þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 2

Fjálg og ljóðræn samtöl elskenda eru sérstök íþróttagrein í hugleikskri leikritun. Fyrsti fundur útsendara ráðhússins og biskupsdótturinnar á Korpúlfsstöðum er afbragðs dæmi:

JÚLÍA
Komdu nær, má ég sjá þig?

FRIÐÞJÓFUR
Ég veit nú ekki hvort ég þori.

JÚLÍA
Jú , jú ég er ekkert hættuleg.

FRIÐÞJÓFUR
Nei ekki þú, sem slík. . .

JÚLÍA
Var Korpa að skjóta á þig?

FRIÐÞJÓFUR
Það birtist eldri borgari með skotvopn og hún skaut bara á mig.

JÚLÍA
Þetta eru örugglega púðurskot. (Þögn) Horfðu á mig.

FRIÐÞJÓFUR
Hver? Ég?

JÚLÍA
Þú ert með svona falleg blá augu.

FRIÐÞJÓFUR
Ég er með snert af lesblindu.

JÚLÍA
Það sést ekkert.

FRIÐÞJÓFUR
Ekki ert þú með lögheimili hér?

JÚLÍA
Jú.

FRIÐÞJÓFUR
En þetta er skjalageymsla borgarinnar. Hér býr enginn.

JÚLÍA
Ertu á bíl?

FRIÐÞJÓFUR
Þú heldur auðvitað að ég sé pizzusendill. Þér að segja þá hef ég ekki lagt í að taka bílpróf, ég er ekki bara lesblindur heldur líka með athyglisbrest sökum misþroska.

JÚLÍA
Ókey.

FRIÐÞJÓFUR
Ég heiti Friðþjófur.

JÚLÍA
Júlía. (Þögn) Komdu nær. Þú ert eitthvað svo grár og gugginn.

FRIÐÞJÓFUR
(lítur niður á sig) Hvað er ég nú búinn að gera? rífa jakkann. Djöfulsins. Ég villtist, það er búið að breyta veginum.

JÚLÍA
Viltu kakó?

FRIÐÞJÓFUR
Ég á svo erfitt með að vera í návist ókunnugra svona illa til fara. Á hinn bóginn er ég nýsloppinn úr lífshættu og bráðum komin nótt, svo ég á held ég varla annarra kosta völ en þiggja þitt góða boð.

JÚLÍA
Farðu hljóðlega. Korpa má ekki rekast á þig. Ekki viltu láta skjóta á þig aftur.

FRIÐÞJÓFUR
Sumum finnst ég ef til vill réttdræpur. Ég hef sjaldan tekið mér fyrir hendur eitthvað virkilega vel heppnað, ef ég á að segja alveg eins og er. Annars hef ég notið velvildar í Ráðhúsinu, hingað til. Ég rata alls ekki um Ráðhúsið. Ég á erfitt þar líka vegna lofthræðslu gluggarnir ná niður í gólf, maður horfir beint niður í Tjörnina. Ég vakna í svitakófi um nætur og finnst ég vera að drukkna eftir að hafa fallið niður af þriðju hæð. Ég er ekki á réttri hillu í lífinu.

JÚLÍA
Ekki ég heldur.

FRIÐÞJÓFUR
Ég skil ekki hvað þú ert þolinmóð að hlusta á mig og skilja mig . . . mér finnst þú skilja mig. Þú verður að segja mér ef þér finnst ég tala of mikið. Ég veit aldrei alveg hvernig ég á að vera í samskiptum við aðra. Samt er ég búinn að vinna alveg rosalega í mér.

JÚLÍA
Eru þetta þín gleraugu?

FRIÐÞJÓFUR
Já, þakka þér fyrir. Ég má ekki undir nokkrum kringumstæðum týna þeim. Hvernig get ég þakkað þér fyrir þetta allt.

JÚLÍA
Þú ert freknóttur.

FRIÐÞJÓFUR
Ég er það. En þó er ég fyrst og fremst fósturbarn. Ég hef, þér að segja, aldrei fengið að vita um uppruna minn. Mér er sagt að annað foreldra minna hafi verið kornungt við getnaðinn. Ég veit ekki hverju ég á að trúa, en hitt veit ég að þegar aðrir tala fjálglega um ættir sínar þá sit ég hljóður hjá. Þetta er nú mín raunasaga, í stórum dráttum.

JÚLÍA
Æ , þetta skiptir engu máli. Fólk verður svo leiðinlegt með aldrinum.

FRIÐÞJÓFUR
Þú kennir mér nýjan sannleik.

JÚLÍA
Ef þú mundir hitta foreldra þína núna þá mundirðu gubba úr leiðindum.

FRIÐÞJÓFUR
Ég er svo aldeilis hissa.

JÚLÍA
Ég vildi óska þess að það kæmi einhver og legði líf mitt í rúst.

FRIÐÞJÓFUR
Ég vildi bara fá að hitta mmmömmu.

JÚLÍA
Rosalega ertu eitthvað misþroska.


Embættismannahvörfin, Anna Kristín Kristjánsdóttir, Ármann Guðmundsson, Fríða Bonnie Andersen, Sigrún Óskarsdóttir, Sævar Sigurgeirsson, Unnur Guttormsdóttir, V. Kári Heiðdal og Þorgeir Tryggvason, 1997

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Nú get ég ekki orða bundist lengur og segi: TIL HAMINGJU! - Eða "alysa" eins og sumir ónefndir vilja orða það.

5:13 e.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Fólk verður ekkert smá leiðinlegt með aldrinum. Ég var til dæmis alveg búin að steingleyma þessu rottufína samtali. Sem við Sævar áttum þó oft... en örugglega sjaldnast nákvæmlega svona.

11:02 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Segjum tvö!

Og það er ekki í fyrsta skiptið sem Varríus rifjar upp texta (oft langa) sem klingja hjá mér e-m bjöllum ... og í ljós kemur svo að ég hef sjálfur staðið og flutt þá á leiksviði margoft, e-n tímann í fyrndinni. Svona er maður nú orðinn skemmdur í annars forðum efnilegu höfðinu.

11:15 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim