þriðjudagur, desember 29, 2009

Til hamingju Samfó

Mig langar til að nota þetta tækifæri til að óska Samfylkingunni til hamingju með mig.

Ég er það sem kalla mætti tryggan kjósanda Samfylkingarinnar. Hef kosið hana nokkrum sinnum í alþingiskosningum, Einu sinni í borgarstjórnarkosningum og Reykjavíkurlistann áður, ekki síst fyrir það sem ég sá sem forystuhlutverk Samfylkingarinnar í því samkrulli.

Ég hef kosið flokkinn vegna þess að ég hef talið (og tel) að hann standi hugmyndum mínum um vel fúnkerandi og réttlátt samfélag næst.

Ég mun hinsvegar ekki fylgja honum hvað sem hann gerir. Það eru takmörk fyrir hvað þykkt og hvað þunnt hann bíður mér upp á. Ég þarf að treysta fólkinu sem hann bíður upp á, trúa stefnunni sem hann boðar og vera sáttur við hvernig hann vinnur henni brautargengi. Og ég lít ekki á það sem lykil að velgengni í mínu lífi að kjósa eða tilheyra þessum flokki.

Þess vegna óska ég honum til hamingju með mig. Ég kýs hann í trausti þess að hann dreymi ekki um að vera Sjálfstæðisflokkurinn og að hann treysti ekki á að ég sé Samfylkingarmaður í sama skilningi og (sumir, of margir) sjálfstæðismenn eru Sjálfstæðismenn.

Þess vegna ganga hrokafullar og önugar skýringar Karls Th á Herðubreiðinni ekki. Sérstaklega ekki þegar hann er ber að útúrsnúningum/ósannindum. Þess vegna er þögn flokksins (forystu hans) óþolandi. Sérstaklega þar sem hún er ítrekuð, mál eftir mál.

Ég er ekki Sjálfstæðismaður. Ég fer ekki framá bitlinga, forgang eða frama út á atkvæðið mitt. Ég hinsvegar krefst þess að þið drullist til að standa fyrir máli ykkar gagnvart mér.

Ég er tákn um nýja tíma í íslenskri pólitík, og ætla í lengstu lög að trúa því að Samfylkingin sé það líka.

En ekki endalaust, sjáiði til. Þið verðið að halda ykkur.

Þess vegna óska ég Samfylkingunni til hamingju með mig.

fimmtudagur, desember 24, 2009

Nú er heilagt

"Nú er heilagt" segir gamla fólkið þegar klukkan verður sex á aðfangadagskvöld. Samt er þetta bara dagur eins og aðrir dagar. Sólin kemur upp samkvæmt eðlisfræðilögmálum og sú staðreynd að dag tekur að lengja á sér skýringar í möndulhalla jarðar eins og einhver vantrúargárungurinn skrifaði þegar biskup leyfði sér að þakka guði fyrir það. Fyndið.

En nú er heilagt. Hvað þýðir það?

Hér er tillaga frá mér:

"Heilagt" þýðir að eitthvað sé bæði verðmætt og viðkvæmt. Og kannski verðmætt vegna þess að það er viðkvæmt. Guð er t.d. ekki heilagur. Það er eins og að segja að ljós sé bjart.

Klukkan 18 á aðfangadagskvöld er heilagt, en það þarf ekki nema einn gárung til að benda á að þetta sé nú bara tími eins og var í gær og verður á morgun til að rústa því.

Jólin eru tími til að hugsa um allt það sem er viðkvæmt og verðmætt. Þau hverfast um einmitt svoleiðis sögu. Um barn sem fæðist eins og hvert annað barn, viðkvæmt og veikburða. En um leið óendanlega verðmætt. Heilagt sumsé. Hvort sem þú trúir því eða ekki að barnið sé sonur guðs þá er þess virði að sækja sér umhugsunarefni í söguna. Vissulega má sækja sér jafnmerk umhugsunarefni í aðrar sögur, og jafnvel gott að benda á þá staðreynd. En ekki í dag. Nú er heilagt.

"Heilagt" þýðir: ekki skemma. Sem felur í sér: það er auðvelt að skemma.

Þess vegna er önnur saga svo áhrifarík og merkingarþrungin: Sagan um fjöreggið sem skessurnar kasta á milli sín.

Egg. Hvað er viðkvæmara? Hvað er verðmætara? í því búa allir möguleikar. Og ekkert verndar þessa möguleika annað en þunn skurn. Þetta vita skessurnar, en kasta því samt. Eins gott að grípa.

Hin hliðin á heilagleikanum er svo ástæðan fyrir því að sagan um Nýju fötin keisarans er svo mögnuð. Það þarf ekki nema eitt barn til að hrópa upp að keisarinn er ekki í neinum fötum til að allir sjái það. Ímyndaður skartbúnaður keisarans virtist heilagur en var það ekki. Hann var viðkvæmur en ekki verðmætur. Heimurinn er betri án hans.

Það er eilífðarverkefni að greina þarna á milli. Hvað er fjöregg, hvað er fals. Það þarf að fara varlega í leitinni að fjöregginu. Það er nefnilega svo auðvelt að eyðileggja það sem er heilagt. Svolítið eins og að fara með troll yfir kóralrif. Þú tekur ekki eftir því. En skaðinn er skeður. Tekur hundrað ár að byggja ný. Þess vegna eru kóralrif verðmæt. Viðkvæmnin og verðmætið eru samtvinnuð.

Allt það illa sem trúarbrögð hafa leitt af sér stafar af tilraunum til að fela viðkæmnina. Brynverja eggið með holtaþoku, ofbeldi, ofsóknum og kúgun. En verðmætin rýrna ef viðkvæmnin er falin. Rannsóknarrétturinn, Jihadið, fúndamentalisminn, valdhrokinn og yfirlætið draga úr helgi hins heilaga.

Það er líka svo margt sem er viðkvæmt og verðmætt.

Það er alltaf hægt að snúa út úr og skopast með mikil listaverk. Sumum finnst það til merkis um að þau séu ómerkileg. Sennilega er það einmitt til marks um að listin er heilög.

Það er svo auðvelt að drepa fólk. Kúga það. afneita verðmæti þess. Manngildið er samt verðmætt. Og viðkvæmt. Heilagt.

Sumt þarf að vernda, sumt þarf að brjóta. En hvernig á að greina þar á milli?

Til að taka að sér hlutverk barnsins hans Andersens þarf kjark og vit. Kjark til að þora, vit til að láta það vera sem ekki má skemma, en er svo auðvelt. Það er ekki hægt að búa til ommelettu án þess að brjóta egg, en það skiptir máli að vera viss um ekkert þeirra sé fjöregg.

Kannski er þetta mikilvægasti lærdómur trúarinnar. Að virða það sem er viðkvæmt. Lærdómur sem jafnvel við trúleysingjar getum tileinkað okkur. Þurfum að tileinka okkur.

Langar okkur í alvöru að búa í heimi þar sem ekkert er heilagt?

Jól

Uppgötvaði í gærkveldi að þetta er uppáhalds jólalagið mitt. Með þetta nagandi í hælana.

Varríus óskar lesendum sínum gleðilegra jóla. Og öllum öðrum líka, þó óvíst sé hvort það komist til skila.

sunnudagur, desember 20, 2009

Hreyfingin

Ég er enginn sérstakur aðdáandi Hreyfingarinnar, þrátt fyrir að vera allur af vilja gerður eins og svo margir. Framkoma þeirra við Þráinn Bertelsson var fyrir neðan allar hellur. Barnaskapurinn við klofninginn var pínlegur. Og hrossakaupaviljinn sem þau hafa orðið ber að er einhvernvegin enn sorglegri hjá þessu sjálfskipaða umbótaafli en hinum sigggrónu fjórflokkum.

En ég verð að hrósa þeim fyrir að standa vaktina í málefnum Hrunskýrslunnar og meðferðar á henni. Og fyrir að koma á framfæri þögguninni sem þau verða fyrir með sínar utanfrá séð þörfu, augljósu og nauðsynlegu breytingartillögur.

Sjá t.d. hér. Og ekki gleyma að lesa fylgiskjölin sem krækt er í fyrir neðan meginmálið.

Og aftur: þögn stjórnarinnar, og þá sérstaklega Samfylkingarinnar (með formann nefndarinnar í sínum röðum) er óþolandi fyrir okkur sem kusu þau og styðjum. Og ekkert kjaftæði með að fjölmiðlar séu ekki að standa sig. Það á ekki að þurfa að toga afstöðu ykkar út með töngum. Sérstaklega ekki í máli sem lýtur að upplýsingu, afhjúpun og skrásetningu þess sem gerðist.

Þið eruð ekki sjálfstæðisflokkurinn.

Í þögninni grassera samsæriskenningar og tortryggni. Hvernig væri að: a) fallast á eða vinna með hugmyndir Hreyfingarinnar eða b) útskýra hversvegna ekki.

föstudagur, desember 18, 2009

Spurningar Ara

Amríska vefritið Slate er stundum skemmtilegt. Þeir eru með fastan lið sem heitir The Explainer sem leitast við að svara innsendum spurningum um allt milli himins og jarðar. Svipuð hugmynd og Vísindavefurinn, bara ekki bundinn við vísindalegar spurningar. Oftast er þetta fréttatengt og stundum bara nokkuð fróðlegt.

Árlega safnar Útskýrandinn svo saman lista yfir nokkrar spurningar sem hann ekki treysti sér í af ýmsum ástæðum. Lesendur velja eina þeirra og henni er síðan svarað.

En listinn er kostulegur. 2009-útgáfan er hér. 2008 var jafnvel betra, sem og 2007, og 2006.

Nokkur uppáhalds:

• Why did Zidane head-butt his opponent in the World Cup final? Do the French not fight with their fists?

• Burma's dictator has a chestful of bullshit medals. What's up with that, Explainer?

• Is it "open sees me" or "open says me"?

• How often are presidents born, and how often do they die? Do they die in bunches, or on average every four years?

• Are UFOs confirmed to be from other Alien Planets?

• Why do humans die so young? In biblical times, people lived for several hundred years; now living to 100 is considered a long life. What happened?

• Can you tell me how long it will take if you eat rat poison to see if it is going to affect you? Please e-mail me back. Because my niece ate some.

Góða helgi.

Verne

Stundum er sagt að Samfylkingin sé spuna- og pr-flokkur. Ef svo er þá eru þau allavega alveg ótrúlega léleg í því sem þau gera best. Að sjá ekki fyrir fjaðrafok yfir því að veita einum nafntogaðasta skúrki hrunsins skattaívilnanir er barnaskapur. Og að láta fyrstu viðbrögð við andófinu vera önuga feisbúkkfærslu um að "það sé sama hvaðan gott kemur" er stórslys.

Þau áttu að sjá að hér voru þau með mál sem þurfti ítarlegan rökstuðning um leið og skrifað var undir, þar sem sá hluti andófsins sem á annað borð er svaraverður fær sín svör fyrirfram. Og plís, ekki að beita því gamalkunna bragði að beina umræðunni að því hvort einhver stjórnarandstöðuþingmaður var með "ógeðfellt orðalag". Þið eruð ekki sjálfstæðisflokkurinn. Og þetta er ekki gamla Ísland, eða hvað?

Því það eru alveg rök fyrir ákvörðuninni. Held að það hefði t.d. heyrst hljóð úr horni Reykjanesskagans ef málið hefði EKKI klárast. Og svo má segja: Er ekki betra að festa sem mest fé Björgólfs á Íslandi? Þannig ætti að verða auðveldara að gera það upptækt þegar þar að kemur, heldur en að þurfa að gera út tankskip til Tortóla.

það er að segja, ef hann er að koma með einhvern pening. Sporin hræða nefnilega. Iðnaðarráðherra og aðstoðarmanni forsætisráðherra er fullkunnugt um þessa forsögu. Hefði nú ekki verið gott að koma almennilega og strax á framfæri upplýsingum um að maðurinn væri í alvörunni að leggja fram fé, og viðskiptafélagar hans væru próper fólk?

En nei, betra að ala á tortryggninni - það er það sem við þurfum mest á að halda núna.

Og hversvegna í dauðanum var fallist á að raforkuverðið væri leyndó? Það bara getur ekki verið eðlilegt.

þriðjudagur, desember 15, 2009

Jesus Christ!

Ég hef stundum skrifað hér um Kneehigh-leikhópinn breska og galdrana sem þau magna upp. Samskeytalaus eining fíflaláta, alvarleika og fegurðar.

Það gleður mig að hafa upplifað íslenska sýningu sem nær sömu töfrum. Jesús litli í Borgarleikhúsinu er algerlega geníal sýning. Að springa úr leikgleði sem helst í skefjum af augljósri alvörunni sem undir býr og birtist þegar minnst varir og nær til manns í gegnum hláturtárin sem fyrir sömu töfra breytast í annarslags tár á augabragði.

Stundum sér maður svo vondar leiksýningar að mann langar bara allsekki nokkurntíman aftur í leikhús. Og stundum er upplifunin svo frábær að helst myndi maður vilja láta þær duga, af ótta við að jafnvel miðlungsgóð sýning sjúski út minninguna um fullkomnunina.

Þannig er Jesús litli. Drífa sig svo! Og ekki láta "uppselt" blekkja ykkur. Það voru ca 20 sæti laus þegar ég fór, og sennilega alltaf einhver.

föstudagur, desember 11, 2009

Harpa

Mér finnst nafnið á tónlistarhúsinu gott. Að velja nafn á eitthvað sem á að standa um aldir er ekki spurning um að vera brilljant. Þess vegna er betra að velja gott nafn en frábært nafn. Hef á tilfinningunni að af þeim rúmlega fjögur þúsund nöfnum sem úr var að velja hafi þetta nafn fljótlega skorið sig úr. Það er allavega mín reynsla sem gamals refs úr nafngjafabransanum.

Tónlistartengingin er augljós. Harpan er hljóðfæri Appólóns og vísar þannig til hinna æðstu lista guðs forms og fagmennsku. Harpa er fyrsti mánuður sumars í gamla tímatalinu okkar og tengir þannig hina evrópsku hámenningu við íslenskan gróanda og óbeislaða sköpun. Harpan er ekki hávært hljóðfæri og hefur þannig tengingu við hið lágværa og ljóðræna, fínleikann.

Ef nafnið hefði verið valið 2007 óttast maður að fyrir valinu hefði annaðhvort orðið eitthvað hraungrýtisnafn með klisjukennda tengingu við hið grófasta í íslenskri náttúru eða menningu, eða þá allsendis ótónlistartengt nafn þar sem hagsmunir viðskipta og alþjóðlegs ráðstefnukúltúrs hefðu ráðið.

Það veit á gott að hin ómþýða og lágmælta Harpa gefur tóninn.

Og vel mæltist Agli Ólafssyni við athöfnina. Þetta langþráða hús, baráttumál tónlistarmanna á Íslandi áratugum saman, er sennilega eitt það mikilvægasta af varanlegum verðmætum sem hrifsað hefur verið úr klóm fjármálafávitanna. Fólk sem þykir það eiga að standa óklárað sem "minnisvarði um hrunið", er klárlega að gleyma því hvað á að fara þar fram. Nema svoleiðis fólk hafi ekki eyru, heldur einungis munn.

Óleyst er hvernig umhverfi hússins verður þróað þegar við blasir að þar verði ekki hátimbruð heimsviðskiptamiðstöð og höfuðstöðvar Icesave-bankans. En tónlistarhúsið er hús tónllistarinnar - ekki peninganna.

Það verður svo verkefni þeirra sem fylla Hörpuna af tónum að gera það á þann hátt að allir með eyru eigi þangað erindi.

mánudagur, desember 07, 2009

Svörtu stjörnurnar

Varríus hefur ákveðið að halda með Ghana í HM í sumar. Enda á Varríus Ghanískan bróður. Reynar líka Brasilískan, en sá hefur engan áhuga á fótbolta og auk þess er eitthvað svo glatað að halda með Brössunum. Mótherjar Svörtu stjarnanna eru Þjóðverjar, Serbar og Ástralir. Ekkert létt og löðurmannlegt, en Ghanverjar eru engir aular og eiga alveg séns.

Áfram hefur Varríus svo taugar til Hollendinga og þá er Fabregas náttúrulega Spánverji.

þetta verður sumsé gott mót.

Svo er gleðisöngurinn Hættessuvæli kominn inn á vallistan fyrir vinsældarlista Rásar 2

Það er líka gott.

föstudagur, desember 04, 2009

Hættessu væli

Það eru örfáir - og ég meina örfáir - miðar eftir í Salinn á sunnudaginn.

Í tilefni af degi Rauða nefsins er hreindýr á borðum á heimili Varríusar.

Smekklegt? Ég veit það ekki.