mánudagur, desember 31, 2007

Bloggheit

Varríus heitir því að a) hefja aftur biblíulestur á árinu. Geri samt ráð fyrir því að halda mig við "gömlu" þýðinguna. Og treysti mér ekki til að lofa einhverjum tilteknum afköstum.

Varríus heitir því ennfremur að klára að koma leikdómum sínum á aðgengilegan stað.

Og hvernig væri að allir landsmenn fylgdu fordæmi Landsbankans og sendu ráðherrunum vín fyrir næstu áramót? Þeim þykir svo gaman að fá pakka og svo hefur það víst engin áhrif á störf þeirra.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir þau gömlu.

föstudagur, desember 28, 2007

Lúkas 2:14

Varríus fékk nýju biblíuna í jólagjöf. Það er nú gaman. Heyrði svo Jólaguðspjallið útundan mér við kartöfluskræl og svoleiðis á aðfangadagskvöld. Hrökk svolítið við þar sem eitthvað hafði breyst í þessum texta sem allir kunna utanað. Hafði samt ekki heyrt neina umræðu um það.

En jú. Vers 14, ávarp englanna til fjárhirðanna, hafði verið "lagfært":
Dýrð sé guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.
Árið 1981 var það hinsvegar:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknurn á.
Og árið 1961 var kveðið enn fastar að orði:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með þeim mönnum, sem hann hefur velþóknun á.Leturbreyting Varríusar
Nú er nýja þýðingin hvað þetta varðar öllu geðþekkari en þær fyrri, og hefði t.d. alfarið hindrað uppákomuna á Ingólfstorgi fyrir nokkrum árum þar sem Eyvindur P. Eiríksson dró augljósar og rökréttar ályktanir af orðalaginu frá 1961 og truflaði þar með veislugleðina.

Engu að síður hljóta að vaxa ýmsar spurningar við svona augljósa merkingarbreytingu:

a) Er nýja þýðingin örugglega réttari útlegging á "kai epi ges eirene en anþrópois eudokías" eins og frasinn ku hljóma í frumritinu?

b) Og ef svo er, vissu menn það í alvörunni ekki árið 1981? Hafa orðið svona byltingarkenndar framfarir í útleggingu á forngrísku á þessum 26 árum?

c) Hvaða kennilegu afleiðingar hefur þessi merkingarbreyting á orðum englanna? Því allir læsir menn hljóta jú að sjá að nýja setningin hefur afgerandi aðra merkingu en sú gamla.

d) Úr því kirkjunni láðist að gera grein fyrir þessari leiðréttingu fyrir jól (sem er vissulega óheppilegt í ljósi þess hve stór hluti sóknarbarnanna kemur bara í kirkjunna á jólunum og fengu því þessa umbyltingu beint í andlitið. ef svo má segja) hvenær megum við eiga von á útskýringu á því að við höfum árum saman trúað því að engill drottins boðaði okkur á jólanótt að einungis þeir sem guð hefði velþóknun á mættu vænta friðar, en nú biður þessi sami engill okkur friðar og velþóknunar án þess að friðurinn sé rökleg afleiðing velþóknunarinnar?

e) Og svo mega kirkjunnar menn aðeins íhuga hvernig það kemur heim og saman að í vandlegan lestur heilagrar ritningar megi sækja visku og andlegan styrk, og að á sama tíma megi athugasemdalaust umorða jafnvel þekktustu og merkingarbærustu kafla hennar þannig að merking þeirra snúist á haus. Og hvort hægt sé að sækja siðferðilegt kennivald til fólks sem þannig kemur fram við þau verðmæti sem þau sjálf telja dýrmætust.

mánudagur, desember 24, 2007

Gleðileg Jól

Jólakort feministafélagsins virðast hafa farið fyrir brjóstið á fólki, aðallega þetta með óskinni um að karlar hætti að nauðga. Og eins og venjulega þegar þessi tiltekni baráttuhópur á í hlut þá virðist kurteisin oft rjúka í vindinn áður en menn svara, og það sem er verra: rökvísin.

Þessvegna er rétt að jólakveðja Varríusar sé svohljóðandi, og áhugasamir beri hana saman við hina umdeildu ósk um að nauðgunum linni:

Varríus óskar þess að spánverjar hætti að stunda nautaat.

Gleðileg jól og takk fyrir athyglina og gagnvirknina á árinu.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Paraffin

Fór í leiðangur í dag. Samskeytin á fagottinu mínu eru ekki korklögð heldur vafin þræði og því dugir feiti skammt til að liðka fyrir samsetningu heldur þarf vax. Manúallinn segir líka að það dugi ekki hvaða hroði sem er heldur skuli nota paraffínvax.

Þar sem ég sit og reyni að rifja upp lífrænu efnafræðina úr menntaskóla þá náttúrulega man ég að bekkjarsystir mín ein er einn helsti vaxsérfræðingur þjóðarinnar. Svo ég hringi. Og skömmu síðar erum við Hulda kominn ofan í kjallara á Seltjarnarnesinu, í höfuðstöðvar Vaxandi þar sem Helga Björg hannar og steypir hin fegurstu og forgengilegustu verk.

Ég fæ bút af hreinu paraffínvaxi, við kaupum svolítið af kertum í gjafir og okkur til yndisauka á aðventu og fáum í kaupbæti svolítið af fréttum af týndum sambekkingum úr menntó. Skemmtileg heimsókn til skemmtilegrar og sjaldséðrar vinkonu. Og innsýn í kima sem maður veit ekkert um. En allavega, ef ykkur vantar kerti þá er Vaxandi staðurinn.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Jólagjöf hálfvitans

Að sjálfsögðu er vandaður og þokkafullur geisladiskur Ljótu hálfvitanna hin ákjósanlegasta jólagjöf fyrir alla sem unna fagurri tónlist, íslenskri ljóðlist og afleitum óbóleik.

Af því tilefni vill Varríus geta þess að skv. áreiðanlegum heimildum er diskurinn til í Skífubúðunum, í Hagkaupum, hjá MAX og mögulega í bókabúðum Pennans-Eymundsson.

Einn, tveir og þrír!

mánudagur, desember 17, 2007

Gildin

Eina von okkar um hvít jól að þessu sinni virðist vera fjaðrafokið í kringum orðalagsbreytingu í lögum um skólanna.

Þar á víst að fella út orðin: "kristilegt siðgæði" og setja í þeirra stað upptalningu siðferðisgilda: Umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Sem sérlegur áhugamaður um orð þá langar Varríus að velta þessu aðeins fyrir sér í nokkrum ótengdum vangaveltum.

Það virðist vera skilningur allra sem um fjalla að þarna sé verið að tala um hvaða siðferðisgildi skuli "kennd" í skólunum. Orðalagið á greininni vísar nú ekki í þá átt, því þar segir að: "Stafshættir mótist af" viðkomandi gildum. Hljómar nánast eins og þetta séu nk. siðareglur fyrir kennara í umgengni við börnin og hverja aðra. Ef hinn almenni skilningur er réttur þá ætti kannski að standa þarna "Leitast skuli við að innprenta" kristilegt siðgæði/umburðarlyndi etc.

Ekki hef ég rekist á í málflutningi verjenda kristilegs siðgæðis neina aðfinnslu við upptalninguna nýju. Enda erfitt að sjá hvað í henni samræmist ekki kristilegu siðgæði og hvað vanti í hana til að hún hafi sömu þýðingu. Gullna reglan og kærleiksboðorðið eru vissulega fegurri setningar en romsan hennar Þorgerðar, en "umburðarlyndi, umhyggja" og "virðing fyrir manngildi" fara nú langt með að gera sama gagn er það ekki? Og viðkunnalegri sem lagatexti.

Að manni læðist sá grunur að kirkjunni þyki þægilegra að henni sé falið að stýra því hvers konar siðgæði skuli móta starfshættina, frekar en það sé gert öllum ljóst með tíundun gildanna. Ágætur prestur orðar þessar áhyggjur eiginlega í prýðilegri ritgerð þar sem hann virðist telja að með nýju lögunum sé hverjum og einum í sjálfsvald sett að skilgreina t.d. umburðarlyndi eftir sínu höfði, og þykir það hin versta afstæðishyggja sem vonlegt er. Virðist sumsé telja að ef kirkjan ræður ekki hvað orðið merkir þá sé það merkingarlaust. Alveg er ég viss um að hliðstæð rök hafi verið færð gegn því á sínum tíma að þýða biblíuna yfir á tungu almennings og orðið þar með "gefið frjálst" hverjum og einum til útleggingar.

Tilfellið er auðvitað að það er partur af því að læra að skilja hugtökin að beita þeim í samskiptum við fólk. Og mörgum þykir hreint ekki augljóst að sækja siðferðilegt kennivald til lúterskra presta. Jafnvel ómögulegt.

Við fyrstu sýn er nýi gildalistinn hin ágætasta smíð. Og það er skiljanleg að hávaðinn í umræðunni og fjaðraskaflarnir skuli hafa kaffært allar vangaveltur um hvort hann eigi að vera akkúrat svona. Sem hlýtur að skipta meira máli. Það má til dæmis velta því upp hvort listinn sé of "mjúkur", hvort á hann vanti gildi á borð við "hugrekki", "staðfestu", "heilindi". Getur verið að gildin séu þrátt fyrir allt ennþá of kristin, og í þau vanti hinn eldri menningararf okkar, manngildishugsjón heiðninnar.

Ef við trúum því að það skipti máli hvað stendur í þessari lagagrein, og það muni móta siðferðisvitund næstu kynslóða þá þykir mér brýnna að velta fyrir mér innihaldinu en því hver er skrifaður fyrir viskunni, Kristur eða Þorgerður Katrín og hennar ráðgjafar.

föstudagur, desember 14, 2007

Að pissa saltpækli

Nú hyllir undir að þéttsettu hálfvita- og menningarprógrammi haustsins ljúki og nokkrir dagar gefist í jólastúss, reyndar meðfram vinnu og ritstörfum. En það er nú bara venjulegt.

Sönghópurinn Hjárómur tók þátt í jólaskemmtun Hugleiks og gekk bara vel, sungum m.a. nýtt lag eftir Helgu Ragnarsdóttur við texta bróður hennar um ömurðina við að vera í kór. Fyndið og flott og tilvalið sem encore-lag fyrir þá kóra sem taka sig ekki þeim mun hátíðlegar.

Hálfvitar hafa að vanda verið út um allt, nú síðast að spila undir jólatrésskemmtun Stundarinnar okkar sem verður sýnd um jólin að hefðbundnum hætti. Í kvöld líkur svo hálfvitaárinu með einkasamkvæmi fyrir stórt og mikið verktakafyrirtæki. Erum á kafi í pólskunámi.

Og talandi um stundina: út er kominn diskur með lögunum úr Stundinni frá í fyrra. Undarlegt hús heitir hann og er skyldueign. Gríðarlega skemmtileg lög, sniðugir textar og frábærar útsetningar hljómsveitarinnar Börn síns tíma (Baldur, Gben, Loftur og Jón Geir).

Um daginn brugðu Hálfvitar sér svo í hljóðver og tóku upp jólalag eitt íðilhresst, og stígur þar fram sem hálfvitatónskáld Oddur Bjarni. Lagið heitir Afslöppuð jól og fjallar um frumlega leið til að vinda ofan af jólastressinu og komast í verndað umhverfi yfir hátíðarnar. Lagið má sækja hingað.

Jólalagakeppni Rásar 2 stendur nú sem hæst og vill tónlistardeild Varríusar vekja sérstaka athygli á tveimur lögum. Annarsvegar hinni hugsúru nostalgíuballöðu Túpílaka, Bernskunnar jól, þar sem eftirlætisjólalagsljóðlína Varríusar kemur fyrir í lok viðlags, og hinsvegar Heill þér Jesú massívum progg-ópus Hraunverja, en aðdáendur framsóknarrokks hafa löngum átt erfitt með að finna jólatónlist við sitt hæfi. Mig grunar reyndar að ég syngi bakraddir í lagi Hrauns, en vil samt endilega að lesendur geri upp hug sinn varðandi lögin og stjórnist af eigin sannfæringu og smekk.

Hlustunar- og kjörklefinn er hér.

föstudagur, desember 07, 2007

Hálfvitar á NÖSU í kvöld!

Varríus hvetur tónlistarunnendur, textamerði og aðra fagurkera og gleðipinna til að bregða sér í betri gallann og mæta á NASA í kvöld kl.21. Ljótu Hálfvitarnir og Hvanndalsbræður munu sjá um að skemmta fólki eins og mest þeir mega, sem er töluvert.

Þeir sem ekki eiga heimangegnt geta setið við viðtækin og hlýtt á herlegheitin á Rás 2 frá kl. 22.

En ekkert kemur í staðinn fyrir að vera á staðnum og sjá þessi þokkafullu bönd í eigin persónu. Allir á Austurvöll og svo fyrstu dyr til hægri (séð frá þinghúsinu)!

miðvikudagur, desember 05, 2007

Eilífðarsmáblómabeð

Gummi Erlings vekur máls á þjóðsöngvamálum á bloggi sínu. Enda Guðvorslansinn enn kominn í umræðuna.

Nú er víst búið að tónflytja hann og gefa út versjón sem hentar mezzósóprönum. Áfram sennilega of hár fyrir baritóna eins og mig og "Strákana okkar". En óneitanlega hjákátlegt að það þurfi opinbera aðila og áratuga japl til að gefa góðfúslegt leyfi fyrir jafn sjálfsögðum hlut og transpósi. Sennilega í fyrsta sinn í veraldarsögunni sem tónflutningur verður frétt.

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig að við Íslendingar, sem stærum okkur (með nokkrum rétti) af því hvað þjóðfélagið er óformlegt og laust við stífleika, lítið um titlatog, engar þéringar, bukt og beigingar, skulum ganga lengst allra í að banna eðlilegan umgang við tákn og andlegar sameignir okkar. Engu má hnika í Þjóðsöngnum, fáninn er heilagur, helgidagar kirkjunnar lögvarðir fyrir fólki sem mögulega getur ekki tekið þá til sín og vill halda áfram bolloki sínu.

Og svo er hitt, sem Vantrúarmenn hafa nú aftur vakið máls á: Að ljóð Matthíasar Joch. er ekki beinlínis sameinandi núna á þessum fjölmenningartímum. Og þó við létum það nú eiga sig þá hefur lengi verið nokkuð ljóst að kvæðið fjallar strangt tekið ekki um ... Ísland.

Þetta hafa fleiri bent á. Frábær er ritgerð Guðmundar Andra Thorssonar sem birtist t.d. í greinasafninu hans, Ég vildi að ég kynni að dansa. Þar rekur hann kost og löst á lagi Sveinbjarnar og ljóði Matta og tilgreinir nokkur lög sem nefnd hafa verið og kaupir ekkert þeirra alveg. Það er líklega til marks um tíðarandann að ekki veit ég til að Andra hafi verið hótað líkamsmeiðslum fyrir að hafna Land míns föður á þeirri forsendu að óviðeigandi væri að nefna bara föðurinn. Lengi var ég á því að röksemdir hans gegn Hver á sér fegra föðurland væru léttvægar og það best til þjóðsöngs fallið. Finnst það enn koma til greina, þó ekki sé það líklegt til að berja lötum og áhugalausum fótboltastjörnum baráttuanda í brjóst.

Sjálfur stingur Andri upp á ljóði eftir Jónas Hallgrímsson sem er svona:

Þið þekkið fold með blíðri brá
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.
Aldeilis glæsilegt ljóð, þó vantrúarmenn setji kannski spurningarmerki við cameo-innkomu Jahves í lokin. Tvö lög ku vera við kvæðið, eitt eftir Helga Helgason trésmið og annað eftir Atla Heimi Sveinsson. Hef heyrt það síðarnefnda, sem er snoturt en klárlega ekki þjóðsöngur.

Mér finnst tvennt vænlegast:

Að yrkja nýtt kvæði við Guðvorslansinn sem heldur sig betur við efnið. Lagið finnst mér nefnilega frábært og það er mikið kikk að syngja það (eða allavega bassann, lög heimila ekki að ég reyni við melódíuna).

Hagmæltir lesendur Varríusar mega gjarnan spreyta sig á nýju ljóði í kommentakerfinu ef þeir nenna.

Og ef á að skipta alveg út þá veit ég um rétta lagið, og ljóðið:
Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta, þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tíminn margra spor,
þá man og elskar kynslóð vor
sitt fagra föðurland, sitt föðurland.

Við tölum íslenskt tungumál.
Við tignum guð og landsins sál
og fornan ættaróð.
Þeir gjalda best sinn gamla arf,
sem glaðir vinna þrotlaust starf
til vaxtar vorri þjóð, til vaxtar þjóð.

Á meðan sól að morgni rís
og máni silfrar jökulís
og drengskapur er dyggð
skal fólkið rækta föðurtún
og fáninn blakta efst við hún
um alla Íslands byggð, Íslands byggð.
Davíð Stefánsson
Reyndar bæði "Guð" og "Faðir" í ljóðinu, en kostir þess vega það svo sannarlega upp. Göfugar hugsjónir, eldheit ást á landi og þjóð, nett remba.

Og lagið kórónar það. Úr Háskólakantötu eftir Pál Ísólfsson. Fallegt, hátíðlegt og kraftmikið. Ætti að virka eins og æðiber í afturendan á jafnvel latasta framherja.

sunnudagur, desember 02, 2007

Magg

Þetta voru maggnaðir tónleikar! Og það er líka maggnað að Hraun séu komnir í topp 20 í The next big thing hjá bíbísí. Og það með lag með íslenskum texta.

Og svo verðum við hálfvitar á NASA á föstudaginn með Hvanndalsbræðrum. Það verður maggnað. Miðasala hér.