sunnudagur, desember 31, 2006

Uppábakkúkur

Í innlendu fréttayfirliti RÚV reyndist ekkert pláss fyrir fjöldagöngu Ómars Ragnarssonar gegn virkjuninni. 4% þjóðarinnar mæta á Austurvöll til að tjá sig og RÚV þykir það ekki jafnast á við það þegar Unnur Birna misstígur sig.

Aular.

föstudagur, desember 29, 2006

Heimavöllurinn

Varríus er í tónleikaferð með Hálfvitunum. Spiluðum fyrir troðfullu húsi á Gamla Bauk á Húsavík í gærkvöldi. Geysilega skemmtilegt fannst okkur, og eftir því sem við komumst næst áhorfendum líka.

Verðum á Laugum í kveld og spilum fyrir leikhús- og matargesti undir og eftir borðum. Tilhlakk.

föstudagur, desember 22, 2006

Jólahugvekja Varríusar

Páskahátíðin er höfuðhátíð kristinna manna. Þá er minnst þeirra atburða sem eru kjarnin í því sem þeir trúa. Að Kristur hafi dáið fyrir syndir okkar og að vegna hans og píslardauðans munum við öðlast eilíft líf. Hugmyndirnar sem hvað skýrast greina kristna trú frá öðrum skyldum trúarbrögðum.

Eins og eilíft líf hljómar nú aðlaðandi (kannski) þá er hin grunnhugmyndin að sama skapi illskiljanleg og ógeðfelld, að einhver geti dáið kvalafullum dauða og þannig friðþægt fyrir mig.

En jólin eru ekki um þetta. Þau eru til minningar um vonina sem fæddist með litlu barni sem spekingar jafnt sem fjárhirðar töldu sig vita að væri alveg óvenjulega merkilegt, þó það væri fætt í fjárhúsi.

Margt af því sem er haft eftir manninum sem barnið varð síðar að er þesslags að erfitt er að ímynda sér manneskju sem ekki getur kinkað kolli yfir því, eða orðið hugsi á uppbyggilegan hátt. Allavega ekki sérlega góða manneskju.

Þess vegna ætti það ekki að vefjast fyrir neinum að gleðjast af tilhugsuninni um að Jesús hafi fæðst. Ekki heldur þeim trúlausu.

Þess vegna eru jólin trúarhátið hinna vantrúuðu.

Í frábærri ritgerð eftir Þorstein Gylfason, lærimeistara Varríusar, sem heitir Ljósið sem hvarf er m.a. talað um þau forréttindi þeirra sem ekki trúa að geta sótt það í Biblíuna sem þeim geðjast að, en hafnað hinu. Það er ekkert nema kjánaskapur að halda að bara af því að þriðja Mósebók virkar eins og gæðahandbók Sláturfélags Suðurlands þá sé ekkert vit í Fjallræðunni eða að dæmisagan um Miskunnsama Samverjann sé marklaust hjal af því að spádómar Opinberunarbókarinnar séu eins og frásögn af vondu sýrutrippi.

Sameinumst þessvegna öll, trúaðir og trúlausir, í minningunni um það að einu sinni fæddist barn í gripahúsi sem átti eftir að boða að betra væri að bjóða hina kinnina en slá til baka, að við ættum að skoða okkar eigin bresti áður en við grýttum þá sem við teldum gallaða, og að það sem að við viljum að aðrir gjöri okkur skulum við þeim gjöra.

Varríus óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Lög smög

Mér leiðist lögfræðivæðing þjóðmálaumræðunnar. Hvernig hugtök og hugsanir úr lögum og lögfræði tekur yfir og stýrir hvernig talað er um hvaðeina.

Nýjasta dæmið er þegar mönnum þykja kompássögurnar úr Byrginu ekki vera í frásögur færandi nema því aðeins að lög hafi verið brotin. Eða í sama máli þar sem fólk veltir því fyrir sér hvort Sigmundur Ernir hafi verið "vanhæfur" til að fjalla um málið eins og hér er haldið fram.

Þetta er auðvitað bull. Háttarlag Byrgisstjórans (ef sögurnar eru sannar) er bæði fréttnæmt og ámælisvert þó ekkert sem hann hefur aðhafst varðaði við lög. Svona svipað og ef hægt er að standa stjórnmálamann að því að ljúga. Það er ekki lögbrot, en ætti að vera fréttnæmara en það er.

Og ef sagan er sönn er tilganginum náð með því að segja hana - hún ógildist ekkert þó hægt sé að sýna fram á illvilja sögumannanna, þó meðan vafi leikur á sannleiksgildinu skipti auðvitað máli að vita það.

