föstudagur, desember 22, 2006

Jólahugvekja Varríusar

Páskahátíðin er höfuðhátíð kristinna manna. Þá er minnst þeirra atburða sem eru kjarnin í því sem þeir trúa. Að Kristur hafi dáið fyrir syndir okkar og að vegna hans og píslardauðans munum við öðlast eilíft líf. Hugmyndirnar sem hvað skýrast greina kristna trú frá öðrum skyldum trúarbrögðum.

Eins og eilíft líf hljómar nú aðlaðandi (kannski) þá er hin grunnhugmyndin að sama skapi illskiljanleg og ógeðfelld, að einhver geti dáið kvalafullum dauða og þannig friðþægt fyrir mig.

En jólin eru ekki um þetta. Þau eru til minningar um vonina sem fæddist með litlu barni sem spekingar jafnt sem fjárhirðar töldu sig vita að væri alveg óvenjulega merkilegt, þó það væri fætt í fjárhúsi.

Margt af því sem er haft eftir manninum sem barnið varð síðar að er þesslags að erfitt er að ímynda sér manneskju sem ekki getur kinkað kolli yfir því, eða orðið hugsi á uppbyggilegan hátt. Allavega ekki sérlega góða manneskju.

Þess vegna ætti það ekki að vefjast fyrir neinum að gleðjast af tilhugsuninni um að Jesús hafi fæðst. Ekki heldur þeim trúlausu.

Þess vegna eru jólin trúarhátið hinna vantrúuðu.

Í frábærri ritgerð eftir Þorstein Gylfason, lærimeistara Varríusar, sem heitir Ljósið sem hvarf er m.a. talað um þau forréttindi þeirra sem ekki trúa að geta sótt það í Biblíuna sem þeim geðjast að, en hafnað hinu. Það er ekkert nema kjánaskapur að halda að bara af því að þriðja Mósebók virkar eins og gæðahandbók Sláturfélags Suðurlands þá sé ekkert vit í Fjallræðunni eða að dæmisagan um Miskunnsama Samverjann sé marklaust hjal af því að spádómar Opinberunarbókarinnar séu eins og frásögn af vondu sýrutrippi.

Sameinumst þessvegna öll, trúaðir og trúlausir, í minningunni um það að einu sinni fæddist barn í gripahúsi sem átti eftir að boða að betra væri að bjóða hina kinnina en slá til baka, að við ættum að skoða okkar eigin bresti áður en við grýttum þá sem við teldum gallaða, og að það sem að við viljum að aðrir gjöri okkur skulum við þeim gjöra.

Varríus óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.

4 Ummæli:

Blogger Ásta sagði...

Amen

Og gleðileg jól.

10:52 f.h.  
Blogger fangor sagði...

halelúja, guð blessi okkur, öll sem eitt. euuchyoi!

8:43 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

gleðileg jól Varríus minn og þið hin
ouiubyu

1:43 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Gleðileg Jól!
Kv. Guðfinna Gilitrutt

12:20 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim