föstudagur, júní 27, 2008

Stjáni

Nóg komið af þjóðsöngvum í bili.

Nýtt hálfvitalag á 'speisinu. Eggert fer hamförum á básúnunni. Yrkisefnið beint frá hálfvitahjartanu.

fimmtudagur, júní 26, 2008

Þjóðsöngvar

Í gær vann liðið með flottari þjóðsönginn. Sá þýski er sérlega glæsilegt lag, enda samið af sjálfum Joseph Haydn. Hinn tyrkneski İstiklâl Marşı (Sjálfstæðismars) alveg smart líka, en dálítið eins og eitthvað úr óperettum Gilberts og Sullivan.

Svo var þetta flottur leikur og dramatískur. Hefði alveg viljað sjá tyrkina taka þetta samt.

Í kvöld held ég með báðum. Rússarnir hafa auðvitað klárt forskot á þjóðsöngvasviðinu. Þeirra er líkt og sá þýski í topp fimm, hvort sem hann er kyrjaður á hefðbundinn hátt eða rokkaður upp.

Óneitanlega bliknar La Marcha Real í samanburðinum. Svo er enginn opinber texti, sem er slappt.

Þannig að frá tónlistarlegum sjónarhóli er úrslitaleikur milli Rússa og Þjóðverja óskastaðan.

Just Don't Mention the War

miðvikudagur, júní 25, 2008

A magyarokhoz

Smá nostalgía fyrir mig og Gumma. Já og alla sem eru orðnir leiðir á bragðlausum þjóðsöngvum á EM. þetta er reyndar ekki þjóðsöngur Ungverja, en ætti auðvitað að vera það.

mánudagur, júní 23, 2008

Þengill hinn illi og forseti Perugia

Það er tiltölulega ástæðulaust að blogga mikið sjálfur ef maður kann nógu mikið í HTML-i til að búa til krækjur.

Bretar hafa löngum talið sig mikla bókaþjóð - og nú loksins eru þeir að kynnast ísfólkinu! Stórbrotið viðtal við Margit Sandemo í Guardian. Drap hún mann þegar hún var ellefu ára? Vonandi.

Bretar hafa löngum talið sig mikla knattspyrnuþjóð - og vissulega skrifa fáir skemmtilegar eða frá réttari sjónarhóli um þá íþrótt en Nick Hornby. Hann vísar á gamla grein sem hann skrifaði fyrir amríska blaðið New Yorker um Heimsmeistaramótið 2002. Vitaskuld snilld. Ef einhver nennir ekki að lesa sig í gegnum greinina, þá er rétt að birta þessa hárnákvæmu greiningu á ítalskri knattspyrnu:
The Italians have always had a strange approach to football. Their players look like pop stars, and the squad almost always includes at least two forwards whom every other country in the world would kill for; all the outward signs suggest flamboyance and a sense of stylish adventure. But traditionally they play a stupefyingly defensive game, as if too much scoring would somehow cause people to doubt their masculinity.


Já, það er óþarfi að skrifa sjálfur. Sérstaklega þar sem að það sem ég hefði sennilega freistast til að tjá mig um næst var grein í Lesbók moggans sem pirraði mig og Guðmundur Andri tekur til úrbeiningar í Fréttablaðinu í dag.

Summertime - and the living is easy...

miðvikudagur, júní 18, 2008

Rokkogról!

Hálfvitar gerðu góða ferð í Borgarfjörðinn í fyrrakvöld. Svosum ekkert rífandi mæting (60-70 manns), en fín stemming og bros í hverju munnviki utan sviðs og innnan.

Hollendingar eru að massa þetta, en því miður sluppu helv. Ítalirnir áfram líka. Vonandi taka Spænirnir þá. Koma svo Spænir!

Björgólfi Th. þykir víst ekki einboðið að taka þátt í kostnaði við Operation Save the Bear úr því hún mistóxt. Stórmannlegt. Eða kannski bara mannlegt.

Og í kvöld er heimildamynd um þungarokk í sjónvarpinu! Hefði manni þótt það fengur um og eftir fermingu? Já. Og þykir manni það kannski bara talsvert gaman í dag? Ójá!

Þessi breski rokksögusería er ágæt. Ekkert frábær, svolítið þröngsýn og pönkþátturinn var bísna slappur. En það var nú kannski af því hvað sú saga hefur oft verið sögð. Og hevímetal er önnur saga.

þriðjudagur, júní 17, 2008

Svo margt ég ekki skil

Af hverju étur hver upp eftir öðrum að ísbirnir séu "alfriðaðir"? það er nú bara alls ekki rétt. Þeir eru heldur ekki skilgreindir í útrýmingarhættu. Status þeirra er "Vulnerable" skv. Wikipedíu og samkvæmt sömu heimild mega allskyns villimenn veiða hvítabirni. Tjúkotkar í síberíu, millar í kanada og ég veit ekki hvað og hvað.

Af hverju þykir Björgvini settumumhverfisráðherra "einboðið" að gefa Björgólfi Thor leyfi til að slá sig til riddara með því að leggja til pening í björgun bjarnarins? Af hverju getum VIÐ ekki bara gert þetta - án þess að það sé í boði einhvers furstans. Aumt.

Hversvegna geta (sumir) söngvarar á samkomum eins og "Bláu augun þín" sem verið er að sýna frá á Stöð2 ekki drullast til að læra texta að lögum sem allir kunna?

Af hverju þurfa Rúvistar endilega að ljóstra upp um úrslit "hins" leiksins - þess sem er sýndur á plússnum og svo seinna á -aðal.

Halda kjafti plís.

Annars er ég góður.

Og talandi um gott - Svavar Knútur var að massa þetta í fyrrnefndum bláaugum. Kunni bæði textana og á ukulele - er hægt að biðja um meira?

mánudagur, júní 16, 2008

Logaland, þöggun og skoðanir

Hálfvitaunnendur fjölmenna að sjálfsögðu í Logaland í kvöld og hlýða á söngskemmtun Ljótu hálfvitanna. Tilefnið er hundrað ára afmæli Umf. Reykdæla. Ungmennafélag Hálfvitanna er mun yngra, en hugsjónin er hin sama.

Þeir sem ekki eiga heimangengt úr höfðustaðnum ættu auðvitað að bregða undir sig styttri fætinum og sækja útgáfutónleikana hans Hrauns. á Rúbín í Öskjuhlíð. Sú eðalhljómsveit hefur nú sent frá sér aðra "alvöru" plötu sína, Silent Treatment.

Aðrir sambýlingar Hálfvitanna, hljómsveitin Múgsefjun er líka búin að gera plötu, Skiptar skoðanir heitir hún. Þeir verða á Arnarhóli annaðkvöld.

Báðar fyrrnefndar plötur fást í hljómplötuverslunum og bókabúðum (ef guð og sérvitrir og tóndaufir innkaupastjórar lofa). ´

Hálfvitarnir eru ekki með plötu að sinni, þannig að: Allir í Logaland!

þriðjudagur, júní 10, 2008

Lemmy is god

Má vart á milli sjá hvort var ánægjulegra, að sjá mína gömlu uppáhaldsmenn Hollendinga fara á talsverðum kostum, eða hitt að sjá Ítalina heillum horfna. Þoli ekki Ítali. Væri snilld ef þeir sætu eftir í riðlinum, sérstaklega í ljósi þess að þeir búa víst í Vínarborg, svo vissir voru þeir um að riðillinn væri formsatriði (leikinn í Bern). Hlandfötur.

Hef nú samt ekki trú á þeir appelsínugulu eigi eftir að gera miklar rósir. Er á meðan er.

Datt svo inn í heimildamynd um Motörhead í norska sjónvarpinu af öllum stöðum. Þvílíkir meistarar. Gott sjónvarpskvöld semsagt.

föstudagur, júní 06, 2008

Tónlist og spark

Margt gerst síðan síðast var bloggað. Hálfvitar spiluðu t.d. fótboltaleik á Hátíð hafsteins á Húsavík. Mótherjarnir voru meistaraflokkur kvenna, en auðvitað dugði fimi stúlknanna lítt gegn ístrubelgjunum með allan sinn skriðþunga. Lokatölur 7-5 eða 8-5. Og Varríus setti eitt þeirra! Fyrsta sinn á ævinni sem ég skora mark í "alvöru" fótboltaleik.

Síðustu daga höfum við svo dundað í stúdíói og erum nánast búnir með fjögur ný lög og alveg rígmontnir af þeim. Við sögu koma m.a. Matvinnsluvélar, Sigga Beinteins, kýlapest, holdugar tær og að sjálfsögðu umsjónarkennarinn Hans.

Ekki ísbirnir samt, sem er verra, þar sem Hálfvitarnir vilja gjarnan syngja um þau málefni sem efst eru á baugi hvert sinn. Viðskiptablaðinu finnst kollegar sínir hjá Guardian vera vitleysingar að fullyrða að Íslendingar hafi stundað það að temja hvítabirni fyrr á öldum. En það er kannski ekki alveg eins langt út úr kortinu og það hljómar. Í Grágás eru t.d. ákvæði um bótaskyldu manns ef ísbjörn sem hann hefur tamið vinnur spellvirki á næsta bæ. Varla væru menn að setja svoleiðis í lög nema það gæti gerst.

Og svo byrjar EM í knattspyrnu á morgun. Því miður verður ekkert af því að keppt verði um Óformlega heimsmeistaratitilinn í leiðinni (sjá eldri færslu um efnið). Króötum tóxt ekki að vinna núverandi handhafa titilsins, Ungverja, svo þeir sitja á honum allavega til hausts þegar forkeppni hins heimsmeistaratitilsins hefst. En þá fer hann líka á flakk geri ég ráð fyrir.

Ég geri ráð fyrir að kíkja eitthvað á leiki, en ekki hefur mér tekist að koma mér upp liði til að halda með. Ætli ég haldi ekki bara með arsenalmönnum núverandi og fyrrverandi. Það kerfi hefur t.d. þann kost að ég þarf ekki að halda neitt með ítölsku hlandfötunum, grísku leiðindapúkunum eða portúgölsku vælukjóunum.