Og talandi um sannleikann. Stundum virðist mér sem hugarleikfimin mikilvæga um að menn teljist saklausir uns sekt er sönnuð sé í hugum fólks orðin að siðferðislögmáli. Jafnvel eðlisfræðilögmáli, því sumir skipta orðinu "teljist" út fyrir orðið "séu", og ætlast þá væntanlega til þess að veruleikinn beygi sig undir regluna.

Kannski eiga menn við að það sé fallegt að dæma ekki fyrirfram. En það er nú ekki alveg það sama, er það?

miðvikudagur, desember 20, 2006

Tónlistarjól

Ekki reyndist unnt að spila fótbolta í Liverpúlborg í gær vegna þoku og því fór sá qualitytími fyrir lítið. Fór þess í stað og raulaði eina bassarödd inn á jólaplötu Hrauns. þar reyndist vera hið ógurlegasta Progg-jólalag (5/4 og allt!), sem auðvitað var löngu tímabært að gera - progg-aðdáendur eru líka fólk. Já, meira að segja Marillionaðdáendur hafa tilfinningar!

Hraunverjar halda svo sína árlegu jólatónleika á Rósenberg föstudaginn 22. desember nk. Það verða góðir tónleikar, enda Hraun einhver skemmtilegasta hljómsveit í sólkerfinu. Líka þegar hún spilar progg.

Gott dæmi af handahófi um hljómsveit sem ekki spilar progg eru Ljótu Hálfvitarnir. Af þeim er það helst að frétta að þeir æfa stíft fyrir tónleikaferð sína um Þingeyjarsýslur milli jóla og nýárs. Meira um það á heimasíðunni, en þar gefur líka að líta fyrstu myndina af bandinu. Hún er unnin í finnskum sósíalraunsæisstíl af henni Tiinu, sem er jafnframt spúsa Gumma Svafars, 1. balalækuleikara sveitarinnar, auk þess sem hann grípur m.a. í sprekán.

Þar með má segja að Tiina sé Yoko Ono okkar hálfvitanna. Og þar sem Ljótu Hálfvitarnir eru helmingi stærri en Bítlarnir blasir við að Tiina er snöggtum betri myndlistarkona en sú japanska.

Allavega hálfvitalegri.

mánudagur, desember 18, 2006

Forpokun R Us

Magnús Þór Þorbergsson skrifar ádrepu um ástand leiklistarumræðu í landinu í Lesbók moggans á laugardaginn var. Honum sárnar hvað fólk er lítið snokið fyrir tilraunastarfsemi eða nýsköpun í leikhúsinu og staldrar þar einkum við tvö dæmi. Annars vegar þá fullyrðingu Helgu Völu Helgadóttur í Kastljósinu að sýningin MindCamp hafi ekki verið leiklist og hins vegar staðhæfingu Randvers Þorlákssonar, formanns leikarafélagsins, að umtalaður "pissugjörningur" nemenda í Fræði og framkvæmd í Listaháskólanum hafi ekkert haft með leiklist að gera. Magnúsi þykja þessi dæmi sýna að hér á landi ríki íhaldssöm viðhorf til leiklistarinnar og dregur þá niðurstöðu saman með þeim orðum að íslensk leiklistarumræða:
...einkennist [...] bæði opinber og óopinber, af því að meta sýningar út frá því sem telst hin „rétta“ leið, eða jafnvel „viðeigandi“ fyrir þann texta sem liggur til grundvallar sýningunni, líkt og leiklist sé lítið annað en lifandi flutningur bókmennta.
Hún ætlar að verða lífseig þessi klisja um hina stórhættulegu bókmenntalegu hugsun í íslenskri leikhúsumfjöllun, og leikhúsi almennt (það er nefnilega stundum þannig að umfjallararnir skamma leikhúsið fyrir nákvæmlega þessu sömu dauðasynd). En heldur er það vesældarlegur grunnur undir þessa niðurstöðu að tveir leikaramenntaðir álitsgjafar hafi orðið sér til skammar með vanhugsuðum og augljóslega fráleitum sleggjudómum. Því það er augljóst. Auðvitað var MindCamp leiksýning. Og það að gera eitthvað sjokkerandi þýðir ekki að það hafi ekkert með leiklist að gera.

Er íslensk leikhúsumræða of íhaldssöm? Ég er ekki frá því að færa megi sannfærandi rök að hinu gagnstæða: að íslensk leikhúsumræða einkennist ekki síður af gagnrýnilausu dekri við tilraunamennsku þar sem sú dyggð að brydda upp á nýjungum er talin trompa allt tal um áhrifamátt viðkomandi sýningar eða frjómagn þeirra leiða sem verið er að prófa. Það gildir nefnilega með listir eins og vísindi: langflestar tilraunir misheppnast. Og þó svo það megi alveg geta þess að það sé göfugt að leita nýrra leiða þá skiptir líka máli að vera heiðarlegur um það hvort eitthvað virkar eða ekki.

Gott ef ég var ekki að glíma við þessa hluti þegar ég skrifaði mína úttekt á MindCamp í janúar sl. Er ennþá harla ánægður með þá úttekt.

Hvað varðar stóra pissumálið þá hef ég ekkert um það að segja, en held að enginn hafi gert öllum hliðum þess máls jafn skorinorð skil og þessi gaur.

föstudagur, desember 15, 2006

Hálfvitagangur

Ljótu hálfvitarnir spila á Rósenberg annaðkvöld frá kl. 23. Það verður nú gaman.

Fyrir þá sem hafa ekki fylgst með alveg upp á síðkastið þá eru Ljótu hálfvitarnir ekki lengur tríó með mér, Ármanni og Sævari, heldur oktett með mér, Ármanni, Sævari, Bibba, Baldri, Oddi Bjarna, Gumma Svafars og Agga.

Hljómsveitirnar Ljótu hálfvitarnir og Ripp, Rapp og Garfunkel ákváðu semsagt að fylgja fordæmi viðskiptalífsins og sameinast undir nafni þeirrar fyrrnefndu. Ekki er vitað hvort Samkeppnisstofnun hefur eitthvað við þetta að athuga, en vel má vera að lögfræðingur tónlistargyðjunnar leggi fram tónsýslukæru. Vitaskuld er stefnt að markaðsráðandi stöðu undir nýja vígorðinu: "helmingi fleiri en bítlarnir".

Allavega - þetta er þrusuband og ætlar að halda uppi taumlausu fjöri í nafla akústískrar tónlistar annaðkvöld. Mætið eða verið ferköntuð ella. Ég lofa að jafnvel einörðustu og þaulsætnustu aðdáendur hvorrar hljómsveitar fyrir sig munu heyra eitthvað nýtt - og gamla standarda í nýjum búningum að auki. Svo er bjórinn góður á Rósen.

Og ef bloggvinir vorir sjá þetta mega þeir vitaskuld plögga líka. Fyrirvarinn er skammur (við erum að hlaupa í skarð) og okkur langar að hafa sem mest af fólki sem langar að hlusta.

Öppdeit: Vígorðið er að sjálfsögðu "Helmingi stærri en Bítlarnir". Og þá er vert að hafa í huga að Bítlarnir voru stærri en Jesús. Auk þess má geta þess að auk vígorðsins fer allt innra starf sveitarinnar fram undir einkunnarorðunum "Æfingin skapar hálfvitann".

miðvikudagur, desember 06, 2006

Og allt í einu fundu allir sannan jólafrið

Fyrri sýning á Bónusjólum, jóladaxkrá Hugleix í ár var í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkveldi. Tóxt vel. Ég var sæll með bæði Hjáróm og Ljótu hálfvitana, þar sem ég kom við sögu. Allt efnið stóð fyrir sínu, en skemmtilegastur þótti mér Skurður Prequel-þáttur Sigga Páls um félagana úr Hannyrðum í jólaundirbúningnum.

Daxkráin verður aftur á morgun fimmtudag kl. 21. Miðasala við innganginn. Ekki til að missa af.

föstudagur, desember 01, 2006

Blogg sem engu breytir

Þessi póstur er nú mest til að sýna lit. Hef eiginlega ekkert markvert að segja. Ljótu hálfvitarnir eru að fara að spila og hafa æft stíft þessa vikuna. Það er ógurlega skemmtilegt. Sama má reyndar segja um kammerkórinn Hjáróm sem ætlar að taka þátt í jólaprógrammi Hugleiks. Hálfvitarnir reyndar líka.

Það er líka gaman að fylgjast með B og D flokkunum engjast yfir Íraksmálum sínum. Uppáhaldsrökleysa Varríusar er tvímælalaust bísamrottuníhílisminn sem Sjálfstæðismenn telja sér helst vörn í núna: að það hefði engu breytt fyrir framgang málsins þó við/þeir hefðu(m) ekki tekið þátt.

No shit Sherlock?!

Nú getum við öll dundað okkur við það að gera lista yfir hroðaverk sem við hefðum óhrædd getað stutt í öruggri sannfæringu um að við hefðum hvort eð er ekki getað hindrað þau. Einhver kynni að spyrja "af hverju?" og svarið kemur um hæl úr Valhöll: "af hverju ekki?"

Þeir sem ekki hafa smekk fyrir samkvæmisleikjum Sjálfstæðisflokksins geta t.d. eytt helginni í að spila Line Rider.

Hér má sjá nokkur dæmi um afrek annarra í leiknum.

Góða helgi og skemmtun.