þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Mikil menning mikið gaman (eða eitthvað)

Bætti aðeins úr bráðaskorti á leiklist um helgina. Sá þrjár sýningar á síðasta snúning. Smá blogg um þær:

þjóðarsálin
Sigrún Sól hefur verið að þróa mjög persónulegan stíl undanfarin ár. Ég held að það séu ekki ýkjur að segja að hennar bestu verk skipi henni í flokk eftirtektarverðustu leikhúslistamanna okkar. "Því miður" voru Fuglinn minn heitir Fótógen og Íslenski fjölskyldusirkusinn framhaldsskólasýningar sem allt of fáir sáu. Og í samanburði við þær er Þjóðarsálin ansi hreint lágfleyg, þótt helstu einkenni Sólar séu þar vissulega til staðar.

Ljóðræna. Sjónrænt hugmyndaflug. Óreiða. Kjarkur til að fara út á brúnina í túlkun tilfinninga.

En hér vantaði samt eitthvað. Samtölin voru of flöt, ekki hafði tekist að ydda lærdómana úr spunanum í alvöru handrit. Fyrir vikið náðu leikararnir ekki vopnum sínum. Tónlistin andlaus. Ætlunin var óljós - þó ákall hinna fötluðu á rétt sinn í samfélaginu væri áhrifamikið þá virkaði það nánast eins og útúrdúr. Kannski var líka unnið með of mörg element sem hvorki náðist að skipa saman í eina heild eða sannfæra mann um að óskapnaðurinn væri skemmtilegur per se. Rýmið var of erfitt, eða náðist allavega ekki að temja það. Hefði sennilega þurft 30 leikara og 5 hesta til viðbótar til að skapa spektakel-tilfinninguna sem hlýtur að hafa verið draumurinn.

Sýningin átti auðvitað sín augnablik - sérstaklega þegar hestarnir léku lausum hala. Og augljós metnaðurinn er í sjálfu sér lofsverður. Að ekki sé minnst á hæfileikana og djörfungina sem hvarvetna blasa við í verkum Sigrúnar og líka hér. En sem sýning lukkast þetta ekki til nægilegrar fullnustu.

Mein Kampf
Helvíti byrjaði þetta nú efnilega. Flott leikmynd, sagði samt aðeins of mikið, flinkir leikarar að fíflast svolítið í áhorfendum. Sumir jafnvel með gerfinef - alvöru teater semsagt. Góðlyndir gyðingar að taka upp á arma sína vesaling sem við vitum frá fyrstu stund að er Adolf Hitler og hlægjum svolítið á fávisku júðanna. Hápunkti nær þessi hluti sýningarinnar þegar fóstri Adolfs litla, hann Shlomo, snyrtir á honum skeggið í þá mynd sem síðan er orðin íkonísk.

Eftir það gerist því miður ekkert markvert í í einn og hálfan tíma. Fyrsti hálftíminn sagði okkur ýmislegt ónotalegt um það að ala nöðru við brjóst sér, um hvað bilið er stutt milli styrkleika og veikleika, um fáránleika valdsins. Restin málalengingar, endurtekningar, leiðindi.

Flottur leikur í sjálfu sér. Og sennilega engin önnur fær leið með Hitler verksins en sú sem Bergur fer, að stökkva sífellt í klisjuna úr fréttamyndunum og Einræðisherranum. Verst hvað það verður þreytandi. Kannski er það meiningin. En vissum við það ekki öll, hvað retórík er óþolandi, sérstaklega þegar við horfum á hana úr Lazyboy eftiráviskunnar? Hverskonar heimskingjar féllu eiginlega fyrir þessu skrípi?

Og hverjum datt í hug að þetta leikrit myndi efla skilning okkar á því hvernig Adolf varð Hitler? Að groddaleg skopmynd án nokkurs innsæis myndi varpa nýju ljósi á lykilatriðið í sögu nútímans? Kannski var það ekki tilgangurinn. En hver var hann þá?

Að frádregnum álpappírnum á stóra sviðinu þá er þetta því miður alveg nákvæmlega sama flatneskjan og Amadeus. Fyrir utan náttúrulega það siðferðislega spursmál hver sé munurinn á flatneskju um séníið frá Salzburg og böðulinn frá Linz á austurrísku dögunum í Borgarleikhúsinu.

Sá síðan Der Untergang í sjónvarpinu. Sú mynd hefur verið gagnrýnd, aðallega í Þýskalandi, fyrir að sýna mannlegan Hitler. Ég skil þá vel. Ég myndi áreiðanlega líka vilja skrípamyndina ef ég væri að vesenast með svona lík í minni lest. Þó ólíku sé saman að jafna þá þykir okkur t.d. Örn Árna alltaf jafn fyndinn sem Davíð.

Umbreyting
Bernd Ogrodnik er galdrakall. Og hafi hann stóra þökk fyrir að stækka í okkur augun, kalla fram ósjálfráð andvörp og vekja gleðihlátur í sýningu sinni. Og það hjá rígfullorðnu fólki. Peter Brook kallaði það "heilaga leikhúsið" - galdurinn að gera hið ósýnilega sýnilegt. Þetta var heilagt leikhús.

Auðvitað ekki allt jafn heilagt. Best þegar töfrar handanna voru nærtækastir. Minnst áhrifaríkt þegar vélvirkið tók völdin. En hélt manni þrátt fyrir að vera sennilega heldur langt. Og það var náttúrulega blendin gleði að hr. Ogrodnik lét piparsveinslúserinn sinn vera Arsenal-aðdáanda. En Vieira skoraði, svo það er fyrirgefið.

Annar meistari umbreytinga var í sjónvarpinu á laugardaginn. The Life and death of Peter Sellers er bísna slungin mynd, og Geoffrey Rush ekkert minna en magnaður. Og vafalaust má draga einhvern lærdóm af því að það er hægt að leika Britt Ekland en ekki Sophiu Loren

mánudagur, nóvember 27, 2006

What a feeling!

hitti skáld á förnum vegi.

Fórum að ræða menningarástandið.

Ég kastaði fram snjallyrði.

Hann lét sér fátt um finnast.

Ég dúndraði annarri líkingu á gaurinn.

Hann þagnaði ... ljómaði ... endurtók líkinguna ...

... og dúndraði lausninni í netið!

Við kvöddumst pent - og mér leið eins og Fabregas eftir góða sendingu á Henry.


... gæti ég best trúað ...

Mistök

Þrennt um yfirlýsingu skólastjóra Framsóknarflokksins:

- "það er auðvelt að vera vitur eftir á" hefur verið söngur þeirra sem studdu innrásina. Er reyndar söngur Sjálfstæðisflokksins ennþá. Og það er rétt. En það er enn auðveldara að viðurkenna mistök annarra.

- ríkisstjórnir Frakka, Þjóðverja og meirihluti íslensku þjóðarinnar, og sennilega heimsbyggðarinnar allrar, sá í gegn um lygaþvætting öxulveldis Bush og Blair. Er "mistök" rétta orðið yfir það að skarpgreindir forystumenn ríkisstjórnarinnar (sem sumir eru enn við völd) hafi ekki skilið það sem allir aðrir skildu? Er kannski "siðblinda" nákvæmara?

- Það er grundvallaratriði í sjálfsvitund þjóðarinnar að við lýsum ekki yfir stríði á hendur öðrum þjóðum. Er "mistök" rétta orðið til að lýsa því þegar tveir stjórnarflokkar ákveða umræðulaust að ganga gegn því? Er "landráð" kannski heppilegra?

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 7

Við ljúkum þessari heiðursviku Hugleiks á stöku. Eins og bragfróðir vita eru Sléttubönd einhver slungnasta rímþraut í íslenskum skáldskap, og lét þó Snæbjörn Ragnarsson sig ekki muna um að binda slíka vísu fyrir Jólaævintýri Hugleiks. Hér lýsir Tommi litli skrögginum húsbónda sínum:

Drengur góður, ekki illt
öðrum hann vill gera.
Gengur keikur, fráleitt fyllt
fólsku þessi vera.


Jólaævintýri Hugleiks, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason 2005

Sléttubönd eru sem kunnugt er þeirrar náttúru að vísuna má lesa aftur á bak og áfram, orð fyrir orð. Og mögnuðust verða þau þegar merkingin stendur á haus þegar orðaröðinni er snúið við. Reynið sjálf.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 6

Hér er svo smá laugardagsgróteska, og aftur er unnið með alþýðlegan menningararf.

ÚLFLJÓTUR
Ég ætla rétt að vona að þú kunnir að elda almennilegan mat. Það kunna allar skikkanlegar konur að elda. Uppáhalds-maturinn minn er Eyvindur í sparifötunum og einnig finnst mér Eyvindur með hor afbragð.

BERGÞÓRA
Já!?

ÚLFLJÓTUR
Þú kannt vonandi að matreiða hann.

BERGÞÓRA
Ja, við höfum aldrei haft slíka Eyvinda hér á prestssetrinu.

ÚLFLJÓTUR
Síðasta konan mín var snillingur í eldamennsku.

AUÐUR
Hefurðu átt margar konur?

ÚLFLJÓTUR
Fimm, en þær drápust allar. Þegar sú síðasta dó, ætlaði ég ekki að giftast aftur, en það er svo mikið vesen á þessum vinnukonum, alltaf að stinga af úr vistinni eða verða óléttar. Svo heimta þær kaup ofan í allt.

BERGÞÓRA
Úr hverju dóu konurnar þínar?

ÚLFLJÓTUR
Hinu og þessu. Ein dó úr hor, önnur úr verkjum, þriðja af barnsförum, ein varð úti og sú síðasta, já úr hverju dó hún aftur, ja, hún var alltaf eitthvað slöpp. Ég held það hafi bara verið leti í henni. Það var sama hvað ég barði hana áfram hún stóð aldrei í lappirnar.

PRESTUR
Leti er hvers manns hlekkur. Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki að fá að eta.

BERGÞÓRA
Barðirðu hana, fárveika?

ÚLFLJÓTUR
Ég barði þær allar, eins og harðfisk. Svo hræddi ég reglulega úr þeim líftóruna. (hlær) Ég setti á mig svarta hettu og kom svo aftan að þeim úti í fjósi, þar sem þær sátu við mjaltir. “Máninn líður, dauðinn ríður, sérðu ekki hvítan blett á hnakka mínum, Garún, Garún?” Þá ærðust þær alveg og hlupu inn í bæ. (hlær) Ráðskonan mín, þessi sem er að drepast, segir að ég verði að hætta þessum ólátum. En ég stenst ekki freistinguna.

BERGÞÓRA
En börnin þín, berðu þau líka?

ÚLFLJÓTUR
Ég á engin börn.

BERGÞÓRA
En ? ... Eignaðistu engin börn með öllum þessum konum?

ÚLFLJÓTUR
Einhverja hvolpa eignuðust þær, en þetta voru allt svoddans aumingjar og þær í engan stakk búnar til að sjá um þessi kvikindi svo ég seldi þau bara í skítverk. Nema þann rauðhærða, hann fór í beitu til franskra sjómanna.

BERGÞÓRA
SELDIRÐU ÞAU Í BEITU?

ÚLFLJÓTUR
Þeir vildu bara þann rauðhærða. Hitt var handónýtt hvort eð var. Varla kjöttægja utan á þeim. (Allir horfa á hann í forundran) Það var ekkert annað hægt að gera við þetta, sísvangt og grenjandi. Ég þoli ekki hávaða.


Undir hamrinum, Hildur Þórðardóttir 2002

föstudagur, nóvember 24, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 5

Fögnum föstudeginum með uppáhaldssamtali Varríusar úr höfundaverki Hugleiks - og það er úr fyrsta hugleiksverkinu sem ég sá. Ef Harold Pinter hefði skrifað það væri fjasað um hið ósagða bak við orðin, undirliggjandi ógn og sennilega eitthvað um ofbeldið sem er innbyggt í valdastrúktúr heimsins. Sem betur fer er þetta eftir Imbu og Sigrúnu og því leyfilegt að finnast þetta fyrst og fremst fyndið.

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Það er bannað að hafa hunda hérna inni. Sérðu ekki skiltið?

KONAN MEÐ KÖTTINN
Þetta er ekki hundur, þetta er köttur. Þetta er hún Elsa og hún er 24 ára.

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Mér er alveg sama hvað hún er gömul. Þó það standi að það sé bannað að vera með hunda þá þýðir það líka að það sé bannað að vera með ketti. Við eigum bara ekkert skilti með mynd af ketti. Auk þess eru hundar og kettir það sama.

KONAN MEÐ KÖTTINN
Aldeilis ekki! Hundar eru hundar og kettir eru kettir!

RITHÖFUNDURINN
Ég átti einu sinni tvær bleyður.

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Ég verð að biðja þig að fara út kona góð.

KONAN MEÐ KÖTTINN
Er verið að reka mig héðan út?!

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Já, því miður, hér stendur skýrum stöfum að það sé bannað að koma inn með hunda.

KONAN MEÐ KÖTTINN
Heyrðir þú ekki hvað ég sagði. Hún Elsa er ekki hundur, hún er köttur.

RITHÖFUNDURINN
Hún er köttur.

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Mér er alveg sama hvort þetta er hundur eða köttur. Okkar reglur eru þær að það sé bannað að koma inn með hunda

RITHÖFUNDURINN
En hún er köttur!

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Þá verð ég að biðja ykkur bæði að fara út.

RITHÖFUNDURINN
Er bara verið að reka mann út!

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Því miður, reglurnar eru svona. Engir hundar.

RITHÖFUNDURINN
En ég er rithöfundur!

AFGREIÐSLUSTÚLKAN
Engir hundar, engir hundar.


Aldrei fer ég suður, Ingibjörg Hjartardóttir og Sigrún Óskarsdóttir, 1990

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 4

Bundið mál hefur lengi fylgt félaginu. Söngtextar aðallega. Og svo ljóðleikurinn sem byrjar svona:

( Við erum stödd á eyðilegri heiði. Sólin er rétt ókomin upp, það er útlit fyrir rigningu. Stórgrýti og stöku tré. Hákon, greinilega drukkinn, reikar um heiðina. Hann stoppar við stórt tré. )

HÁKON
Kviddnin sem að á því - hérna - stendur
þá er ég núna obbulítið kenndur,
og segi (því að það er segin saga)
að sjússar eru oftastnær til baga.

Ekki þannig - ég á enga sök.
Að því hníga ei líkindi né rök,
en kannski er best að játa að þessi bobbi
byrjaði með raupi mínu og grobbi.

Ég þóttist geta grætt á gróðabraski
en gæfan reyndist völt
og hamingjan var hölt
og heiður minn og fjármál eru í vaski
út af vangoldnum vaski.

Ég held því að ég haski
mér héðan úr heimi
svo ég floppi ekki og flaski
meir á fjármagnsins streymi.

( Tekur fram reipi )

Ég get ekkert gert nema hengt minn haus
mitt haldreipi er eitt: Þetta reipi!
Ég er bæði gæfu- og glórulaus,
á „guðveiga-börnunum“ dreypi.

( Hann klárar úr flöskunni )

Þá er því lokið og skal ég því skrifa
mín skilaboð til þess að kveðja
og skýra hví lengur ég vil ekki lifa.
Hvar lét ég .... ? Ég þori að veðja

að í vasa var pappír og penni með meiru
ég passaði upp á það. Nei!
Ég klúðraði þessu eins og klúðraði’ eg fleiru
og kvatt get ég ekki, o svei.

En þei!
Hver laumast í myrkri?
Með röddu óstyrkri
hún ræðir við...

HALLA
( Full örvæntingar ) Drottinn, Guð minn!

HÁKON
Skyldi hún ætla?
það skyldi ég ætla
að hún ætli á fund við Guð sinn!

( Hákon felur sig á bak við tréð )

HALLA
Fyrr en morgungyðjan
glennir föla fingur
og greipar lætur sópa burtu stjörnum
og lítill ánamaðkur
undan steini stingur
staðnum þar sem höfuð er á börnum

og allir fuglar ákveða að kvaka
og allir fiskar ákveða að vaka
og vilja fara að synda eftir ám
og allar ýsur hætta að skera hrúta
og allir hrútar hætta að draga ýsur
og vilja fara að draga sig eftir ám

þá reika ég um Háholtið
og hugsa um allt bramboltið
sem brekabörnin breysku og beisku
brugga í skjóli nætur.
Já, gefið að því gætur
því ég var ein af þeim
og bíð þess aldrei bætur
að brjálað næturgeim
ég stundaði sem haldin væri
hundrað illum púkum.
Ég hélt ekki að mér lúkum
heldur drakk sem á því færi
best að komast í tæri

við graut sem er kenndur við „hræri“
við öll hugsanleg tækifæri.

Ég hélt víst að mér bæri
að halda uppi „Á T V R“,
því er nú andskotans ver.


Afturelding, Þórunn Guðmundsdóttir, 2002

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 3

Varríus er svo sem hlutdrægur, en kannski náði bókmenntaparódía Hugleiks hámarki í Stútungasögu, þar sem fornsögurnar fengu yfirhalningu. Í þessu atriði eru siðferðisgildi fornaldarinnar sett fram af ekki minni manni en sjálfum höfundi Njálu:

ÓLÖF
(heldur áfram að skrifa Njálu) "... ok mun ek ríða heim aftr og fara hvergi. Ger þú eigi þann óvinafagnað, segir Kolskegg ... Kolskeggrrr" Oh, þessi samræmda stafsetning forn! (Atli kemur inn) Sæll sonur. Hví ert þú svo óyndislegur?

ATLI
Móðir mín, ég er ráðþrota.

ÓLÖF
Hvað amar að?

ATLI
Eins og þú veist hef ég átt fundi með Jófríði Ásgrímsdóttur. Við höfum lesið saman blóm og unnumst hugástum.

ÓLÖF
Satt er það, spurt hef ég samdrátt ykkar. Sjálf er ég fullsátt við þann ráðahag, en vita skaltu að faðir þinn verður þessu máli andsnúinn. Honum mun þykja sem þú takir niður fyrir þig.

ATLI
En nú er hlaupin snurða á þráðinn milli okkar Jófríðar.

ÓLÖF
Atli minn. Valt er vífs lund að trúa. Það tjóar lítt að gera sér það að grátsefni þó slettist upp á vinskapinn.

ATLI
Vinskapur okkar Jófríðar er samur. Snurðan er önnur.

ÓLÖF
Nú, hver er hún þá?

ATLI
Það er Þorbjörn Gíslason á Útistöðum sem er hlaupinn á milli okkar. Ásgrímur hyggst kaupa honum Jófríði.

ÓLÖF
Þar fór í verra.

ATLI
Hvernig fæ ég keppt við svo mikinn mann þegar ég nýt ekki fulltingis föður míns?

ÓLÖF
Hlýddu á mál mitt sonur. Nú áttu um tvo kostu að velja og hvorugan góðan. Þú getur látið kyrrt liggja, sætt þig við að verða af konunni, og lifað án hennar upp frá því. Að öðrum kosti getur þú skorað Þorbjörn á hólm og fallið með sæmd. Ég er raunsæiskona og veit að hann á allskostar við þig.

ATLI
Hvað á ég að gera? Hvað myndu hetjurnar í sögunum þínum gera?

ÓLÖF
Hetjur velja alltaf þann kostinn sem mest sæmd er af.

ATLI
Og í hvorum kostinum er meiri sæmd, móðir mín?

ÓLÖF
Skoraðu manngrýluna á hólm strákur. Þú gerir þá ekki annað en drepast.

ATLI
Satt segir þú. Líf mitt er hvort eð er ekki góður kostur án Jófríðar. Það væri sem öll blóm heimsins hefðu fölnað. Þá er betra að falla, og gera föður mínum einu sinni til geðs.

ÓLÖF
Eitt sinn skal hver deyja. En farðu nú og dundaðu þér eitthvað góði. Ég þarf að klára kaflann áður en blekið þornar í byttunni.

ATLI
Ég þakka þér góð ráð móðir mín. (fer)

ÓLÖF
Hvert var ég komin? "... segir Kolskeggr, að þú rjúfir sætt þína, því að mér mundi enginn maðr þat ætla. Ok máttu þat hugsa at allt mun fara sem Njáll hefr. sagt" Svei mér ef þetta verður ekki bara betra hjá mér en sagan af Bolla og Kjartani í fyrra.

Stútungasaga, Ármann Guðmundsson, Hjördís Hjartardóttir, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason, 1993

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 2

Fjálg og ljóðræn samtöl elskenda eru sérstök íþróttagrein í hugleikskri leikritun. Fyrsti fundur útsendara ráðhússins og biskupsdótturinnar á Korpúlfsstöðum er afbragðs dæmi:

JÚLÍA
Komdu nær, má ég sjá þig?

FRIÐÞJÓFUR
Ég veit nú ekki hvort ég þori.

JÚLÍA
Jú , jú ég er ekkert hættuleg.

FRIÐÞJÓFUR
Nei ekki þú, sem slík. . .

JÚLÍA
Var Korpa að skjóta á þig?

FRIÐÞJÓFUR
Það birtist eldri borgari með skotvopn og hún skaut bara á mig.

JÚLÍA
Þetta eru örugglega púðurskot. (Þögn) Horfðu á mig.

FRIÐÞJÓFUR
Hver? Ég?

JÚLÍA
Þú ert með svona falleg blá augu.

FRIÐÞJÓFUR
Ég er með snert af lesblindu.

JÚLÍA
Það sést ekkert.

FRIÐÞJÓFUR
Ekki ert þú með lögheimili hér?

JÚLÍA
Jú.

FRIÐÞJÓFUR
En þetta er skjalageymsla borgarinnar. Hér býr enginn.

JÚLÍA
Ertu á bíl?

FRIÐÞJÓFUR
Þú heldur auðvitað að ég sé pizzusendill. Þér að segja þá hef ég ekki lagt í að taka bílpróf, ég er ekki bara lesblindur heldur líka með athyglisbrest sökum misþroska.

JÚLÍA
Ókey.

FRIÐÞJÓFUR
Ég heiti Friðþjófur.

JÚLÍA
Júlía. (Þögn) Komdu nær. Þú ert eitthvað svo grár og gugginn.

FRIÐÞJÓFUR
(lítur niður á sig) Hvað er ég nú búinn að gera? rífa jakkann. Djöfulsins. Ég villtist, það er búið að breyta veginum.

JÚLÍA
Viltu kakó?

FRIÐÞJÓFUR
Ég á svo erfitt með að vera í návist ókunnugra svona illa til fara. Á hinn bóginn er ég nýsloppinn úr lífshættu og bráðum komin nótt, svo ég á held ég varla annarra kosta völ en þiggja þitt góða boð.

JÚLÍA
Farðu hljóðlega. Korpa má ekki rekast á þig. Ekki viltu láta skjóta á þig aftur.

FRIÐÞJÓFUR
Sumum finnst ég ef til vill réttdræpur. Ég hef sjaldan tekið mér fyrir hendur eitthvað virkilega vel heppnað, ef ég á að segja alveg eins og er. Annars hef ég notið velvildar í Ráðhúsinu, hingað til. Ég rata alls ekki um Ráðhúsið. Ég á erfitt þar líka vegna lofthræðslu gluggarnir ná niður í gólf, maður horfir beint niður í Tjörnina. Ég vakna í svitakófi um nætur og finnst ég vera að drukkna eftir að hafa fallið niður af þriðju hæð. Ég er ekki á réttri hillu í lífinu.

JÚLÍA
Ekki ég heldur.

FRIÐÞJÓFUR
Ég skil ekki hvað þú ert þolinmóð að hlusta á mig og skilja mig . . . mér finnst þú skilja mig. Þú verður að segja mér ef þér finnst ég tala of mikið. Ég veit aldrei alveg hvernig ég á að vera í samskiptum við aðra. Samt er ég búinn að vinna alveg rosalega í mér.

JÚLÍA
Eru þetta þín gleraugu?

FRIÐÞJÓFUR
Já, þakka þér fyrir. Ég má ekki undir nokkrum kringumstæðum týna þeim. Hvernig get ég þakkað þér fyrir þetta allt.

JÚLÍA
Þú ert freknóttur.

FRIÐÞJÓFUR
Ég er það. En þó er ég fyrst og fremst fósturbarn. Ég hef, þér að segja, aldrei fengið að vita um uppruna minn. Mér er sagt að annað foreldra minna hafi verið kornungt við getnaðinn. Ég veit ekki hverju ég á að trúa, en hitt veit ég að þegar aðrir tala fjálglega um ættir sínar þá sit ég hljóður hjá. Þetta er nú mín raunasaga, í stórum dráttum.

JÚLÍA
Æ , þetta skiptir engu máli. Fólk verður svo leiðinlegt með aldrinum.

FRIÐÞJÓFUR
Þú kennir mér nýjan sannleik.

JÚLÍA
Ef þú mundir hitta foreldra þína núna þá mundirðu gubba úr leiðindum.

FRIÐÞJÓFUR
Ég er svo aldeilis hissa.

JÚLÍA
Ég vildi óska þess að það kæmi einhver og legði líf mitt í rúst.

FRIÐÞJÓFUR
Ég vildi bara fá að hitta mmmömmu.

JÚLÍA
Rosalega ertu eitthvað misþroska.


Embættismannahvörfin, Anna Kristín Kristjánsdóttir, Ármann Guðmundsson, Fríða Bonnie Andersen, Sigrún Óskarsdóttir, Sævar Sigurgeirsson, Unnur Guttormsdóttir, V. Kári Heiðdal og Þorgeir Tryggvason, 1997

mánudagur, nóvember 20, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 1.

Fyrir marga sem fylgst hafa lengi með Hugleik eru orðaleikir og útúrsnúningar helsta prýði verkanna. Hér er harla gott dæmi, sem tekur klassísk orðaskipti tveggja skessna(?) úr þjóðsögunum og spinnur á þau óvæntan hala sem beintengir þær við fjölmenningarsamfélag nútímans.

AUÐLEGÐ:
Systir, ljáðu mér pott.

ÁSTRÍÐUR:
Það er ekki gott, en hvað á að gera við hann?

AUÐLEGÐ:
Sjóða í honum mann.

ÁSTRÍÐUR:
Hver er hann?

AUÐLEGÐ:
Álfur frá Hól.

ÁSTRÍÐUR:
Álfur von ól.

AUÐLEGÐ:
Tökum hann og mökum í floti og súru sméri.

BÁÐAR:
Maka, maka, maka, maka... (dansa)... maka, maka...

ÁSTRÍÐUR:
Mig vantar maka.

AUÐLEGÐ:
Svo vantar mig mal.

ÁSTRÍÐUR:
Mig vantar hal.

AUÐLEGÐ:
Og mig vantar hal í mal.

ÁSTRÍÐUR:
Hal í mal ??!!! Hættu þessum endemis þvættingi.

Ég bera menn sá, Anna Kristín Kristjánsdóttir og Unnur Guttormsdóttir, 1993)

föstudagur, nóvember 17, 2006

Verðlaunin

Ef íslensk tunga er matjurtagarður er Hugleikur gaurinn sem sker dónalegar myndir út úr gulrófunum og býður svo upp á dýrindis salat úr arfanum.

Já við fengum viðurkenningu í gær, á degi Íslenskrar tungu, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, sem við höfum reyndar fengið ákúrur fyrir að skrumskæla og skopstæla. Heldur betur viðeigandi, verð ég að segja.

Ég er alveg rígmontinn af þessu. Það er gaman þegar einhver tekur óumbeðið eftir því sem verið er að gera, skilur það og metur. Það er ástand sem of sjaldan ríkir í hjörtum áhugaleikarans.

Og svo er auðvitað ansi sætt að finnast við vera vel að þessu komin.

Höfundastarfið, úrvinnslan úr menningararfinum, hagyrðingarnir, útúrsnúðarnir. Allir hinir hnífskörpu flytjendur sem skila bullinu fram yfir sviðsbrúnina.

Varríus er Hugleiksaðdáandi og hyxt fagna þessari viðurkenningu með viðeigandi hætti. Næstu viku munu birtast textabrot úr hinum ýmsu Hugleiksverkum. Gáfuleg, heimskuleg, fáránleg, fyndin, alvarleg, í bundnu máli og óbundnu. Eina viðmiðið er að mér þyki þau skemmtileg í víðustu merkingu þess orðs. Höfundar verða ekki spurðir álits, en eru beðnir að senda mér línu ef þeir vilja allsekki eiga textabút í dæmasafninu.

Það er viðeigandi að þjófstarta þessu verkefni núna með bút úr Bónorðsförinni. Er þetta litla eintal gott eða vont? það er ekki gott að segja. Er það vísvitandi eða óvart fyndið? Enginn veit. Hinu held ég að megi færa gild rök að - að það er áhrifaríkara um þróun hins hugleikska stíls en almennt er viðurkennt.

Guðný:
(Stendur við stofugluggann, og horfir á eptir Halldóri) Vesalings Halldór. Þú elskar mig, og jeg elska þig. Þú ert vel að þjer og efnilegur maður – en þú ert fátækur. Þú elskar mig, og þó verður þú að fara í burtu fá mjer. Fátæktin þín skilur á milli okkar. Jeg er rík, eða það lítur út fyrir að jeg verði rík – jeg elska þig – en má þó ekki gjöra það, nema svo enginn viti. Grimmur er sá, sem meinar mjer það, auðurinn minn og fátæktin þín. – Halldór minn, nú fer þú burt, en þú fer með mig með þjer í huga þínum; þú fer með elskuna til mín. Nær ætl' þú komir aptur? – mjer er nóg, að þú elskar mig. – Fátæktin þín er sterk, og sterk eru ógnunarorð foreldranna, en þó er elskan sem við elskumst, enn sterkari. – Hún er hrein – jeg elska þig, af því jeg virði þig, og mannkosti þína og vænleik – og sú fagra elska, sem sprottin er af virðingu fyrir því fagra og góða, hlýtur fyr eða síðar að sigra allt annað. – Vertu sæll, Halldór minn; guð og hamingjan fylgi þjer. Hana nú, þar hverfurðu mér hinu meginn við ásinn. – Vertu alltjend sæll –
Og mundu eptir mjer
sem man þig alla daga
og unnir einum þjer.
Einni anntu mjer
alla þína daga.
Einum ann jeg þjer
alla mína daga.
(Hún sezt niður, og fera að lesa í bók, sem liggur á borðinu).

Bónorðsförin, Magnús Grímsson, 1852

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Til hamingju Grigol!

Margir muna eftir Grigol Matsjavariani, einhverjum geðþekkasta íslandsvini sem um getur. Þessi flugskarpi og elskulegi Georgíumaður setti sig í samband við Íslendinga 1992 eftir að hafa upp á eigin spýtur lært íslensku af einskærum áhuga.

Það er því einstaklega viðeigandi að á Degi íslenskrar tungu hampi Georgíumenn heimsmeistaratitli í knattspyrnu í fyrsta sinn, eftir frækinn sigur á fornu stórveldi Úrúvæmanna.

Annað sem er vel við hæfi til að minnast dagsins er að birta eitt af mögnuðum kvæðum Lárviðarskálds Varríusar, sem lýsir einmitt vel þeirri málsnjöllu úrvinnslu á menningararfinum sem alltaf hefur verið einn af máttarstólpum félagsins:

Ó fósturlandsins freigáta
þér færum lof og prís.
Þú Íslands fagra fjallkona
og flestu vana dís.

