þriðjudagur, maí 02, 2006

Mr. Bond

Eyddi dýrmætum laugardegi í Hafnarfjarðarleikhúsinu á fyrirlestri/leiksmiðju hjá heimsfrægum leikritahöfundi, Edward Bond. Ætli megi ekki segja að Bond hafi svipaða stöðu gagnvart hinu umtalaða In-Yer-Face-leikhúsi og Iggy Pop eða Patty Smith hafa gagnvart pönkinu. Forveri og áhrifavaldur þeirrar tísku að seilast til áhrifa í sálarlífi áhorfenda með sjokkerandi ofbeldi á sviðinu. Segja má að Bond hafi kastað fyrsta steininum í ofbeldisvæðingu nútímaleikhússins með leikritinum Saved (1965) þar sem barn er grýtt til bana í barnavagni.

Í máli hans kom enda fram að hann telur slíka leikritun þá einu sem einhverju máli skiptir, þá einu sem er réttnefnt drama.

Þetta var skrítinn viðburður. Hr. Bond er sennilega versti fyrirlesari sem ég hef hlýtt á, einhverskonar óheppileg blanda af Jakobi Oschlag og Mikael M. Karlssyni (og fækkar nú óðum þeim sem hafa forsendur til að skilja). Muldrar, gleymir stöðugt að hann heldur á míkrófón, langorður án þess að komast að kjarna málsins fyrr en eftir dúk og disk.

Og kjarninn? Þó svo Bond sé orðinn gamall nokkuð og ætti að vera vaxinn upp úr allsherjarskýringum hefur honum tekist að gleypa hráa einhverja leiðinlegustu tískubólu vitsmunaklámheimsins, nefnilega að skýra allt með vísunum í heilastarfsemi. Að sjálfsögðu án þess að bera fyrir sig hégóma eins og rannsóknir eða staðreyndir. Fyrir vikið er þessi heilabrautafrumspeki náttúrulega alveg þýðingarlaust skýringartæki af hliðstæðum ástæðum og vísanir í vilja guðs eru það.

Drama á rætur sínar í strúktúr mannsheilans. Hú fokking ra.

Það var vissulega forvitnilegt að fylgjast með Bond vinna senu með leikurum. Hvorki merkilegra né ómerkilegra en góð sessjón af Master-Class leikstjórnarnámskeiði á Húsabakka. Reyndar fór mestur tími hans í að fá þau til að virða svigainstrúksjónir, en Bond er klárlega góður í að skrifa svoleiðis. Og gengur út frá þvi að þær séu virtar nema skýrar og sterkar ástæður liggi fyrir frávikum. Ekki ósanngjörn krafa.

Heilt yfir var þetta nú ekki mikil uppljómun. Alltaf gaman samt að heyra menn úthúða Brecht. Ekki síst gamla kommúnista.

Þrisvar sinnum hringdu gsm-símar. Í fullum sal af leikhúsfólki. Í vinnu sem krafðist sterkrar einbeitingar.

Óheppni.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim