föstudagur, október 27, 2006

Leikárið

Dæmalaust hef ég lítið skrifað um leikhús hér undanfarið. Hef reyndar lítið sem ekkert séð annað en það sem mogginn hefur sent mig á. Þarf að taka mér tak ef ekki á að missast af allskyns viðburðum sem ég vil gjarnan sjá.

En það er kannski best, þó seint sé, að snara fram einhverjum skoðunum á því sem er á matseðli vetrarins. Til hvers er best að hlakka?

Kvíðablandin eftirvænting lýsir afstöðu minni til enduruppfærslu Dags Vonar. Þetta var eitt fyrsta leikrit sem ég sá "fyrir sunnan" eins og suðvesturhornið hét í þá daga. Það var mikil upplifun. En hvernig hefur það elst? Mun aftur takast að gera hið nær-melódramatíska efni þannig úr garði að það detti ekki yfir línuna og verði pínlega hjákátlegt?

Mig hefur lengi langað að sjá hinar stórmerkilegu Bakkynjur Evripídesar, sem er eina dæmið um klassískt verk á efnisskrám leikhúsanna. Vona að efasemdir mínar um það ráðslag að fá útlendinga í jafn "verbal" verkefni reynist vera fordómar og bull.

Pleasure Islands heitir dularfullt verk á verkefnaskrá Þjóðleikhússins sem vekur forvitni mína. Það gerist á Íslandi, er eftir sænskt leikskáld og samkvæmt heimasíðu hans er þetta heimsfrumsýning. Sem er einstakt, eða í það minnsta óvenjulegt, þó svo Þjóðleikhúsið sé af alkunnri hógværð ekkert að flíka því.

Og hvernig er hægt annað en að hlakka til að sjá söngleik eftir Hugleik Dagsson?

Anthony Neilson virðist vera orðinn Jim Cartwright Krúttkynslóðarinnar. Tvö verk búin, Ritskoðarinn og Penetreitor, og Borgarleikhúsið boðar tvö til viðbótar, Fagra veröld og Lík í óskilum. Það er í sjálfu sér forvitnilegt. Og Neilson er eini höfundurinn af hinum svokallaða In-Yer-Face skóla sem nær hér einhverri fótfestu. Hofgyðjan Sara Kane ósýnd enn.

Mér þykir samt verkefnaskrá LA heilt yfir flottust. Af henni eru tvö verk á Mest-Spennandi listanum.

Það er skynsamlegt af LA-mönnum að kalla The Lieutenant of Inishmore Svartan kött. Enda breytir það engu um þá dæmalausu snilld, þar sem Martin "Koddamaðurinn" McDonagh fer sínum flugbeittu fingrum um öfgasinnaða hryðjuverkamenn.

Og LA á líka áhugaverðasta nýja íslenska verkið. Þorvaldur Þorsteinsson fer ekki að klikka á "gamals aldri" er það nokkuð?

Svo hlakka ég mikið til að sjá Cymbeline. Þetta skrítna og fáséða elliglapaverk Shakespeares verður í Þjóðleikhúsinu í vor í uppfærslu einhvers nafntogaðasta frjálsa leikhóps Breta, Cheek by Jowl. Og mögulega verð ég þá líka búinn að sjá það í uppfærslu Kneehigh-hópsins, en þau fengu það verkefni að sviðsetja stykkið fyrir Royal Shakespeare Company og fengu köflótta dóma fyrir. En sem Demented Fan er mér alveg sama og stefni á leikhúsferð.

Það hefur lítið upp á sig að hlakka til sýninga frjálsra leikhópa, svo hverful eru loforð þeirra um sýningar. Þar kennir margra grasa. Hafnarfjarðarleikhúsið ætlar að sviðsetja Draumaland Andra Snæs, Ólafur Haukur er að skrifa um Janis Joplin og Elvar Logi og Pétur Eggerz ætla að gera vestfirskum skrímslum skil. Svo er Eyfi okkar að syngja í óperuversjón af hinni mögnuðu sögu H.C. Andersen, Skugganum.

Allavega - síðasti séns á Systur í kvöld, fer sjálfur á hr. Kolbert á laugardag.

mánudagur, október 23, 2006

Eru þau súr?

Ætlaði að skrifa langan hund um njósnir, en svo kom hádegisfrétt sem gerði mig pirraðan. Örugglega samsæri undan rifjum Björns Bjarnasonar.

RÚV tilkynnti ábúðarmikið að sex tonn af vínberjum væru étin endurgjaldslaus af óprúttnum viðskiptavinum Hagkaups á Akureyri. Og það lá í loftinu og viðhorfi fréttaþularins að þetta væri hin mesta ósvinna.

Nú versla ég talsvert í Hagkaupum. Reyndar ekki á Akureyri, en samt. Og í Nóatúni, þar sem sama "vandamál" er vafalaust líka til staðar.

Og ef einhver er duglegur gæti hann vafalaust líka reiknað út hvað mörgum tonnum af Icebergsalati, gulrótum, sellerístönglum og fleira grænmeti er hent af viðskiptavinum eftir að heim er komið vegna þess að það er gulnað, sölnað, rotnað og skemmt, en samt selt fullu kílóverði í þessum sömu búðum. Og í framhaldinu gætum við sett í rétt samhengi væl verslunarstjórans yfir því að fólk vilji smakka vínberin áður en þau eru keypt á því sem virtur smásagnahöfundur hér í bæ kallar okurverð.

Kannski myndi útvarpinu líka þykja þetta fréttnæmt.

föstudagur, október 20, 2006

Föstudagssmælki

Það er ekki lítið sem orðskrípið "Vinnusmiðja" fer í taugarnar á mér. Þjóðleikhúsið er að innleiða þetta, væntanlega sem þýðingu á orðinu "Workshop", sjá t.d. hér. Þetta er forljótt orð, og auk þess er til það ágæta orð "Leiksmiðja" sem lýsir mun betur því sem fram fer á svona samkomum. Þá eru líka til danssmiðjur, textasmiðjur og örugglega hægt að smíða fleiri samsetningar ef þarf. En tröll taki vinnusmiðjur!

Annars er allt ágætt. Gamall vinur skaut upp kollinum í kommentakerfinu og benti á að "jafnvægisrökin" fyrir hvalveiðum hvíla á veikum vísindagrunni. Stebbi er sprenglærður í sjó-bissness og Varríus er sökker fyrir kennivaldi og flissar nú yfirlætislega í hvert sinn sem stjórnmálamenn og aðrir misvitringar slá þessu fram.

Helgin framundan er annasöm í meira lagi, en það gerir ekkert til því það verður að öllum líkindum allt ótrúlega skemmtilegt. Uppselt á Systur í kvöld, og búið að bæta við aukasýningu að viku liðinni. Enn er því von fyrir ykkur greyjin mín sem ekki hafið mætt.

Og svo eru það æfingar, útsetningar og upptökur á næsta skammti af tónlist fyrir Stundina með súpergrúppunni Börnum síns tíma.

Kannski þarf ég á Amadeus í græna jakkanum, skýrist á morgun.

Spamvörnin á póstinum mínum hefur greinilega verið reist á misgengi eins og tíska er með stíflur þessa dagana. Enda hefur hún nú brostið svo inn flæða ótrúlegustu gylliboð um allt sem nöfnum tjáir að nefna, aðallega þó kynlífs- og verðbréfatengt.

Besta subjectlínan úr farsinu hingað til barst rétt í þessu: off-ramp kangaroo.

Hver býr svona til?

Og talandi um sköpunarkraft. "Weird Al" Yankovic er stundum fyndinn, en þetta fer vel umfram eðlilegar kröfur. Hér hefur hann tekið hið meistaralega lag og myndband Dylans, Subterranean Homesick Blues og endurgert þannig að hver einasta ljóðlína er samhverf. Og gæti allt verið úr smiðju hr. Zimmermans. Baggalútur Smaggalútur mætti segja. Njótið nördsins.Og ef einhver vill frekar visku þá er hægt að smella hér og horfa á bút af viðtali grínmeistarans Jon Stewart við sjálfan Kurt Vonnegut.

Og fyrir hina fjölmörgu aðdáendur þvottavélaauglýsinga þá er þessi möstsí.

Og já strákar, svo má líka spila Saxxon. Þetta er frjálst land. Þannig.

fimmtudagur, október 19, 2006

Adam var ekki lengi í Caracas

Úrúvæjar voru ekki seinir að endurheimta heimsmeistaratitilinn. Burstuðu Venesúela 4-0 á heimavelli og munu halda titlinum a.m.k. þangað til 15. nóvember nk. þegar þeir heimsækja Georgíumenn í Tbilisi, sem gætu þá náð honum aftur til Evrópu þaðan sem hann fór fyrir ári síðan þegar Úrúgvæjar unnu Rúmena 2-0.

Spennandi, ekki satt?

Og það er fleira spennandi. T.d. kom platan hennar Lovísu út i dag.

Og svo eru Innvortis að spila á kaffi Hljómalind í kvöld.

Varríus fer í græna jakkann og á Susönnuh í Þjóðleikhúsinu.

Stuð.

Hvalræði

Ef ég væri spurður í skoðanakönnun hvort ég væri hlynntur eða andvígur hvalveiðum í atvinnuskyni myndi ég sennilega svara hlynntur.

Það er að segja ef ég væri ekki andvígur því að svara einföldum spurningum um flókin mál í skoðanakönnunum sem síðan eru misnotaðar af allskyns hagsmuna- og stjórnmálamönnum til að rökstyðja hvaðeina sem kemur þeim vel.

Ég hef tilhneigingu til að trúa þeim sem halda því fram að stækkandi hvalastofnar raski jafnvæginu sem við berjumst við að halda á fiskistofnunum. Það skiptir ekki máli í því sambandi að ástæðan fyrir því að jafnvægið er viðkvæmt er (of)veiði okkar. Og það virðist rökrétt að hvalir hafi slæm áhrif á þennan ballans ef þeir eru friðaðir.

Ég verð líka að játa á mig pirring, sem vafalaust má túlka sem barnalega þjóðrembu, yfir mótmælum erlendra stórvelda gegn áformum um hvalveiðar. Takiði til heima hjá ykkur þið þarna pyntingameistarar og umhverfissóðar áður en þið sendið okkur einhver afþvíbara-mótmæli með afþvíbara-rökum um lítilvægt mál sem er án nokkurra efnislegra afleiðinga fyrir ykkur og ykkar fólk. Ég leyfi mér líka að trúa því að rétt viðbrögð við tilfinningalegu uppnámi hvalavina yfir því að nú eigi að drepa nokkur dýr eigi frekar að meðhöndla hjá sálfræðingi heldur en með því að friðþægja firringunni.

Athugið líka að mótmæli við hvalveiðum okkar eru t.d. ósamberanleg við andstöðuna við Kárahnjúkavirkjun. Það stendur ekki til að útrýma Langreyðarstofninum, sem væri hliðstætt við hamfarirnar á hálendinu, þar sem einstökum náttúrufyrirbærum er fórnað í eitt skipti fyrir öll.

En, eins og stjórnvöld og aðrir virkjunarsinnar hafa ekki þreyst á að tala um í því máli: við búum í raunveruleikanum. Líka þegar kemur að hvalveiðum. Andstaða alþjóðasamfélagsins er staðreynd. Skortur á markaði fyrir afurðirnar sömuleiðis. Blómlegur ferðamannaiðnaður er í hættu sem er jafn augljós og rökrétt og sú sem fiskistofnunum stafar af offjölgun sjávarspendýra.

Og ekki bendir fíflagangurinn í kringum vinnslu afurðanna til þess að þetta sé vel ígrundað. Kristján Loftsson virðist t.d. ekki hafa þá afstöðu að starf hans sé á sviði matvælaframleiðslu. Hann talar eins og aðmíráll á leiðinni í langþráða sjóorrustu sem finnst aukaatriði hvernig gengið verði frá jarðneskum leifum andstæðinganna. Hann veit það eitt að það er nauðsynlegt að skjóta þá. Af hverju? Það er ekki á hans könnu að meta það. Guð er með okkur.

Mér finnst að við eigum að fá að veiða hvali ef einhver vill borða þá, ef þeir stefna fiskistofnunum í hættu, og ef það ruggar ekki hagsmunabátnum okkar um of.

En ef ég væri spurður í skoðanakönnun í dag hvort við ættum að hefja hvalveiðar á morgun myndi ég svara nei.

þriðjudagur, október 17, 2006

Boltafréttir

Úr heimi fótboltans eru helstar þær stórfréttir að nýir heimsmeistarar voru krýndir í lok september. Það ætti að gleðja hinn skrautlega einvald Hugo Chavez, því það voru Venesúelamenn sem nældu sér í hinn óopinbera heimsmeistaratitil í fyrsta sinn með 1-0 sigri á hinu forna knattspyrnustórveldi Úrugvæ. Það er nú ekki víst samt að Adam verði lengi í 'súela, því Úrúgvæjar fá tækifæri til að hrifsa titilinn aftur á heimavellli sínum á morgun.

Arsenal heldur um þessar mundir upp á 10 ára stjórnartíð hins menntaða einvalds Arsene Wenger. Þetta er búin að vera mikil sælutíð. Í kvöld verða menn Varríusar í Moskvu og glíma við herveldið CSKA. Það er þriggja gráðu hiti þar núna, en "feels like -1" eins og hin hjálpfúsa vefsíða Weather.com upplýsir okkur um.

Þá er bara að hlaupa hraðar strákar!

mánudagur, október 16, 2006

Fánýtt flas

Já, stjórnvöld njósna um okkur í leyfisleysi, náttúruperlur sökkva í skolug fljót, hátt í milljón manns deyr í fráleitu stríði á okkar vegum.

Og hvað prirrar Varríus mest? Illa kveðnar vísur.

Nú hef ég ekkert á móti ljóðum sem ekki lúta íslenskum bragreglum. Sum þeirra eru flott, þó vissulega komist allskyns glópar upp með að kalla hluti ljóð sem eru bara vondur texti sem er raðað sérviskulega niður á síðu. Það gerir nú minnst til.

Engu að síður varð ég nokkuð rasandi þegar ég fletti Lesbók Moggans í gær. Þar er nefnilega ljóð. Og það er erfitt að sjá annað en það eigi að vera í hefðbundnum stíl og lúta þar með reglunum.

En það gerir það ekki. Það er einfaldlega vitlaust kveðin vísa.

Og nú er spurningin:

Af hverju er það verra en ef þetta væri einbert atómljóð - því það er klárlega verra?

Og af hverju finnst manni Lesbókin setja niður við að birta leirburð - því það gerir hún klárlega?

Kannski ætti ég bara að fara að taka í nefið og þusa yfir nútímanum almennt.

sunnudagur, október 15, 2006

Skyndihjálp óskast!

Ég þarf að fara á framsagnarnámskeið og það strax!

Sönnunargagnið er viðtalið við okkur Sigguláru um Hugleik í mogganum í dag. Spotti það þeir sem spottað geta. Og svo mega þeir spotta mig.

föstudagur, október 13, 2006

Helgen

Listrýnideild Varríusar lýsir ánægju sinni með þá þróun í myndlistarumfjöllun að allar slíkar fréttir skuli myndskreyttar með gamalli vinkonu hans úr menntaskóla, Nínu Magnúsdóttur. Frá fagurfræðilegum sjónarhóli er það tvímælalaust skynsamlegra en t.d. að birta myndir af myndlistinni sem fjallað er um.

Eins og sjá má verður Varríus á barnalegu nótunum um helgina. Er að tromma eitthvað í kvöld, fer á Karíus og Baktus á Akureyri og Skoppu og Skrítlu í Þjóðleikhúsinu. Missi reyndar af fyrsta opinbera giggi Stígs og Snæfríðar, en þau verða í Smáralindinni á laugardaginn kl. 15.40 eða þarumbil, síðust á mikilli ammælishátíð hins fimm ára gamla steinsteypureðurs.

Svo eru Systur á sunnudagskvöld. Tvær sýningar eftir og afsakanir fyrir að mæta ekki á þrotum.

Ef einhver hefur ekki áhuga á svoleiðis þá er ekki nema eitt að gera annað: Spila Saxxon! Mér vitanlega á dr. Stefán Óli enn Húsavíkurmet drengja.

Og svona til að róa vini mína: það er ekkert sem bendir til þess að Íslenska leyniþjónustan eða aðrir Sjálfstæðismenn lesi bloggið mitt. Heyri að vísu stundum torkennileg "klikk-hljóð" þegar ég opna bloggið, en það gæti eins stafað frá lyklaborðinu.

fimmtudagur, október 12, 2006

Traustur vinur

Samviskuspurning:

Hvað eigið þið marga vini sem þið mynduð treysta fyrir lífi ykkar og limum sem vita ekki hvað þið heitið?

þriðjudagur, október 10, 2006

Lífsmark

Er ekki hættur að blogga. Bara eitthvað sljór og tættur.

Skrifaði reyndar langan hund í dag um Stóra Trúleysismálið en veit ekki hvort ég sé nokkuð að birta hann.

Fór á eina kvikmynd á hátíðinni, Elegy of Life, sem fjallar um þau heiðurshjón Msitslav Rostropovitsj og Galínu Vishnevskaju. Þetta var ekki góð mynd, en efnið var áhugavert, og það er betra en góð mynd um óáhugavert efni, er það ekki?

Eyddi svo helginni í sveitinni með Stundarstrákunum að semja næsta skammt. Við stóðum okkur vel og það var gaman.

Fór áðan á Patrek 1,5 á Selfossi. Meira um það í Mogganum við tækifæri.

Tvö barnaleikrit á radar gagnrýnandans um næstu helgi.

Kannski er ég að sérhæfa mig án þess að taka eftir því.

Mér vona að það verði haldið fast í kröfuna um að öll kurl verði lögð á borðið um njósnastarfsemina. Ég vona að spunarokkar Sjálfstæðisflokksins nái ekki að grugga vatnið nægilega til að ekki sjáist lengur í aðalatriðin. Ég vona að næst þegar Björn B. fer að tala um fíkniefnamál og skipulagða glæpastarfsemi þegar hann er spurður um njósnir um fólk með óæskilegar skoðanir eins og í Ísland í dag um daginn þá hafi spyrillinn bein í nefi til að halda honum við efnið.

Ekki er ég samt bjartsýnn.