fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Til hamingju Grigol!

Margir muna eftir Grigol Matsjavariani, einhverjum geðþekkasta íslandsvini sem um getur. Þessi flugskarpi og elskulegi Georgíumaður setti sig í samband við Íslendinga 1992 eftir að hafa upp á eigin spýtur lært íslensku af einskærum áhuga.

Það er því einstaklega viðeigandi að á Degi íslenskrar tungu hampi Georgíumenn heimsmeistaratitli í knattspyrnu í fyrsta sinn, eftir frækinn sigur á fornu stórveldi Úrúvæmanna.

Annað sem er vel við hæfi til að minnast dagsins er að birta eitt af mögnuðum kvæðum Lárviðarskálds Varríusar, sem lýsir einmitt vel þeirri málsnjöllu úrvinnslu á menningararfinum sem alltaf hefur verið einn af máttarstólpum félagsins:

Ó fósturlandsins freigáta
þér færum lof og prís.
Þú Íslands fagra fjallkona
og flestu vana dís.

Svo dável gerð af Guði rún,
greypt í stuðlaberg.
Traust og stöðug stendur hún
steypt í gamlan merg.

Sjálfstæðiseldar í sál þinni brenna
þú seint verður talin til minni kvenna.
Þú seint verður talin neitt slor.
Þú seint verður talin lydda með hor.
Þú ert ávísun landans á frelsi og framtíðarvor.

Þú frægðar hefur tölt á tind
svo tugthúslimanett.
Ó sæla heimsins svalalind
sem sýður jafnt og þétt.

Sjálfstæðiseldar...

Þú Íslands fjallaálfkona
og öllu vana dís.
Þú hálfu meira en hálf kona
heill sé þér og prís!
Sævar Sigurgeirsson, úr Fáfnismönnum 1995

Flott hjá stráknum. Og til að sýna breiddina er svo rétt að krækja yfir á snilldarlega útleggingu eins af okkar nýjustu meðlimum á máli málanna.

Gleðilegan dag!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim