mánudagur, febrúar 16, 2009

Meira helvíti - meira plögg

Það var einkennileg tilfinning að sjá loksins sýningu á Brunað í gegnum Bólu-Hjálmar hjá Stoppleikhópnum á miðvikudagskvöldið síðasta. Skrítilegheitin stöfuðu af því að a) ég var einn höfundur verksins og b) ár var síðan það var frumsýnt og ég ekki búinn að sjá það.

Stoppleikhópurinn er merkilegur kvistur á íslenska leikhústrénu, einbeitir sér nokkuð einarðlega að sýningum fyrir börn og unglinga og sýnir aðallega í skólum. Ljúflingurinn Eggert Kaaber stýrir og bað okkur félagana að setja saman handrit að sýningu um íslenskt skáld. Ég stakk upp á Hjálmari, Eggert réði Ágústu Skúla til að sviðsetja og svo var stokkið af stað...

Ég er svosem ekkert hlutlaus en verð samt að segja að sýningin er frábær. Ágústuskúlískt orkustig auðvitað, og svo bara drulluvel gert hjá þremenningunum Margréti Sverrisdóttur, Magnúsi Guðmundssyni og mr. Kaaber.

Þetta er sumsé skemmtun sem ætti að gleðja alla og fræða suma. Sýningin sem ég sá var fyrsta "opinbera" (ekki skóla) sýning verksins og viðtökurnar æstu menn upp. Nú er önnur komin á kortið og verður á fimmtudagskvöldið kl. 20 í Leikhúsinu í Kópavogi. Sjálfsagt er hægt að panta miða, ég bara veit ekki hvernig. Skal pósta upplýsingum um það um leið og ég get. Allavega: drulla sér í leikhús!

Öppdeit
Sýningin verður ekki á fimmtudaginn. Verið er að kanna hvort hún getur orðið á miðvikudaginn.

Öpp-öppdeit
Og þá er það staðfest: Sýning á Bóluhjálmari á miðvikudagskvöldið. Miðapantanir á eggert[hjá]Centrum.is.

Og koma svo!

laugardagur, febrúar 14, 2009

Vefur í loftið

Vefsetur Ljótu Hálfvitanna hefur verið opnað að nýju í endurbættri og stórglæsilegri mynd. Skoðið og njótið. Ekki gleyma að renna músinni yfir kindina efst í hægra horninu.

Og ekki gleyma að koma á tónleika fyrrnefndra hálfvita á Rósenberg í kvöld. Byrjar kl. 21.30 og stendur von úr viti.

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Updike

Aldrei hafði ég lesið staf eftir þennan víðfræga ameríska rithöfund þegar fregnir bárust af andláti hans. En rakst svo á eftirfarandi kvæði eftir kallinn á bloggvafri mínu. Fín eftirmæli:
It came to me the other day:
Were I to die, no one would say,
“Oh, what a shame! So young, so full
Of promise — depths unplumbable!”

Instead, a shrug and tearless eyes
Will greet my overdue demise;
The wide response will be, I know,
“I thought he died a while ago.”

For life’s a shabby subterfuge,
And death is real, and dark, and huge.
The shock of it will register
Nowhere but where it will occur.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Mikinn skít!

Þannig var spænskum leikurum óskað velgengni í gamladaga. Lógíkin er svona: Því fleiri áhorfendur - því fleiri hestar fyrir utan leikhúsið - því meiri kúkur.

Það er því ósk varríusar til hinnar nýstofnuðu ríkisstjórnar. Vona t.d. að boðuðu afnámi lífeyrissérréttinda verði ekki svarað með samsvarandi hækkun á launum, og afsakað með einhverjum lagakrókum (sporin hræða í þessu tilliti).

Og skipan dómsmálaráðherrans er vægast sagt dularfull. Kontóristi úr grónum ráðuneytum sjálfstæðismanna? Af hverju? Af hverju ekki pólitíkus (Atli Gísla, svo nafn sé nefnt af handahófi úr þjóðsránni)? Ekki segja mér að það hafi verið út af jafnræðinu. Við eigum að vera komin lengra en svo.

Skipan Gylfa skýrir sig sjálf. Skipan Rögnu gerir það ekki. Af hverju var ekki spurt um þetta í viðtölum? Af hverju var ekki frumkvæði um að skýra þetta?

Vona að þetta gangi allt vel.

Vona líka að fjárhagsaðstæður hins efnilega framsóknarformanns séu ekki eins og lýst erhér. Annars fær andstaða hans við hugmyndir um að frysta eignir auðmanna nýjan, ógeðfelldan og alltof kunnuglegan blæ.