miðvikudagur, mars 29, 2006

Hagfræðimeistarinn

Til eru þeir sem halda því fram að hagfræði sé vísindagrein. Hún minnir mig reyndar meira á aðfarir læknanna í Ástríkur í Heilvitalandi sem hópast að veika skattheimtumanninum og þrasa um hvað geti huxanlega verið að honum, hver með sína fjarstæðukenndu greiningu og læknisráð. Hagfræðingar flestir minna líka á læknana að því leyti að viðhorf þeirra til skattheimtumanna eru ekki sérlega heilsusamleg.

Í morgunútvarpinu var viðtal við norskan hagspeking sem skrifaði grein um íslenska efnahagsundrið og er á því að hér sé allt í himnalagi. Vitaskuld var hann spurður hvernig stæði á hann væri á öndverðum meiði við svartagallsrausarana í Danmörku og víðar. Hann sagði að það helgaðist af ólíku mati sínu og kolleganna á orsökum og afleiðingum viðskiptahalla.

Ætli eðlisfræðinga greini á sambærilegan hátt á um hlutverk þyngdaraflsins í hreyfiferlum epla sem detta af trjánum?

Hagfræðingar eru sagnfræðingar. Áreiðanlega geta þeir gert ágæta grein fyrir því af hverju eitthvað gerðist. En það er engin tilviljun að sagnfræðingar eru aldrei spurðir álits á því hvað gerist næst.

Og af hverju allt þetta þvaður um hagfræði? Aðallega vegna þess að maður daxins er sá hagfræðingur sem ég held mest uppá í heiminum.

Mastersgráða frá háskólanum í Strasbourg 1974.

Hann kann að sjá fram í tímann.

Efast um að hann hafi lært það í skólanum.

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

og þá var kátt í höllini, höllini...

túrinískaborgaraveldið er viðfangsefni sagnfræðinga...liðin tíð

til lukku

12:28 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim