föstudagur, júlí 04, 2008

Að eiga eða mega

Svör Björns Bjarnasonar við bréfum um málefni Paul Ramsesar eru upplýsandi. Þar er vísað í Dyflinarsáttmálann og gefið í skyn að hann bindi hendur stjórnvalda:
Við meðferð mála af þessu tagi eru embættismenn bundnir af lögum eigin lands og alþjóðasamningum, þar á meðal svonefndum Dyflinarsamningi, sem liggur að baki ákvörðun í þessu máli, sem nú er til umræðu.Leturbreyting Varríusar
Annarsstaðar kemur fram að sáttmálinn heimili ríkjum að senda flóttamenn til þess lands sem fyrst varð fyrir þeim á flótta sínum. Mörður Árnason skýrir þetta t.d. ágætlega.

Orð Björns eru upplýsandi fyrir það að svo virðist sem hann vilji afvegaleiða umræðuna með því að rugla saman heimildum og skyldum eins og þau birtast í umræddum samningi, og gera um leið aukaatriði að aðalatriði. Kunnugleg taktík, ekki satt?

Orð Björns eru upplýsandi, en missa marks. Mikilvægasta hlið þess er ekki lagaleg heldur siðferðileg. Að þeim upplýsingum gefnum sem komið hafa fram virðist blasa við að stjórnvöldum var heimilt að senda manninn úr landi eða veita honum hæli. Þá þarf að meta hvort á að gera. Þar kemur siðvit, mannúð og réttlætiskennd að málinu og á því prófi hafa stjórnvöld fallið. Allavega ef þau hafa áhuga á að ganga í takt við venjulegt fólk, ef marka má bloggskrif um málið. Og það má aldrei gleyma því að svona ákvarðanir eru teknar af venjulegu fólki, sem á að að vera a.m.k. jafn vel innrætt og upplýst og við hin.

Þess vegna er undrunin og reiðin yfir málsmeðferðinni núna jafn útbreidd og almenn og raun virðist bera vitni.

Í rökræðu um nektarstaði og klám hafa fríþenkjandi Sjálfstæðismenn gjarnan gripið til þeirrar línu að ekki sé rétt að lögleiða gott siðferði. Það má svo sem vera. Svoleiðis afstaða gerir hinsvegar ríkari kröfur til fólks, ekki minni. Ef lögin banna þér ekki að hegða þér illa þarft þú að vera sem því nemur flinkari sjálfur að velja og hafna.

Það að mega gera eitthvað er ekki ávísun á að þú eigir að gera það.

Í hádeginu verður mótmælt við ráðuneytið, þó svo ráðherra þvoi reyndar hendur sínar af málinu á bloggi sínu. Varríus mætir. Svo er líka hægt að skrifa undir þetta.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim