mánudagur, desember 18, 2006

Forpokun R Us

Magnús Þór Þorbergsson skrifar ádrepu um ástand leiklistarumræðu í landinu í Lesbók moggans á laugardaginn var. Honum sárnar hvað fólk er lítið snokið fyrir tilraunastarfsemi eða nýsköpun í leikhúsinu og staldrar þar einkum við tvö dæmi. Annars vegar þá fullyrðingu Helgu Völu Helgadóttur í Kastljósinu að sýningin MindCamp hafi ekki verið leiklist og hins vegar staðhæfingu Randvers Þorlákssonar, formanns leikarafélagsins, að umtalaður "pissugjörningur" nemenda í Fræði og framkvæmd í Listaháskólanum hafi ekkert haft með leiklist að gera. Magnúsi þykja þessi dæmi sýna að hér á landi ríki íhaldssöm viðhorf til leiklistarinnar og dregur þá niðurstöðu saman með þeim orðum að íslensk leiklistarumræða:
...einkennist [...] bæði opinber og óopinber, af því að meta sýningar út frá því sem telst hin „rétta“ leið, eða jafnvel „viðeigandi“ fyrir þann texta sem liggur til grundvallar sýningunni, líkt og leiklist sé lítið annað en lifandi flutningur bókmennta.
Hún ætlar að verða lífseig þessi klisja um hina stórhættulegu bókmenntalegu hugsun í íslenskri leikhúsumfjöllun, og leikhúsi almennt (það er nefnilega stundum þannig að umfjallararnir skamma leikhúsið fyrir nákvæmlega þessu sömu dauðasynd). En heldur er það vesældarlegur grunnur undir þessa niðurstöðu að tveir leikaramenntaðir álitsgjafar hafi orðið sér til skammar með vanhugsuðum og augljóslega fráleitum sleggjudómum. Því það er augljóst. Auðvitað var MindCamp leiksýning. Og það að gera eitthvað sjokkerandi þýðir ekki að það hafi ekkert með leiklist að gera.

Er íslensk leikhúsumræða of íhaldssöm? Ég er ekki frá því að færa megi sannfærandi rök að hinu gagnstæða: að íslensk leikhúsumræða einkennist ekki síður af gagnrýnilausu dekri við tilraunamennsku þar sem sú dyggð að brydda upp á nýjungum er talin trompa allt tal um áhrifamátt viðkomandi sýningar eða frjómagn þeirra leiða sem verið er að prófa. Það gildir nefnilega með listir eins og vísindi: langflestar tilraunir misheppnast. Og þó svo það megi alveg geta þess að það sé göfugt að leita nýrra leiða þá skiptir líka máli að vera heiðarlegur um það hvort eitthvað virkar eða ekki.

Gott ef ég var ekki að glíma við þessa hluti þegar ég skrifaði mína úttekt á MindCamp í janúar sl. Er ennþá harla ánægður með þá úttekt.

Hvað varðar stóra pissumálið þá hef ég ekkert um það að segja, en held að enginn hafi gert öllum hliðum þess máls jafn skorinorð skil og þessi gaur.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim