mánudagur, janúar 16, 2006

Dæmisaga

Fyrir nokkrum mánuðum kom út bók í Danmörku, sem beðið hafði verið með mikilli eftirvæntingu. Þar var um að ræða endurminningar Jörgens nokkurs Leth, sem ku vera mikill menningarviti þar í landi, maður með ómælda persónutöfra elskaður og dáður meðal hárra sem lágra. Leth þessi er búsettur á Haiti og er heiðurskonsúll dana þar í landi.

Að sjálfsögðu skrifuðu öll dönsku blöðin ritdóma um bókina. Hvernig dóma hún fékk skal ósagt látið, enda skiptir það ekki máli (og í dæmisögum er öllu sleppt sem ekki skiptir máli). Það sem skiptir máli er að Extra Bladet lét sér ekki nægja að skrifa ritdóm heldur sló upp á forsíðu með gulupressustríðsletri:

Jörgen Leth stundar kynlíf með börnum!

Ritdómarar blaðsins virtust semsagt vera þeir einu sem höfðu komið auga á að í bókinni eru smásmyglislegar lýsingar á kynmökum höfundar með unglingsstelpum á eyjunni, þar á meðal dóttur ráðskonu sinnar að systkinum hennar ásjáandi. Í engum skrifum hinna blaðanna var á þetta minnst, eða allavega að því fundið. Öll blöðin fjölluðu sumsé um bókina, en aðeins sorpritið kom auga á kjarna málsins, eða hafði geð í sér til að skrifa um það.

Ég geri ráð fyrir að Jörgen Leth hafi mislíkað uppsláttur Extrablaðsins. Vafalaust (vonandi) hefur honum verið úthýst úr samfélagi betri borgara. Ég væri ekki hissa þó einhverjir saklausir honum nákomnir hafi fengið áfall, orðið fyrir aðkasti. Þó samfélagið sé stærra í danmörku en hér þá búa allir líka í smærra samhengi, eiga nágranna, vinnufélaga, börn þeirra ganga í skóla.

Hefði verið eðlilegt að láta þetta kyrrt liggja af tillitssemi við þetta fólk?

Auðvitað ekki!

Það er þessvegna sem svona blöð eru nauðsynleg. Þau búa ekki til skítinn sem öllum finnst svo hressandi að tala um að einkenni þau - þau þefa hann uppi og tilkynna um hann. Og þó okkur hinum liði kannski betur ef við vissum ekki af honum þá er návist skítsins jafn óholl þó maður viti ekki um hann - kannski meira að segja enn óheilnæmari. það er heldur ekkert nýtt að þeir sem moka skítnum séu fyrirlitnir, á Indlandi heita þeir Paríar - hinir ósnertanlegu.

þetta er hugsjónin - hugmyndin að baki ágengra blaða eins og DV. Hún er góð og gagnleg - nauðsynleg jafnvel. Framkvæmdin hefur síðan skolast allhressilega til hjá þeim á stundum. Það þarf að taka á því.

Gagnrýnin á blaðið greinist nokkuð snyrtilega í tvennt. Annarsvegar að það sé óverjandi að birta myndir og nöfn fólks sem liggur undir grun um eitthvað misjafnt. Hinsvegar að blaðið noti óvönduð meðul í samskipti við fólk. Fyrra atriðið lýtur að stefnu, hitt að vinnubrögðum. Það síðara er eitthvað sem á og þarf að laga, og kallar í sjálfu sér ekki á debatt. Hið fyrra snýst um grundvallaratriði fréttamennsku og á að ræða - æsingarlaust.

Þeir sem telja sig órétti beitta af blaðinu þurfa að láta í sér heyra. Á sama hátt og blað af svona tagi getur mögulega haft fælingaráhrif á illvirkja þá þurfa blaðamenn að vita að fari þeir offari eða út af sporinu þá mun það fréttast, og háðung þeirra verða mikil. Þess vegna var fjaðrafokið núna svo óheppileg leið til að siða DV, því fyrir utan ósmekklega forsíðu þá virðast vinnubrögð þeirra við umrædda frétt ekki vera gott dæmi um það versta sem þeir hafa af sér gert.

Eftir því sem leið á síðustu viku varð umræðan gáfulegri, svona eftir því sem mönnum þvarr reiðin og höfðu tíma til að hugsa sig um. Nokkur dæmi:

Eftir að hafa fengið yfir sig holskeflu af skömmum fyrir að stinga upp á því að fólk andaði rólega skrifaði Mörður Árnason þennan ágæta pistil - og fékk líka skammir fyrir hann.

Davíð Þór Jónsson þekkir umdeilda blaðaútgáfu frá öllum hliðum hennar. Fyrst skrifaði hann þetta og svo þetta.

Múrinn kastar fýlubombu Hjálmars Árnasonar til föðurhúsanna.

Gamall félagi hans, Jakob Bjarnar, er blaðamaður á DV. Hér lýsir hann útsýninu frá sínum bæjardyrum. Reyndar eru fleiri spjallþræðir þarna um sama mál og margt athyglisvert.

Guðmundur Andri skrifar ábúðarmikla vandlætingu eins og honum einum er lagið.

Fyrir áhugafólk um póstmódernisma þá er greining Guðna Elíssonar í lesbók Moggans um síðustu helgi nokkuð glúrin.

Og svo náttúrulega Egill Helgason. Egill er bókmenntalega sinnaður og vísar í Villiönd Ibsens sem dæmi um hörmulegar afleiðingar þess að setja sannleikann og tjáningu hans ofar öllu. Ekkert nema gott um það að segja, en það er samt bara önnur hliðin.

Næsta leikrit á undan er nefnilega Þjóðníðingur og fjallar um það sem gerist þegar einhver ræðst í það að segja óvinsælan en nauðsynlegan sannleika sem kemur illa við fjölda fólks.

Ibsen skipti ekki um skoðun á milli verkanna. Bæði segja satt. Jafnvægið þarna á milli er eilífðarverkefni. Og það jafnvægi finnst ekki í hávaða. Ekki meðan tækifærissinnaðir stjórnmálamenn kalla fólk morðingja, ríkisbubbar reyna að troða rússagulli upp í munninn á fólki svo það þegi og hrokafullir og óbilgjarnir ritstjórar nenna ekki að eiga skynsamlegan orðastað við lesendur sína.

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Það er ólán að það varð ekki allt almennilega vitlaust út af DV fyrr – það gáfulegasta í rökræðunni var nefnilega í fullu gildi áður en atburðir síðustu viku áttu sér stað. Nú geta margir ekki tekið þátt í henni öðru vísi en að mynda sér líka skoðun á því hvort blaðið hafi drepið mann eða ekki. Sú skoðun – á hvorn veginn sem hún dæmir – er hins vegar algjörlega gagnslaus og óþörf fyrir rökræðuna. Hún þvælist bara fyrir og mun þess utan aldrei fást staðfest. Þeir sem gerðu þetta að aðalatriði lentu strax á villigötum. Það á t.d. við um Hjálmar Árnason og Mörð Árnason – þó með gjörólíkum hætti hafi verið og Hjálmar lenti raunar alveg út í móa.
-
Fyrir mig voru dæmi sem ég þekkti sjálfur af aðferðum blaðsins og síðast en ekki síst málsvörn fyrrum ritstjóra DV í Kastljósinu nægileg staðfesting á því að ég gerði rétt í að skrifa undir áskorunina á deiglan.com. Mér leiðist dálítið að yfirveguð ákvörðun mín sé nú víða kölluð múgæsing (án þess að ég haldi því fram að Varríus segi það). Mér fannst stefna blaðsins í mynd- og nafnabirtingum einfaldlega óásættanleg.
-
Mér hefur verið sagt að fólk í handanheimum geti drukkið í gegnum mann og jafnvel skrifað. Er víst að Ibsen sé ekki bara enn að? Blogger vill fyrir mína hönd afsaka þessa langloku og segir svo óaðfinnanlega; dwbfwxgg

12:28 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

Allir virðast hafa dæmi um forkastanleg vinnubrögð, en hávaðinn upphófst út af hörmulegum (meintum) afleiðingum án þess að nokkuð bendi til að í því tilfelli hafi vinnubrögðin verið sérlega ámælisverð, amk á mælikvarða þeirra kumpána.

En það eru dæmin um vinnubrögðin sem þarf að gera opinber - og um það gilda nákvæmlega sömu röksemdir og DV-arar færa fyrir sinni stefnu: fælingarmáttur kastljóssins á ljósfælna iðju. Og andmælin um að ekki megi koma illa við saklausa og þá sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér eiga (vonandi) ekki við um fíleflda og þykkhúðaða skríbenta DVss.

Það þarf sumsé að ala þá upp, ekki slá þá af, svo þeir láti af því sem Blogger kallar zbbnsno.

9:21 f.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Góður pistill. Eins og fleiri kann ég sögur af vinnubrögðum og kannski óþarfi að tíunda þær, ekkert svo frábrugðnar öðrum. Af öllum þessum greinum sem þú talar um held ég að Guðni Elís hafi náð að hitta naglann á höfuðið. DV hefur aldrei náð að endurspegla neinn raunveruleika, þetta er að mörgu leyti uppskáldaður heimur, þar sem einungis er horft á fáar hliðar og þær gerðar eins öfgakenndar og hægt er.

Ég er sammála Þórgný með undirskriftalistann, ég hefði skrifað undir í síðustu viku eða fyrir mánuði síðan, alveg eins og núna. Og að tala um undirskriftalistann og múgæsingu í sömu setningu er frekar hallærislegt (nú er ég að hugsa um Mörð, ekki Varríus), skilaboðin sem fylgdu undirskriftalistanum voru mjög hófsöm, þar var DV beðið um að sýna meiri tillitssemi og fara að siðareglum. Múgæsingin birtist annars staðar.

11:43 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim