mánudagur, febrúar 27, 2006

Fílgúdd

Stundum er lífið eins og vond Dissneimynd. Það verður bara að hafa það.

Og stundum fá menn að bragða á eigin fordómum. Það er beiskt, en hollt.

Út í buskann

Fór á Öskubusku í gærkveldi. Hef lengi haft þá skoðun að mér þætti Rossini skemmtilegur. Það reyndist vera rangt. Mússíkin er snotur á algerlega óeftirminnilegan hátt, söngflúrið yfirgengilegt og einhver köld gerfimennska einkennir allt saman. Svolítið merkilegt að heyra tónlist standa í vegi fyrir tilfinningatúlkun fremur en að styðja hana og dýpka. Merkilegt, en ekki að sama skapi ánægjulegt.

Svo er verkið alveg ótrúlega ódramatískt, klaufalega uppbyggt og laaaaangdregið.

Leikstjórnarvinnan eins og alltof oft í óperunni fyrir neðan allar hellur. Einna helst að það væri réttur fílingur í kórnum, nett trúðskt attitjúd þar. Bergþór líka á réttri línu í sínu sprelli, þó hann tefli á köflum á tæpasta vað í senustuldi.

En af hverju var grunnhuxunin í sýningunni eins og þetta væri raunsæisleikrit? Af hverju var köflum sem klárlega er ætlað að beinast að áhorfendum undantekningalaust beint að öðrum persónum á sviðinu? Til dæmis þegar prinsinn og Öskubuska hittast fyrst og syngja svo langan dúett um líðan sína. Af hverju beindu þau þeim orðum hvort til annars þegar þau eru að syngja um hvort annað? Það var klárlega miðlægt í túlkun leikstjórans að rjúfa ekki fjórða vegginn - tók á sig súrrelískar myndir á köflum eins og þegar Öskubuska situr ein á sviðinu og syngur, og snýr hálfpartinn baki í okkur og syngur út í loftið.

Fyrir minn hatt ber þetta vott um grundvallarmisskilning á hvernig svona verki verður best skilað til áhorfenda. Og ég hef rétt fyrir mér.

En það voru líka alvarlegar brotalamir í persónuleikstjórninni.

Af hverju var Sesselju ekki bent á að það hjálpar ekki framvindunni eða spennunni í verkinu að leika status 10 á móti systrum sínum og stjúpa? Og hversvegna var restinni af leikurunum ekki bent á að þó prinsinn sé vissulega alþýðlegur gaur þá hefur HANN status 10? Hvað ætli hafi farið mikið fynd forgörðum af því að ekkert er gert með það að þjónn prinsins leikur prinsinn allan fyrri hlutann, en er svo aftur orðinn þjónn?

Hversvegna var aldrei eins og nein persónan væri að hlusta á hinar?

Af hverju var enginn samleikur (nema hjá kórnum)?

Og svo náttúrulega þessi klassíska aðfinnsla:

AF HVERJU í A....OTANUM ER VERIÐ AÐ LEIKA Á ÍTÖLSKU!!!!?

föstudagur, febrúar 24, 2006

Föstudaxmix

Fyrst ein frétt:
Ljótu hálfvitarnir spiluðu fyrir harðan kjarna velunnara og (mögulega) nokkra óinnmúraða í Iðnó í gærkveldi. Það gekk ágætlega held ég. Að vanda eru ýmis áform um frekari spilamennsku og jafnvel æfingar sem vafalaust munu renna út í sandinn. Það er vaninn.

Svo nokkur plögg.

Eðalhljómsveitin Hraun! verður í beinni á Rás 2 kl. 15.00.

Í kvöld mun Varríus stympast í Hafnarhúsinu í fríðum flokki sem er að einhverju leyti gamla Sláttuvélin, með umtalsverðum mannabreytingum þó.

Svo virðist sem Klaufar og Kóngsdætur sé að renna sitt skeið í Þjóðleikhúsinu. Reikna með að megnið af lesendum Varríusar hafi þegar séð sýninguna, en ef einhver á það eftir þá er um að gera að missa ekki af henni. Drullugóð þó ég segi sjálfur frá, og fólk þarf ekkert að vera börn til að finnast það.

Varríus virðist vera áhrifaríkur plöggmiðill. Fyrir nokkru hélt hann á lofti ýmsum aðilum sem mér þóttu öðrum maklegri til að hljóta tónlistarverðlaun X-FM. Niðurstöður voru kunngjörðar í gærkveldi og hlutu Ampop tvo prísa og rokk.is einn.

Tilviljun? Síst!

Og að lokum tuð.

Hef öðruhverju í vikunni fengið fiðring í ranttaugina út af tveimur málum málanna, "Stóra Teiknimyndamálinu" og "Merkingarstríðinu um Hjónabandið". En enginn tími í svoleiðis.

Svo þá er bara að "Átsorsa".

Um hörundssárindi Múslima og óþverraskap Jóta er margt skrafað. Ekkert sérstakt markvert þannig, en á stefnulausu flakki um þá umræðu raxt Varríus ti dæmis á eitt bráðfyndið blogg sem virðist vera eftir brottfluttan Sáda sem hefur ýmislegt við sitt föðurland að athuga. Herrar mínir og frúr: Trúarbragðalöggan!

Hvað hitt málið varðar skal þess getið að Mörður heitir maður og skrifar af skynsamlegu viti um margt. Til dæmis um rökleysur helstu guðfræðikappa og það sem sumum málvinum Varríusar finnst vera höfuðatriðið: merkingu orðsins "hjónaband"

Rökvís og Málvís er Mörður.

Og svo góða helgi.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Samhengi hlutanna

Tvær fyrirsagnir á Vísipúnkti is:

"Engin ólga á Íslandi vegna skopteikninga af Múhameð spámanni"

"Höfuð forsætisráðherra notað í áróðursskyni"

Síðari fréttin um auglýsingu í bresku blaði þar sem Hr. Ásgrímsson er fótósjoppaður inn á mynd af kjötiðnaðarmanni með hvalkjöt á diski.

Vona að starfsmenn breska sendiráðsins séu á útkíkki eftir öfgasinnuðum framsóknarmönnum með mólótóvkokkteila.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Klukkaður

Fékk klukk úr tveimur áttum, frá Gumma og Gunnari Ben. Hér er afraksturinn:

Fjórar vinnur sem ég hef unnið um ævina
Rækjupillari
Námstæknikennari
Kolaportsbókamarkaðsmörður
Húseiningasamanlímari

Fjórar bækur sem ég gæti lesið aftur og aftur
Grapes of Wrath
Year of the King
The Empty Space
Góði dátinn Svejk

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur
Shakespeare in Love
The Fisher King
A Private Function
Mary Poppins

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég reyni að missa ekki af
Engir - ég horfi (of) mikið á sjónvarp en er ekki háður neinum sjónvarpsþáttum. Enda er ég oftast upptekinn á kvöldin og kann ekki að tímastilla vídeóið.

Fjórir staðir sem ég hef búið á
Siglufjörður
Húsavík
Akureyri
Reykjavík

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
Siglufjörður
Húsavík
Akureyri
Reykjavík

Fjórar síður sem ég skoða daglega
Baggalútur
Arseblog
Guardian
Leiklist

(og svo náttúrulega góður slatti af bloggum)

Fjórir veitingastaðir sem ég held uppá
Svarti svanurinn í Reykjavík
Pret A Manger í London
Lokys í Vilnius
Old Hansa í Tallin

Fernt matarkyns sem ég held uppá
Jórdönsk spínatbaka
Íslensk kjötsúpa
Sushi
Hráar kartöflur

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna
Heima hjá mér
Á leikæfingu
Á kóræfingu
Í París

Fjórir hlutir sem ég hlakka til
Hætta að vera formaður Hugleiks
Fara til Rússlands
Syngja Requiem Mozarts
Klára Biblíuna

Fjórir bloggarar sem ég klukka
Sigga Lára
Hjalti
Ylfa
Björn M.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Þegar Nóttin kemur

Auðvitað massaði Silvía Nótt þetta. Varríus óskar Ágústu Evu til hamingju með farseðilinn til Grikklands og veit að Silvía og fylgisveinar hennar munu virka eins og umskiptingar í vöggu vestrænnar menningar. Töff töff töff.

Spjallrásir á Júróvisjónvefjum hafa ýmislegt um úrslitin að segja. T.d.
þetta og þetta.

Síðan verður Silvíu að sjálfsögðu falið að stjórna íslenska Handboltalandsliðinu. Og stilla til friðar í Miðausturlöndum. Og leika Móður Teresu í stórri Hollívúddmynd.

Meira að segja Shakespeare er aðdáandi:
Who is Silvia? what is she,
That all our swains commend her?
Holy, fair and wise is she;
The heaven such grace did lend her,
That she might admired be.

Is she kind as she is fair?
For beauty lives with kindness.
Love doth to her eyes repair,
To help him of his blindness,
And, being help'd, inhabits there.

Then to Silvia let us sing,
That Silvia is excelling;
She excels each mortal thing
Upon the dull earth dwelling:
To her let us garlands bring.

Two Gentlemen of Verona IV. 2
Það eru engin takmörk.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Íslandsvinir

Raxt á grein um leikhús í Litháen í bresku vefriti. Þar er í aðalhlutverki Rimas nokkur Tuminas, og kostur og löstur sagður á tveimur sýningum eftir hann. Lýsingin á nýrri uppfærslu á Þremur systrum hringir vissulega bjöllum hjá mér, enda alltaf fremur hófstilltur aðdáandi kallsins.

Hitt þykir mér merkilegra að lesa að þriðja sýninginn sem greinarhöfundur sá var uppfærsla í leikhúsi Rimasar á Konunni í sandöldunum en leikstjóri þeirrar sýningar er engin önnur en hugleiksvinurinn, leikhúsnornin og skaðræðiskvendið Laima Adomaitiene. Fyrir þá sem ekki vita þá er Laima þessi leiðtogi litháísks áhugaleikfélags sem Aglija heitir og eru einhver flottasti físíski leikhópur í heiminum (það ég hef séð). Þó hefur hrifningarslefið yfir sýningunum þeirra ævinlega heldur látið á sér standa hjá mér sakir þess að þær eru einatt dálítið "kaldar", vélrænar og óræðar þó virtúósískt vald Læmu og hennar fólks á máli leikhússins sé ótvírætt.

Það kom mér því heldur ekki á óvart að lesa þessar línur:
the end product, while undoubtedly beautiful to watch, remained as barren as the dunes.

En áhugafólk um leikhús í Litháen ætti endilega að lesa greinina alla.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Ósköp frjálst

Í Singapúr ertu dæmdur til dauða fyrir að eiga ögn af hassi, háar sektir fyrir að hrækja á almannafæri og karlmenn með hár niður fyrir skyrtukraga eru afgreiddir síðastir hjá opinberum stofnunum.

Samt ku vera til mælikvarði þar sem Singapúr er næstfrjálsasta land í heimi. Á eftir Hong Kong, sem er stjórnað af Kínverjum.

Viðskiptablaðinu þykir þetta merkilegur mælikvarði.

Ekki mér.

Samkvæmt öðrum frelsismælikvarða eru púrarnir í sæti 140 af 167.

Sennilega er samt eini mælikvarðinn sem máli skiptir hvort þú myndir vilja búa þar.

Ekki ég.

Og að allt öðru: Varríus fer til Akureyrar á morgun að sjá Maríubjölluna og hlakkar til. Aðstandendur sýningarinnar blogga hér og kostulega grein um hinn afar rússneska höfund verksins getur að líta hér.

Fyrir áhugafólk um leiklistarsögu þá er þetta bæði fróðleg og frábærlega skemmtileg skyndimynd af víðfrægum amerískum pródúsent, Joe Papp.

Og Ármann Jakobsson færir okkur fregnir af andláti Andreasar Katsulas. Bíófólk þekkir hann best úr The Fugitive en leikhúsfólk rifjar heldur upp að Katsulas var einn af lykilmönnum í upphaflega alþjóðlega leikhópnum hans Peters Brook, og lék m.a. Bubba Kóng í rómaðri uppfærslu.

Örlítið neðar á síðu Ármanns er hnittin vísa um skotfimi Dicks Chaney. Meira skop um veiðiferð Chaneys er að finna í Gvendarbrunni.

Helstu heimkynni kveðskaparins eru hinsvegar sem fyrr hjá Bibba.

Þeir sem ekki nenna að yrkja geta fengið aðstoð hér og hér.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Lúnítún

Teiknimyndir hafa alveg tekið yfir. Og til að allir skoði nú örugglega þessa gargsnilld þá skal tekið fram að hvorki Kristur né Múhameð koma við sögu.

Þökk sé meistara Guðjóni fyrir að senda mér krækjuna frá Svisslandi.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Tveir vinir

Þessir skopteiknarar kunna hvorki að skammast sín né hvað þeim er fyrir bestu. Allavega á ég bátt með að trúa að höfundur þessarar syrpu eigi von á góðu. Best að klikka á "first comic" og skoða alla seríuna í réttri röð.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Til alls fyrst

Kommendur mínar hefur sett hljóðar við spurningar um orð ársins. Fyrir utan Ylfu sem vekur athygli á hinu dágóða Vestmanneysk-Svarfdælska orði "Umhverfisblindur". Það er orð að sönnu, en kannski ekki alfarið nýtt.

Þannig að Varríus ríður hér með á vaðið:

Orð ársins

Ruðningsáhrif
Eitt af þessum ógeðslegu orðum sem fela ljótan sannleika í stað þess að vera tæki til að segja hann. Orðið vísar til þeirra afleiðinga stóriðjustefnunnar að fæla úr landi allan annan úflutningsiðnað, bæði hátækni- þekkingar- og matvæla-. Eitthvað sem enginn hinna stríðöldu ráðgjafa stjórnvalda sá fyrir.

Orðið fær aukaverðlaun fyrir að vera bestu skrauthvörfin.

Önnur sem til greina komu: Hnakkamella, legsúrnun


Snjallasta þýðingin

Kremfress
sem er íslenskun á orðinu "Metrosexual". Ef guð gefur þá verður þetta samt ekki langlíft.

Annað sem til greina kemur: Smákrá (minibar)


Gagnlegasta orðið

blgkqs (dæmi)
Hér sigrar ekkert eitt orð, heldur fær hið nýja tungumál Bloggers verðlaunin, fyrir að vera eitursnjöll lausn til að halda burtu óæskilegum ruslkommentum. Og svo eru þau þrungin merkingu, eins og kommendur hafa sýnt frammá. Þetta mun lifa.


Ónauðsynlegasta nýyrðið

Einingarband (dæmi)
Hér er heldur ekkert eitt orð sem sigrar, auk þess sem þetta tilheyrir eiginlega þessu ári, en fokkitt, það verða allir búnir að gleyma þessu um næstu áramót.
Hér er sumsé átt við tilraunir til að finna orð yfir hjónabönd samkynja fólks. Væntanlega til að forða hinu fornhelga hjónabandi frá þeim illræmdu sorphaugum biskups og þeirri fýlu, sjónmengun og meindýrum sem þar þrífast.


Skemmtilegasta skammaryrðið

Hlandfata
Sennilega ekki nýyrði, en stóraukin kynni Varríusar af ákveðnum menningarkima leiddi þetta orð inn í minn forða.


En þetta er einungis álit Varríusar og þarf í engu að endurspegla val þjóðarinnar. Tjáið ykkur fyrir alla muni, •••••föturnar ykkar!

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Orð, orð, orð

Vefritið Múrinn vekur athygli á nýkjörnu orði ársins hjá Hinu Ameríska Mállýskufélagi. Orðið er Truthiness sem Múrverjar þýða snarlega og hnittilega sem Sannileikur, og vísar til þess eiginleika að trúa (eða halda fram) því sem maður vill að sé satt í stað hins sem er vitað að er það.

Þetta er frábært orð og afar nauðsynlegt til að lýsa hugarheimi margra - ekki síst stjórnmálamanna og alls ekki síst amerískra valdsmanna nú um stundir.

En Mállýskufélagið veitir verðlaun í fleiri flokkum. Hér er hægt að sækja lista yfir alla verðlaunahafana og þá sem komust næst því líka. Svo er þarna skrá um verðlaunahafa fyrri ára. Það ætti t.d. hvorki að koma höfundum Víruss né öðrum á óvart hvað var orð ársins 1999.

Skemmtileg leið fyrir orðhengla til að rifja upp tíðaranda og tíðindi fyrri ára.

Og þá vaknar spurningin:

Hvað er orð ársins 2005 á Íslandi?

Hvaða orð er líklegast til að lifa áfram?

Hvað var ónauðsynlegasta nýyrðið?

Í hvaða orði fólust mestu skrauthvörfin?

Orðið er laust!

Meira en þúsund orð

Hótaðu skopteiknara dauða og djöfli og þú kallar yfir þig reiði... allra hinna skopteiknaranna.

Hér má sjá gott safn af skopmyndagreining ástandsins. Sumt harla fyndið.

Samtök sem kalla sig Arab European League hafa ákveðið að taka varðmenn tjáningarfrelsisins á orðinu og keppast nú við að slátra því sem þau telja vera heilagar vestrænar kýr. Ekki fyrir viðkvæma - en er ekki þjóðernisleg skylda okkar vesturlandabúa að sjokkerast aldrei yfir gríni?

Og svo virðist sem dönsku myndirnar hafi birst í egypsku blaði í október í fyrra án þess að það yrði að milliríkjadeilu.

Sendiherra Hugleiks í Danmörku er með þetta ágæta yfirlit um málið frá Lókalsjónarhóli.

Og talandi um Danmörku: Það á ekki af þeim að ganga, ef marka má forsíðu "hins nýja og betra" DV í dag. Gott að kynferðisofbeldi gegn varðmönnum drottningar er líka komið á dagskrá hinna fræknu varðhunda siðgæðisins.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Plögg

Hinn merka menningarstofnun, útvarpsstöðin Exið, veitir árleg tónlistarverðlaun sín bráðlega. Þessvegna er umaðgera að drífa sig á síðuna þeirra og greiða atkvæði um hitt og annað.

Af allskyns vináttu- og skyldleikaástæðum mælir Varríus með að fólk tilnefni Rokk púnkt is vefsíðu ársins, Benny Crespos Gang nýliða ársins og Ampop hvar sem því verður við komið.

Væntanlega þarf ekki að taka fram að Varríus styður Silvíu Nótt í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur og mælir með að hún sé kosin til allra þeirra trúnaðarstarfa í þágu lands og þjóðar sem hún bíður sig fram í.

Og annaðkvöld fjölmenna allir listunnendur í Þjóðleikhúskjallarann. Það hefur ekki farið hátt, en ætti þó að vera drjúgt aðdráttartæki að þar mun þreyta formlega frumraun sína sem leikari hjá Hugleik bassagítarhetjan knáa hann Loftur!

mánudagur, febrúar 06, 2006

Týndir á heiðinni

Bara ekkert bloggað!

Fór til London. Sá þetta, þetta, þetta, þennan gaur, þessa líka, en þó kannski fyrst og fremst þetta. Mun skrifa pistil í Moggann um skoðunarspil þessi, og verð því í þagnarbindindi hér.

Er á fullu að setja upp lítinn leikþátt eftir tvo ættliði af austfirskum kellingum. Það er gaman. Og er aðeins byrjaður á næsta stórvirki Hugleiks. Ekki síður skemmtilegt það.

Og svo vil ég náttlega sjá ykkur öll í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudaginn. Þar verður fyrrnefndur kellingaþáttur sýndur, og sungið kórverk eftir mig líka. Það gerir nýlega stofnaður og nýnefndur kammerkór, Söngsveitin Hjárómur. Það finnst mér líka gaman.

Eru Jósku ritstjórarnir og skopteiknararnir þeirra ekki svolítið eins og óvenju heimskar og félagslega vanþroskaðar rjúpnaskyttur? Æða af stað vanbúnar og fáfróðar upp á heiðar þar sem óbeisluð náttúruöflin geisa, vitandi að þeim verður bjargað.

Það er nefnilega prinsipp að bjarga fólki, líka hálfvitum sem áttu að vita betur.

Því miður er ekki í boði að velja sér orrustuvöll til varnar tjáningarfrelsinu. Árásir á það eru einatt gerðar í skuggahverfunum. Þess vegna er allt rétt sem Guðmundur Andri segir í Fréttablaðinu í dag. En innræti ritstjóra Jyllandsposten er aukaatriði eins og mál hafa þróast.

Það er nefnilega prinsipp að það má hæðast að skoðunum fólks. Líka trúarskoðunum. Líka ef þeir sem hæðast eru drullusokkar.

Og þetta prinsipp verður að verja. Þó ekki væri nema af þeim eigingjörnu ástæðum að ég vil geta skrifað svona án þess að þurfa að fara í felur.

Prinsippið er einfalt - smáatriðin flókin. Það á ekki síst við um þetta mál. Ef fólk langar í fyllri mynd af stöðu mála mælir Varríus með Juan Cole.

Ef fólk langar frekar í hressilegar ádrepur en upplýsingar þá má t.d. fá soleiðis hjá Christopher Hitchens og Enteri.