þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Skápaeinstaklingur talar

Við spilum. Gestir hlusta. Það ber árangur.

Bloggþurrðin orðin nógu löng í bili. Veit svosum ekkert hvort mér text að halda mig við efnið af einhverju viti. Tökum einn dag í einu.

Brjálað að gera. Var að byrja í nýrri vinnu fyrir nokkrum dögum og er að læra á takkana. Gaman en krefjandi. Eða kannski gaman og krefjandi. Gaman af því það er krefjandi.

Verst að allt hitt sem ég er að gera er líka gaman og krefjandi. Eða öllu heldur: Best að allt hitt sem ég er að gera er líka gaman og krefjandi. Ég er semsagt ekki að kvarta.

Ólíkt Magna Ásgeirssyni, sem skælir svolítið í Mogganum yfir óréttlæti heimsins. Honum þykir eins og lýðhylli hans eigi að endurspeglast í blaðagagnrýninni. Mér finnst hann ætti að njóta lýðhyllinnar og láta vera að ergja sig út í skríbentana nema þeir hafi ekki vandað sig. Og alveg óþarfi að kasta skít í Tom Waits og aðdáendur hans.

Öllum finnst sinn tónlistarsmekkur vera bestur. Þó ekki væri. Algildur mælikvarði er ekki til. Það getur vel verið að aðdáendur Tom Waits eigi það til að tala eins og handhafar sannleikans. Og sem einn slíkur þá verð ég að viðurkenna að ég á erfitt að trúa því að til sé fólk sem ekki getur notið þess besta sem frá honum hefur komið á löngum og fjölbreyttum ferli.

En það er víst þannig. Ekki minni menn (pun intended) en Dr. Gunni og Egill Helgason nota orð Magna um "skápaeinstaklinga sem hlusta á Tom Waits" sem tilefni til að lýsa því yfir að þeim þyki kallinn líka leiðinlegur. Nákvæmlega af hverju þeim þykir mikilvægt að deila þessu með okkur verður hver að ráða í sjálfur.

Hljómsveitin spilar og spilar. Verðum á Ljósanótt í Keflavík á laugardagskvöldið og síðan á NASA á fimmtudaginn í næstu viku með Hvanndalsbræðrum. Fyrsta stóra giggið í Reykjavík í langan tíma. Ekki til að missa af. Allir út úr skápunum!

sunnudagur, ágúst 19, 2007

Egils sterkur

Fór í gær á Mr. Skallagrímsson. Það stóð nú bara alveg undir umtalsverðum væntingum. Benedikt Erlingsson er algerlega dásamlegur performer og hefur þvílíkt vald á því sem hann er að gera að útúrdúrarnir virka einungis eins og brimöldur á flinkan brimbrettamann. Samlíðan og krítísk afstaða til viðfangsefnisins mynda órofa, mannlega heild og útkoman verður einstök, þrívíð mynd af viðfangsefninu.

Ástarjátning til meingallaðs manns, flutt af orðhagasta sjarmatrölli íslensks leikhúss. Tíðarandi víkingatímans í spegli nútímans, þannig að fáránleikinn og mennskan fléttast saman. Virkar auðvelt, er drulluerfitt, mætir manni sem ómótstæðileg skemmtun með ydduðum kjarna.

Ekki missa af.

sunnudagur, ágúst 05, 2007

Skilgreining

Systir mín heyrði eftirfarandi samtal í heita pottinum á Egilsstöðum. Þar voru tveir innfæddir að fræða nýbúa um íslenska þjóðhætti:
Innfæddir: What are you doing this weekend?

Nýbúi: I don't know.

Innfæddir: It is the most weekend in Iceland. It's frí on monday.
Betri skilgreining á Verslunarmannahelgi er vandfundin, ef ekki gersamlega óþörf.