Svo dável gerð af Guði rún,
greypt í stuðlaberg.
Traust og stöðug stendur hún
steypt í gamlan merg.

Sjálfstæðiseldar í sál þinni brenna
þú seint verður talin til minni kvenna.
Þú seint verður talin neitt slor.
Þú seint verður talin lydda með hor.
Þú ert ávísun landans á frelsi og framtíðarvor.

Þú frægðar hefur tölt á tind
svo tugthúslimanett.
Ó sæla heimsins svalalind
sem sýður jafnt og þétt.

Sjálfstæðiseldar...

Þú Íslands fjallaálfkona
og öllu vana dís.
Þú hálfu meira en hálf kona
heill sé þér og prís!
Sævar Sigurgeirsson, úr Fáfnismönnum 1995

Flott hjá stráknum. Og til að sýna breiddina er svo rétt að krækja yfir á snilldarlega útleggingu eins af okkar nýjustu meðlimum á máli málanna.

Gleðilegan dag!

mánudagur, nóvember 13, 2006

Olía á eldinn

Á sama tíma og "allir" eru sammála um að Frjálslyndi flokkurinn hefði betur ekki tjáð sig um innflytjendamál er gott að vita til þess að ábyrgir fjölmiðlar sýna stillingu og forðast að vera með lýðskrumskenndar fyrirsagnir um málið.

Þannig slær Fréttablaðið upp eftirfarandi fyrirsögn í dag:

"Meirihluti frjálslyndra segir útlendinga mikið vandamál."

Sem er trúlega dálítið rasísk og fordómafull afstaða.

En svo ef maður nennir að lesa greinina þá kemur í ljós að í könnuninni sem leiddi þetta í ljós var ekkert spurt um hvort útlendingar væru til vandræða. þar var hinsvegar spurt:

"Er fjöldi útlendinga á Íslandi ekkert, lítið eða mikið vandamál?"
Leturbreyting Varríusar

Þetta er svona álíka og ef ég segði að ég teldi það vera vandamál hve fáar konur sitja á Alþingi og blaðamaðurinn hefði slegið upp: "Varríus segir konur á alþingi vandamál"

Svona vinnubrögð, þar sem umdeild afstaða er skrumskæld og afflutt á áberandi hátt mun vafalaust stuðla að málefnalegri og hreinskiptinni umræðu um þetta viðkvæma mál.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Langhundur um innflytjendamál

Nei annars, ég nenni því ekki. Má ekki á milli sjá hvorir eru meira pirrandi, fálmandi lýðskrumarnir í Frjálslyndaflokknum eða uppgerðareinfeldningar sem veifa rasistastimplinum um leið og einhver leyfir sér að vilja setja málið á dagskrá.

Sennilega erum við samt kominn yfir þann fasa - úr því það kemur í ljós að meirihluti þjóðarinnar er huxi yfir því hvernig á málum er haldið.

Það verður forvitnilegt svo ekki sé meira sagt.

Annað forvitnilegt er hvað verður um málarexturinn á hendur Jóni Baldvin fyrir að hafa meiðyrt ruslatunnulögreglustjórann.

Varríusi er spurn: er það ærumeiðandi að segja um einhvern að hann sé alræmdur? Segir það nokkuð um þann sem er sagður alræmdur, en þeim mun meira um hina sem tala illa um hann?

Meiðir það æru einhvers að segja að öllum finnist hann ljótur og leiðinlegur?

Svo við nefnum dæmi af handahófi þá var t.d. Jesús Kristur alræmdur. Og ekki verri fyrir vikið.

Myndband helgarinnar er, þótt ótrúlegt megi virðast norskur húmor. Sem er alræmdur en, eins og þessi skets sannar, ekkert verri fyrir það:



Helgin fer í hugmyndavinnu, tónlistariðkun og kannski smá fótboltagláp. Gott plan.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Settling the Score

Tók ágæta hugmynd upp hjá Gumma Erl, sem felst í því að láta slembiúrtak úr iTunes-safninu sínu búa til soundtrack við bíómynd um sig. Byrjaði á að gera þetta með aðallistann, þar sem er allskyns dót sem ég ég hlusta ekkert endilega á (komst ég að). Útkoman var þessi:

Opening Credits:
Your mother and I - Loudon Wainwright III
Svolítið skrítið að byrja á þessari hugljúfu skilnaðarballöðu, en stemmingin í laginu er allt í lagi. Greinilega samt ekki mikil hasarmynd.

Waking Up:
Coming soon - Queen
Obskjúr rokkari af The Game sem ég var löngu búinn að gleyma að væri til. Myndi samt alveg vekja mann.

First Day at School:
Lousiana Woman - Loretta Lynn
Bara skrítið, þó frú Lynn sé alltaf svöl.

Falling in Love:
Burkni og Jukka úr Stundinni okkar (demóútgáfa)
Og enn skrítnara. Reyndar dúett, en erfitt að sjá hvernig þau tvö gætu myndað hamingjusamt par, hvort öðru sjálfhverfara og sjálfmiðaðra. Svo er þetta "skrats-útgáfa" ætluð fyrir endanlega söngvara til að læra lagið. Ammælisbarn vikunnar syngur bæði hlutverkin.

Fight Song:
Workingman's Blues #2 - Bob Dylan
Lag af nýju plötunni. Ekki alvitlaust - en heldur ekki sérlega öflugt. Sennilega er þetta ekki alvöru rifrildi, heldur meira svona nöldur.

Breaking Up:
We are the Champions - Queen
Drama með bjartsýnum undirtóni. Passar ágætlega, þó Queen-slagsíðan sé skrítin.

Getting Back Together:
O thou that tellest good tidings to Zion úr Messíasi eftir Handel
Flottur fagnaðarsöngur. Verst að þetta er líka "skrats-útgáfa", ætluð til að kenna tímabundnum og/eða seinfærum söngvurum bassalínuna. Greinilegt að þessir endurfundir eru í Ísrael. Fínt, þangað langar mig að koma.

Wedding:
Snæfríður úr Stundinni okkar
Sjálfstæðis-manifestó Snæfríðar er mögulega aðalhittarinn í Stundinni í vetur. Þátturinn verður einhverntíman í nóvember, hlakkið til. Þetta er sko ekki undirgefin og hlýðin kona - og nákvæmlega ekkert að því.

Birth of Child:
Burkni og Jukka úr Stundinni okkar
Kemur þetta aftur! - og nú með endanlegum söngvurum. Tvíburar? Frekar kvíðvænleg tilhugsun að ala þetta lið upp. En hér eru greinileg Wagner-áhrif - ástar-leitmótífið birtist aftur þegar börnin fæðast.

Final Battle:
Bicycle Race remix - Queen
Freddy aftur - og lokaorrustan er þá greinilega eltingaleikur. Sennilega verið að reyna að elta krakkana á hjólum, eða þá hina sjálfstæðu konu.

Death Scene:
Surely he hath bourne our griefs úr Messíasi eftir Handel
Fallegt og viðeigandi. En aftur er það "skrats-útgáfan".

Funeral Song:
Niðurlagið úr Sálum Jónanna
Í alvöru - ekki svindl. Mússíkdrama um hvernig sálunum er bjargað úr klóm andskotans við hlið helvítis. Af jarmandi sóprandívu og svæfandi flautuleik.

End Credits:
Birkitré með Ljúbe
Fallegt rússneskt lag. Bara nokkuð gott á kreditlistann.

Mér fannst þetta nú hálf-súrrealískur listi. Svo ég ákvað að endurtaka leikinn og nota þá playlista með lögum sem mér finnst skemmtilegt að hlusta á. Hann er langur og fjölbreyttur og hér er niðurstaðan út frá honum:

Opening Credits:
Geimverkamaður - Árni Hjartarson
Ég veit reyndar ekkert hvað þetta lag heitir og skírði það þetta fyrir sjálfan mig. En þetta er uppáhaldslagið mitt eftir Árna og verður á disknum sem hann er í þann mund að gefa út. Frábær byrjun á myndinni, dularfull og fyndin með undirliggjandi trega.

Waking Up:
A new England - Billy Bragg
"I was 21 years when I wrote this song, I am 22 now, but it won't be for long" Skáld hins augljósa hefur talað. Flottur vakningasöngur hjá nýenduruppgötvuðum meistara.

First Day at School:
Masters of war - Bob Dylan
Úff. mr. Zimmermann leggur vopnasmiði og -skakara heimsins í einelti. Þetta verður spennandi skólaganga.

Falling in Love:
Killer Queen - Queen
Queen aftur! En núna er það spot on. Hver getur annað en fallið fyrir gyðjunni sem hér er lýst?

Fight Song:
I wish I was in New Orleans - Tom Waits
Greinilega ekki mikill baráttujaxl, óskar sér bara sem lenxt í burtu. Minnir á að þó Dylan óski stríðsherrunum dauða tæpitungulaust þá ætlar hann ekki að gera annað í málunum en að horfa á eftir þeim í gröfina og vona að það verði sem fyrst.

Breaking Up:
Um óþarflega fundvísi Ingólfs Arnarsonar - Megas
Flott stemming en textinn kemur svolítið skáhallt á mómentið. Týpískur megas sumsé.

Getting Back Together:
Wait and see - Stiff little fingers
That's more like it! Söngur um þrautseigju, hvernig sigrast má á erfiðleikum með vinnusemi og bjartsýni. Spot on.

Wedding:
Söngur Kapítólu - Hugleikur
"Það er allt í lagi, ég á svo góðan mann" Ótrúlegt en satt. Ekkert svindl.

Birth of Child:
Van Lear Rose - Loretta Lynn
Lagið er í miklu uppáhaldi og þarna minnist dóttir móður sinnar, en helvíti má hún vera bráðþroska!

Final Battle:
Senses working overtime- XTC
Greinilega f.o.f. innri barátta, eða þá við skilningarvitin. Kannski of mikið dóp? Gott lag allavega.

Death Scene:
Maggasýn - Þeyr
"Það er engin leið út úr þessu rassgati"

Funeral Song:
Burkni og Jukka - Stundin okkar
Það virðist ekki vera nokkur leið að losna við þetta lag! Hér er það hinsvegar dálítið gott, sjálfshól blómanna væri ekkert á skjön í líkræðu eða minningargrein. "þúsund kosti hef, en þessa helst: þakklæti og hógværð, vinarþel".

End Credits:
Indælu Vestmannaeyjar - The Puffins frá Eyjum.
Og nú erum við í súrrelistalandinu! Fyndinn texti við "Them old Cottonfields back home", í orðastað Árna Johnsen um jarðgangaþráhyggjuna. Eins og skrattinn úr sauðaleggnum en ekki slæmt samt.