föstudagur, október 23, 2009

Nallinn

Það pirrar hægrimenn agalega að verkalýðshreyfingin og vinstriflokkar syngja stundum Nallann. Og vissulega sungu hann stundum vondir menn. Í Sovét voru bænir textans settar úr framtíð í nútíð, enda töldu böðlarnir sig vera búnir að ná þeim fagra árangri sem stefnt er að í kvæðinu.

En þeim ferst af hægri vængnum sem kvarta yfir skorti á uppgjörsauðmýkt frá vinstri. Þeim færi betur að taka bara undir:
Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag -
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.
Hugsjónir sem erfitt er að vera beinlínis á móti, er það ekki? Og þó vissulega sé viðlagið alþjóðasinnaðra en meðal-þjóðrembingurinn getur þolað, þá hlýtur t.d. postullega trúarjátningin að innihalda amk jafn mikið af efni sem erfitt er nútímamanninum að kyngja, er það ekki?

Getum við kannski allir sameinast í söngnum sem Bob kenndi okkur? Hér í snilldarþýðingu Þorsteins Valdimarssonar sem ætti að heyrast mun oftar:
Þér sofendur, vaknið! Sjá, voðinn er beinn
Hina vaxandi flóðbylgju stenst eigi neinn;
og kannist hver við að hans kostur er einn
og knappur sá frestur sem veitist:
að læra að synda – eða sökkva eins og steinn
– því nú byltist allt og breytist.

þér skáld, og þér sjáendur, sjáið nú glöggt,
Því seint er að spá þegar ljósið er slökkt;
og tólfunum kastar í taflinu snöggt,
þar sem tengingur veltist og þeytist;
hið klökka mun harðna – hið harða er stökkt
– því nú byltist allt og breytist.

Þér þingmenn og landsdrottnar, lítið á rök
en læsið ei dyrum, þér standið í vök,
Þar sem orrusta geisar; og sannur að sök
verður sá er gegn réttlæti beitist;
það sprengir hans múra, það molar hans þök
– því nú byltist allt og breytist.

Þér mæður og feður, nei, fellið ei dóm
á forsendum vanans né páfans í Róm,
þó að börn yðar vaxi upp úr brekum og skóm
um það bil sem þér eldist og þreytist.
Látið þau hlýða kalli, þó þér heyrið ei hljóm
– því nú byltist allt og breytist.

Sjá, línan er dregin og fordæming felld;
það er frostinu vígt sem nú bakast við eld;
öll þau djásn verða gefins sem dýrst eru seld,
allt það dýrast, er ókeypis veitist;
þeim sem hreyknastir tróna lærist hógværð í kveld
– því nú byltist allt og breytist.

6 Ummæli:

Blogger Unknown sagði...

"...því Internasjónalinn mun tengja strönd við strönd". Ef einhver er svo þjóðrembdur að þetta fer fyrir brjóstið á honum er ég hrædd um að erfitt verði að finna sameiginlegan flöt á gildismati með viðkomandi. Það er frekar að þetta með að grípa geirinn í hönd geti angrað okkur friðarsinnana, svona ef það er tekið bókstaflega.

Svo held ég að laglínan í Nallanum hlóti að vera mun þægilegri viðureignar fyrir meðalhræðuna heldur en Breyttu tímarnir hans Dylans.

12:09 f.h.  
Blogger Unknown sagði...

Afsakið, "hljóti" en ekki "hlóti".

12:09 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Geir í hönd gæti bara hreinlega endað sem eina lausnin, þó ég viti alveg að hún sé ekki sú rétt fyrir okkur friðarsinna.
En í lokalínunni: breystist?
Kristín í París

12:49 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

Takk Kristín, búinn að laga.

9:54 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég var búin að fá mér rauðvín og var bara alls ekki viss hvort þetta væri eitthvað orð sem ég þekkti ekki, hehe.

12:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Og fyrst menn eru í leiðréttingargírnum: teningur en ekki tengingur. ;)

Sævar

10:30 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim