þriðjudagur, nóvember 30, 2010

Niðurstaðan

Ég er pínu svekktur yfir að hafa ekki komist inn. Aðallega eftir að ég komst að því hvað ég var nálægt því. Ef ég hefði bara hringt nokkur símtöl í viðbót. Eða einhver annar hefði mögulega ekki hringt sín …

Neinei, þetta fór bara svona. Og ég ætla að leyfa mér að vera enn um sinn bjartsýnn á að þessi einstaka tilraun skili einhverju. Þó hún hefði vissulega verið betri með mig innanborðs. Já mér finnst það, annars hefði ég að sjálfsögðu ekki boðið mig fram!

Reyndar hefur hún nú þegar skilað einhverju. VIð erum farin að tala um grundvallaratriði. Ef grannt er skoðað má vera að hlutur grundvallaratriða og hugmynda hafi örlítið unnið á, á kostnað upphrópana og uppnefna.

Sumir viilja reyndar meina að það hafi verið tilgangur verkefnisins, þeir kalla það "að beina athyglinni frá aðsteðjandi vandamálum" og sé af hinu illa.

En það eru fífl.

Já, ég sagði það, fífl.

Ég þori að segja það núna, því ég er ekki lengur í framboði.

Jibbí!

mánudagur, nóvember 29, 2010

"Hvenær koma þingfréttirnar?"

Móðir mín, Áslaug Þorgeirsdóttir, fæddist þennan dag árið 1940. Hún komst semsagt til vits og ára meðan enn ríkti stríð í heiminum. Og náði að fyllast hryllingi yfir vonsku heimsins og kalla eftir meinlausari tíðindum. Hún ku semsagt hafa sagt undir fréttum af hildarleik heimsstyrjaldarinnar: "hvenær koma þingfréttirnar?"

Ég veit ekki hvort þingfréttir nútímans hefðu verið henni að skapi.

Móðir mín var bókaormur. Hún var handgengin Agötu Christie og hennar slekti til jafns við höfund Njálu og Halldór Laxness. Ég lærði þetta af henni, sem og þann (ó)sið að lesa ánægjulegar bækur aftur og aftur. Frá henni hef ég ástina á Halldóri Laxness og íslenskum fornsögum. Og fátt þykir mér vænna um á bókmenntasviðinu en að hafa kynnt hana fyrir tveimur öndvegismönnum sem seinna urðu partur af stóru eftirlætishöfundasafni hennar: John Irving og Robertson Davies.

Veruleikinn stuðaði mömmu oft. En fá voru þau feikn sem hún ekki þoldi ef þau voru í bókaformi. Ég heyri hana fussa yfir lagaþvælunni í kringum hrunið, en sambærilega steypu úr Njálu gleypti hún með glöðu geði, aftur og aftur. Og ég efast um að hún hefði umborið í lifanda lífi konu á borð við Orögu Lautoro sem hún dáði í bókum Robertson Davies. Sígaunadrottningin sú lætur sig ekki muna um að kreista túrtappa úr dóttur sinni með tesíu út í kaffið hjá virðulegum háskólaprófessor til að dóttirin nái ástum hans. Að þessu hló mamma og dáðist að sígaunakellingunni, en hafði á sama tíma lítið þol gagnvart vélum raunheimsins.

Ég veit ekki um líf eftir dauðann. En ef ég fengi einhverju um svoleiðis ráðið sæti mamma núna á hinu brunna bókasafni Alexandríu og skemmti sér konunglega yfir Óvíð og horfnum leikritum Aristófanesar, þar sem sagt er frá feiknum sem hún hafði ekkert umburðarlyndi gagnvart í raunveruleikanum en naut til hins ítrasta á blaði.

laugardagur, nóvember 27, 2010

Skemmileggjararnir

Nú gengur um netið listi sem ku hafa farið á einhvern Sjálfstæðismannapóstlista. Þar eru tíunduð nöfn sem eiga að vera Flokknum þóknanleg. Mér finnst nú strategían sem bláleit slæðukona lét falla á kosningafundi um daginn ekki síður skemmtileg:

"Já, kýs maður ekki bara vitleysingana?"

Kjósið!

Elsku vinir og lesendur,

Það skiptir öllu að þið kjósið á morgun. Við verðum að grípa þetta tækifæri til að hrista upp í sísteminu. Ekki væri verra ef þið kysuð mig. Númerið er 8969. Ég endurtek 8969.

fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Af hverju ég?

Trú mín óx og er nú slík
því ætla mun ég reyndina
að hálfvitinn frá Húsavík
hækki meðal greindina
Sigurjón Pálsson

Kannski ég geri aðeins grein fyrir því af hverju ég held að ég væri gagnlegri en ekki á stjórnlagaþingi.

Ég lærði heimspeki í háskólanum. Þar er farið í gegnum allskyns teóríur um mannlegt samfélag og siðferði sem gagnast í vinnunni framundan, fyrir utan að vinnubrögðin sem þar eru innleidd eru einmitt góð í svona. Greining, textarýni, gagnrýnin hugsun.

Hvatinn til að fara í heimspekinám, þegar t.d. efnafræði eða endurskoðun væri auðvitað líklegri til efnahagslegs ábata, vitnar um forvitni um hver sé grundvöllur mannlífsins og hvernig best sé að haga samfélagi manna.

Ég hef fengist við texta alla mína starfsævi. Ég hef unnið á auglýsingastofum og með PR-mönnum. Ég hef skrifað leikrit og leiklistargagnrýni. Ég hef samið lög við texta og texta við lög. Glíman við að orða hugsun í knöppu formi er mér eiginleg.

Ég er vanur hópvinnu. Flest mín verk eru samvinnuverkefni. Mér þykir svo sannarlega ekki verra ef samstarfsmennirnir eru ekki allskostar sammála mér.

Ég er félagsmálamaður. þrífst í fundaforminu og hef hæfilega þolinmæði gagnvart nauðsynlegum formlegheitum.

Ég er allsendis hagsmunatengslalaus. Hef t.d.kosið flesta stjórnmálaflokka. Og rík hagsmunasamtök hafa ekki haft samband. Bendi þeim sem vilja gera það á mæðrastyrksnefnd.

mánudagur, nóvember 22, 2010

Um breytingar á stjórnarskrá

Einn mikilvægan lið vantaði í manífestóið frá í gær


8 - Stjórnarskrá

Það þarf að taka þann kaleik af alþingi að sýsla við breytingar á stjórnarskránni. Allavega þarf að kveða á um að hún skuli borin undir þjóðaratkvæði. Og væri kannski klókt, ef vel tekst til núna, að setja ákvæði í stjórnarskrána um að halda skuli sambærileg þing á 20 ára fresti eða svo?

Allavega er núverandí sýstem alveg afleitt. Alþingi er vondur staður til að skoða stjórnarskrá, þar sem stór hluti hennar varðar persónulega hagsmuni þeirra sem þar sitja á nánari og einsleitari hátt en almennt gerist. Dæmi: Að búa til snjallt og sanngjarnt kosningakerfi sem þjónar hagsmunum fólksins og skilar vilja kjósenda inn á þing með eins vafningalausum hætti og unnt er - það ætti að vera markmiðið. Er hægt að ætlast til þess að alþingismenn geti sett sjálfa sig og flokka sína til hliðar og unnið slíkt verk?

Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni, já, og það á að gera sjaldan og varlega. En valdið til þess á ekki að vera í höndum fólks sem var kosið til að vinna allt önnur verk.

sunnudagur, nóvember 21, 2010

Manifesto 8969

Kannski tími til kominn að ég geri grein fyrir hvað ég vil gera á Stjórnlagaþingi. Sumt af því sem ég lista hér á kannske ekki heima í stjórnarskrá. Læt það flakka með engu að síður.

1 - Vald

Það þarf að flytja vald til og frá.

Það þarf að efla löggjafavaldið (alþingi) gagnvart framkvæmdavaldinu. Einhver útfærsla þess að ráðherrar séu ekki þingmenn er held ég vænleg. Hvort betra sé að þeir komi úr röðum þingmanna sem síðan víkja af þingi, eða hvort kjósa skuli þá sérstalega hef ég ekki myndað mér gagnlega skoðun um. Ég er mjög efins um hugmyndir um að forsætisráðherra verði kosinn og hann velji síðan með sér ráðherra.

Það þarf að fela alþingi það hlutverk að kjósa hæstaréttardómara, að undangengnu mati og tillögugerð dómsmálaráðherra. Aukin meirihluta þurfi til.

Það þarf að lengja fyrningarfrest ráðherraábyrgðar. Að láta hann standast á við kjörtímabil sýnir að engin alvara er að baki lögunum.

Ég hallast að því að setja þak á þingsetu. Hef miklar efasemdir um að það sé til góðs að gera lagasetningu að ævistarfi. 3. kjörtímabil (12 ár) held ég að sé hæfilegt hámark. Sennilega með möguleika á að snúa aftur eftir 4 ár. Ekki of ósveigjanlegt semsagt.

Það þarf að gera þjóðaratkvæðagreiðslur að miðlægu tæki í stjórnskipaninni. En það er annar kafli.

2 - Þjóðaratkvæðagreiðslur

Valdið er hjá þjóðinni og ábyrgðin líka. Við erum fámenn, langflest læs og almennt sæmilega upplýst. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við notum beint lýðræði í auknum mæli.

Það á að opna fleiri leiðir en forsetasynjun til að skjóta lögum í dóm þjóðarinnar. T.d. meirihluta alþingis eða tiltekinn hluta atkvæðisbærra manna í marktækum undirskriftarátökum.

Alþingi á að nýta þjóðaratkvæðagreiðslur meira til að skjóta málum (ekki endilega bara lagatillögum) til þjóðarinnar. Hvort slíkt á heima í stjórnarskrá og hvernig svoleiðis lög ættu að líta út veit ég ekki - ennþá.

Sumar þjóðir tilgreina hvaða málum skuli aldrei skotið í þjóðaratkvæði. Ég held að það sé skynsamlegt.

Fljótlega verða rafrænar kosningar raunhæfur valkostur. Þá hverfur ein mótbára úrtölumanna (kostnaðurinn).

3 - Kosningakerfi

Ég tel grundvallaratriði að vægi atkvæða sé það jafnt að munurinn skipti ekki máli. Ég efast um afnám kjördæmaskiptingar (sem fólk þrjóskast við að kalla "landið eitt kjördæmi"). Ég myndi vilja geta kosið persónur óháð listum, en ég óttast milliliðalausa spillinguna sem slíkt kerfi býður upp á. Ég veit ekki hver lausnin er, en markmiðið er skýrt: að vilji kjósenda skili sér óbrenglaður og samsetning þingheims endurspegli hann.

4. Eignarhald á sameiginlegum auðlindum.

Auðvitað á að tryggja þetta og útfæra á skýran hátt svo jafnvel harðsvíruðustu lagatæknar lyppist niður. Verkefnið verður flókið en þörfin er brýn, markmiðið skýrt og niðurstaðan verður að vera einföld.

5 - Trúarbrögð

Ég tel að það beri að fella úr gildi 62. grein stjórnarskrárinnar og hefja vinnu við að slíta óheilbrigt samband ríkisins og þjóðkirkjunnar - sem er hvorugu batteríinu til góðs.

6 - Læsileiki

Það á að vera hægt að kenna stjórnarskrána í 10. bekk. Nemendurnir verða að geta skilið hana og grunnskólakennarar fullfærir um að útskýra hana.

7 - Mannréttindi

Þurfa að gegnsýra allar aðrar greinar, auk þess að vera vandlega og vafningalaust tilgreind. Og hafin til þeirrar virðingar sem þeim ber, í upphafi plaggsins.

Ég er hlynntur yfirlýsingu í stjórnarskrá um að við séum herlaus, lýsum ekki yfir stríði á hendur öðrum, og leyfum ekki gereyðingarvopn á okkar yfirráðasvæði.

það sem ég er óviss um

Forsetaembættið - hvernig á að fara með það er í algerri óvissu eftir valdatíð Ólafs Ragnars. Hvað svo sem manni finnst um beitingu hans á synjunarvaldinu er ljóst að héðan í frá munu forsetakosningar snúast um pólitíska hugmyndafræði frekar en leit að sameiningartákni og "þjóðhöfðingja". Það eru ýmsar leiðir til að vinna úr stöðunni og ég hef ekki myndað mér afgerandi skoðun.

Íslenskan - hvort hún eigi að vera tilgreind sem þjóðtunga í stjórnarskrá finnst mér erfitt að segja til um. Staða hennar er sterk og veik og ég held að þar sem hún er veik komi stjórnarskrárákvæði að litlu gagni. En samt: Við berum ábyrgð á þessu örmáli. Þannig að þetta er ekki þjóðrembumál heldur verndunarmál.

Náttúruvernd - ég veit ekki hvernig eða að hve miklu leyti sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar eiga heima í stjórnarskrá. Játa að ég er ekki á heimavelli þarna.

laugardagur, nóvember 13, 2010

Þrefalt húrra fyrir stjórnlagaþingi!

Ég ætla að leyfa mér að vera rómantíker í aðdraganda Stjórnlagaþings (sem sést á því að ég set stórt ess í orðið).

Þetta er magnað verkefni, og mér finnst magnað að taka þátt í því. Og mér mun finnast það magnað þó ég nái ekki kjöri. Aðeins minna magnað, en magnað engu að síður.

Það er stórbrotið að sjá hversu mikið af flottu fólki er í framboði. Það er eitthvað sérlega magnað við að frá upphafi hafa auglýsingar/peningar verið litin hornauga í baráttunni. Fjölmiðlar hafa ekki fundið út úr því hvernig þeir ætla að gera þessu sanngjörn skil. Já og talandi um það, hversu frábært er að það séu á sjötta hundrað manns í framboði?!

Við erum að reyna að skrifa nýjar leikreglur. Við höfum lengi spilað leikinn vandræðalaust en svo komumst við að því að reglurnar dugðu ekki til að hemja verstu siðblindingjana. Mig grunar reyndar að við munum ekki ná að króa þá af með nýjum leikreglum, en engu að síður er þetta gott tilefni til að átta okkur á hvernig við viljum að leikvöllurinn líti út.

Ég væri ekki að bjóða mig fram ef ég héldi ekki að þingið yrði betra með mig innanborðs en án. En hvernig sem það fer þá stefnir allt í tímamót til hins betra.

mánudagur, nóvember 08, 2010

Númer 8969

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings. Eftirfarandi texta sendi ég með skráningu minni. Ég mun byrja að fylla í þessar eyður og birta fleira máli mínu til stuðnings á næstu dögum:


Mikilvægustu og erfiðustu úrlausnarefni stjórnlagaþings tel ég verða þrjú.

Fyrirkomulag þingkosninga, útfærsla á skilyrðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og eignarhald á sameiginlegum auðlindum.

Mikilvægust vegna þess að þessi mál tengjast beint ástæðum þess að nú er ráðist í þetta verkefni. Erfiðust vegna þess að öllu skiptir að skýrt verði kveðið að orði og svigrúm til túlkunar þröngt þegar vilji þingsins liggur fyrir.

Lífið hefur eflt forvitni mína um mannlegt samfélag. Menntun mín þjálfaði mig í að hugleiða hvað sé réttlátt og farsælt. Starfsreynslan hefur kennt mér að orða hugsanir á skýran og einfaldan hátt.

Ég býð mig fram.