Söngprógramm Hugleiks var nákvæmlega eins og ég vildi að það væri. Sem var eins gott, því núna er ég hættur að ráða þar nokkrum hlut, enda kominn nýr formaður, hinn fjölvísi og hæfileikaríki Siggi Páls!
Góður aðalfundur á föstudag þar sem staðfest var að leikárið sem er að klárast var einhver mesta snilldarár í sögu félaxins.
Svo fór ég á
Átta konur og þótti það heldur miður.
Nú þyki ég frekar lélegur feministi en ef átti að láta kvennablóma Þjóðleikhússins njóta sín var þá virkilega ekki hægt að finna bitastæðara stöff en myglaðan franskan sakamálaskopleik, skrifaðan af karlmanni hvers viðhorf til kvenna verður best lýst á kurteisan hátt sem ... frönsku?
Allar hafa þær eina hlið. Þá sem skilgreinir þær út frá karlmanninum. Eiginkonan, systirin, viðhaldið, þjónustustúlkan, tengdó, dóttir...
Þær eiga sér ekkert annað líf. Þær girnast hann, hata hann, féfletta hann, myrða hann. Allt snýst um hann. Án hans eru þær ekki til.
Ofan á það bætist svo að "hann" er stjarna sýningarinnar. Kristján Ingimarsson hamast og heldur kvennaoktettinum á floti. Í hálfu kafi þó.
Og lárviðarskáldið yrkir hnittna söngtexta, þó það nú væri.
Hins vegar eru umsagnir gagnrýnendanna á Margt smátt komnar á
leiklistarvefinn. Þeir Þorvaldur og Þorsteinn voru ansi snöfurmannlegir í dómum sínum. Samt greinilega svolítið hættulegt að dæma svona: Þannig er óheppilegt að kvarta yfir skorti á kómískum rythma í
Bara innihaldið á grundvelli sýningar með jafn tíðum textaklikkum, sem flinkir leikararnir voru reyndar dugleg að breiða yfir.
Já og spaugilegt að hvetja höfund
Friðardúfunnar að halda áfram að skrifa, eins og þar fari efnilegur byrjandi en ekki fjölmenntaður og þaulreyndur höfundur.
Geri ráð fyrir að ég hafi oftar en einu sinni gert mig sekan um samskonar gönguferðir í spínatinu.
En þarfyrirutan var þetta helvíti gott hjá strákunum.
Og þá er að skreppa til Rússlands. Vona að fjarvera mín setji ekki Arsenal úr stuði, og Silvíu Nótt og Lordi takist að setja mark sitt á Júró. Já og að kosningarnar fari skikkanlega.