fimmtudagur, október 29, 2009

Kúlufrumvarpið aftur

Þetta er auðvitað með leiðinlegri umræðuefnum, en ég ætla aðeins að halda áfram.

Í frumvarpinu stendur:
"Hugtakið lánssamningur í lögunum skal skilgreint rúmt þannig að það taki allra samninga sem leiða af sér fjárskuldbindingu, þ.m.t. skuldbindingar vegna útgáfu verðbréfa og afleiðusamninga."Leturbreyting Varríusar

Þetta er erfitt að skilja öðruvísi en að þeir sem tóku lán til að að kaupa verðbréf (í almennu tali kölluð kúlulán) og þaðanaf vafasamari pappíra (eru afleiðusamningar ekki t.d. tæki til að taka stöðu gegn gjaldmiðlum?) eigi sama rétt á hjálp og þeir sem keyptu sér þak yfir höfuð á hefðbundinn íslenskan hátt, og tóku mark á ráðleggingum bankanna um greiðslugetu og framtíðarhorfur.

Karl Th. Birgisson virðist vera á því að þetta sé svona, og bara algerlega sanngjarnt:
"En skiptir máli hvernig til skuldanna var stofnað? Hvort það var til að kaupa íbúð, hús, jörð, hlutabréf, Porsche eða afleiðusamninga?
Nei."


Jú, myndi ég nú reyndar segja, og þeir sem keyptu afleiðusamninga og hlutabréf ættu að fá aðra og harðari meðferð en þeir sem keyptu hús.

Það er eðlilegt að kaupa hús fyrir lánsfé. Þjóðfélagið er beinlínis upp byggt þannig að langflestir geri slíkt. Hversvegna það er lagt að jöfnu við að fá lánaða peninga til að kaupa hlutabréf og afleiður er ... ja, firring.
Allavega er lágmark að þeir sem telja það augljóst að slíkt sé sambærilegt færi siðferðis- og réttlætisrök fyrir máli sínu.

En því miður eru Karl Th. og Ólína Þorvarðardóttir, sem eru þau einu sem ég hef séð mæla gjörningnum bót á netinu, of upptekin til að hreyta yfirlætisfullum ónotum í Þór Saari. Að sumu leyti að réttu. En kjarni málsins víkur.

Sem er þessi: Er réttlátt að þeir sem fengu vildarkjaralán til að kaupa hlutabréf og/eða afleiðusamninga sitji við sama borð og þeir sem keyptu sér hús og bíla?
Og svo er reyndar annað. Mér sýnist að þeir sem höfðu vit á að setja sína kúlugjörninga í einkahlutafélög sleppi algerlega.

Karl segir:
"Fyrirtæki, sem stunduðu bara brask og hafa enga aðra starfsemi, fara lóðbeint á hausinn."

Og Ólína segir:
"Þá eru lögin alveg skýr um það að eignarhaldsfélög sem stofnuð voru um kaup á hlutabréfum koma ekki til greina í sértæka skuldaðlögun. Þau eru algjörlega útilokuð frá þessu úrræði þar sem þau teljast ekki lífvænleg fyrirtæki í skilningi laganna heldur félög með fallnar forsendur."


Sem hljómar svosem ágætlega, en þýðir væntanlega bara að þau verða gjaldþrota, eignir þeirra úr sögunni, en þeir sem nutu arðsins úr þeim hlægja alla leiðina í bankann, laus allra mála.

Að kalla svona eignarhaldsfélög "fyrirtæki" er vægast sagt villandi.

Og ef þetta er ekki svona þá hefur algerlega mistekist að koma þeim lykilupplýsingum á framfæri.

Því ég hélt að það hefði átt að reyna að gera eigendur slíkra félaga þannig ábyrga fyrir þeim að þeir yrðu EKKI lausir allra mála. Að þeir sem létu einkahlutafélögin sín taka kúlulán til hlutabréfakaupa, innleystu arð og seldu jafnvel bréfin með hagnaði sem rann til eigendenna yrðu látnir greiða til baka.

Það hefði ég kallað réttlæti. En málsvarar Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokksins, virðast helst vilja að hætt verði að spyrja spurninga um þessa ráðstöfun. Ólína hefur lokað fyrir athugasemdir, Herðubreið býður ekki upp á svoleiðis.

Og þögn Vinstri Grænna er undarleg. Sem og áhugaleysi fjölmiðla.

mánudagur, október 26, 2009

Réttlæti - lúxus

Ég vona að það sé misskilningur, en ég hef óþægilega á tilfinningunni að eini maðurinn sem segi almennilega satt um lánalagfæringalögin nýju sé Pétur Blöndal. Þór Saari sennilega að mála skrattann of sterkum litum. Árni félagsmála reynir að komast hjá því að skýra málið í eitt skipti fyrir öll (og er óðum að sólunda því pólitíska kapitali sem hann vann sér inn með skömmum sínum á ASÍ-þinginu). En Pétur sér ekki betur en það sé hið besta mál að lánin auðveldi Kúlulánahöfum lífið eins og öðrum.

Þeir þurfa reyndar að tapa glæsihúsum sínum og hluta bílaflotans (nema þeim takist að koma einhverju undan með bellibrögðum). En nær þeim á ekki að ganga. Og ótækt ef þeir þurfa að komast í skuld við skattmann út af afskriftunum.

Svo sagði Pétur í útvarpinu áðan eitthvað á þá leið að svo gætu menn haft ólíkar skoðanir á því hvort hér væri réttlætinu fullnægt.

Já, og hann teldi að engir væru betur til þess fallnir en bankarnir að líta eftir misnotkun á kerfinu.

Síðari staðhæfingin er náttúrulega fyrst og fremst fyndin í ljósi þess að

a: stór hluti þeirra sem munu þurfa þessa fyrirgreiðslu eru starfsmenn bankanna

og

b: er eitthvað sérstakt sem bendir til þess akkúrat þessi árin að bankarnir séu trausts verðir?

Fyrri staðhæfingin er hinsvegar alvarlegra mál. Í henni kristallast sú kunnuglega afstaða stjórnmálamanna af hægri- og hentistefnuvængnum að réttlæti sé ekki markvert leiðarljós eða viðfangsefni valdsmanna. Meira svona málefni til að ræða sín á milli á málfundum, í heitapottinum, eða í versta falli meðan maður grillar á kvöldin. Allavega alls ekki eitthvað sem á að leggja til grundvallar pólitískum ákvörðunum. Þar ráða hagsmunir, krónur og aurar öllu.

Því miður sýnist mér að um þetta hafi allur þingheimur verið sammála Pétri, að undanteknum Þór Saari.

Pétur bara sá eini sem er nógu sanntrúaður til að segja blákalt frá.

En mér finnst:

Það að vera núna í vondum fjárhagskröggum vegna húsnæðis- og bílalána sem virtust viðráðanleg við ástand sem allir kepptust við að segja okkur að væri eðlilegt, en hefur núna umhverfst er EÐLISÓLÍKT því að hafa þegið risastór lán án tryggra veða til að græða á ástandinu. Ástandi sem n.b. þeir sem fengu og veittu viðkomandi lán vissu (eða áttu að vita) manna best að væri óeðlilegt.

Þetta fólk eru þjófar. Þeir sem skuldsettu sig í botn af flottræfilshætti eru aular. Þeir sem skuldsettu sig skynsamlega en eru engu að síður í vanda eru fórnarlömb. Á þessu er munur og á þessu á að taka á ólíkan hátt. Það er réttlátt og réttlætið er eitt af grundvallargæðum samfélags og þarf að stýra ákvörðunum. Ekki skeggræðast til skemmtunar yfir grillinu.

laugardagur, október 24, 2009

Sjálfsagðir hlutir

Gáfaður vitleysingur á Húsavík á einu sinni að hafa sagt: "Maður þarf ekki að kaupa plötu með Deep Purple, maður veit að hún er góð". Að sama skapi finnst mér ég ekkert þurfa að fara á Brennuvargana í Þjóðleikhúsinu. Las leikritið fyrir mörgum árum og finnst það snjallt. Það sem það segir um hugarfarið sem leiddi okkur að hruninu er algerlega augljóst og rúmast í stuttri málsgrein um efni verksins.

Dómar hafa birst. Hér ritar María Kristjánsdóttir, sem er flutt úr móunum út í eyju. Og Jón Viðar segir þetta í DV.

Þá virðist nokkrum bloggurum hafa verið boðið á aðra sýningu í von um umfjöllun, og þeir hafðir saman á 16. bekk, ef marka má frásögn þeirra Soffíu og Páls. Þangað heyrðu þau bæði í hvíslaranum, og óneitanlega er það frekar skammarlegt í sjálfu Þjóðleikhúsinu, þó svo hljómburðurinn sé greinilega til fyrirmyndar.

Mig grunar að það sé rétt hjá Páli að þó skírskotun verksins sé augljós (og kannski einmitt þessvegna) þá sé tími þess sem áhugaverðs innleggs í umræðuna liðinn. Efast um að ég drulli mér í leikhús að þessu sinni.

föstudagur, október 23, 2009

Nallinn

Það pirrar hægrimenn agalega að verkalýðshreyfingin og vinstriflokkar syngja stundum Nallann. Og vissulega sungu hann stundum vondir menn. Í Sovét voru bænir textans settar úr framtíð í nútíð, enda töldu böðlarnir sig vera búnir að ná þeim fagra árangri sem stefnt er að í kvæðinu.

En þeim ferst af hægri vængnum sem kvarta yfir skorti á uppgjörsauðmýkt frá vinstri. Þeim færi betur að taka bara undir:
Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag -
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.
Hugsjónir sem erfitt er að vera beinlínis á móti, er það ekki? Og þó vissulega sé viðlagið alþjóðasinnaðra en meðal-þjóðrembingurinn getur þolað, þá hlýtur t.d. postullega trúarjátningin að innihalda amk jafn mikið af efni sem erfitt er nútímamanninum að kyngja, er það ekki?

Getum við kannski allir sameinast í söngnum sem Bob kenndi okkur? Hér í snilldarþýðingu Þorsteins Valdimarssonar sem ætti að heyrast mun oftar:
Þér sofendur, vaknið! Sjá, voðinn er beinn
Hina vaxandi flóðbylgju stenst eigi neinn;
og kannist hver við að hans kostur er einn
og knappur sá frestur sem veitist:
að læra að synda – eða sökkva eins og steinn
– því nú byltist allt og breytist.

þér skáld, og þér sjáendur, sjáið nú glöggt,
Því seint er að spá þegar ljósið er slökkt;
og tólfunum kastar í taflinu snöggt,
þar sem tengingur veltist og þeytist;
hið klökka mun harðna – hið harða er stökkt
– því nú byltist allt og breytist.

Þér þingmenn og landsdrottnar, lítið á rök
en læsið ei dyrum, þér standið í vök,
Þar sem orrusta geisar; og sannur að sök
verður sá er gegn réttlæti beitist;
það sprengir hans múra, það molar hans þök
– því nú byltist allt og breytist.

Þér mæður og feður, nei, fellið ei dóm
á forsendum vanans né páfans í Róm,
þó að börn yðar vaxi upp úr brekum og skóm
um það bil sem þér eldist og þreytist.
Látið þau hlýða kalli, þó þér heyrið ei hljóm
– því nú byltist allt og breytist.

Sjá, línan er dregin og fordæming felld;
það er frostinu vígt sem nú bakast við eld;
öll þau djásn verða gefins sem dýrst eru seld,
allt það dýrast, er ókeypis veitist;
þeim sem hreyknastir tróna lærist hógværð í kveld
– því nú byltist allt og breytist.

miðvikudagur, október 21, 2009

Egill

Varríus getur varla verið minni maður en Björn.

Ég horfi næstum alltaf á Silfur Egils. Les bloggið hans næstum daglega. Horfi oftast á Kiljuna.

Þetta finnst mér:

I

Egill er ekki aðgangsharður spyrill. Fyrsti hluti þáttar hans, þar sem 4 viðmælendur ræða málefni dagsins, er næsta stjórnlaus. Egill gefur upp bolta, viðmælendurnir tala. Fá alveg að tala sjálfa sig út í horn í friði og sæta mest aðhaldi frá hinum þremur. Þetta er oft nokkuð afhjúpandi, og glottir þáttastjórnandi iðulega við tönn. Alveg ágætt form, og varla til merkis um hlutdrægni. Getur orðið þreytandi fyrir áhorfendur, samt. Kitlar um of þörf okkar fyrir hanaat. (Af hverju er sumum pólitíkusum kennt að það sé sniðugt að grípa frammí?)

Gestir í þessum hluta þáttarins eru af öllu litrófinu. Sennilega er hallinn heldur til hægri, hvað sem veldur. Sem betur fer eru Bjarni Harðar og Hannes Hólmsteinn fátíðari nú en forðum var.

Í síðari hlutanum sækir Egill sér staka viðmælendur sem hann metur svo að hafi eitthvað markvert að segja. Þar er heldur ekki þjarmað að mönnum. Stundum hafa mér þótt þessir viðmælendur komist upp með bull og orðið pirraður. Nýlega var þar t.d. einhver gasprari af Wall Street sem ég man ekki hvað heitir, en sannaði spakmælið um að við hverri flókinni spurningu væru óendanlega mörg einföld, röng svör. Hann fékk heldur engar erfiðar spurningar.

Oft eru þetta sérfræðingar með sjónarmið sem gott er að komi fram óbrengluð. Eva Joly, Stiglitz og orkugaurinn sem ég man ekki hvað heitir. Egill er fundvís á svona fólk og sennilega er þetta helsti styrkur þáttarins. Stundum eru þetta stjórnmálamenn sem mann langar gjarnan að fái aðeins erfiðari spurningar. Man eftir viðtali við Björn Bjarnason þar sem mig langaði að henda einhverju í sjónvarpið.

Almennt gildir auðvitað að svona "softball" nálgun pirrar mann þegar talað er við einhvern sem maður er ósammála.

Þetta er greinilega mörkuð stefna hjá Agli, og heilt á litið er hún ekkert galin. Kastljósið er á sama tíma stundum að standa sig sæmilega í yfirheyrslugírnum.

Í svipinn man ég eftir tveimur viðtölum þar sem Egill þjarmaði að viðmælendum sínum. Viðar Þorsteinsson í viðtali um Islam með afslætti og Jón Ásgeir Jóhannesson í frægu spjalli skömmu eftir hrun. Hvorug voru þau vel lukkuð.

II

Blogg Egils er framúrskarandi. Þar birtist núanseruð og menntuð sýn hans á heiminn. Það er vel skrifað, gagnort og stundum leiftrandi. Þar fær afstaða hans til allra hluta að njóta sín.

Tíu atriði sem ég man eftir í svipinn:
Hann er fullur heilagrar vandlætingar gagnvart öllum mögulegum gerendum fjármálahrunsins.

Hann fyrirlítur yfirklór yfir glæpi kommúnismans.

Hann er staðfastur gagnrýnandi stefnu Ísraels gagnvart Palestínu

Hann hefur dálæti á proggrokki og aðdáunarverða þolinmæði gagnvart hnignunarskeiði Bobs Dylan, samfara sérkennilegu óþoli gagnvart Tom Waits.

Grísk menning, sérstaklega nútímamenning, er Agli hugleikin og það er gaman að fá að fylgjast með þeirri nautn hans.

Til skamms tíma (allavega) hélt hann á lofti hugmyndum efasemdarmanna um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Einu sinni kallaði hann 10-11 búðirnar "Musteri mannhaturs" Þarna talar íhaldssamur fagurkeri, sennilega áður en hann hugsar. (Geri ráð fyrir að Björn B. hafi ekki lesið þessa færslu, frekar en hann man eftir áhlaupi Egils á Jón Ásgeir).

Hann býður reglulega upp á "reality check" hvað varðar gæði íslenskra landbúnaðarvara. Að öðru leyti birtist Egill sem jákvæður efasemdamaður um ESB. Sem mér finnst skynsamlegt, enda á sömu slóðum sjálfur.

Hann skrifar fallegar örsögur af syni sínum.

Góður slatti af kommentunum eru móðursýkisleg rökleysa. Það hlýtur að útheimta mikla sjálfstjórn af jafn ritfærum og rökvísum fagurkera að eyða ekki meira af þessu drasli.
III

Kiljan er sennilega besti menningarþáttur sem sést hefur í íslensku sjónvarpi. Allavega á pari við viðtalsþætti Jóns Ólafssonar við tónlistarmenn. Þras Kolbrúnar og Páls geta alveg pirrað mann í sínum tillærða popúlisma. Bragi afhjúpar sig að því marki að vel má þykja ógeðfellt það sem hann sýnir. En þættirnir eru gegnsýrðir af ást á viðfangsefninu, þrá til að miðla því, og þá ekki síst því sem ekki liggur í alfaraleið, til fólks sem ekki er sannfært, en opið.

IV

Það er svo til marks um stærð Egils og mikilvægi í íslenskri umræðu að í svipinn man ég ekki eftir þeim stjórnmálaflokki, skoðanakima eða þrýstihópi sem hefur ekki litið á hann sem erkióvin.

V

Það er skoðun mín að Egill Helgason sé mikilvægasti maðurinn í íslenskum fjölmiðlum.

Djöfull erum við minniháttar

Við berum ábyrgð á stjórnvöldum. Reyndar kusum við ekki Rögnu Árnadóttur, en engu að síður, hún situr í okkar skjóli. Þeim mun verra er að fylgjast með harðýðgi hennar og skósveinanna í málefnum flóttamanna. Sem n.b. eru hér vegna atburðarásar sem við settum af stað með stríðsrekstri okkar í fjarlægum löndum.

Djöfull erum við minniháttar.

Best að byrja á að setja sig í spor flóttafólksins. Hlustið á þetta.

föstudagur, október 09, 2009

You never make me scream

Þegar maður snýr aftur úr svona löngu blogghléi þá finnst manni maður þurfa að hafa mikil tíðindi að færa. En ég hef það ekki. Jú, á laugardaginn verður íslensk-færeysk stuttverkahátíð í félagsheimili Seltjarnarness sem allir ættu að sækja heim. En þar sem enginn er sennilega að lesa þetta blogg núna þá er þetta trúlega frekar lamað plögg.

Það væri gaman að hafa verið á PR fundinum þar sem formanni Sjálfstæðisflokksins voru lögð í munn orðin "Hræddar krónur" sem hann hefur haldið í eins og ósynt barn í kork í síðustu viðtölum. Væntanlega að vona að hann verði ekki spurður hvort eigendur krónubréfa hafi nokkurn einasta áhuga á að fá ríkissskuldabréf fyrir hræddu krónurnar sínar. Hingað til hefur honum orðið að ósk sinni.

Og það hefði líka verið gaman að vera á fundinum þar sem ákveðið var að nota hina ágætu klámvísu Lily Allen, It's not fair undir kynningu á kvikmyndavetrinum á RÚV. Burtséð frá dónaskapnum þá er skírskotunin nokkuð tvíræð. Er RÚV í hlutverki hins lánlausa elskhuga sem ljóðmælandanum þykir svo undurvænt um, og er jafnvel til í að totta tímunum saman, en fær ekkert út úr samlífinu?

Eða er þetta á hinn veginn, og sjónvarpsmenn eru að kvarta yfir því að áhorfendur, sem þeir elska, séu ekki að skila sínu?

Veit ekki hvort er verra.

Gott lag samt.

Og nokkrar góðar myndir á leiðinni. Reyni að muna að hringja í RÚV og rymja frygðarstunur í símann þegar eitthvað gott er á dagskrá.