sunnudagur, desember 20, 2009

Hreyfingin

Ég er enginn sérstakur aðdáandi Hreyfingarinnar, þrátt fyrir að vera allur af vilja gerður eins og svo margir. Framkoma þeirra við Þráinn Bertelsson var fyrir neðan allar hellur. Barnaskapurinn við klofninginn var pínlegur. Og hrossakaupaviljinn sem þau hafa orðið ber að er einhvernvegin enn sorglegri hjá þessu sjálfskipaða umbótaafli en hinum sigggrónu fjórflokkum.

En ég verð að hrósa þeim fyrir að standa vaktina í málefnum Hrunskýrslunnar og meðferðar á henni. Og fyrir að koma á framfæri þögguninni sem þau verða fyrir með sínar utanfrá séð þörfu, augljósu og nauðsynlegu breytingartillögur.

Sjá t.d. hér. Og ekki gleyma að lesa fylgiskjölin sem krækt er í fyrir neðan meginmálið.

Og aftur: þögn stjórnarinnar, og þá sérstaklega Samfylkingarinnar (með formann nefndarinnar í sínum röðum) er óþolandi fyrir okkur sem kusu þau og styðjum. Og ekkert kjaftæði með að fjölmiðlar séu ekki að standa sig. Það á ekki að þurfa að toga afstöðu ykkar út með töngum. Sérstaklega ekki í máli sem lýtur að upplýsingu, afhjúpun og skrásetningu þess sem gerðist.

Þið eruð ekki sjálfstæðisflokkurinn.

Í þögninni grassera samsæriskenningar og tortryggni. Hvernig væri að: a) fallast á eða vinna með hugmyndir Hreyfingarinnar eða b) útskýra hversvegna ekki.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim