innihaldinu líka. Í því felst þeirra galdur öðru fremur. Að fíflast eina sekúnduna og verða svo háalvarleg þá næstu.

Tónlistin var mögnuð líka, eins og alltaf.

Hryllilega gaman, bara.

Faust
Breska Þjóðleikhúsið hefur unnið mikið með frjálsum og frumlegum leikhópum undanfarin ár, og sækjast í að fá til liðs fólk sem gerir eitthvað eins ólíkt hefðbundnu stofnanaleikhúsi og unnt er.

Það er óhætt að segja að Punchdrunk- hópurinn uppfylli þau skilyrði. Hann sérhæfir sig í s.k "Site-Specific" sýningum, sem felst í að sérhanna sýningar inn í ákveðin rými sem ekki eru hefðbundnir sýningarstaðir.

Þessi sýning t.d. fór fram í niðurnýddri fimm hæða skjalageymslu í Wapping, vel utan alfaraleiðar leikhúsrottunnar. Húsinu voru þau síðan búin að umbreyta í aldeilis makalausa kynjaveröld með útganxpunkt í suðurríkjum Bandaríkjanna á sjötta áratugnum. Ótrúlegt nostur við hönnun og smáatriði einkenndi umgjörðina og skapaði ansi hreint magnað andrúmsloft á köflum.

Verst hvað leiksýningin stóðst illa samanburð við umhverfið. Verulegum vandkvæðum var bundið að fylgja einhverri framvindu, sem hefði kannski ekki komið að sök ef hvert atriði eða hver þráður hefði verið áhugaverður í sjálfum sér. En því miður var það ekki svo. Framganga leikaranna var meira og minna eins og maður væri fluga á vegg á frekar sjálfshátíðlegu leiklistarnámskeiði, þar sem fókusinn var nokkuð skarpt í naflanum á hverjum leikara fyrir sig.

Frá mínum bæjardyrum séð var þetta tilraun sem gekk upp sem innsetning en að mestu ónýt sem leiksýning.

Og lýkur þar með ferðalýsingu Varríusar.

Efnisorð:

föstudagur, mars 16, 2007

Að gefnu tilefni

Oresteian er leikrit. Þrjú reyndar. Undirstöðurit í vestrænni menningu.

Hamlet er leikrit. Eitt mesta snilldarverk mannsandans.

Death of a Salesman er leikrit. Einhver snjallasta krufning á bakhlið kapítalismans.

What the Butler Saw er farsi. Hreinræktað og einstakt listaverk.

Væri til of mikils mælst að stjórnmálamenn og kjaftastéttarfólk hætti að nota það sem skammaryrði og kalla það "leikrit" eða "farsa" þegar stjórnmálamenn þykjast ætla að gera eitthvað, en eru í raun að gera eitthvað annað.

Nokkrar tillögur:

Óheilindi
Undirferli
Fals
Svik

Ég hef skrifað nokkur leikrit. Fæst þeirra eru sérlega merkileg. En samt móðgast ég þegar orðið er notað yfir brellumakerí pólitíkusanna. Held að þeir Æskílos, Shakespeare, Orton og Miller eigi betra skilið af okkur.

Efnisorð:

mánudagur, mars 12, 2007

Hér er ég

Ætli þetta sé ekki lengsta blogghlé Varríusar. Þessi póstur er nú aðallega til þess að fólk viti að ég er ekki hættur eða farinn.

Fór á Ófögru veröld á föstudaginn. Leiddist. Verkið sýndist mér vera frekar ófrjó uppsuða úr þeim vonda absúrdisma, sem aftur virtist gefa leikstjóra og öðrum undir fótinn með að hafa allt bara nógu kaótískt. Útkoman stefnulaus og þreytandi. Nokkrir sæmilegir brandarar. Ekki nóg.

Fór síðan í gagnrýnendajakkanum á Ást. Sú ferðasaga ætti að koma í mogga morgundagsins.

Það er mikil sigling á Ljótu hálfvitunum. Allskonar gigg bókuð hjá ótrúlegustu aðilum. Já og svo fórum við í stúdíó og tókum upp tvö lög. Það var mikið gaman. Annað þeirra er á Speisinu.