Your lips move, but I can't hear what your're saying
Lengi á eftir bjó með mér sú tilfinning að leikhúsfólk væri óvenju upplýst og gáfað fólk sem hefði skarpari sýn á samfélagið en hinir, vissi hluti sem aðrir vissu ekki. Er ekki frá því að ég hafi snert af þeirri tilfinningu enn, þrátt fyrir öll gagndæmin.
En ég man að mér fannst þetta jafnframt dálítið hallærislegt.
Mér fannst Mind©amp ekkert hallærisleg, nema að svo miklu leyti að vera nokkurnvegin samhljóða hinni bernsku skandinavísku revíu síðan á síðhippatímanumn, en bera jafnframt með sér þá tilfinningu að sköpuðum hennar þætti hér svo sannarlega brotið blað.
Erindi sýningarinnar er svo sannarlega ekki stuðandi. Ekki eiga þau von á mörgum gestum sem mun finnast þau vera boðberar nýrra tíðinda (enda eru þau það ekki), og varla einusinni fólki sem er ósammála þeim um alveldi markaðarins. Það er eiginlega innbyggð í allt ádeiluleikhús sú mótsögn að þeir sem það á brýnast erindi við láta ekki sjá sig (af hverju ættu þeir að gera það?). Pólitískt leikhús "predikar yfir kórnum" svo ensku máltæki sé snúið.
Þetta á alveg sérstaklega við um ádeiluleikhús sem ætlar sér jafnframt að vera listrænt framsækið. Sérstaklega þegar það er jafn afdráttarlaust and-leikhús og Mind©amp. Til að hafa eitthvað þangað að sækja þarftu að hafa áhuga á framsækni og nýjungum í leikhúsi sjálfra þeirra vegna, hafa áhuga á forminu, vera orðinn leiður á því og vantrúaður á mátt þess og helst að auki með menningarþekkingu til að koma auga á textavísanirnar.
Yfirbragðið er fráhrindandi, kalt, sjálfsupptekið, innhverft. Undir kraumar þörfin til að hreyfa við samfélaginu - stuða, breyta, snerta.
Þetta er elítískt leikhús með alþýðlegt erindi.
Sýningar af þessu tagi setja mann í þær stellingar að viðbrögð manns séu ómark ef þau mótast af "venjulegum" væntingum til leikhúss. Maður hálfskammast sín fyrir að sakna (afsakið orðbragðið) persónusköpunar, framvindu, óvæntra uppbrota, miðlunar, nærveru. Manni finnst hálfkjánalegt að spyrja af hverju megninu af innihaldi sýningarinnar var komið fyrir utan sviðsins og varpað inn í rýmið með myndavélum.
Það er vond tilfinning að finnast maður of þröngsýnn til að njóta sýninga. Og það kemur alltaf sá punktur þegar maður hættir að huxa "djöfull er ég vitlaus" og fer að tauta í hljóði: "djöfull eru þið vitlaus".
Herrar mínir og frúr - nýtt gagnrýnihugtak: Artí-Fartí-Þröskuldurinn - A.F.Þ!
Yfir A.F.Þ þarf maður að stíga til að geta farið að tala um sýninguna eins og maður upplifði hana en ekki eins og mann grunar að hún hafi verið meint en nær ekki tökum á. Það er á endanum henni að kenna en ekki þér.
So here goes:
Það háir svolítið áhrifum sýningarinnar hvað maður er fljótur að meðtaka strúktúrinn og veit eftir það alltaf hvað gerist næst:
Leikararnir í salnum að tala í míkrófóna - Einn fer út að flytja eintal í kameru meðan hinir skrifa orð á pappakassa - allir fara út að reykja og ræða málin með texta úr Beðið eftir Godot - Allir fara inn á kaffistofu að predika um markaðinn og nútímann með textabrotum frá Hegel, Nietzche og öðrum spekingum - allir koma inn í sal.
Endurtekið fjórum sinnum að viðbættum forleik og eftirleik.
Ekki veit ég hversvegna þau neita sér um áhrifamátt hins óvænta, uppbrotsins, undantekningarinnar. Kannski eitthvað djúpt, kannski bara fúsk.
Það var gaman að Godot-köflunum, skemmtilegt að sjá hvernig replikkur Vladimirs og Estragons splittuðust upp milli fjögurra leikara og egókitlandi að þekkja textann í þessum framandlega búningi.
Trúðanærvera leikaranna í upphafi og endi var krúttleg - gamalt trikk sem virkar, þó það sé kannski ekki virkjað til mikils hér.
Predikunarkaflarnir auðvitað leiðinlegir og svosum ekki til mikils sem slíkir - flott mynd reyndar af markaðnum sem skautasvelli.
Eintölin ágæt, ekkert sérlega spennandi enda persónusköpun í sýningunni (vísvitandi?) flöt.
Míkrafónkaflarnir minntu á það sem ég hef heyrt um verk Yoko Ono - svona fyrirmæli til að kveikja hugmyndir hjá þér. Ágætis hugmynd, en af hverju svona staglkennt og einhæft?
Upphaf og endir spennandi en langdregið - endalokin dálítið óvænt og sniðug - en veit ekki hvort sú vísun styrkir eða kallast á spennandi hátt á við sýninguna í heild. (Vill ekki ljóstra upp um hvað er þar á ferðinni, en titill greinarinnar er hint).
Og þrátt fyrir allt er Mind©amp ekki leiðinleg. Ég hljóma kannski dálítið fúll, en ég var ekkert sérlega fúll á leiðinni úr Hafnarfirðinum. Bara huxi. Sem var sennilega ætlunin, en ég er fullfær um að huxa um efni sýningarinnar hjálparlaust. Geri það oft. Ég þarf meira.
Kannski eftirminnilegast: Beint fyrir aftan mig sat kona sem hló uppstyttulaust allan tímann en var samt ekki Sigga Birna.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim