þriðjudagur, júlí 29, 2008

Gjugg í borg

Það skiptir auðvitað minnstu máli hver er borgarstjóri. Fjögur ár eru ekki langur tími í lífi borgar, ekki einu sinni ungborgar eins og Reykjavíkur.

Hvað þá tvö.

það skiptir hins vegar máli hvað menn skilja eftir sig. Nokkur nýleg dæmi um mannvirki sem vöktu hneykslan og þus á sínum tíma en eru eftir á að hyggja sennilega hið besta mál:

Hæstaréttarhúsið
Ráðhúsið
Hringbrautarfærslan

Perlan er hinsvegar krípí með afbrigðum. Sérstaklega að koma inn í hana.

Ég er svolítið á línu borgarstjórans um LHÍ-húsið. Frábært og nauðsynlegt að hafa skólann í miðborginni, eða í göngufæri við hana, en við Laugaveg held ég að hann njóti sín aldrei.

Laugavegurinn er eins og hann er. Svona hús mun aldrei njóta sín þar, og kaffæra hin. Það er mín tilfinning - sem gæti vel verið röng. Var t.d. viss um að Hæstaréttarhúsið væri fáviskan í koparbrynju.

Villuljósið um 19. aldar götumynd skekkir svo alla umræðu. Sama má segja um vanstillingarviðbrögð við hlutlausri yfirlýsingu fulltrúa F-listans í skipulaxráði.

Það skiptir engu máli hver er borgarstjóri. En að skiptir máli hvað stendur við Laugaveg.

Hvað með reitinn þar sem Leiklistarskólinn er núna? Eða þá vestur á Granda, þar sem uppbygging er í burðarliðnum? Gæti vestasti Vesturbærinn orðið Jordaan-hverfi Reykjavíkur? Eða jafnvel Uzupis.

þriðjudagur, júlí 22, 2008

Blindsker

Einu sinni var ég í leikritahöfundasmiðju. Oft reyndar, en í þessari tilteknu smiðju var maður sem setti afgerandi svip á umræður um verk félaga sinna. Hann stundaði það að hvessa sín skarpskyggnu greiningargleraugu á smáatriðin og leggja til að þau yrðu gerð að aðalatriðum. T.d. með því að benda á að aukapersónurnar væru svo áhugaverðar að þær ættu að fá stóraukið pláss, eða að einhver lykkja í plottinu yrði gerð að burðarvirki verksins.

Í hnotskurn: "Þetta er gott hjá þér, en væri ekki betra ef þú hefðir skrifað eitthvað allt annað leikrit?"

Stundum var þetta ábyggilega rétt hjá honum. En fyrst og fremst er þetta auðvitað allsendis ófrjó nálgun. Hjálpar engum. Kemur umræðunni ekkert áfram. Blindgata. Blindsker.

Bubbi Morthens segir að orku annarra listamanna væri betur varið í eitthvað annað en viðkomandi kjósa. Það er nú alldeilis fróðlegt. Og gagnlegt fyrir umræðuna.

Síst.

Nú gæti Varríus áreiðanlega bent Bubba Morthens á svona tíu hluti sem hann ætti ekki að gera/segja, sem myndi gera hann að geðslegri listamanni/persónu í augum Varríusar.

En það er blindsker. Bubbi gerir og segir það sem hann vill. Ég leiði það hjá mér. Stilli mig um að leggja til að hann geri eitthvað allt annað. Kaupi ekki plöturnar, mæti ekki á tónleikana. Slekk á útvarpinu.

Báðir sáttir.

föstudagur, júlí 18, 2008

Og annar...

Svakalegur hálfvitadagur að nóttu kominn. Mögnuð heimsókn á Hraunið þar sem við skildum við þónokkra káta áheyrendur. Sumir löbbuðu samt út. Can't win them all.

Og svo ægilega skemmtilegt gigg í Keflavík í kvöld. Frekar fámennt eins og við bjuggumst við, en gríðarlega góðmennt og við í fádæma stuði.

Rígmontnir hálfvitar leggja sig nú yfir blánóttina og bruna svo norður í fyrramálið. Hrísey bíður spennt...

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Fyrsti áfanginn

Tónleikarnir í kvöld voru snilld. South River band voru guðdómlegir, áhorfendur voru mun fleiri en við þorðum að vona og meðtækilegir með afbrigðum.

Ægilega gaman að byrja túrinn svona.


Vieira var númer fimm, Ian Wright númer fjögur og Tony Adams númer þrjú. Spennandi að sjá hvort spá mín rætist um röðina á Henry og Bergkamp. Ég hef mínar efasemdir.

mánudagur, júlí 14, 2008

Túr

Hálfvitatúr 2008

sunnudagur, júlí 13, 2008

The final countdown

Pires datt inn nr. sex á toppfimmtíulista Arsenals. Eins og ég hafði spáð. Í fyrramálið verður það númer fimm. Annaðhvort Tony Adams eða Vieira ætla ég að spá.

Öppdeit: Vieira var það heillin.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Að lögleiða góða siðu

Það hefur verið vinsælt viðkvæði hægrisinnaðra andstæðinga aðgerða gegn klám- og vændisvæðingunni að ekki beri að framfylgja góðu siðferði með lögum. Viðhorf sem er gott og gilt, svo langt sem það nær.

Sem er reyndar ekki mjög langt, því færa má að því rök að stór hluti laga sé einmitt viðleitni til að banna ósiðlega hegðun og skilgreina viðurlög við henni. Verja eignarétt, líf og limi, tryggja möguleika minni máttar til að komast af. Allskyns mikilvæga hluti sem leiða af siðferðilegum gildum sem mannlegt samfélag hefur í hávegum.

Kannski er ástæðan fyrir þessum ruglingi hinna hægrisinnuðu varðhunda réttsins til ósiðsemi sú að þarna sé um að ræða muninn á siðferði og siðsemi. Auðvitað eru lög gegn manndrápum grundvölluð á siðferði, en þegar kemur að því sem mætti lýsa sem einberum dónaskap þá sé lögleiðing banns við slíku sambærilegt við að banna fólki að prumpa í heita pottinum eða blóta á almannafæri. Um þetta má svo auðvitað deila, en ég ætla ekkert að gera það hér. Gefum andstæðingum lögleiðingar mannasiða þetta.

En nú vill svo til að nýverið hafa komist í fjölmiðla skýlaus brot á lögum sem augljóslega banna dónaskap en brjóta ekki nein absólút siðalögmál. Framsóknarflokkurinn skrumskælir þjóðsönginn, Vodafone afskræmir þjóðfánann. Hvorttveggja bannað.

Þannig að nú bíðum við spennt eftir því að andstæðingar lögleiðingar góðra siða afnemi þessi ólög.

Og bara til að flækja málið vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög fylgjandi því að lögboðin bannhelgi á fána og þjóðsöng verði afnumin hið fyrsta, en jafnframt hlynntur því að kynlífsiðnaði séu settar þrengri skorður svo fremi það gæti dregið úr líkum á þeirri martröð sem kynlífsþrælkun og mansal hlýtur að vera.

Svona eru nú "vinstri" og "hægri" vanmáttug tæki til að lýsa þrívíðum heimi - og margvíðum hugmyndaheimi.

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Fimmtíu fræknustu

Arsenalvefurinn hefur undanfarnar vikur verið að birta niðurstöðu úr könnun um hverjir séu 50 fremstu fyrrum arsenalleikmennirnir. Þetta er nú bara frekar skemmtilegt, þó skemmtilegasti arsenalbloggari heimsins hafi snappað þegar Ashley Cole datt inn á listann fyrir ofan aðra goðsagnarkennda vinstri bakverði sem hafa gert minna af því að stinga klúbbinn í bakið.

En þetta er engu að síður gríðargott dæmi fyrir aula eins og mig til að átta mig á sögu klúbbsins sem ég hef alltaf haldið með en ekki fylgst með nema í örfá ár.

Í dag var nr. 8 kynntur - hinn goðsagnarkenndi Liam Brady sem jafnvel ég þekkti og dáði.

Sjö eftir. Hér eru sex nöfn sem ekki eru ennþá komin á listann, í stafró:

Tony Adams
Dennis Bergkamp
Thierry Henry
Robert Pires
Patrick Vieira
Ian Wright

Munu væntanlega allir detta inn á næstu dögum. Hef lúmskan grun um að Dennis Bergkamp detti síðastur, frekar en Henry. Sennilega Pires fyrstur.

Ekki eins viss um sjöunda nafnið. Ray Kennedy? David Seaman? Einhver gamall sandur sem ég ekki þekki? Eða einhver sem ég er að gleyma geðveikt illa.

Öppdeit: Seaman datt inn nr. 7. Held að sexmenningarnir hér að ofan fylli það sem eftir er.

sunnudagur, júlí 06, 2008

A hypothetical

Raunveruleikinn:

Fréttamaður: Formaður samtaka atvinnulífsins hefur lýst því yfir að krónan sé búið spil

Davíð Oddsson: Já, ég veit ekki hvaða spil hann er að spila.

Allir: Hahahahaha!

Útópían:

Fréttamaður: Formaður samtaka atvinnulífsins hefur lýst því yfir að krónan sé búið spil

Davíð Oddsson: Já, ég veit ekki hvaða spil hann er að spila.

Fréttamaður: Nú ert þú seðlabankastjóri. Finnst þér í alvörunni aulabrandari rétt viðbrögð við stöðu mála?

Dyflinarsamningurinn...

Við höfum framfylgt samningnum með þessum hætti og ég held að það hafi ekki valdið neinum sérstökum vandræðum fyrir okkur
Leturbreyting varríusar

Haft eftir Birgi Ármannssyni í Fréttablaðinu í dag. Ef rétt ef eftir honum haft þá er hann annaðhvort þroskahamlaður eða siðblindur. Og hversvegna blaðamaðurinn kom ekki auga á að þessi ummæli eru punkturinn í fréttinni er óskiljanlegt.

Óbragð í munni.

föstudagur, júlí 04, 2008

Að eiga eða mega

Svör Björns Bjarnasonar við bréfum um málefni Paul Ramsesar eru upplýsandi. Þar er vísað í Dyflinarsáttmálann og gefið í skyn að hann bindi hendur stjórnvalda:
Við meðferð mála af þessu tagi eru embættismenn bundnir af lögum eigin lands og alþjóðasamningum, þar á meðal svonefndum Dyflinarsamningi, sem liggur að baki ákvörðun í þessu máli, sem nú er til umræðu.Leturbreyting Varríusar
Annarsstaðar kemur fram að sáttmálinn heimili ríkjum að senda flóttamenn til þess lands sem fyrst varð fyrir þeim á flótta sínum. Mörður Árnason skýrir þetta t.d. ágætlega.

Orð Björns eru upplýsandi fyrir það að svo virðist sem hann vilji afvegaleiða umræðuna með því að rugla saman heimildum og skyldum eins og þau birtast í umræddum samningi, og gera um leið aukaatriði að aðalatriði. Kunnugleg taktík, ekki satt?

Orð Björns eru upplýsandi, en missa marks. Mikilvægasta hlið þess er ekki lagaleg heldur siðferðileg. Að þeim upplýsingum gefnum sem komið hafa fram virðist blasa við að stjórnvöldum var heimilt að senda manninn úr landi eða veita honum hæli. Þá þarf að meta hvort á að gera. Þar kemur siðvit, mannúð og réttlætiskennd að málinu og á því prófi hafa stjórnvöld fallið. Allavega ef þau hafa áhuga á að ganga í takt við venjulegt fólk, ef marka má bloggskrif um málið. Og það má aldrei gleyma því að svona ákvarðanir eru teknar af venjulegu fólki, sem á að að vera a.m.k. jafn vel innrætt og upplýst og við hin.

Þess vegna er undrunin og reiðin yfir málsmeðferðinni núna jafn útbreidd og almenn og raun virðist bera vitni.

Í rökræðu um nektarstaði og klám hafa fríþenkjandi Sjálfstæðismenn gjarnan gripið til þeirrar línu að ekki sé rétt að lögleiða gott siðferði. Það má svo sem vera. Svoleiðis afstaða gerir hinsvegar ríkari kröfur til fólks, ekki minni. Ef lögin banna þér ekki að hegða þér illa þarft þú að vera sem því nemur flinkari sjálfur að velja og hafna.

Það að mega gera eitthvað er ekki ávísun á að þú eigir að gera það.

Í hádeginu verður mótmælt við ráðuneytið, þó svo ráðherra þvoi reyndar hendur sínar af málinu á bloggi sínu. Varríus mætir. Svo er líka hægt að skrifa undir þetta.

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Ógeð

Það verður forvitnilegt að sjá og heyra fréttir í kvöld.

Hrista fréttastofurnar af sér slyðruorðið í vesældarlegri umfjöllun sinni um mál Keníumannsins, sem virðist útfrá þeim upplýsingum sem komið hafa fram vera dæmi um fádæma mannvonsku, illvilja og það sem lesendur Douglas Adams myndu skilgreina sem Vogonsku?

Mun eitthvað koma fram hjá þeim sem um málið hafa vélað sem réttlætir ofangreint?

Miðað við þær rýru upplýsingar sem fram hafa komið er þetta ljótasta mannvonskuverk stjórnvalda, amk síðan Falun Gong hneykslið.