Kannski tími til kominn að ég geri grein fyrir hvað ég vil gera á Stjórnlagaþingi. Sumt af því sem ég lista hér á kannske ekki heima í stjórnarskrá. Læt það flakka með engu að síður.
1 - ValdÞað þarf að flytja vald til og frá.
Það þarf að efla löggjafavaldið (alþingi) gagnvart framkvæmdavaldinu. Einhver útfærsla þess að ráðherrar séu ekki þingmenn er held ég vænleg. Hvort betra sé að þeir komi úr röðum þingmanna sem síðan víkja af þingi, eða hvort kjósa skuli þá sérstalega hef ég ekki myndað mér gagnlega skoðun um. Ég er mjög efins um hugmyndir um að forsætisráðherra verði kosinn og hann velji síðan með sér ráðherra.
Það þarf að fela alþingi það hlutverk að kjósa hæstaréttardómara, að undangengnu mati og tillögugerð dómsmálaráðherra. Aukin meirihluta þurfi til.
Það þarf að lengja fyrningarfrest ráðherraábyrgðar. Að láta hann standast á við kjörtímabil sýnir að engin alvara er að baki lögunum.
Ég hallast að því að setja þak á þingsetu. Hef miklar efasemdir um að það sé til góðs að gera lagasetningu að ævistarfi. 3. kjörtímabil (12 ár) held ég að sé hæfilegt hámark. Sennilega með möguleika á að snúa aftur eftir 4 ár. Ekki of ósveigjanlegt semsagt.
Það þarf að gera þjóðaratkvæðagreiðslur að miðlægu tæki í stjórnskipaninni. En það er annar kafli.
2 - ÞjóðaratkvæðagreiðslurValdið er hjá þjóðinni og ábyrgðin líka. Við erum fámenn, langflest læs og almennt sæmilega upplýst. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við notum beint lýðræði í auknum mæli.
Það á að opna fleiri leiðir en forsetasynjun til að skjóta lögum í dóm þjóðarinnar. T.d. meirihluta alþingis eða tiltekinn hluta atkvæðisbærra manna í marktækum undirskriftarátökum.
Alþingi á að nýta þjóðaratkvæðagreiðslur meira til að skjóta málum (ekki endilega bara lagatillögum) til þjóðarinnar. Hvort slíkt á heima í stjórnarskrá og hvernig svoleiðis lög ættu að líta út veit ég ekki - ennþá.
Sumar þjóðir tilgreina hvaða málum skuli aldrei skotið í þjóðaratkvæði. Ég held að það sé skynsamlegt.
Fljótlega verða rafrænar kosningar raunhæfur valkostur. Þá hverfur ein mótbára úrtölumanna (kostnaðurinn).
3 - KosningakerfiÉg tel grundvallaratriði að vægi atkvæða sé það jafnt að munurinn skipti ekki máli. Ég efast um afnám kjördæmaskiptingar (sem fólk þrjóskast við að kalla "landið eitt kjördæmi"). Ég myndi vilja geta kosið persónur óháð listum, en ég óttast milliliðalausa spillinguna sem slíkt kerfi býður upp á. Ég veit ekki hver lausnin er, en markmiðið er skýrt: að vilji kjósenda skili sér óbrenglaður og samsetning þingheims endurspegli hann.
4. Eignarhald á sameiginlegum auðlindum.Auðvitað á að tryggja þetta og útfæra á skýran hátt svo jafnvel harðsvíruðustu lagatæknar lyppist niður. Verkefnið verður flókið en þörfin er brýn, markmiðið skýrt og niðurstaðan verður að vera einföld.
5 - TrúarbrögðÉg tel að það beri að fella úr gildi 62. grein stjórnarskrárinnar og hefja vinnu við að slíta óheilbrigt samband ríkisins og þjóðkirkjunnar - sem er hvorugu batteríinu til góðs.
6 - LæsileikiÞað á að vera hægt að kenna stjórnarskrána í 10. bekk. Nemendurnir verða að geta skilið hana og grunnskólakennarar fullfærir um að útskýra hana.
7 - MannréttindiÞurfa að gegnsýra allar aðrar greinar, auk þess að vera vandlega og vafningalaust tilgreind. Og hafin til þeirrar virðingar sem þeim ber, í upphafi plaggsins.
Ég er hlynntur yfirlýsingu í stjórnarskrá um að við séum herlaus, lýsum ekki yfir stríði á hendur öðrum, og leyfum ekki gereyðingarvopn á okkar yfirráðasvæði.
það sem ég er óviss umForsetaembættið - hvernig á að fara með það er í algerri óvissu eftir valdatíð Ólafs Ragnars. Hvað svo sem manni finnst um beitingu hans á synjunarvaldinu er ljóst að héðan í frá munu forsetakosningar snúast um pólitíska hugmyndafræði frekar en leit að sameiningartákni og "þjóðhöfðingja". Það eru ýmsar leiðir til að vinna úr stöðunni og ég hef ekki myndað mér afgerandi skoðun.
Íslenskan - hvort hún eigi að vera tilgreind sem þjóðtunga í stjórnarskrá finnst mér erfitt að segja til um. Staða hennar er sterk og veik og ég held að þar sem hún er veik komi stjórnarskrárákvæði að litlu gagni. En samt: Við berum ábyrgð á þessu örmáli. Þannig að þetta er ekki þjóðrembumál heldur verndunarmál.
Náttúruvernd - ég veit ekki hvernig eða að hve miklu leyti sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar eiga heima í stjórnarskrá. Játa að ég er ekki á heimavelli þarna.