miðvikudagur, janúar 25, 2006
mánudagur, janúar 23, 2006
SA Marziert
Kæru lesendur. þegar þið lendið í skoðanakannanaúrtaki vill varríus frændi ráðleggja ykkur tvær leiðir:
a) ljúga - því meira villandi sem upplýsingar í skoðanakönnunum eru því fyrr missa þær trúverðugleika sinn.
Og ef spurningarnar eru svo óljósar að þið getið ekk skrökvað, eða hafið ekki brjóst í ykkur til að segja ósatt:
b) neita að svara.
Umfram allt ekki láta leiða ykkur í að gegna já eða nei við spurningum á borð við þessa:
Telur þú að hægt sé að sætta sjónarmið umhverfisverndar og virkjunar vatnsafls?Hvað í ósköpunum þýðir þetta? Hvaða sjónarmið hefur "virkjun vatnsafls"? Þýðir þetta að mögulega útiloki "sjónarmið umhverfisverndar" ekki allar vatnsaflsvirkjanir í veröldinni?
Hver myndi þá svara þessu neitandi?
Og takið eftir hvernig niðurstöðurnar eru túlkaðar. Gefum Samtökum Atvinnulífsins orðið:
"Við töldum okkur vita að það væri nokkuð breiður stuðningur við þessa stefnu sem hér hefur verið rekin, það er að segja, að nýta þessar endurnýjanlegu orkulindir að því gefnu að það sé gert í ágætri sátt við umhverfið hverju sinni, ... Það þarf að finna eitthvert jafnvægi á því hversu mikið rask við viljum að verði gert á íslenskri náttúru. Það þarf alls ekki að vera mikið í öllum tilfellum."Sumsé, þeir sem slysuðust til að viðurkenna að það væri hægt að sætta sjónarmið umhverfis og virkjana eru alltíeinu búnir að lýsa yfir stuðningi við "þessa stefnu sem hér hefur verið rekin".
Og hvað þýðir að telja að raforku- og álfyrirtæki á Íslandi "standi vel að umhverfismálum"? Þýðir það að fólk haldi að þau valdi engum umhverfisspjöllum?Eða telja aðspurðir að fyrirtækin geri heiðarlega tilraun til að bæta fyrir og jafnvel fyrirbyggja þann hluta skaðans sem þau valda sem ekki er algerlega óhjákvæmilegur? Að Landsvirkjun sé dugleg að planta trjám og það sé aldrei rusl á hinni svissnesku lóð í Straumsvík?
Meðan báðir möguleikarnir eru opnir munu kaupendur könnunarinnar túlka hana eins og þeim sýnist. Þeir hafa þegar lýst yfir ánægju sinn með "hve ímynd orku- og álfyrirtækjanna sé jákvæð í umhverfismálum."
Hvernig stafar maður aftur "nytsamur sakleysingi"?
Heimildir: Vefur Samtaka atvinnulífsins og Morgunblaðið í dag.
Rómverjar eru klikk XIV
Kennivald rúlar!
Uppselt á Sölkuvölku í gærkveldi. Horfði þess í stað á Allir litir hafsins eru kaldir sem er harla gott - allar klisjur Norður-Evrópskra krimmamínísería eltar, og það er ekkert hallærislegt þó sviðið sé Reykjavík og málið íslenska.
Leikurinn ágætur að frátöldum Ármanni Reynissyni.
Hvað næst? Fyndin íslensk Sittkom?
Mér þætti gaman að sjá það...
sunnudagur, janúar 22, 2006
Gott fólk
Hún hefur þroskast vel, leikhópurinn með fullt vald á henni og nota það til að hlaupa út undan sér endrum og sinnum, öllum til mikillar gleði. Það er munurinn á þroska og sjúski.
Og nú eru tveir leikarar að hætta í henni, og tveir nýir að taka við. Annar þeirra er fyrrum hugleikari. Frumsýning um næstu helgi. Ég verð annarsstaðar, en mun kíkja á nýja kastið við fyrsta tækifæri.
Fleira gott:
Þórunn Gréta heitir stúlka að austan, sem ólíkt öðrum brottfluttum austfirskum leikhúsrottum er ekki í Hugleik heldur í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Hún bloggar líka og er helvíti góð í því. Lítum á dæmi.
Og talandi um hagfræði: gamall uppáhaldsleikari Varríusar hefur lagt sminkið á hilluna. Fyrst fór hann og lærði fyrrnefnda vitleysisfræðigrein, en hefur nú tekið stefnuna á pólutíkina. Herrar mínir og frúr: Heeeeerrrreeeee's Dofri!
Fór á Naglann í gærkveldi - dómur væntanlegur á morgun. Kíkti síðan á Rósenberg og náði í afturendan á debúti Ripps Rapps og Garfunkels (lofar góðu) og byrjuninni á Hrauni (klikka ekki) áður en okkur hjónunum var öllum lokið og fórum heim. Sofnaði vært yfir aldeilis glataðri Evróvisjónforkeppni.
Ætla á Sölku Völku í kvöld. Krota kannski eitthvað hér um það við tækifæri.
laugardagur, janúar 21, 2006
Hjónabandið enn
Steinunn er í miklum metum hjá Varríusi, og líklega er það þessvegna sem orð hennar koma svona við mig. Og krefjast svara.
Fúlastur er ég samt út af upphafsorðum hennar;
"Sigursteinn Másson, formaður öryrkjabandalagsins*, predikaði í Fríkirkjunni..."
Fyrirgefðu Steinunn, en var hann að predika sem formaður Öryrkjabandalagsins? Hefur það starf hans eittthvað með það að gera að hann er baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra?
Er samkynhneigð örorka?
Er kannski "sniðugt" að minna fólk á að maðurinn er "geðveikur" og því mögulega ómarktækur?
Ég kann því illa þegar fólk sem ég met mikils grípur til jafnómerkilegra mælskubragða. Þessvegna greip ég til þeirra sjálfur í upphafi greinarinnar. En að efninu:
Steinunn svarar ekki, frekar en aðrir, augljósum aðfinnslum við röksemdir Þjóðkirkjunnar um málið. Hún skýrir ekki hversvegna frumvarp sem leyfir eitthvað þvingar einhvern til einhvers.
Þess í stað færir hún rök fyrir því að hjónaband sé í eðli sínu samfélag karls og konu, sérstaklega til komið til að mynda nothæfan ramma utan um "æxlunarhlutverk" svoleiðis tvenndar.
Gott og vel. En af hverju leyfist þá ófrjóum að giftast í kirkju? Af hverju fá gamalmenni víxlu? Af hverju er það ekki skýlaus krafa kirkjunnar að fólk bæði geti og ætli að eignast börn áður en yfir því er messað?
Sorrí Steinunn - dugir ekki.
Steinunn reynir síðan að styðja mál sitt með biblíutilvitnun. Það eru mistök, enda bókin sú hálli en áll þegar verja á málstaði - jafnvel þá sem standa hjarta kirkjunnar jafn nálægt og þessi.
Hún dregur sumsé fram ritningarorðin sem lesin eru yfir fólki sem vill gifstast, úr nítjánda kafla Mattheusarguðspjalls:
Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.Það er síðan merkilegt að ólíkt bókstafstrúarmönnum þá viðurkennir Steinunn það sem blasir við - að greinin þessi fjallar ekkert um hverjir mega giftast, heldur um skyldur þeirra sem það gera - að ekki megi skilja að ástæðulausu. Kannski bara alls ekki, því í næstu setningu kemur:
Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.
Fólk sem neitar að skilja þessa setningu bókstaflegum skilningi getur augljóslega ekki rökstutt eitt né neitt með tilvísun í bókstafinn.
Hjónabandið er sumsé "til varnar konum og börnum". Kvöð á kallana til að þeir standi sína plikt.
Gott og vel - og hvað með það? Breytist það við trúarlega blessun samkynja sambanda? Hvernig þá?
Og ef það er allt í lagi með að samkynhneigð pör geti gert "ástarsambönd sín opinber og fá þau lögvernduð" án kirkjulegrar blessunar, eru þá borgaralegar víxlur karls og konu sem því nemur verr til þess fallnar að vernda hagsmuni kvenna og barna?
Lög eiga að gilda jafnt fyrir alla. Þau eiga ekki að gera trúfélögum kleyft að ástunda misrétti. Trúfélög eiga að hafa rétt til að ástunda misrétti, en það á ekki að vera í skjóli laga.
Samkynhneigðir eiga að hafa rétt til að fá sömu trúarlega blessun sambanda sinna og gagnkynhneigðir hjá þeim trúfélögum sem treysta sér til þess. Löggjöfin á að kveða á um það.** Og það er ekki mál sem á að bera undir "hjón", eins og Steinunn heldur fram.
Ekki frekar en það átti að fara fram skoðanakönnun í Bandaríkjunum um árið meðal hvítra um hvort ætti að veita svörtu fólki frelsi.
Frelsi þeirra skerti ekki frelsi hinna hvítu.
Hjónaband samkynhneigðra skaðar ekki hjónaband gagnkynhneigðra - og kemur þeim þar af leiðandi ekki við.
Nema hjónaband hafi bara gildi í einhverjum "elítískum" skilningi, svona svipað og að vera meðlinum í Frímúrararreglunni. Það gengisfellur vitaskuld ef allskyns rakkarapakk fær að vera með.
En er hjónabandið svoleiðis?
*tilvitnun leiðrétt eftir ábendingu.
** hér var ég óskýr og villandi - hef umorðað setninguna eftir ábendingu þarum
Bentu á það sem að þér þykir skemmtilegast
Þulur fór samt ekki á Ampopkonsertinn í gær, en gerði þeim mun betri auglýsingar á sama tíma. Í kvöld var svo matflagað í sóffa, sofið smá og horft svo á Mystic River sem er helvíti góð, enda gæðaleikarar á öllum póstum og allir með Bacontöluna 1 nema einn.
Á morgun hefst svo nýr kapítuli í lífi Varríusar þegar hann hefur þátttöku í slagverkshóp. Þar er svo sannarlega anað út í óvissuna enda veit hann ekki einusinni hvar hittingurinn er. Sennilega rennur maður á hljóðið.
Og svo er það Naglinn í gagnrýnendagallanum annaðkvöld, Hraun! á eftir ef orkan dugir. Síðan eru áform um að sjá Klaufa og Kóngsdætur á sunnudag, enda síðasti séns að sjá The Original Cast. Spennandi breytingar framundan.
Reyndar margt spennandi framundan. Segi ekki meir...
En muna að kjósa á tónlistpúnkti-is. Og kjósa rétt.
föstudagur, janúar 20, 2006
Meistari Guðmundur...
fimmtudagur, janúar 19, 2006
Í kvöld...
Eitthvað fyrir alla í kjallaranum.
Úr bransanum
Stærstu tíðindin eru sennilega þau að einhver nafntogaðasti leikdómandi síðari ára, Súsanna Svavarsdóttir, virðist snúin aftur og farin að skrifa í Fréttablaðið. Það eru góð tíðindi, enda skeleggur og tæpitungulaus rýnir sem veit hvað henni líkar og líkar ekki. Vek sérstaka athygli á grein hennar um Mind©amp sem virðist hafa náð betur til hennar en annarra sem um hafa ritað, að Varríusi meðtöldum. Gott mál.
Annar liðsauki með meira nýjabrumsbragði er svo Helga Vala Helgadóttir sem segir Jónatan Garðarssyni kost og löst á leiksýningum í Kastljósinu. Hún debúteraði á mánudaginn (minnir mig) með umfjöllun um Carmen og Eldhús eftir máli. Formið hefur ekki skánað mikið frá því blóðrauð slátrunarsól Jóns hneig til Viðar - enginn tími til greiningar og allt verður frekar sleggjulegt, sérstaklega þegar sýningar lukkast ekki eins og virðist með Carmen. En Helga Vala komst klakklítið frá þessu og er greinilega ekkert feiminn við að tala hug sinn, þrátt fyrir arftekna innmúrun sína í leikhúsheiminn.
Vafalaust er hægt að nálgast myndskeið með dómum Helgu Völu á vef Rúv.
Silja Aðalsteins heldur áfram sínum skrifum sem birtast að ég held í Viðskiptablaðinu (þessu bleika) en dúkka allajafnan líka upp á vef Tímarits Máls og Menningar. Hér eru Eldhús eftir máli og Túskildingsóperan undir. Silja er góður rýnir sem gaman er að lesa, býr að langri leikhúsreynslu og yfirgripsmikilli menningarþekkingu. Blaðið sem hún ritstýrir er líka nauðsynlegt að lesa.
Á Kistunni birtast líka stundum dómar, eða "hriflur" eins og það er kallað þar (gott orð). Núna blasa þar við hriflur um Carmen og Glæp gegn diskóinu.
þess má líka geta að Varríus er loxins búinn að uppfæra leikdómasíðuna sína.
Svo verður gaman að sjá hvort hinn nýorðni ritstjóri Páll Baldvin heldur áfram sínum gamla starfa meðfram. Vonandi.
miðvikudagur, janúar 18, 2006
Golíat að baki Davíðs
Er "röksemdir" kannski ekki rétta orðið?
Eftir því sem best verður skilið finnst kirkjunni að ef lögum verður breytt á þann veg að trúfélög (Þjóðkirkjan og önnur) megi gefa saman fólk af sama kyni þá sé verið að þvinga þau til að gera það.
Þetta er svo augljós rökleysa að það er varla hægt að andmæla því án þess að gefa jafnframt í skyn að sá sem heldur því fram sé illilega skyni skroppinn. Kannski er það þessvegna sem fjölmiðlungar sem tala um þetta við málsvara Þjóðkirkjunnar ganga svona linkulega fram.
Eða eiga þjóðkirkjumenn kannski við að lagabreytingin myndi þvinga trúfélög (þjóðkirkjuna og önnur) til að komast að niðurstöðu um afstöðu sína til málsins?
Þetta er á hinn bóginn svo hárrétt og sjálfsagt að það er eiginlega bara banalt - auðvitað hefðu "Guðrúnarlögin" þessi áhrif. Það sem er óskiljanlegt er af hverju það er slæmt.
Lengi hefur ríkt það óviðunandi ástand að ríkið hefur skýlt sér bak við að hjónavíxlumál séu mál kirkjunnar (sem er rangt) og kirkjan bak við að lög heimili henni ekki að gefa saman samkynja pör.
Frumvarp hinnar knáu hugleikskonu sprengir þennan gagnkvæma skinhelgiskjólvegg hræsninnar í loft upp, svo báðir standa eftir berstrípaðir. Og eins og sæmir er kirkjan sýnu spéhræddari.
Hún hefur tekið þann lítilmannlega kost að skýla sér bak við að mörg trúfélög geti ekki kenninga sinna vegna gefið saman samkynhneigða.
Og hvað með það?
Til eru þeir sem halda því fram að þjóðkirkjan sjálf geti aldrei gefið samkynja fólk saman, það stríði gegn trúnni. Þá það. Kirkjan verður sjálf að finna út úr því. Ásatrúarmenn vilja fá að gefa saman samkynja fólk. Á kirkjan að meina þeim það?
Að sjá vora voldugu Þjóðkirkju skýla sér bak við smæstu trúfélög landsins í röklegri nekt sinni er ekki sérlega fögur sjón.
þriðjudagur, janúar 17, 2006
Your lips move, but I can't hear what your're saying
Lengi á eftir bjó með mér sú tilfinning að leikhúsfólk væri óvenju upplýst og gáfað fólk sem hefði skarpari sýn á samfélagið en hinir, vissi hluti sem aðrir vissu ekki. Er ekki frá því að ég hafi snert af þeirri tilfinningu enn, þrátt fyrir öll gagndæmin.
En ég man að mér fannst þetta jafnframt dálítið hallærislegt.
Mér fannst Mind©amp ekkert hallærisleg, nema að svo miklu leyti að vera nokkurnvegin samhljóða hinni bernsku skandinavísku revíu síðan á síðhippatímanumn, en bera jafnframt með sér þá tilfinningu að sköpuðum hennar þætti hér svo sannarlega brotið blað.
Erindi sýningarinnar er svo sannarlega ekki stuðandi. Ekki eiga þau von á mörgum gestum sem mun finnast þau vera boðberar nýrra tíðinda (enda eru þau það ekki), og varla einusinni fólki sem er ósammála þeim um alveldi markaðarins. Það er eiginlega innbyggð í allt ádeiluleikhús sú mótsögn að þeir sem það á brýnast erindi við láta ekki sjá sig (af hverju ættu þeir að gera það?). Pólitískt leikhús "predikar yfir kórnum" svo ensku máltæki sé snúið.
Þetta á alveg sérstaklega við um ádeiluleikhús sem ætlar sér jafnframt að vera listrænt framsækið. Sérstaklega þegar það er jafn afdráttarlaust and-leikhús og Mind©amp. Til að hafa eitthvað þangað að sækja þarftu að hafa áhuga á framsækni og nýjungum í leikhúsi sjálfra þeirra vegna, hafa áhuga á forminu, vera orðinn leiður á því og vantrúaður á mátt þess og helst að auki með menningarþekkingu til að koma auga á textavísanirnar.
Yfirbragðið er fráhrindandi, kalt, sjálfsupptekið, innhverft. Undir kraumar þörfin til að hreyfa við samfélaginu - stuða, breyta, snerta.
Þetta er elítískt leikhús með alþýðlegt erindi.
Sýningar af þessu tagi setja mann í þær stellingar að viðbrögð manns séu ómark ef þau mótast af "venjulegum" væntingum til leikhúss. Maður hálfskammast sín fyrir að sakna (afsakið orðbragðið) persónusköpunar, framvindu, óvæntra uppbrota, miðlunar, nærveru. Manni finnst hálfkjánalegt að spyrja af hverju megninu af innihaldi sýningarinnar var komið fyrir utan sviðsins og varpað inn í rýmið með myndavélum.
Það er vond tilfinning að finnast maður of þröngsýnn til að njóta sýninga. Og það kemur alltaf sá punktur þegar maður hættir að huxa "djöfull er ég vitlaus" og fer að tauta í hljóði: "djöfull eru þið vitlaus".
Herrar mínir og frúr - nýtt gagnrýnihugtak: Artí-Fartí-Þröskuldurinn - A.F.Þ!
Yfir A.F.Þ þarf maður að stíga til að geta farið að tala um sýninguna eins og maður upplifði hana en ekki eins og mann grunar að hún hafi verið meint en nær ekki tökum á. Það er á endanum henni að kenna en ekki þér.
So here goes:
Það háir svolítið áhrifum sýningarinnar hvað maður er fljótur að meðtaka strúktúrinn og veit eftir það alltaf hvað gerist næst:
Leikararnir í salnum að tala í míkrófóna - Einn fer út að flytja eintal í kameru meðan hinir skrifa orð á pappakassa - allir fara út að reykja og ræða málin með texta úr Beðið eftir Godot - Allir fara inn á kaffistofu að predika um markaðinn og nútímann með textabrotum frá Hegel, Nietzche og öðrum spekingum - allir koma inn í sal.
Endurtekið fjórum sinnum að viðbættum forleik og eftirleik.
Ekki veit ég hversvegna þau neita sér um áhrifamátt hins óvænta, uppbrotsins, undantekningarinnar. Kannski eitthvað djúpt, kannski bara fúsk.
Það var gaman að Godot-köflunum, skemmtilegt að sjá hvernig replikkur Vladimirs og Estragons splittuðust upp milli fjögurra leikara og egókitlandi að þekkja textann í þessum framandlega búningi.
Trúðanærvera leikaranna í upphafi og endi var krúttleg - gamalt trikk sem virkar, þó það sé kannski ekki virkjað til mikils hér.
Predikunarkaflarnir auðvitað leiðinlegir og svosum ekki til mikils sem slíkir - flott mynd reyndar af markaðnum sem skautasvelli.
Eintölin ágæt, ekkert sérlega spennandi enda persónusköpun í sýningunni (vísvitandi?) flöt.
Míkrafónkaflarnir minntu á það sem ég hef heyrt um verk Yoko Ono - svona fyrirmæli til að kveikja hugmyndir hjá þér. Ágætis hugmynd, en af hverju svona staglkennt og einhæft?
Upphaf og endir spennandi en langdregið - endalokin dálítið óvænt og sniðug - en veit ekki hvort sú vísun styrkir eða kallast á spennandi hátt á við sýninguna í heild. (Vill ekki ljóstra upp um hvað er þar á ferðinni, en titill greinarinnar er hint).
Og þrátt fyrir allt er Mind©amp ekki leiðinleg. Ég hljóma kannski dálítið fúll, en ég var ekkert sérlega fúll á leiðinni úr Hafnarfirðinum. Bara huxi. Sem var sennilega ætlunin, en ég er fullfær um að huxa um efni sýningarinnar hjálparlaust. Geri það oft. Ég þarf meira.
Kannski eftirminnilegast: Beint fyrir aftan mig sat kona sem hló uppstyttulaust allan tímann en var samt ekki Sigga Birna.
mánudagur, janúar 16, 2006
Dæmisaga
Að sjálfsögðu skrifuðu öll dönsku blöðin ritdóma um bókina. Hvernig dóma hún fékk skal ósagt látið, enda skiptir það ekki máli (og í dæmisögum er öllu sleppt sem ekki skiptir máli). Það sem skiptir máli er að Extra Bladet lét sér ekki nægja að skrifa ritdóm heldur sló upp á forsíðu með gulupressustríðsletri:
Jörgen Leth stundar kynlíf með börnum!
Ritdómarar blaðsins virtust semsagt vera þeir einu sem höfðu komið auga á að í bókinni eru smásmyglislegar lýsingar á kynmökum höfundar með unglingsstelpum á eyjunni, þar á meðal dóttur ráðskonu sinnar að systkinum hennar ásjáandi. Í engum skrifum hinna blaðanna var á þetta minnst, eða allavega að því fundið. Öll blöðin fjölluðu sumsé um bókina, en aðeins sorpritið kom auga á kjarna málsins, eða hafði geð í sér til að skrifa um það.
Ég geri ráð fyrir að Jörgen Leth hafi mislíkað uppsláttur Extrablaðsins. Vafalaust (vonandi) hefur honum verið úthýst úr samfélagi betri borgara. Ég væri ekki hissa þó einhverjir saklausir honum nákomnir hafi fengið áfall, orðið fyrir aðkasti. Þó samfélagið sé stærra í danmörku en hér þá búa allir líka í smærra samhengi, eiga nágranna, vinnufélaga, börn þeirra ganga í skóla.
Hefði verið eðlilegt að láta þetta kyrrt liggja af tillitssemi við þetta fólk?
Auðvitað ekki!
Það er þessvegna sem svona blöð eru nauðsynleg. Þau búa ekki til skítinn sem öllum finnst svo hressandi að tala um að einkenni þau - þau þefa hann uppi og tilkynna um hann. Og þó okkur hinum liði kannski betur ef við vissum ekki af honum þá er návist skítsins jafn óholl þó maður viti ekki um hann - kannski meira að segja enn óheilnæmari. það er heldur ekkert nýtt að þeir sem moka skítnum séu fyrirlitnir, á Indlandi heita þeir Paríar - hinir ósnertanlegu.
þetta er hugsjónin - hugmyndin að baki ágengra blaða eins og DV. Hún er góð og gagnleg - nauðsynleg jafnvel. Framkvæmdin hefur síðan skolast allhressilega til hjá þeim á stundum. Það þarf að taka á því.
Gagnrýnin á blaðið greinist nokkuð snyrtilega í tvennt. Annarsvegar að það sé óverjandi að birta myndir og nöfn fólks sem liggur undir grun um eitthvað misjafnt. Hinsvegar að blaðið noti óvönduð meðul í samskipti við fólk. Fyrra atriðið lýtur að stefnu, hitt að vinnubrögðum. Það síðara er eitthvað sem á og þarf að laga, og kallar í sjálfu sér ekki á debatt. Hið fyrra snýst um grundvallaratriði fréttamennsku og á að ræða - æsingarlaust.
Þeir sem telja sig órétti beitta af blaðinu þurfa að láta í sér heyra. Á sama hátt og blað af svona tagi getur mögulega haft fælingaráhrif á illvirkja þá þurfa blaðamenn að vita að fari þeir offari eða út af sporinu þá mun það fréttast, og háðung þeirra verða mikil. Þess vegna var fjaðrafokið núna svo óheppileg leið til að siða DV, því fyrir utan ósmekklega forsíðu þá virðast vinnubrögð þeirra við umrædda frétt ekki vera gott dæmi um það versta sem þeir hafa af sér gert.
Eftir því sem leið á síðustu viku varð umræðan gáfulegri, svona eftir því sem mönnum þvarr reiðin og höfðu tíma til að hugsa sig um. Nokkur dæmi:
Eftir að hafa fengið yfir sig holskeflu af skömmum fyrir að stinga upp á því að fólk andaði rólega skrifaði Mörður Árnason þennan ágæta pistil - og fékk líka skammir fyrir hann.
Davíð Þór Jónsson þekkir umdeilda blaðaútgáfu frá öllum hliðum hennar. Fyrst skrifaði hann þetta og svo þetta.
Múrinn kastar fýlubombu Hjálmars Árnasonar til föðurhúsanna.
Gamall félagi hans, Jakob Bjarnar, er blaðamaður á DV. Hér lýsir hann útsýninu frá sínum bæjardyrum. Reyndar eru fleiri spjallþræðir þarna um sama mál og margt athyglisvert.
Guðmundur Andri skrifar ábúðarmikla vandlætingu eins og honum einum er lagið.
Fyrir áhugafólk um póstmódernisma þá er greining Guðna Elíssonar í lesbók Moggans um síðustu helgi nokkuð glúrin.
Og svo náttúrulega Egill Helgason. Egill er bókmenntalega sinnaður og vísar í Villiönd Ibsens sem dæmi um hörmulegar afleiðingar þess að setja sannleikann og tjáningu hans ofar öllu. Ekkert nema gott um það að segja, en það er samt bara önnur hliðin.
Næsta leikrit á undan er nefnilega Þjóðníðingur og fjallar um það sem gerist þegar einhver ræðst í það að segja óvinsælan en nauðsynlegan sannleika sem kemur illa við fjölda fólks.
Ibsen skipti ekki um skoðun á milli verkanna. Bæði segja satt. Jafnvægið þarna á milli er eilífðarverkefni. Og það jafnvægi finnst ekki í hávaða. Ekki meðan tækifærissinnaðir stjórnmálamenn kalla fólk morðingja, ríkisbubbar reyna að troða rússagulli upp í munninn á fólki svo það þegi og hrokafullir og óbilgjarnir ritstjórar nenna ekki að eiga skynsamlegan orðastað við lesendur sína.
föstudagur, janúar 13, 2006
Það lygnir
Vonandi líður öllum betur eftir þá geðhreinsun.
Og vonandi verður setningunum: "Aðgát skal höfð í nærveru sálar", "Saklaus uns sekt er sönnuð" og málleysan "taka sitt eigið líf" pakkað niður með jólaskrautinu eftir ofnotkun síðustu sólarhringa.
Og vonandi verður nú hægt að fara að taka til. Æskileg útkoma frá mínum bæjardyrum:
Að DV haldi áfram að koma út og haldi áfram að segja frá hlutum sem öðrum finnast ekki í frásögur færandi, en reyni að sýna örlítið meiri stillingu, talsvert minni illkvittni og umtalsvert minni hroka og óbilgirni þegar þeim verður á í stóru og smáu.
Mikael og Jónas féllu (fyrirsjáanlega) á þessu síðasta prófi og það er trúlega þess vegna sem þeir þurftu að axla sín skinn.
Gamli góði Hubrisinn lætur ekki að sér hæða.
Og leiklistargagnrýnandinn er tekinn við.
Hmmm... Ætli sé ekki farið að hitna undir Styrmi?
þriðjudagur, janúar 10, 2006
Trúarbragðafræðsla
Þetta rifjaðist upp fyrir mér við lestur þessarar ágætu greinar um sjónvarpsþætti sem helsti verndardýrlingur hinna trúlausu, Richard Dawkins, er með á BBC nú um stundir.
mánudagur, janúar 09, 2006
Sem betur fer...
(þetta á vitaskuld ekki við þegar maður er ósammála honum, þá er hann bæði vitlaus og illa skrifandi)
Fokk
þar er ungur frjálsmarkaðstalibani að verja ofurlaun FL-grúppíanna.
Hans helstu rök: Það eru fimmþúsund hluthafar í FL-Group og "það er ekki hægt að fífla fimm þúsund hluthafa".
Ég held að hann hafi ekki meint þetta þannig.
Mórallinn: Stundum ættu menn að leggja hina heilögu hagfræðiritningu til hliðar og lesa smá íslensku.
föstudagur, janúar 06, 2006
Rómverjar eru klikk XII-XIII
Og talandi um guðsútvalda þjóð, hún er stundum pínkulítið klikk sjálf eins og hinir rómversku vinir hennar.
Lífið er annarsstaðar
Og svo er hér einn nýr: Jóhann Kristinn Gunnarsson er húsvískur efnispiltur, orðsnjall og fyndinn. Hann er líka góður leikari eins og hann á kyn til, en Jói, faðir hans og yngribróðir fóru allir á kostum í Uppspuna frá rótum um árið. þá er móðursystir hans, hún Gunna Stína, ein af heldri leikkonum Leikfélags Húsavíkur, auk þess sem hún var kennari Varríusar í neðriparti barnaskólans. Eitt trámatískasta augnablik í leikhúsi sem ég man eftir er þegar ljósin komu upp í öðrum þætti Það þýtur í Sassafrasstrjánum og mín ástsæla kennskukona sat þungt haldin með ör í brjóstinu!
Verkið er bæðevei afar skemmtileg farsaparódía á villta vestrið og vestra-rómantík og verðskuldar að þeir sem eru að leita að fyndnum leikritum að setja upp kíki á það.
Þeir sem vilja frekar að aðrir skemmti þeim ættu að kíkja í Þjóðleikhúskjallarann á miðvikudaginn, en þá verður hin illræmda vampýruópera Bíbí og blakan vakin upp og flutt í eitt skipti. Byrjar kl. 21 - 1.000 kall inn. Mætið eða verið ferkantaðir ella!
Koluppselt á aukasýningu Jólaævintýrinu. Gaman að því.