Mikil menning mikið gaman (eða eitthvað)
þjóðarsálin
Sigrún Sól hefur verið að þróa mjög persónulegan stíl undanfarin ár. Ég held að það séu ekki ýkjur að segja að hennar bestu verk skipi henni í flokk eftirtektarverðustu leikhúslistamanna okkar. "Því miður" voru Fuglinn minn heitir Fótógen og Íslenski fjölskyldusirkusinn framhaldsskólasýningar sem allt of fáir sáu. Og í samanburði við þær er Þjóðarsálin ansi hreint lágfleyg, þótt helstu einkenni Sólar séu þar vissulega til staðar.
Ljóðræna. Sjónrænt hugmyndaflug. Óreiða. Kjarkur til að fara út á brúnina í túlkun tilfinninga.
En hér vantaði samt eitthvað. Samtölin voru of flöt, ekki hafði tekist að ydda lærdómana úr spunanum í alvöru handrit. Fyrir vikið náðu leikararnir ekki vopnum sínum. Tónlistin andlaus. Ætlunin var óljós - þó ákall hinna fötluðu á rétt sinn í samfélaginu væri áhrifamikið þá virkaði það nánast eins og útúrdúr. Kannski var líka unnið með of mörg element sem hvorki náðist að skipa saman í eina heild eða sannfæra mann um að óskapnaðurinn væri skemmtilegur per se. Rýmið var of erfitt, eða náðist allavega ekki að temja það. Hefði sennilega þurft 30 leikara og 5 hesta til viðbótar til að skapa spektakel-tilfinninguna sem hlýtur að hafa verið draumurinn.
Sýningin átti auðvitað sín augnablik - sérstaklega þegar hestarnir léku lausum hala. Og augljós metnaðurinn er í sjálfu sér lofsverður. Að ekki sé minnst á hæfileikana og djörfungina sem hvarvetna blasa við í verkum Sigrúnar og líka hér. En sem sýning lukkast þetta ekki til nægilegrar fullnustu.
Mein Kampf
Helvíti byrjaði þetta nú efnilega. Flott leikmynd, sagði samt aðeins of mikið, flinkir leikarar að fíflast svolítið í áhorfendum. Sumir jafnvel með gerfinef - alvöru teater semsagt. Góðlyndir gyðingar að taka upp á arma sína vesaling sem við vitum frá fyrstu stund að er Adolf Hitler og hlægjum svolítið á fávisku júðanna. Hápunkti nær þessi hluti sýningarinnar þegar fóstri Adolfs litla, hann Shlomo, snyrtir á honum skeggið í þá mynd sem síðan er orðin íkonísk.
Eftir það gerist því miður ekkert markvert í í einn og hálfan tíma. Fyrsti hálftíminn sagði okkur ýmislegt ónotalegt um það að ala nöðru við brjóst sér, um hvað bilið er stutt milli styrkleika og veikleika, um fáránleika valdsins. Restin málalengingar, endurtekningar, leiðindi.
Flottur leikur í sjálfu sér. Og sennilega engin önnur fær leið með Hitler verksins en sú sem Bergur fer, að stökkva sífellt í klisjuna úr fréttamyndunum og Einræðisherranum. Verst hvað það verður þreytandi. Kannski er það meiningin. En vissum við það ekki öll, hvað retórík er óþolandi, sérstaklega þegar við horfum á hana úr Lazyboy eftiráviskunnar? Hverskonar heimskingjar féllu eiginlega fyrir þessu skrípi?
Og hverjum datt í hug að þetta leikrit myndi efla skilning okkar á því hvernig Adolf varð Hitler? Að groddaleg skopmynd án nokkurs innsæis myndi varpa nýju ljósi á lykilatriðið í sögu nútímans? Kannski var það ekki tilgangurinn. En hver var hann þá?
Að frádregnum álpappírnum á stóra sviðinu þá er þetta því miður alveg nákvæmlega sama flatneskjan og Amadeus. Fyrir utan náttúrulega það siðferðislega spursmál hver sé munurinn á flatneskju um séníið frá Salzburg og böðulinn frá Linz á austurrísku dögunum í Borgarleikhúsinu.
Sá síðan Der Untergang í sjónvarpinu. Sú mynd hefur verið gagnrýnd, aðallega í Þýskalandi, fyrir að sýna mannlegan Hitler. Ég skil þá vel. Ég myndi áreiðanlega líka vilja skrípamyndina ef ég væri að vesenast með svona lík í minni lest. Þó ólíku sé saman að jafna þá þykir okkur t.d. Örn Árna alltaf jafn fyndinn sem Davíð.
Umbreyting
Bernd Ogrodnik er galdrakall. Og hafi hann stóra þökk fyrir að stækka í okkur augun, kalla fram ósjálfráð andvörp og vekja gleðihlátur í sýningu sinni. Og það hjá rígfullorðnu fólki. Peter Brook kallaði það "heilaga leikhúsið" - galdurinn að gera hið ósýnilega sýnilegt. Þetta var heilagt leikhús.
Auðvitað ekki allt jafn heilagt. Best þegar töfrar handanna voru nærtækastir. Minnst áhrifaríkt þegar vélvirkið tók völdin. En hélt manni þrátt fyrir að vera sennilega heldur langt. Og það var náttúrulega blendin gleði að hr. Ogrodnik lét piparsveinslúserinn sinn vera Arsenal-aðdáanda. En Vieira skoraði, svo það er fyrirgefið.
Annar meistari umbreytinga var í sjónvarpinu á laugardaginn. The Life and death of Peter Sellers er bísna slungin mynd, og Geoffrey Rush ekkert minna en magnaður. Og vafalaust má draga einhvern lærdóm af því að það er hægt að leika Britt Ekland en ekki Sophiu Loren